Draumurinn - Smá kveðja frá Namibíu til félaganna í SKOTVÍS


Þegar svo langþráður draumur rættist og ég fékk skotvopnaleyfi 18 ára gamall var vonlaust að eiga við sóttina. Nú héldu mér engin bönd. Ég fór að æfa sem vitlaus væri á æfinga­svæð­inu í Laugardal og naut þar sérlega góðrar tilsagnar Egils Jónassonar Star­dal og annarra góðra manna í þessari grein. Það kom að því að nokkrar endur og gæsir fengu að kenna á sótt minni og Hornettinum. Eftir þokkalegt sambýli við Hornettinn kom sá kafli í lífi mínu þar sem sóttin lagðist í dvala. Ég kynntist lífsförunaut mínum og ávöxtur þess sambands ásamt „hreiðurgerð“ þurftu sitt, bæði af tíma og fé. Veiðiskapur með skotvopn­um lagðist því tímabundið á hilluna og veiðistöngin tók við næstu árin í ókeypis veiðivötnum, ám eða lækjum. Þetta voru hin mestu hörmungarár hvað skotveiði varðar og vil ég engum, sem er jafn illa haldinn af veiði­bakt­erí­unni og ég er, svo illt að þurfa að ganga í gegnum slíkar hremmingar. En öll él birtir upp um síðir. Þegar fjölskyldu­málin voru komin í lygnan sjó herjaði sóttin aftur á mig af fullum þunga. Held­ur taldi ég mig nú vera orðinn ráð­settari og ekki eins villtan og forð­um, Hornettinum hafði fyrir löngu verið stampað fyrir mjólk og brauði. Eftir góðar ráðleggingar reyndra manna keypti ég mér Berettu af gerð­inni A 303. Ég fór að æfa leirdúfu­skot­fimi og naut þar aðstoðar og kennslu þeirra tveggja manna sem eru ein­hverj­ir þeir mestu skotveiðimenn og bestu félagar sem ég hef komist í kynni við, þeir Karl H. Bridde og Jóhann Hall­dórs­son. Þessir tveir gerðu útslagið með það að veiðibakterían yrði ekki drep­in svo lengi sem ég ætti eftir ólifað. Ég er þar að auki svo einstaklega hepp­inn að eiga lífsförunaut sem er einnig illa haldin af veiðibakteríunni og með henni hef ég átt ótal margar unaðs­stund­ir við veiðivötn, læki og ár. Hún skilur mig. Nú fóru veður að skipast í lofti. Gæsir, endur og rjúpur hrundu af himnum ofan eins og þeim væri borgað fyrir og mér oft til mikillar furðu. Þegar vel tókst til með skot fylgdi klapp á öxl­ina eða lófaklapp frá félögum mínum.
Frá því ég fyrst man eftir mér í barn­æsku las ég allar mynda- og sögu­bækur sem ég mögulega gat kom­ist yfir og lét mig dreyma. Einkanlega hreifst ég af dýrum hverskonar, svo og framandi þjóðum. Þar efst á blaði var Afríka og til þessa fyrirheitna lands hafði ég oftast ferðast í huganum. Það fóru að rifjast upp fyrir mér þessar myndir sem ég hafði skoðað þá myndir, teknar í Afríku, af mönnum með hvíta hatta og öfluga riffla sér við hlið og eitthvert dýr sem þeim hafði tekist að fella. Mikið öfundaði ég þessa menn. Nei, á þessu verður að vera bið því Afríka er óralangt í burtu, hvar fæ ég veiðileyfi? Er þetta ekki bara fyrir þá ríku? En örlagadísirnar eiga það til að grípa í taumana svo um munar. Far­sím­inn hringdi þar sem ég var staddur á Vestfjörðum og ég spurður að því hvort ég væri til í að fara til starfa í Afríku næstu tvö árin og taka konuna með? Marbletturinn á handleggnum þar sem ég kleip mig var lengi að hjaðna.
Mánuði síðar var ég kominn í EDEN veiðigyðjunnar og starði í augu þessara draumadýra minna frá barnæsku. Ég hef þegar notið þeirra forréttinda að komast í matarkistu veiði­gyðjunnar og það segi ég satt að það kitlaði bragðlaukana. Er það ekki nóg til að æra skotveiðimenn að vita af félag­anum með ORIX eða SPRING­BOUCK FILLET á grillinu? Hvað gerir íslenskur skotveiðimaður á sumr­in? Ekkert annað en að undirbúa kom­andi haust. Veiðistöngin ef til vill tekin fram og notuð við silungsveiðar. Ekki þýðir að fara í laxveiði því ekki eru allir bankastjórar eða svo ríkir að þeir hafi efni á að fleygja peningum í þetta „sport“ sem kallast laxveiði á Íslandi. Þá er vetur hér í Namibíu og veiðitíminn í algleymingi. Ég hef kannað verðlag hér og það kom mér satt best að segja á óvart hversu „ódýrt“ þetta er! Ágætu SKOTVÍS félagar, hér fyrir neðan eru netföng hjá nokkrum aðilum sem þið getið haft samband við. Birgitta hjá Flugleiðum í Kringlunni og Herta hjá Samvinnuferðum-Landsýn eru orðnar sérfræðingar í að finna ódýr fargjöld til Windhouk, höfuðborgar Namibíu, ef þið hafið áhuga á því að komast í frábærar veiðilendur. Það væri ekki ama­legt að eiga mynd af sér með ný­felld­an gullinhyrndan griðung sér við hlið! Héðan frá Luderitz eru einungis 200 km í sérlega fallegan stað þar sem seld eru veiðileyfi á allmargar dýra­teg­und­ir, en hafið í huga að veiðitíminn rennur út 31. júlí. Þeir sem hafa áhuga á að fá nánari upplýsingar geta haft sam­band við skrifstofu SKOTVÍS og feng­ið upplýsingar um hvernig hægt er að ná sambandi við mig.
Bestu kveðjur frá Luderitz, Namibíu
Ragnar Árnason
Tags: árum, hjá, þessum, fékk, skoti, lánaðan, gamall, sóttin, jókst, mínum, riffil, bróður, ásamt
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Veiðar erlendis Draumurinn - Smá kveðja frá Namibíu til félaganna í SKOTVÍS