Landakort fyrir veiðiferðina

 

 

Ferðakort

Kort eru flokkuð eftir mæli­kvörð­um. Kort í minni mælikvörðum eru yfirleitt nefnd ferðakort og veita þau heildaryfirsýn yfir landið. Þau henta vel til almennra ferðalaga, einkum í bíl og til undirbúnings slíkra ferðalaga. Einnig eru þau ómissandi sem veggkort á heimilum, skrifstofum og kaffistofum, því daglega skjóta upp kollinum fréttir af viðburðum er tengjast ákveðnum svæðum sem erfitt getur verið að staðsetja í huganum. Nýjasta ferðakortið á markaðnum í dag er kort Máls og menningar í mæli­kvarða 1:600.000. Í þessum mælikvarða er einn sentímetri á korti sambærilegur við 6 kílómetra á yfirborði lands. Þetta kort er prentað í náttúrulegum litum og er sérstök áhersla lögð á gróðurlendur landsins og myndræna skyggingu há­lend­isins. Á því er að finna nýjustu upp­lýsingar um vegakerfi landsins, m.a. Hval­fjarðar­göngin, tjaldstæði, sund­laug­ar, söfn og annað það sem gagnast öll­um ferðamönnum. Á bakhlið korts­ins er að finna lýsingar og litmyndir af helstu náttúruperlum landsins þar sem bent er á ýmis einkenni viðkomandi staða og er allur texti á fjórum tungu­málum. Þar er einnig að finna ítarlega vegalengdatöflu sem miðuð er við nýjustu upplýsingar og er þar m.a. gert ráð fyrir að ekið sé um Hvalfjarðargöng og Gilsfjarðarbrú.

 

Landshlutakort

Kort í stærri mælikvörðum eru einu nafni nefnd landshlutakort eða staðfræðikort. Þau er að finna í mælikvörðum frá 1:300.000 upp í 1:25.000 og eykst nákvæmnin í réttu hlutfalli við stækkandi mælikvarða. Hentug kort til skotveiða eru t.d. staðfræðikort í mælikvarða 1:50.000 en þar eru merkt inná öll mannvirki, m.a. skurðir og tún, en slíkt ætti að falla gæsaskyttum vel í geð. Ókostur þessara korta er hins vegar sá að þau ná yfir mjög afmörkuð svæði og er dýrt að koma sér upp safni slíkra korta. Kort í mælikvarða 1:100.000 eru fáanleg af öllu landinu en þau hafa þann annmarka að vera mjög gömul og úrelt, enda hafa þau ekki verið endurskoðuð í meira en áratug. Nýjustu landshluta­kortin eru í mælikvarða 1:300.000, en þar samsvarar einn sentímetri á korti þremur kílómetrum á landi. Þessi kort eru gefin út af Máli og menningu og teljast til nýjunga á íslenskum korta­markaði, þar sem landinu er skipt upp í fjóra jafna hluta eftir landsfjórðungum. Fyrsti fjórðungurinn í þessum nýja kortaflokki er Suðvesturland, en hann nær yfir svæðið frá Snæfellsnesi í vestri að Mýrdalssandi í austri. Yfirgrip er á milli allra fjórðungskortanna þannig að Snæfellsnes er t.d. bæði á korti yfir suðvesturfjórðung og norðvestur­fjórð­ung. Þessi kort henta öllum þeim sem vilja nákvæmari kort en ferðakort, en vilja ekki fylla föggur sínar af ítarlegum hlutakortum sem oftar en ekki koma að takmörkuðum notum þegar á hólminn er komið.

 

Náttúrufarskort

Fyrir unnendur íslenskrar náttúru og umhverfisvæna ferðamenn eru hin nýju náttúrufarskort Náttúru­fræði­stofnunar hrein nauðsyn. Þessi kort, sem eru þrjú að tölu, sýna landið í heild á einu kortblaði og eru í mæli­kvarð­an­um 1:500.000. Jarðfræðikortið, sem er berggrunnskort, sýnir stærstu drættina í jarðfræði landsins og eru jarðlög flokk­uð eftir aldri, gerð og samsetn­ingu. Einnig sýnir kortið vel gosbelti lands­ins, dreifingu gosstöðva og nútíma­hraun. Höggunarkort gefur góða innsýn í jarðfræðilega byggingu Íslands. Þar eru sýnd eldstöðvakerfi lands­ins ásamt brotakerfi, svo og halli jarðlaga. Gróðurkortið sýnir einfaldaða samantekt á ríkjandi gróður­samfélög­um. Þar sem land hefur nokkuð sam­fellda gróðurhulu er sýnt hvers eðlis ríkj­andi gróðursamfélög eru, en hálf­gróið eða minna gróið land flokkast eftir landgerð. Gróðurkortið hentar skot­veiði­mönnum einkar vel, sérstak­lega þegar gengið er til rjúpna. Eins og að framan greinir sýnir kortið vel gróður­samfélög landsins, en af þeim má lesa hvar rjúpan er líklegust til að halda sig.
Landakortum er ætlað að tryggja ferðamönnum örugg og ánægju­leg ferðalög. Þau ber ávallt að taka með og nota sem oftast til að forðast villur og aðra vá til fjalla. Að sama skapi auka þau ánægju á ferðalögum og eru til mikils fróðleiks fyrir þá sem unna landinu og fjölbreyttri náttúru þess.

Örn Sigurðsson
Tags: hafa, þau, mikil­vægu, öryggishlutverki, kort, nafnlausar, þústir, landslaginu, gegna, villur, einnig, vega, ferða­menn, ásamt, fara
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Tæknigreinar Landakort fyrir veiðiferðina