Hefð og nútíma hugvit - Sauer

54-56-1.jpg

 

Samstarf við Weatherby

Sauer & Sohn einbeitir sér nú að smíði veiðivopna, en hefur í tímans rás einnig fengist við smíði varnarbúnaðar og hern­aðar­­vopna. Segja má að grunnurinn að nútíma veiðibyssum Sauer hafi verið lagður með yfir/undir tvíhleypu sem sýnd var á heims­sýning­unni 1881. Um leið þróaði Sauer ásamt Friedrich Krupp sérstaka stál­blöndu til smíða á gæðahlaupum. Sauer hefur síðan smíðað sín eigin hlaup úr gæðastáli frá Krupp. Þrátt fyrir nútíma véltækni er enn beitt hand­bragði þjálfaðra hlaupsmiða við smíði og frágang hlaupanna hjá Sauer.
Í lok 6. áratugar 20. aldar hófst samstarf Sauer og Roy Weatherby um smíði riffla, þar á meðal Mark V-riffilisins. Þetta samstarf varði til ársins 1973 og var báðum til góða. Orðstír Sauer barst til Bandaríkjanna og víðar og Weatherby fékk orð fyrir mjög nákvæma riffla og sem þóttu hæfa vel hröðum skothylkjum hans. Sauer hafði lengi beitt kaldhömrun við framleiðslu riffilhlaupa og með samstarfinu við Sauer varð Weatherby fyrsti ameríski riffla­framleiðandinn til að bjóða skot­vopn framleidd með þessari tækni. Nú er kaldhömrun orðin regla fremur en undantekning við framleiðslu hágæða riffilhlaupa. Samstarf Sauer við Weatherby hafði einnig áhrif á hönn­un riffilskefta Weatherby riffl­anna. Weatherby fann markað fyrir riffla sína í Evrópu og Weatherby-Sauer Mark V rifflar voru smíðaðir í mörgum evrópskum kaliberum, t.d. 6,5x68 og 8x68. Rifflarnir sem voru ávöxtur þessa samstarfs eru nú eftirsóttir af söfnurum og riffiláhuga­mönnum. Ganga þeir notaðir á hærra verði en greitt er fyrir nýja riffla af sambærilegum gerðum.

 

Sauer 202

54-56-2.jpg Í byrjun 9. áratugar 20. aldar kynnti Sauer nýjan riffil, módel 200, sem þótti mjög byltingarkenndur. Hér var um að ræða boltariffil, en með tvískiptu skefti, líkt og algengt er um haglabyssur. Afturskeftinu var smeygt inn í lásinn og skrúfað þar fast. Þannig var fljótlegt og einfalt að taka það af. Með því var hægt að koma rifflinum fyrir í lítilli tösku og eins kom þetta sér vel vildu menn skipta um skefti. Eins var mjög fljótlegt að skipta um hlaup og þannig auðvelt að breyta um hlaupvídd riffilsins á skömmum tíma. Þessi byssa var byggð á hönnun og einkaleyfi Emmio Mattarelli, ítalsks meistara í trap-skotfimi. Hann hag­nýtti ýmsar hugmyndir úr sporting yfir/undir haglabyssu frá Perazzi, en hann hafði starfað með því fyrirtæki um árabil og átt þátt í hönnun á sigursælum keppnisbyssum þess, t.d. MX8-haglabyssunnar. Árangurinn af þessu voru eiginleikar eins og skiptanlegar einingar á borð við skefti og hlaup. Sauer keypti einkaleyfi Mattar­ellis og betrumbætti það við hönnun Sauer 200 riffilsins. Þessi riffill var smíðaður í ýmsum útfærs­l­um, þótt í grunninn væri um sama vopn að ræða.
Áratug eftir að Sauer 200 riff­ill­inn var kynntur kom ný gerð, Sauer 202 sem var að ýmsu leyti breyttur frá upphaflegri gerð, aðallega þó í útliti. Einnig var boðið upp á fleiri skothylki en áður. Tæknilega er þessi riffill frábrugðinn því sem algengast er með boltariffla. Fremst á boltanum eru sex lásklakkar. Klakkarnir hafa sama þvermál og boltinn sjálfur sem trygg­­ir silkimjúkar og átakalausar hreyf­ingar boltans. Hlaupið er fest við láshúsið með þremur skrúfum og því ekki skrúfað upp á húsið eins og algengast er. Með því að losa skrúf­urnar er hægt að skipta um hlaup og þar með um kaliber. Skothúsið er í enda hlaupsins og boltinn gengur þar inn í og læsist í sjálft hlaupið. Þessi hönnun tryggir að afhleypingartími er mjög stuttur og á sinn þátt í því hve nákvæmir þessir rifflar eru.

 

Nákvæmir rifflar

Sauer-rifflar eru þekktir fyrir ná­kvæmni. Þannig skrifar blaða­maður norska blaðsins Jakt, hund & våpen, eftir áratugar reynslu af því að skjóta úr margs konar Sauer rifflum kunni hann vel að meta nákvæmni þeirra. Hann segist enn eiga eftir að finna Sauer riffil sem ekki er góður og yfirleitt séu þeir betri en rifflar gerist almennt. Þetta gildi bæði um veiði­riffla og markriffla fyrirtækisins.
Láshúsið er smíðað úr stáli og léttmálmsblöndu í léttvigtar­riffl­um. Boðið er upp á tvær grunn lás­lengdir og meira en 15 kaliber. Hlaup­in eru ýmist 60 eða 65 sm löng, nema á stutta heilskefta rifflinum er 51 sm hlaup. Hlaupin eru kaldhömruð úr gæðastáli að Sauer hefð.
Rifflana er hægt að fá með span­gikk, þá er gikkátakið létt með því að ýta gikknum fram áður en hleypt er af. Öryggið er aftan á láshúsinu og það sett á með því að þrýsta niður hnappi. Við það gengur niður tittur fyrir framan gikkinn. Þegar öryggið er tekið af er þessum titti þrýst upp. Allt gerist þetta hljóðlaust og tryggir að bráð fælist ekki við smelli í öryggi. Rifflarnir eru með lausum skotgeymi sem tekur þrjú til fimm skot eftir skothylkjastærð. Rifflana er hægt að fá í flestum algengustu kaliberum, allt upp í öfluga Afríkuriffla. Með því að skipta um hlaup og í sumum tilvikum einnig bolta getur sama byssan gagnast í margs konar veiði.
Sauer 202 rifflarnir eru smíðaðir í ýmsum útfærslum sem allar eru tækni­lega eins byggðar. Um er að ræða riffla til almennra nota, sérstaka veður­þolna riffla og lúxusútfærslur. Jakt-Match riffillinn er veiðiriffill með þungu hlaupi, sem er sniðinn fyrir veiði­­rifflakeppnir. Eins hefur hann kom­ið mjög vel út fyrir veiði­menn sem krefjast hámarks ná­kvæmni, til dæm­­is íslenskar tófu­skyttur. Þá er hægt að panta margs­konar skreyt­ingar, bæði staðlaðar og eftir séróskum. Eins riffla fyrir örvhentar skyttur.

54-56-3.jpg

Sauer 90

Þessi riffill hefur verið kallaður ,,ævilangur" riffill. Sígilt útlit gott handbragð einkennir þetta skot­vopn. Lásinn er einstakur í upp­bygg­ingu og byggir á þremur hreyfan­legum lásklökkum sem ganga út úr boltanum og læsast í aftasta hluta lássins þegar lásnum er lokað. Ólíkt Mauser-lásnum eru engir hliðar­klakk­ar fremst á boltanum þar sem hann gengur inn í skothúsið. Þegar boltinn er tekinn úr rifflinum sést því aðeins ávalur 18 mm sver sívalningur og engir klakkar sem standa út úr honum. Aðeins þrjár grópir á botninum. Hreyfingar boltans eru silkimjúkar og opnunar­hornið aðeins 65°, sem er heppilegt fyrir veiðimenn sem þurfa að vera fljótir að hlaða. Riffillinn er með þrívirkt öryggi ofan á skeftis­háls­inum, lausan skotgeymi, út­búnað sem sýnir hvort skothylki er í skot­húsi og með stillanlegan gikk. Sauer 90 er smíðaður í þremur lás­lengd­um og fáan­legur í öllum helstu hlaupvíddum allt upp í stærstu Afríku-kaliber. Riff­ilinn er hægt að fá með mis­mun­andi skeftisgerðum, heilskefti eða hálfskefti og ýmsum útfærslum af þeim.

 

Sauer þríhleypur

Sauer varð líklega fyrst til að fjölda­­framleiða þríhleypur, eða ,,drill­inga”. Sú framleiðsla hófst löngu fyrir fyrri heimsstyrjöld. Lengi voru þrí­hleypur einfaldlega nefndar ,,Sauer”, heiti þessa fyrirbæris og fyrir­tækisins voru samnefni.
Sauer 3000 þríhleypurnar eru heimsþekktar, tvö haglahlaup ýmist í númer 12 eða 16 og hægt að velja um margar hlaupvíddir á riffil­hlaupið. Lásinn er svonefndur Blitz-lás með Greener bolta og Greener öryggi á hlið. Skipt er á riffilhlaupið með sérstökum hnappi og er það með sérstökum útkastara. Þessi skotvopn eru til dæmis um það besta sem hægt er að fá hvað varðar handverk og frá­gang. Efnið til smíðinnar er sérvalið og lögð áhersla á nákvæmni riffil­hlaupsins og gott jafnvægi í byssunni.

 

Sauer Franchi tvíhleypur

Sauer er í samstarfi við Franchi verk­­smiðjurnar um smíði yfir/­undir tvíhleypna. Um er að ræða tvær út­færsl­ur á þess­um viðurkenndu hagla­byssum.
Þessi elsta starfandi skot­vopna­verksmiðja Þýskalands sýnir engin ellimerki. Þar fylgjast menn með þróuninni og bjóða sífellt nýjar gerðir. Til marks um það má nefna nýja veðurþolna Sauer 202 riffla með stuttu flútuðu (grópuðu) hlaupi og sérstaka gerð af Sauer 90, sem ber nafnið Sauer 92, og er smíðaður samkvæmt Suður-Evrópskri hefð. Jó­hann Vilhjálmsson byssusmiður flytur inn Sauer-riffla og hafa þeir fengið góðar viðtökur íslenskra riffil­veiði­manna.

 

Heimildir:

Jakt, hund & våpen, 3-1999. Osló, Noregi.
J.P. Sauer. Lebendige Geshichte. 250 Jahre Sauer. Eckenförde 2000.
J.P. Sauer. Kunstverke von Meisterhand seit 1751. Eckenförde.
Marco E. Nobili. Austrian & German guns and rifles. Milano.
Sauer. Traditionswerte mit Zukunft. Eckenförde.
Sauer hunting rifles tradition and innovation. Eckenförde.
Shooter's Bible 1955.
Guðni Einarsson.

Tags: sauer, sohn, hundruð, hefð, gæði, mikið, framleiðir, samsteypa, rifflum, skamm­byssum, lögreglu, úrval
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Tæknigreinar Hefð og nútíma hugvit - Sauer