Björt framtíð

23-27-1.jpg Dæmið sem ég nefni hér er ykkur til glöggvunnar en er því miður tekið úr raunveruleikanum: Maður einn 56 ára gamall varð fyrir því óláni að verða fyrir hagla­byssu­skoti. Skotið kom úr veiðihaglabyssu og höglin sem hann fékk í sig voru blýhögl nr.6, haglastærð sem er senni­lega í algengustu rjúpnaskotum sem notuð eru hér á landi. Sum höglin fóru í búk mannsins en önnur lentu í andliti hans og þar af lenti eitt haglið í hægra auga. Færið sem skotið var af er talið vera nálægt 80 metrum. Við rann­sókn á auga mannsins kom í ljós að eitt hagl hafði farið í gegn um horn­himnu og lithimnu augans og stoppað á sjónhimnu augans.
Rannsóknir hafa sýnt að veiði­hagl númer 6 sem skotið er úr hagla­byssu (hér skiptir ekki máli hvort skotið komi úr cal 12 eða cal 20) getur gatað auga á færi allt að 90 mertum. Flestir augnskaðar í heiminum sem verða vegna haglabyssna verða við það að hagl fer í gegnum augað. Í þessu tilfelli þar sem færið var talið um 80 metrar hafði haglið næga orku til að gata augað en fór ekki í gegn. Hægt var að fjarlægja höglin úr andliti og auga þar sem sár í andliti greru en sjón tapaðist að mestu.
Til að átta sig aðeins á fjar­lægðinni í umræddu dæmi, þá er bilið milli ljósastaura á hrað­braut­um oft um 40 m, þetta þýðir þá tvö staurabil. Á skotvöllum er þessi hætta til staðar og er til að mynda fjarlægðin milli turna á skeet velli aðeins 38,6 metrar. Á skeet skotvelli er hættu­svæðið 100 m en þar er aðeins skotið með höglum númer 9.

 

Skotgleraugu

– Fáðu meira út úr skotfiminni og skotveiðunum

23-27-4.jpg

Allir skotmenn stefna að sama marki, það er að hitta skot­markið hvort sem það er leirdúfa eða lifandi bráð. Að hitta betur og njóta æfingarinnar eða veiðanna betur.
Flestir geta æft skotfimi og byssu­með­höndlun betur en hugsa ekki nægjanlega um að hafa réttan búnað til að sjá skotmarkið vel. Með sér­stökum gleraugum með sérhönn­uð­um glerjum fyrir skotmenn er hægt að fá alveg nýja sýn í skotfimi og veiðar, ásamt því að öðlast um leið öryggið við að vera með augnvörn.
Flestir okkar sem hafa skotið mikið á leirdúfur vita að það er mjög mikilvægt að vera með góð skotgleraugu og einnig með réttan lit á glerjum til að sjá leirdúfuna betur og ná að greina hana eldsnöggt er hún kemur í loftið. Þetta er best gert með rauðleitum glerjum ef dúfan er rauð og glerjum sem hafa litafilter í sér til að auka sjónskerpu og útlínur hluta. Skotdómarar nota einnig slík gler­augu til að geta skorið betur úr um hvort dúfur eru hittar eða ekki. Fullyrða má að allflestir keppnismenn í skotfimi noti skotgleraugu við æf­ingar og keppni. Ef þeir eru spurðir svara allflestir: til að sjá dúfuna fyrr og betur, en auðvitað ættu allir skotmenn fyrst og fremst að vera með gleraugu vegna öryggis og síðan til að sjá skotmark betur.
Þeir okkar sem stundað hafa rjúpnaveiði vita einnig hve erfitt getur verið að sjá fuglinn við vissar aðstæður og geta slík gleraugu þá komið sér mjög vel við veiðarnar. Oft eru aðstæður þannig á veiðum að snjór er yfir öllu eða flikrótt og erfitt getur verið að greina rjúpuna þar sem hún kúrir sig í snjóinn hreyfingarlaus. Við þessar aðstæður eru menn hugsanlega oft að ganga fram hjá fleiri fuglum heldur en þeir sjá yfir daginn. Flestir þekkja sögurnar um menn sem hafa verið á veiðum og ekki séð fugl fyrr en þeir koma aftur í bílinn, eða þegar menn setjast niður til að hvílast eða fá sér kaffi þá birtast allt í einu fuglar allt í kring um þá. Ekki þarf nokkur að ímynda sér að ekki hafi verið fuglar annars staðar allan daginn heldur en við bílinn eða nákvæmlega þar sem menn slöppuðu af til að borða nesti. Ástæð­an er ósköp einföld, menn hafa bara ekki séð fuglana fyrr en þeir fóru að gefa sér betri tíma og fuglarnir jafnvel farið að ókyrrast og hreyfa sig eftir smá tíma. Einnig er gott á gæsa- og andaveiðum að geta greint hratt og vel hvort fuglinn sem kemur er bráð eða friðuð tegund. Við svona að­stæð­ur geta góð gleraugu hjálpað.
Ekki má heldur gleyma örygginu sem gleraugun veita en þau geta auðveldlega bjargað skotmönnum frá augnskaða og blindu. Það á við þar sem menn eru að skjóta á skotsvæði þar sem mikil hætta er á skaða vegna leirdúfubrota, vegna endurkasts hagla og heitra púðuragna hjá þeim sem nota hálfsjálfvirkar byssur. Einnig er mönnum á veiðum hætt við augn­skaða en þar geta þeir átt á hættu á að fá högl í sig frá öðrum skyttum eða vegna endurkasts frá grjóti og þá sérstaklega þegar verið er að skjóta í kjarri eða þar sem margir eru á sama veiði­svæðinu, eins og oft vill vera fyrstu dagana á rjúpnaveiðum.

 

Góð skotgleraugu

=Hámarks sjón

við allar aðstæður

23-27-5.jpg Hefðbundin sólgleraugu virka oftast þannig að þau dekkja sýn og við það tapast skerpa. Við ákveðnar aðstæður ljóss og skugga verður þá erfitt að sjá útlínur landslags og þess háttar. Skotgler eins og til dæmis X.P.V. (Extreeme pover vision) frá Carl Zeiss og Beretta skotgleraugun auka skerpu og dýptarskerpu og gera þannig aðveldara að sjá leir­dúf­una eða fuglinn. Skotmenn sem nota þannig gleraugu fá því betri sýn og sjá þannig skotmark, skugga og útlínur greinilegar en með hefð­bundn­­um sólgleraugum. Þetta skiptir miklu máli og þá sérstaklega á skot­vellinum þar sem nákvæmni og hraði við að greina skotmarkið er mikil­vægur.
Betri og öruggari vörn
Sýnilegt ljós sem er rafsegul­bylgja hefur bylgjulengdina 380-760 nm (nanómetrar). Ljós undir 380 nm er svokallað útfjólublátt ljós. (UVA)
UVA- 100-280 nm valda hvarmabólgu, snjóblindu og rafsuðublindu.
UVB- 280-315 nm valda sólbruna.
UVC- 315-380 nm valda lit á húð.
Ljós yfir 380 nm er síðan hinir ýmsu litir sem við sjáum.

 

Hvað sjáum við?

Kannast þú við alla þessa grá­myglu­legu skýjuðu daga? En einnig á sólskinsdögum sér maður ver­öld­ina litlausa. Það er vegna þess að sólarljósið inniheldur mikið af bláu ljósi. Blái liturinn er svo yfirgnæfandi að hann yfirgnæfir alla aðra liti. Hefð­bund­in sólgleraugu með UV 400 filter úti­loka alla geisla undir 400 nm og þar meðtalda flesta skaðlega geisla og einnig hluta af sýni­legu ljósi. Bak við dökk glerin stækk­ar sjáaldur augans þannig að blátt ljós 400-480 nm á greiðan aðgang að aug­anu. Rannsóknir NASA, sem staðið hafa yfir í 20 ár, hafa m.a. leitt í ljós að slík geislun veldur einnig skaða í augum, m.a. skemmdum á augnbotni og kölkun í augnlinsum. Rannsóknir þessar hafa einnig leitt í ljós að með hágæða sólglerjum með innbyggðri blárri litsíu síast út þessir skaðlegu geislar og þar með minnkar hættan til muna á þessum augn­skemmd­um.

 

Blá litsía

Skotgleraugu eru öll með inn­byggðri blárri litsíu (blue blokker) sem minnkar bláa hluta ljóss­ins þannig að hann sé í réttu hlutfalli við aðra liti. Þannig sjá menn veiði­svæðið í réttu ljósi og litir ásamt veiðidýrum spretta fram í allri sinni dýrð og smáatriðum. Sum minnka mikinn hluta bláa ljóss­ins, og eru þau oft gul að lit.
Þetta gerir það m.a. að verkum að skotgleraugu eru ekki alltaf hentug til notkunar við akstur. Einnig er óæskilegt að horfa beint í sólina með þeim.

 

Örugg með rispuvörn

Glerin eru flest gerð úr poly­carbon plastefni (CR-39) sem getur þolað bæði skot úr haglabyssu og 22 cal riffli. Verum samt með það í huga að þó að glerin séu höggþolin geta þau brotnað. Einnig eru glerin meðhöndluð með Carat húð sem ver þau gegn rispum og hindrar truflandi glampa, ásamt því að verða af­raf­mögnuð.

 

Ekki polaroid

Ljósbylgjur sveiflast bæði lárétt og lóðrétt. Það sem polaroid gler gerir er að útiloka aðra bylgjuna, annað hvort þá láréttu eða þá lóðréttu. Hægt er að sjá þetta með því að setja saman tvö polaroid gleraugu og snúa þeim síðan hægt þá eiga glerin að sía út nánast allt ljós. Polaroid er ekki æskilegt í skotgleraugum þar sem það minnkar bara ljósmagnið sem berst til augans og tekur glampa af flötum eins og vatni en eykur ekki skerpu eða litadýpt. Að sjálfsögðu eru þau öll með 100% UV vörn.

 

Mörg gler

Oft er hægt að kaupa skot­gler­augu með glerja settum þar sem hægt er að skipta um gler eftir að­stæð­um. Er þá eitt gler kanski skerpu­aukandi rautt, eitt gult, eitt grátt eða kanski glært og annað appel­sínu­gult. Oftast eru höfð þrjú mismunandi gler í settum eða þá að menn kaupa bara eina gerð til að byrja með.

  • Rauða glerið er skerpuaukandi og eykur næmi augans til að greina rauða liti.
  • Appelsínulita glerið er skerpuaukandi og eykur næmi augans á að greina appel­sínugula liti.
  • Gula glerið minnkar móðu er skerpu­auk­andi og skerpir sérstaklega gráa tóna. Einnig eykur það næmi augans fyrir gulum litum.
  • Gráa glerið skerpir en dregur mest úr birtu þar sem liturinn í glerjunum dreg­ur úr birtunni. Einnig er hægt að fá ýmsar blöndur af þessum litafilterum og er til dæmis grá-brúnt gler mjög hentugt í mikilli birtu og snjó, og þá er það haft dekkra en önnur gler.


Hvernig fáum við gleraugun?
Í stuttri en óform­legri könn­un á úr­vali skot­gler­augna í Reykjavík feng­ust skotgleraugu aðeins í einni byssu­verslun, Hlað á Bílds­­höfða 12 og síð­an er Linsu­mát­un í Ármúla 20 einn­ig með skot­­gler­­augu. Hjá Hlað á Bílds­höfð­­an­um fást skot­­­gler­­augu fyr­ir þá sem þurfa ekki sjón­­gler. Hjá Linsu­­­mátun fást einn­ig sérútbúin skot­­­gler­augu fyrir þá sem þurfa sjóngler með fjar­lægðar­styrk, les­­punkti og marg­skiptu gleri.
Þegar Linsumátun gerir skot­gler­augu er reynt að mæta öllum þörfum kaup­and­ans. Við kaup á þannig glerjum er fjarlægð milli augna kaup­anda mæld til að þau passi sem best og öðrum óskum um umgjarðir og annað mætt. Verð á gleraugum hjá Hlaði var frá kr. 3.200 en hjá Linsu­hönnun var verðið frá kr. 23.000.
Skotmenn, bætum skotgleraug­um í veiðigræjurnar. Þau vernda ykk­ur fyrir skaðlegum geislum sólar­innar sem eru sérstaklega sterkir upp til fjalla, hugsanlegum að­skota­hlutum svo sem ryki, sandi, höglum og fleira ásamt því að leyfa okkur að sjá nátt­úr­una í skemmtilegra og skarpara ljósi. Bætum öryggið og vonum að veið­arnar verði ánægjulegri fyrir vikið.

 

Ívar Erlendsson,
stjórnarmaður í SKOTVÍS
Tags: koma, gerist, þetta, þó, sjón, missa, aldri, unga, sennilega, fulls, lenda, fæstir, alltof
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Tæknigreinar Björt framtíð