Stofnun Fagráða og Svæðisráða innan SKOTVÍS

Í framhaldi af stefnumótun SKOTVÍS hefur stjórn samþykkt að stofnuð verði fagráð um ákveðna málaflokka og svæðisráð í öllum landshlutum til að styrkja innviði og málefnastarf félagsins.  Framkvæmdaráð mun vera samræmingarvettvangur fyrir þessar starfseiningar og í Framkvæmdaráði munu sitja aðilar frá hverju fagráði og svæðisráði.  Stjórn SKOTVÍS telur þessa aðgerð nauðsynlega til að færa umræðu um skotveiðar í íslenskri náttúru til félagsmanna til að hún geti þroskast eðlilega og markvisst, þ.a. að skotveiðimenn hafi raunveruleg áhrif á framtíð skotveiða á Íslandi.  Á næstu vikum mun stjórn félagsins setja sig í samband við félagsmenn sem það telur að hafi áhuga á virkri þátttöku í málefnastarfi félagsins, en stjórn tekur fagnandi á móti aðilum sem vilja taka þátt í starfi félagsins.

Stjórnarmeðlimir munu ferðast um landið á næstu misserum og kynna stefnu og markmið SKOTVÍS, kynna skipulag félagsins og stuðla að stofnun svæðisráða og fagráða, en fyrsta svæðisráðið verður stofnað á Norðvesturlandi í nóvember, staður og dagsetning verður auglýst síðar. 

 

FRAMKVÆMDARÁÐ
Hlutverk Framkvæmdaráðs er að fylgja eftir stefnu SKOTVÍS, skipuleggja og samræma aðgerðir á landsvísu í gegnum fagráðin og svæðisráðin, þ.a. íslenskir skotveiðimenn hafi tök á því að taka virkan þátt í að móta framtíð skotveiða á Íslandi.

 

FAGRÁÐ
Innan SKOTVÍS munu starfa fjögur (4) fagráð.

 1. Náttúra, nýting og veiðisiðferði - Veiðimenn eiga að gangaum náttúruna af virðingu og temja sérsiðareglur í umgengni sinni við hana.  Sterkt veiðisiðferði og samstaða veiðimanna um að efla veiðisiðferði og veiðimenningu, er forsenda þess að draga megi úr auknum höftum við veiðar og styrkja réttindi almennings til veiða.
 2. Lagaumhverfi skotveiðimanna - Almannaréttur er grundvallarréttur þegna landsins til að ferðast um land sitt og njóta þess sem náttúra Íslands hefur uppá að bjóða.  Á tímum sem náttúrugæði eru að verða eftirsóknarverðari og dýrmætari, er mikilvægt að réttur almennings sé verndaður – Líta verður á réttinn til veiða sem hluta af almannarétti og gæta þess að vel sé gengið um stofna villtra dýra og fugla.
 3. Rannsóknir og veiðistjórnun - Rannsóknir eru forsenda þekkingaröflunar, sem er forsenda nýtingar.  Eigi fjárframlög skotveiðimanna til rannsókna á lífríki, búsvæðum og vistkerfum veiðistofna og áhrifum veiða að skila árangri, þarf veiðikortasjóður að marka sér skýra stefnu og verklagsreglur sem tryggja rétta forgangsröðun verkefna sem styrkt eru.  Fjármögnun sjóðsins á að vera samstarfsverkefni skotveiðimanna og stjórnvalda.
 4. Fræðsla, miðlun og ímynd - Þátttaka skotveiðimanna er forsenda þess að markmið muni nást og krefst þess að miðlun þekkingar sé skilvirk og áhrifarík.  Þetta á jafnt við um þekkingu skotveiðimanna og þekkingu fræðimanna.  Aukin fræðsla og bætt siðferði veiðimanna, auk markvissrar kynningar fyrir aðra mun styrkja ímynd skotveiða.

Fagráðin taka virkan þátt í umræðum um ofangreind málefni, m.a. með greinaskrifum, ályktunum, ráðstefnuhaldi og þátttöku í samstarfsverkefnum með stofnunum, frjálsum félagasamtökum, einstaklingum og fyrirtækjum sem láta sig þessi málefni varða. Fagráðin skulu eftir fremsta megni virkja félagsmenn og svæðisráð í gegnum vettvang Framkvæmdaráðs eða í gegnum tengslanet sitt.

Fagráð um náttúru, nýtingu og veiðisiðferði mun fylgjast með straumum og stefnum í umhverfismálum og náttúruvernd (hérlendis og erlendis) og tryggja að SKOTVÍS sé ávallt í fararbroddi í umræðu um áhrif skotveiða á lífríki og náttúru landsins.  Fagráðið skal halda á lofti siðarreglum félagsins og nota þau sem viðmið við mótun veiðimenningar sem tekur tillit til umhverfisins í heild sinni - Fulltrúi SKOTVÍS í SAMÚT verður hluti af þessu fagráði

Fagráð um lagaumhverfi skotveiðimanna mun hafa frumkvæði að nauðsynlegum aðgerðum vegna atburða sem geta haft áhrif á lagasetningu er varða réttindi og skyldur skotveiðimanna.  Fagráðið skal líka vera vakandi fyrir þróun sem getur haft áhrif á löggjafarvaldið og síðar leitt til lagasetningar sem stríðir gegn markmiðum SKOTVÍS eða skerðir réttindi á sviði almannaréttar, umferðarréttar, veiðiréttar og takmarkar á einhvern hátt réttindi almennings til að stunda skotveiðar í íslenskri náttúru.

Fagráð um rannsóknir og veiðistjórnun mun rýna niðurstöður og ályktanir fræðimanna og veita fræðimönnum aðstoð og aðhald.  Fagráðið mun einnig kynna sér veiðistjórnun erlendis og taka virkan þátt í umræðu í þeim tilgangi að auðga umræðu um veiðistjórnun og forsendur veiðistjórnunar - Fulltrúi SKOTVÍS í ráðgjafanefnd um úthlutun úr Veiðikortasjóði verður hluti af þessu fagráði.

Fagráð um fræðslu, miðlun og ímynd mun meta þörfina fyrir því hvaða upplýsingum ber að miðla og hvernig til að skapa grundvöll fyrir upplýsta og uppbyggjandi umræðu um skotveiðar. Markhóparnir eru margvíslegir og fagráðið mun þurfa að skilgreina og nálgast hvern og einn með markvissum og árangursríkum hætti.  Fagráðið mun einnig vera stjórn og Framkvæmdaráði til ráðgjafar hvernig skuli haga undirbúningi fyrir hvers kyns samstarfsverkefni sem félagið kann að vilja ráðast í með öðrum hagsmunaaðilum - Ritstjóri tímaritsins SKOTVÍS verður hluti af þessu fagráði.

 

SVÆÐISRÁÐ
Innan SKOTVÍS munu starfa sjö (7) svæðisráð.

 1. Vesturland
 2. Vestfirðir
 3. Norðvesturland
 4. Norðausturland
 5. Austurland
 6. Suðurland
 7. Suðvesturland

Hlutverk svæðisráða er að virkja umræðu um skotveiðar heima í héraði og vera tengiliður við Framkvæmdaráð á landsvísu, sem mun samræma aðgerðir í nafni félagsins.  Svæðisráðum er í sjálfsvald sett hvaða verkefni unnið er að, svo framarlega sem þau eru í samræmi við lög, siðareglur, stefnu og gildi félagsins.  Svæðisráð eru stjórn og öðrum einingum innan félagsins ráðgefandi, en þeim verður einnig falin ákveðin verkefni af stjórn félagsins í samráði við hvert svæðisráð fyrir sig.  Svæðisráða munu m.a. kynna stefnu og markmið SKOTVÍS, hafa áhrif á málefnastarf SKOTVÍS og sameina skotveiðimenn í nauðsynlegum aðgerðum.  Svæðisráð munu einnig mynda þekkingarbrunn og stýra umræðu um sértæk málefni eftir því sem áhugi og þekking manna gefur tilefni til.

Nánara hlutverk svæðisráða mun verða skilgreint betur með skotveiðimönnum á hverju svæði fyrir sig, en stefnt er að sveigjanlegu fyrirkomulagi sem gerir sem flestum kleift að hafa aðkomu að starfi félagsins og beita því til góðra verka.

Tags: félagsins, skotvís, verður, kynna, næstu, stofnun, telur, svæðisráða, áhuga, hafi, stjórn, samband, munu
You are here: Home