Gæsaveiðitímabilið hefst 20. ágúst

Picture 7Á mánudag 20. ágúst rennur upp sá dagur sem í hugum flestra veiðimanna markar upphaf haustveiðinnar, en þá hefjast gæsaveiðar að nýju og standa til 15. mars (Helsingjaveiðar hefjast 1. september). Reyndar hófust hreindýraveiðarnar þann 15. júlí og á þessum tímapunkti er sennilega búið að veiða um 200 dýr af 1009 dýra kvóta, en þeim hreindýraveiðum lýkur 15. september (tarfar) og 20. september (kýr).

Undanfarna mánuði hefur SKOTVÍS hvatt veiðimenn til að undirbúa sig vel fyrir veiðitímabiið, með því að leggja stund á skotæfingar, hvort sem það tengist hreindýraveiðum eða fuglaveiðum og í því skyni var “Dúfnaveislunni” hleypt af stokkunum annað árið í röð, en átakið stendur yfir til 31. ágúst og er gert í samstarfi við skotæfingafélög, Umhverfisstofnun og skotveiðiverslanir. SKOTVÍS kynnti svo fyrr í vikunni átakið “Láttu ekki þitt eftir liggja” í samstarfi við Olís og Umhverfisstofnun, en þar er lögð áhersla á að veiðimenn skilji ekki eftir sig tóm skothylki á veiðislóð. Þeir sem hafa tekið þátt í Dúfnaveislunni ættu að vera orðnir alvanir þessu, en á skotvöllum gildir almennt sú regla að veiðimenn týni upp tóm skothylki, sín og annarra, að lokinni æfingu.

Nýliðun í stofnum, stærð stofna, ofbeit og rannsóknir
Varp heiðagæsar og grágæsar virðist hafa gengið afar vel í ár og því má áfram reikna með sterkum veiðistofnum þessarra fugla. Grágæsastofninn ætti því að vera í jafnvægi í ljósi reynslu fyrri ára, meðan heiðagæsastofninn gæti verið í enn frekari vexti, en sú þróun hefur verið nánast óslitin síðastliðna þrjá áratugi (x10 földun á þremur áratugum) meðan veiðin hefur ekki aukist að sama skapi. SKOTVÍS hefur bent á að þessi þróun hjá heiðgæsastofninum gæti verið óæskileg og hugsanlega valdið ofbeit, en reikna má með því að allur þessi fjöldi sé ígildi þess að beita tugum þúsunda fjár á hálendið.

Engar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum vettvangi og í ljósi áhuga umhverfisráðuneytisins á útbreiðslu lúpínu, þá ætti þessi þróun ekki að draga úr áhuga ráðuneytisins á þessu viðfangsefni. Því hvetur SKOTVÍS stjórnvöld til að leggja fjármuni til rannsókna á áhrifum beitarálags vegna gæsa á hálendi Íslands til að skapa forsendur fyrir umræðu um hvernig markviss veiðistjórnun geti nýst við lausn, ef tilgátan um ofbeit reynist vera á rökum reist.

Ágangur gæsa í löndum bænda hefur einngi verið talsvert í umræðunni og fyrr á þessu ári hlaut verkefni Halldórs W. Stefánssonar (Gæsabeitarálag á bújörðum) 1.500.000 króna styrk úr Veiðikortasjóði til grunnrannsókna sem mun vonandi veita sýn á meint vandamál af völdum gæsa.

Samstarf við Arnór Þóri Sigfússon og Halldór W. Stefánsson – Gæsavængir og andavængir
Arnór og Halldór hafa um árabil átt gott samstarf við veiðimenn sem hafa safnað saman vængjum úr feng sínum og komið þeim til hans til frekari greiningar á aldurshlutfalli o.fl.. SKOTVÍS hvetur alla veiðimenn til að leggja þessu máli lið. Verkefni Arnórs og Halldórs hafa um árabil verið styrk af Veiðikortasjóði og hafa þeir ávallt gert sér far um að kynna niðurstöður vöktunar- og rannsóknarverkefna sinna fyrir veiðimönnum [sjá kynningu 2011 hér].

Hægt er að ná í Arnór í síma 4228000 og 8434924 eða ef veiðimenn eru á Austurlandi þá hafa samband við Halldór W. Stefánsson í síma 4712553 og 8465856. Veiðimenn geta einnig sent tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og doco@mi.is.

4200 gæsaveiðimenn
Samkvæmt skýrslum deildar lífríkis og veiðistjórnunar (svið náttúruauðlinda) hjá umhverfisstofnun, stunduðu um 4.200 manns gæsaveiði á árinu 2010, en tölur frá 2011 eru enn ómarktækar, þar sem einungis 83% veiðikortahafa hafa skilað inn veiðiskýrslum fyrir 2011 þegar þetta er skrifað. Hlutfall þeirra sem skila veiðiskýrslum eru yfirleitt á bilinu 90-95%, sem er jafnframt mælikvarði á nýliðunina í veiðikortakerfinu.

Athygli vekur að fjöldi gæsaveiðimanna (sem og allra veiðimanna) hefur ekki aukist svo neinu nemi á þeim 17 árum sem veiðiskýrslur hafa verið teknar saman og í rauninni fækkað, séu tölur frá 2011 teknar með (ætla má að þeir sem stundi gæsaveiðar, séu nú þegar komnir með veiðikort og hafi því skilað inn veiðiskýrslu) – Og þá er ekki búið að taka tillits til hinnar margfrægu höfðatölu!

Stöndum vörð um blesgæsastofninn
blesa08e
Stofnstærð blesgæsarinnar er enn á viðkvæmu stigi. Fróðlegt verður að sjá hvort talningar síðar á árinu gefi tilefni til bjartsýni hvað varðar þennan stofn. Eitthvað virðist hafa dregið úr fækkun úr stofninum en of snemmt er að segja til um hvort þróunin sé að snúast við. Því mun SKOTVÍS fylgjast mjög vel með þróun mála og hvetur skotveiðimenn til að kynna sér atferli, útlit og hljóð blesgæsarinnar [Hljóðskrár: Blesgæs, Grágæs, Heiðagæs] svo koma megi í veg fyrir slysaskot. Sérstaklega er bent á að ungfugl getur verið mjög líkur grágæs og því er skotveiðimönnum bent á að hafa þetta í huga við veiðar.


Gætum hófsemi og nýtum alla bráðina
image004Meðan veiðistofnar eru sterkir, aukast möguleikar á góðri veiði og því er mikilvægt að veiðimenn temji sér hófsemi, deili með sér feng sínum og nýti alla bráðina.  Nýting bráðarinnar hefur fengið talsverða umfjöllun undanfarin misseri og hvetur SKOTVÍS alla veiðimenn til að kynna sér meðhöndlun, verkun og matreiðslu gæsahráefnis á heimasíðu félagsins, en þar er að finna margvíslegan fróðleik um þetta málefni.

Umræða um “magnveiði” hefur aukist að undanförnu og hefur SKOTVÍS verið spurt um afstöðu félagsins til þessa. SKOTVÍS setur engan mælikvarða á hvað telst til magns, slíkt er ekki í anda siðareglna félagsins sem leggja áherslu á hófsemi, að bráðin sé nýtt og að veiðar gangi ekki of nærri stofnum. Meðan stofnar eru í góðu ástandi, og svo framarlega sem bráð er vel nýtt, þá gerir félagið engar athugasemdir við að “atvinnuveiðimenn” stundi viðskipti með villibráð til lögaðila sem ætlaður er til endursölu (t.d. veitingahús), svipað og með fisk á markaði, enda lúti slík viðskipti sér reglum og sér eftirliti (virðisaukaskattur, matvælalöggjöf og hreinlætislöggjöf).  Í umræðunni hafa einnig komið í ljós áhyggjur af hugsanlegum hagsmunaárekstrum veiðimanna annarsvegar og "atvinnuveiðimanna" hinsvegar þegar kemur að aðgengi að veiðisvæðum.  Framkvæmdaráð SKOTVÍS mun því fara betur í saumana á þeim hluta umræðunnar og hvetur alla þá sem vilja taka virkan þátt í þeirri umræðu, að hafa samband við framkvæmdaráðið ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ), þ.a. tekið sé tillit til sem flestra sjónarmiða.

SKOTVÍS mun ávallt taka hagsmuni veiðimanna fram yfir hagsmuni "atvinnuveiðimanna", líkt og gert var með rjúpuna á sínum tíma - SKOTVÍS vill einnig benda landeigendum á að hafa siðareglur SKOTVÍS til hliðsjónar þegar þeir heimila veiðar á landareignum sínum og stuðla að því að veiðar fari fram með ábyrgum hætti [sjá ályktun frá aðalfundi 2012].

Stjórn SKOTVÍS óskar veiðimönnum ánægjulegs veiðitímabils í náttúru Íslands.

Tags: skotvís, samstarfi, eftir, ágúst, september, dúfnaveislunni, tóm, hreindýraveiðum, hefjast, átakið, veiðimenn
You are here: Home