Framtíð skotveiða á Íslandi – Veiðimenn móta stefnu SKOTVÍS og fylgja henni eftir

Skotveiðifélag Íslands gekkst nýlega fyrir skoðunarkönnun meðal veiðimanna til að kanna hvaða áherslur menn vildu sjá að SKOTVÍS hefði til hliðsjónar í sínu starfi. Könnuninn var liður í stefnumótun félagsins sem er í vinnslu um þessar mundir.

Könnun var framkvæmd meðal veiðimanna (á póstlista félagsins) þar sem óskað var eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  1. Nefndu þau gildi (2-4 lýsingarorð) sem þú telur að SKOTVÍS eigi að hafa í fyrirrúmi í starfi sínu [sjá svör hér]
  2. Nefndu helstu verkefni sem SKOTVÍS á að beita sér fyrir á næstu tveimur árum [sjá svör hér]
  3. Annað sem þú vilt leggja áherslu á í starfsemi SKOTVÍS [sjá svör hér]

Spurningarlistinn var sendur út 1. júní 2012 og höfðu veiðimenn 10 daga til að svara. Alls svöruðu 168 af 1497 sem er um 11,22% svarhlutfall.

Veiðimenn komu með þessum hætti ábendingum til stjórnar SKOTVÍS, sem mun nýta þær næstu vikurnar meðan stefna og framkvæmdaáætlun félagsins er í mótun. Kjarnann í boðskap félagsins hefur alla tíð verið að finna í siðareglum félagsins, sem hafa verið félagsmönnum leiðarljós allt frá stofnun félagsins 23. September 1978 og stuðlað þannig að mótun veiðimenningar sem skilgreinir hver við erum, fyrir hvað við stöndum, hvernig við störfum og högum okkur.

Saga SKOTVÍS og könnunin sýnir að veiðimenn hafa verið og eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að tryggja almannaréttindi, veiðiréttindi og möguleikana til veiða. Veiðimenn hafa einnig þær væntingar að hér á landi sé stunduð virk öflun og miðlun þekkingar, sem byggir á samvinnu, trausti og heilindum, og styðji við faglega veiðistjórnun, sem hefur það að markmiði að núverandi veiðar skerði ekki möguleika komandi kynslóða til veiða.

SKOTVÍS Í FORYSTUHLUTVERKI
Stjórn SKOTVÍS fer nú skipulega yfir ábendingar veiðimanna, mótar félaginu stefnu sem er líkleg til árangurs og setur sér mælanleg markmið til næstu ára. Veiðimenn leggja traust sitt á að SKOTVÍS sé sterk fyrirmynd, sé framsýnt og sé í forystuhlutverki við að leiða umræðuna um skotveiðitengd málefni.

Þegar litið er til sögu SKOTVÍS, má sjá að þar er á ferðinni félagsskapur veiðimanna sem hefur verið langt á undan sinni samtíð í ýmsum málum, haft framsýni að leiðarljósi og sýnt forystuhæfileikann til að fylgja málum eftir. Mörg mál hafa komið til kasta félagsins, umsagnir um frumvörp og reglugerðir, nefndarálit, o.s.frv., þar sem reynt hefur verið eftir fremsta megni að koma sjónarmiðum veiðimanna á framfæri. Saga SKOTVÍS hefur að geyma mörg tilfelli, þar sem tekist hefur að stöðva eða leiðrétta illa ígrundaðar tillögur er varða auknar takmarkanir á veiðum.

UMHVERFI SKOTVEIÐIMANNA [smellið á myndina hér til hliðar til að stækka]
hagsmunakortNúverandi stjórn hefur varið töluverðum tíma í að kortleggja núverandi landslag í þeim tilgangi að marka félaginu skýra stefnu til framtíðar. Auðvelt er að týnast í umræðu að einstök atriði, ástandi einstakra stofna, frammistöðu umhverfisráðuneytis og stofnana þess (Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, náttúrustofur), löggjafans, fjölmiðla og áliti almennings, annarra frjálsra félagasamtaka og hagsmunasamtaka, bænda, landeigenda og margra annarra sem kunna að hafa snertiflöt við málefni veiðimanna, listinn er mjög langur (sjá mynd hér til hliðar) – Stóru málin munu þó áfram vera áhersla á almannarétt, veiðirétt, uppbyggingu faglegrar veiðistjórnunar, uppbygging þekkingar og miðlun hennar.

GILDIN OG VERKEFNI TIL NÆSTU TVEGGJA ÁRA
Félagið og málflutningur þess hefur ávallt verið trúr sínum grundvallargildum og siðareglum. Hinsvegar er full ástæða til að kynna betur hvað felst í gildum félagsins, þ.a. þetta séu ekki orðin tóm og að félagsmenn sjái að það er hægt að hrinda slíkum hugsjónum í framkvæmd með virkri þátttöku í raunverulegum verkefnum.

Gildin sem lögð verða til grundvallar í starfinu munu skilgreina næstu kynslóð veiðimanna, hver hún er, fyrir hvað hún stendur, hvernig hún starfar og hagar sér.

Þegar skotveiðimenn eru spurðir um helstu verkefni sem SKOTVÍS ætti að einbeita sér til næstu tveggja ára, þá er greinilegt að félagið þarf að beina kröftum sínum að stjórnvöldum og stofnunum og byggja upp traustan samstarfsvettvang, þá sérstaklega til að efla faglega veiðistjórnun, auka fræðslu um almannarétt og veiðirétt og standa vörð um veiðirétt í þjóðlendum – Aðrar mikilvægar áherslur eru fræðslu- og kynningartengd verkefni og málefni sem tengjast nýtingu fjármagns úr Veiðikortasjóði.

Stjórn SKOTVÍS mun nýta sér þessar ábendingar til að skipuleggja starfið framundan.

MÓTUN FRAMTÍÐAR SKOTVEIÐA
Þó það sé óraunhæft að ætla öllum veiðikortahöfum að vera félagi í SKOTVÍS, þá má alltaf gera betur í að kynna tilganginn með starfi félagsins og þau verkefni sem eru framundan til að laða að skotveiðimenn sem vilja hafa áhrif á framtíð skotveiða á Íslandi.

SKOTVÍS eru vel skipulögð samtök, með skýra framtíðarsýn og með metnaðarfulla framkvæmdaáætlun í undirbúningi til að ná markmiðum sínum og því fleirri félagsmenn sem koma að virku starfi, því fyrr munu þessir hlutir ganga fyrir sig.

Fjöldi félagsmanna segir þó ekki allt, því fjöldi virkra félagsmanna er enn mikilvægara til að hrinda af stað áætlun sem getur tryggt að markmið félagsins nái í gegn. Hópur 20-30 öflugra félagsmanna sem nýtir tengslanet sitt um allt land er óskabyrjun og því skorar stjórn félagsins á alla þá sem hafa raunverulegan vilja til að hafa áhrif á framtíð skotveiða að setja sig í samband við stjórnarmeðlimi sem munu kynna fyrirætlanir félagsins nánar í vetur.

FRAMKVÆMDARÁÐ ER VETTVANGUR FÉLAGSMANNA
Þegar stjórn SKOTVÍS hefur lagt lokahönd á stefnu félagsins og lagt fram framkvæmdaáætlun, verður henni fylgt eftir á vettvangi framkvæmdaráðs félagsins og þeim aðilum sem sitja fyrir hönd SKOTVÍS í nefndum og aðildarsamtökum.

Fyrir áhugasama félagsmenn er framvæmdaráðið sá vettvangur sem eðlilegast er að byrja á, en það fyrirkomulag hefur nú verið við lýði í rúmt eitt ár og hefur gefist vel. Stjórn er um þessar mundir að útfæra skipulag sem nýtist vel til að koma sjónarmiðum skotveiðimanna að um allt land og með slíkri nálgun verður búið að reka smiðshöggið á uppbyggingu innra skipulags SKOTVÍS, sem mun geta fylgt eftir stefnu félagsins og metnaðarfullri framkvæmdaáætlun – En hún stendur og fellur með virkri þátttöku félagsmanna

Hvernig vilt þú hafa áhrif á framtíð skotveiða?

Tags: félagsins, hefur, hafa, verið, skotvís, félagsmanna, næstu, eftir, verkefni, stjórn, stefnu, framtíð, skotveiða, veiðimenn
You are here: Home