Frá fundi Skotveiðifélags Íslands í Gerðubergi 28. október 2007

Sunnudaginn 28. október s.l. hélt Skotveiðifélag Íslands fund með Dr. Ólafi K. Nielsen um stöðu rjúpnastofnsins. Fundurinn var fjölsóttur, hvert sæti skipað. Ólafur tjáði okkur það sem áður hefur komið fram að staða rjúpnastofnsins væri verri en búist hafði verið við. Þetta er áhyggjuefni, því veruleg hefur verið dregið úr veiðum undanfarin fimm ár. Engar einfaldar skýringar eru á bágri stöðu stofnsins. Ljóst er þó að ekki verður fram hjá því horft að veiðar skipta einhverju máli þegar stofninn er í lægð. Það er hins vegar ekki kjarni málsins. Það sem skiptir okkur, veiðimenn, máli er eins og áður sagði að þrátt fyrir verulegar takmarkanir nær stofninn ekki að rétta úr kútnum. Þá getum við, veiðimenn, ekki horft fram hjá því að eftir tveggja ára friðun rjúpunnar varð mikil fjölgun í stofninum. Við verðum þó að hafa í huga að rjúpan hefur verið friðuð áður án þess að stofninn hafi tekið stökk upp á við eins og nú síðast. Hins vegar skiptir máli, í þessu sambandi, að við höfum víðtæka sýn yfir stöðu rjúpnastofnsins. Á fundinum nú 28. október nefndu menn ýmsa þætti sem verið gætu örlagavaldar í bágu ástandi stofnsins. Í því sambandi mætti nefna sílamáf, hlýnun veðurfars, tófu og önnur rándýr.


Á þessum fundi var Dr. Ólafur K. Nielsen sæmdur gullmerki Skotveiðifélags Íslands. Ólafur er vel að þessum heiðri kominn því hann hefur nú í hartnær 20 ár stundað rannsóknir á íslenska rjúpnastofninum sem hafa algjöra sérstöðu í heimi rannsókna á villtum veiðidýrum. Vissulega höfum við, Skotvísmenn og Dr. Ólafur, ekki alltaf verið sammála en sú leiðinlega umræða sem varð í kringum rjúpnaveiðibannið er að baki því staðan er einfaldlega sú að það er fyrst og fremst okkur, veiðimönnum, í hag að afla eins mikilla upplýsinga um íslensku rjúpuna og unnt er. Aðeins með því getum við aflað okkur þekkingar, sem byggist á samvinnu veiðimanna og vísindamanna, á því hvernig við getum stundað sjálfbærar veiðar úr íslenska rjúpnastofninum.

Skotveiðifélag Íslands telur að takmarkaðar veiðar séu á ýmsan hátt heppilegri en algjör friðun, því með því móti fást mikilvægar upplýsingar um stöðu rjúpnastofnsins. Því verður þó ekki á móti mælt, að sé stofninn það illa staddur að eðlilegar sveiflur séu að hverfa, þá geti friðun verið nauðsynleg. Þetta leiðir hugann að því að veiðimenn eru beðnir að gæta hófs nú í haust. Þeir veiðimenn sem ekki virða þá ósk eru raunverulega að vinna að því, leynt og ljóst, að rjúpan verði friðuð. Þess vegna er það brýnt hagsmunamál okkar veðimanna að sómakærir veiðimenn séu vel á verði og að við fáum upplýsingar, og vitum hverjir það eru, sem ætla að koma í veg fyrir og eyðileggja þá ánægju að við getum stundað rjúpnaveiðar næstu árin þó stofninn sé lítill.

Skotveiðifélag Íslands vill þakka Dr. Ólafi K. Nielsen fyrir mikilvægan þátt hans í rjúpnarannsóknum á Íslandi. Félagið væntir þess að við eigum sameiginlega eftir að byggja upp íslenska rjúpnastofninn svo við getum rjúpnaveiðar í íslenskri náttúru um ókomin ár.

Tags: eins, hefur, íslands, stofninn, stofnsins, verið, horft, skiptir, áður, október, stöðu, hjá, þó, veiðimenn
You are here: Home