Frá formanni SKOTVÍS vegna skotprófs fyrir hreindýraveiðar

Ágætu félagar 

Eins og flestir veiðimenn hafa sennilega gert sér grein fyrir þurfa veiðimenn sem ætla til hreindýraveiða þetta árið að standast skotpróf. Mikið hefur verið rætt um skotprófið hér á Hlað vefnum og á öðrum fjölmiðlum undanfarna daga en þetta mál hefur verið inni á borði Skotvís í rúmt ár, eða þar til félagið var beðið um að veita umsögn um framvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994.

Stjórn Skotvís hefur verið því fylgjandi um árabil að hreindýraveiðimenn verði látnir standast skotpróf til að sanna getu sína. Fyrir því eru margar ástæður. Meðal annars:

  • Allir veiðimenn, reyndir eða óreyndir ættu alltaf að skjóta í mark með byssunni sem þeir ætla að nota til veiða áður en komið er á veiðislóð til að sannreyna að allt sé eins og það á að vera. Um þetta atriði hef ég ekki heyrt neina reynda veiðimenn deila um og trúi ekki að nokkrum detti í hug að halda öðru fram.
  • Fyrirkomulagið felur í sér ákveðið tækifæri sem felst í því að veiðimenn verða að mæta a.m.k. einu sinni á viðurkenndan skotvöll. Þar með munu sömu menn fá að kynnast því hversu góðar aðstæður eru í boði á þessum fjölmörgu völlum á Íslandi. Ég tel að með þessu munum við í kjölfarið sjá fleiri veiðimenn nýta sér þessa velli til æfinga og í kjölfarið fleiri félagsmenn og betur þjálfaða veiðimenn.
  • Það er leið að bættu veiðisiðferði að þjálfa sig í meðferð skotvopna. Með aukinni þjálfun eflist vitund veiðimannsins, fyrir sjálfum sér, vopninu og hvernig það hefur áhrif á bráðina. Vel þjálfuð skytta er mun líklegri til að fella dýr í fyrsta skoti en skytta sem skellir sér á völlinn rétt fyrir veiðiferð.
  • Samhliða því að kröfur eru auknar til veiðimanna geta veiðimenn gert meiri kröfur til stjórnvalda. Í mínum augum er skotprófið að sjálfsögðu fyrsta skrefið í þá átt að reyndir veiðimenn fái að halda til veiða án þess að þurfa að ráða sér leiðsögumann. Hvenær veiðimaður telst nógu reyndur mun sjálfsagt verða deiluefni, en það er bara eitthvað sem þarf að komast að niðurstöðu um þegar þar að kemur.

Það verður aldrei hægt að prófa færni manna í að veiða dýr. Hinsvegar er hægt að sjá til þess að veiðimenn hafi lágmarkskunnáttu í meðferð veiðivopna og er það jákvætt skref í rétta átt. Persónulega finnst mér veiðikorta- og skotvopnaprófið taka fulllétt á þessum þætti og tel að bæta þurfi verklega þáttinn til muna. Við eigum að fagna því að fá að sýna fram á að við erum traustsins verð og að við öxlum þá ábyrgð sem að fylgir því að ganga til veiða með skotvopn. Mörgum stendur stuggur af skotvopnum og það ber okkur einfaldlega að virða. Sumir þekkja ekki muninn á veiðibyssum og skotvopnum sem notuð eru til að drepa fólk og hafa kanski aðeins þá mynd sem bíómyndir draga upp að þeim til viðmiðunar. Við þetta þurfum við að búa en í stað þess að kvarta eigum við að takast á við þetta sem krefjandi verkefni.

Skotvís hefur nú þegar sent frá sér yfirlýsingu vegna gjaldtöku fyrir prófið og stendur við það sem þegar hefur komið fram. Þá yfirlýsingu má finna á vef félagsins www.skotvis.is
Hvað varðar tímasetninguna þá er þetta ekki í fyrsta skiptið og eflaust ekki það síðasta sem stjórnýslan er með allt á síðustu stundu. Auðvitað ætti það ekki að vera þannig en þetta virðist því miður íslenska leiðin. Höfum í huga að þetta er fyrsta skiptið sem prófið er sett og eins og við er að búast þá má sennilega finna ýmsa hnökra sem UST mun væntanlega sníða af og snikka til fyrir næsta ár.

Það hefur komið fram gagnrýni á prófið og gjaldtökuna, hvort það standist lög og hvenær heimild til að innheimta gjald tekur gildi. Það mál er í skoðun og Skotvís fylgist með framvindu þess. Þangað til úr því verður skorið er reglugerðin, verklagsreglurnar og skotprófið í gildi, a.m.k. þar til annað kemur fram.

Þeir sem eru svo óheppnir að geta ekki tekið prófið innan tiltekins tíma hljóta að fá undanþágu, rétt eins og erlendir veiðimenn en mér skilst að þeir sem sýna fram á að þeir þurfi undanþágu eigi að fá hana, sérstaklega í ljósi þess að þetta er allt mikið seinna á ferðinni er gert var ráð fyrir í byrjun. Prófið er eins og margoft hefur komið fram, hugsað til þess að veiðimenn æfi sig fyrir veiðar, en ekki til þess að fella þá sem þegar hafa fengið úthlutað leyfi.

Varðandi framkvæmdina á skotprófinu þá hafa þeir sem ég hef rætt við og hafa tekið prófið verið sammála um að prófið sé stutt æfing fyrir þann sem þekkir vopnið sitt og veit hvað hann er að gera. Þótt verklagsreglurnar hljómi flóknar og að mínu mati óþarflega nákvæmar þá er prófið einfalt í framkvæmd og þessi tímarammi sem gefinn er virðist alveg duga. Ég hef fulla trú á að prófdómarar skotfélaganna muni gera þetta próf eins einfalt og hægt er en innan þess ramma sem gefin er. Þessir aðilar hafa fullan skilning á eðli prófsins og munu vafalaust gera þetta eins þægilegt fyrir veiðimenn eins og kostur er á.

Gangi ykkur vel í prófinu og vonandi verður það til þess að þið njótið veiðanna enn betur.

Tags: þess, veiða, eins, hefur, þar, hafa, verið, skotvís, komið, þetta, prófið, fyrsta, þeir, veiðimenn
You are here: Home