Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Fyrirkomulag Rjúpnaveiða 2013

15-19-1

 

Skotveiðifélag Íslands - SKOTVÍS lýsir yfir ánægju með fyrirkomulag rjúpnaveiða 2013.

Í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er margt að finna sem  gefur vísbendingar um jákvæða þróun á fyrirkomulagi rjúpnaveiða til framtíðar.

Stærstu tíðindin er niðurstaða Umhverfisstofnunar þess efnis  að sölubannið hafi skilað lækkun veiðihlutfalls úr 30% í 10% og að fjöldi sóknardaga sé því sem næst óháður fjölda leyfilegra veiðidaga. Niðurstaðan gefur svigrúm til fjölgunar á leyfilegum veiðidögum. Ljóst er að umhverfisráðherra hefur stigið varlega til jarðar varðandi fjölda veiðidaga, þeim verður fjölgað úr 9 í 12 sem er skref í rétta átt. Þá er sérlega ánægjulegt að gefið skuli út að veiðar verði heimilar næstu 3 árin, svo framarlega sem ekkert sérstakt komi upp á. Undanfarin ár hafa einkennst af óvissu allt fram á síðustu stundu sem er ekki boðlegt fyrir veiðimenn og aðra hlutaðeigandi.

Í tilkynningunni frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um fyrirkomulag rjúpnaveiðar 2013 – „Hófsemi í fyrirrúmi“ má lesa að skerpt hefur verið á hlutverkaskiptingu Umhverfisstofnunar annarsvegar og Náttúrufræðistofnunar hinsvegar, en SKOTVÍS hefur undanfarin ár bent á mikilvægi þess að hlutverk þessa stofnana séu á hreinu, þ.e. að Náttúrufræðistofnun sinni rannsóknum og mati á veiðiþoli en Umhverfisstofnun sinni og útfæri veiðistjórnun, eins og segir í lögum nr. 64/1194 og greinargerð þar um. 

Ennfremur fagnar SKOTVÍS því að ráðuneytið skuli lýsa yfir áhuga á að rannsaka mikilvægi griðarsvæða í samstarfi við hagsmunaaðila, og óskar SKOTVÍS eftir víðtækara samstarfi við stjórnvöld um uppbyggingu á stjórnun villtra dýrastofna, enda býr félagið yfir yfirgripsmikilli þekkingu á framkvæmd veiða.

SKOTVÍS tekur heilshugar undir sjónarmið ráðuneytisins, að hófsemi skuli höfð í fyrirrúmi og hvetur veiðimenn til að fara eftir tilmælum Umhverfisstofnunar í þeim efnum. SKOTVÍS vekur athygli á  siðareglum félagsins sem finna má á heimasíðunni www.skotvis.is  og óskar veiðimönnum ánægjulegra veiðistunda í íslenskri náttúru.

 

Stjórn SKOTVÍS

 

Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu,

vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.

Fréttatilkynning vegna fyrirkomulags rjúpnaveiða 2012

Fréttatilkynning vegna fyrirkomulags rjúpnaveiða 2011

25. september 2012

Stjórn SKOTVÍS


Yfirlit yfir rjúpnarannsóknir

Fréttatilkynning SKOTVÍS frá 2011

Tags: hefur, skotvís, fjölda, samstarfi, yfir, umhverfisstofnunar, eftir, stjórn, óskar, rjúpnaveiða, sinni, skuli, fyrirkomulag, veiðimenn
You are here: Home