Ályktun aðalfundar 2012 - Starfshópur um áætlun um fjölgun hreindýra

Flutningsmaður: Sigmar B. Hauksson á aðalfundi félagsins 31. janúar 2012

Greinargerð
Veiðar með riffli hafa orðið æ vinsælli á síðari árum. Ekki er um auðugan garð að gresja hvað varðar möguleika á veiðum með riffli hér á Íslandi. Á ári hverju fara því margir Íslenskir veiðimenn til útlanda til að geta stundað veiðar á stærri dýrum eins og á svínum, elg og hjartardýrum. Á Íslandi er helsta bráðin í þessari tegund veiða hreindýr. Nú er svo komið að hreindýrið er orðið ein vinsælasta bráð Íslenskra skotveiðimanna, aðeins rjúpnaveiðar eru vinsælli.

Þessar vinsældir eru skiljanlegar því hreindýrið er tíguleg bráð, kjötið frábær matur og veiðilendurnar með fegurstu stöðum Íslands. Hreindýraveiðar eru því einstök upplifun, þar sem saman fer tíguleg bráð og skemmtileg veiðireynsla. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að framboð veiðidýra er talsvert minni en eftirspurnin, 4000 veiðimenn sækja um að veiða 1000 dýr, 3000 veiðimenn fá sem sagt ekki tækifæri til að veiða hreindýr. SKOTVÍS hefur lengi barist fyrir því að hreindýrum verði fjölgað hér á landi. Talsvert hefur dregið úr sauðfjárrækt og landbúnaði almennt hér á landi, Ísland er strjálbýlasta land Evrópu, landið gæti því borið mun fleir hreindýr en nú er. Á hausti hverju fölna og fara undir snjó þúsundir tonna gróðurs sem hefði geta verið fæði fyrir hjarðir hreindýra. Fjölgun hreindýra myndi styrkja búsetu í landinu, lengja ferðamannatímann og um fram allt auka talsvert möguleika skotveiðimanna við veiðar með riffli.

Ályktun
Aðalfundur Skotveiðifélags Íslands 31. janúar 2012 ályktar að stjórn félagsins beiti sér fyrir stofnun starfshóps sérfróðra manna til að vinna að tillögu og áætlun um fjölgun hreindýra. Stefna ber að því að hópurinn hefji störf sem fyrst og skili tillögum sínum eigi síðar en 10 maí næstkomandi.

Tags: geta, veiða, orðið, 2012, bráð, veiðar, talsvert, fjölgun, riffli, möguleika, tíguleg, áætlun, hverju, veiðimenn, fara
You are here: Home