Framtíð veiða á Íslandi - Aðrar áherslur

Innra skipulag og starf (5/90)
Á heimasíðu félagsins kemur fram hver tilgangur þess er. Litlu finnst mér að þurfi við að bæta. Það sem þarf að bæta er í raun virkni félagsmanna og er flestum félögum þar vandi á höndum. Ef til vill væri hægt að vera með ráðstefnu og í framhaldi af henni vinnufund sem myndi forgangsraða.
Hækka árgjald og borga þeim sem eru að vinna fyrir SKOTVÍS laun.
Hafa sér apparat sem er aðeins í því að teygja sig til félagsmanna og kynna starfsemina og málefnin fyrir félagsmönnum og öðrum.
Auka hlutfall félagsbundinna veiðimanna og halda áfram að stuðla að siðbót meðal veiðimanna.
Tími til kominn til að skrifa sögu þessa merka félags og það sem áunnist hefur í rúmlega 30 ára sögu þess.
 
Ímynd (3/90)
SKOTVÍS mætti vera sýnilegra almenningi, við erum stoltir veiðimenn!
Bæta ímynd skotveiða og byssueignar.
Gera veiðar að fallegri og sjálfsagðri íþrótt fyrir okkur íslendinga.
 
Hagkvæm innkaup (4/90)
Athuga hvort það væri áhugi hjá félagsmönnum um sameiginleg kaup á t.d. gæsa- og rjúpnaskotum til að ná hægstæðari verðum fyrir félagsmenn.
Fá tolla á skotfærum og skotvopnum niðurgreidda svo almenningur geti að minnsta kosti veitt í kjaftinn á sér þegar búið er að slíta allt annað af þeim.
Fleiri tilboð sem koma félagsmönnum til góða.
Skipulagðar ferðir erlendis (sem ekki mundu kosta hvítu úr augum).
Hagsmunagæsla (11/90)
Réttindamál, skotfimiæfingar, meðferð villibráðar.
Hagsmunagæsla fyrir félagsmenn.
Forsvarsmenn félagsins þurfa að láta á sér bera með greinarskrifum í dagblöð.
Fá sér smá pung og tala tæpitungulaust!
Standa vörð um okkar hagsmuni. Láta þá njóta sem borga í félagið kannski með veiði þar sem félagið tæki veiðirétti á leigu, þá hóflegt veiðigjald.
Fjölga félagsmönnum, standa vörð um rétt manna til skotveiða.
Það vantar tennurnar í SKOTVÍS. Stundum þarf bara að berja í borðið.
Nota pólitíkina meira til að koma okkar málum áfram, við erum stór þrýstihópur sem eigum að geta haft áhrif og þá er ég að tala um alla veiðimenn, ekki bara í SKOTVÍS.
Standa vörð um rétt íslendinga til skotveiða á Íslandi.
Standa sig í hagsmunagæslunni. Fatalt að SKOTVÍS hafi ekki gert athugasemdir við þetta veiðipróf. Mér er hugsi, hver notar fimm kúlur á fimm mínútum? Ef menn eru á þeim stað í veiðinni ættu þeir að hætta að veiða. Veit ekki hvert þið eruð að fara, en þetta veiði próf lyktar af fjáröflun fyrir skotfélög á vegum hins opinbera. Það veit á vont þar sem þið verðið þægir eftir það.
Hafa áhrif á lög og reglur til hins betra. Láta skynsemina ráða, en ekki einhverja hentistefnu stjórnvalda. Kynna skotfimi og veiðar á jákvæðan hátt.
Veiðisiðferði og umhverfismál (9/90)
Mætti vera meiri kurteisi við sögu og hefðir og ástunda meiri jákvæð samskipti við landeigendur. Því miður oft mikill yfirgangur veiðimanna að mínu mati. Finnst of mikið klifað um kærurétt og þess háttar í stað þess að fara leið sátta, samkomulags og sameiginlegra kosta og hagsmuna. Fyrir landsbyggðina og smærri sveitafélög á að vera jákvætt hagrænt og félagslega að fá skotveiðimenn eins og hestamenn, kaupendur beint frá býli eða silungsveiðimenn. Rannsaka áhrif veiðimanna á ferðaþjónustu - Gætu verið öflug rök með veiðum.
Leggja áherslu á að veiða sér og sínum til matar. Gera lítið úr magnveiði sem er liðinn tíð!
Leggja ríka áherslu á að félagsmenn virði veiðitíma, veiðireglur og séu í hvívetna fyrirmynd þeirra sem áhuga hafa á veiði. Þetta segi ég vegna þess að því miður er of mikið um veiðimenn sem virða engar reglur, hvort sem er skrifaðar lagareglur eða háttvísireglur, sem eiga að vera til staðar milli veiðimanna á veiðislóð.
Eitt mikilvægasta verkefni félagsins ætti að vera að bæta siðferði veiðimanna og berjast gegn magnveiði.
Áhersla verði lögð á góða umgengi við náttúruna, koma í veg fyrir utanvegaakstur, koma í veg fyrir "slátrunarveiði" í atvinnnuskyni. Auknar kröfur um skotfimi í þvi skyni að takmarka að særa fugla sem að ekki nást. Skotveiðimenn taki aukinn þátt í eyðingu á mink. (ekki tófu!)
Veiðisiðferði og náttúruumgengni. Náttúran er fyrir fólk, veiðimenn eru fólk.
Vera í fararbroddi þegar kemur til umhverfismála er varða skotveiðar.
SKOTVÍS eru í eðli sínu náttúruverndarsamtök og eiga að stuðla að og benda á hvað betur mætti fara til að tryggja heilbrigða og stóra veiðistofna.
Fá veiðimenn til að hugsa um hvað þeir geti gert til að efla veiðistofna, ekki aðeins taka úr þeim eins og er algengt hérlendis.
Fræðsla (12/90)
Félagsmenn SKOTVÍS eiga að leggja stund á gildruveiðar á mink. Það er ágæt heilsubótarganga að vitja um minkagildru. SKOTVÍS þarf auðvitað að sjá félagsmönnum fyrir fræðslu um slíkar veiðar.
Fjölga félögum á landsvísu og hafa fræðslu og kynningarfundi á vegum SKOTVÍS, senda út á streymivef og gera mönnum kleyft að senda fyrirspurnir inn til fyrirlesara í tp eða á bloggi.
Endurmenntun, fræðsla og kynningar.
Fleiri fundir og blöð...
Fræðslustarf og öflugri hagsmunagæsla.
Upplýsingamiðlun og fræðsla til félagsmanna.
Nýliðafræðsla, brýna fyrir eldri veiðimönnum og þeim sem veiða stöpult að sýna bráðinni og landinu okkar virðingu.
Meiri áherslu á þjálfun veiðimanna á öllum sviðum.
Kynningar á starfsemi og fræðsla.
Fræðslu fyrir byrjendur og kynningu á starfsemi félagsins.
Gagnvirkar upplýsingar stjórnenda og félagsmanna, fleiri félagsmenn.
Sinna yngri veiðimönnum og uppfræða þá, það er auðveldara en að reyna að breyta þeim gömlu...
Veiðiréttur og veiðistjórnun (15/90)
Ég er búinn að vera í félaginu frá stofnun þess. Þegar veiðikortakerfið var sett á laggirnir gegn háværum mótmælum skotveiðimanna á fundi í Gerðubergi, var þeim lofað því af þáverandi umhverfisráðherra að veiðikortagjaldið sem sérstæð skattheimta á þessa tegund sportveiði, yrði nýtt í þeirra þágu, þ.e. að með rannsóknum og eftirliti yrði hægt að tryggja eðlilegt aðgengi veiðimanna að veiðilendum í sátt við landið, landeigendur og félagsmennina. Núna 25 árum síðar geta menn litið um öxl og metið hvað hafi áunnist í starfi félagsins…aðgengið hefur aldrei verið verra, nema gegn óhóflegu gjaldi svokallaðra"landeigenda" sem oftar en ekki eru sveitarfélögin, og á sér enga lagastoð, veiðtímabilið er örstutt og óhagstætt og fjandskapur ráðamanna gegn skotveiði og öllu sem tengist skotvopnum augljós. Það eru mörg ár síðan ég hætti að ganga til veiða, ég get einfaldlega ekki hugsað mér að borga sjálfskipuðum landeigendum stórfé til að fá leyfi til að skjóta rjúpu t.d. svo ekki sé talað um gæs á almenngi og afréttum, og það sama á við um mína veiðifélaga. Skotveiðar á Íslandi eru smátt og smátt að þokast í sömu átt og stangaveiðar, þ.e. að verða foréttindi ríkra útlendinga. Þetta fólk hefur engan áhuga á þvíað vera í skotveiðifélagi, nema síður sé.
Frá landnámi og fram til 1957 var almannaréttur til silungsveiða í vötnum í almenningum utan eignarlanda, nú þjóðlendum. Sjá kaflann ,,Um almenninga" í Jónsbók, einnig 5.gr. laga nr.112 1941 og breytingu á greininni 1957 og takið eftir því að Jónsbókarákvæðið er grunnurinn, fyrirmynd þýðingarmestu setningar Villidýralaganna núgildandi, sem er í 8. greininni: ,,Öllum íslenskum ríkisborgurum svo og erlendum......" Ég tel veiðimenn ættu að snúa sér að því að endurheimta þann almannarétt til veiða í fjallavötnum sem af var tekinn 1957 og byggja þá sókn á þessum sameiginlega lagagrunni. Til þessa þarf að mynda almannahreyfingu. Ég tel að það væri mjög verðugt verkefni fyrir SKOTVÍS að taka þátt í þeirri baráttu og leggja til hennar áratuga reynslu sem byggst hefur upp hjá félaginu. Slík samvinna skotveiða og stangaveiða myndi vafalaust styrkja og efla félagið. Ekki spillir að margir skotveiðimenn veiða einnig á stöng. En menn skyldu athuga að þetta er fyrst og fremst stórkostlegt almannaréttarmál því einstaklingar eru nú þegar að okra á silungsveiðileyfum í vötnum langt inni í þjóðlendum og gera það á grundvelli lagabreytingarinnar frá 1957. Með sama áframhaldi munu menn brátt fara að rökstyðja ágengni á þjóðlendurnar með tilvísun í fyrirkomulag silungsveiðanna.
Fallið verði frá þeirri hugmynd að menn geti farið án eftirlitsmanns til hreindýraveiða.
SKOTVÍS vinni í að hreindýraleiðsögumenn verði óþarfir.
Aðgangur veiðimanna að löndum og styðja aðildarfélög í að koma upp æfingaaðstöðu.
Koma í veg fyrir takmarkanir á veiðum í þjóðgörðum.
Vinna að því að magnveiðar heyri sögunni til. Sala á villibráð verði bönnuð.
Betra eftirlit með veiði á ökutækjum í rjúpnaveiði og fjölgun landsvæða í hreindýraveiði og leyfi til að sleppa akurhænum, fashönum og orrum á Íslandi.
Opna friðlandið á suðvesturlandi fyrir rjúpnaveiðum.
Kannað verði fyrir alvöru um möguleikann á því að leyfa veiðar á hrossagauk.
Leyfa rjúpnaveiðar og afnema bann við svartsfuglsveiðum sem er að koma.
Ekki láta Svandísi Svavars stoppa veiðar á svartfugli.
Útrýma mink á Íslandi og láta Framsóknarflokkinn borga fyrir það. Berjast gegn fleiri friðlöndum og þjóðgörðum. Lengja rjúpnatímabilið og leiðrétta ruglið með styttingu veiðitíma svartfugls. Að það meigi aka um alla þá slóða sem eru um óbyggðir Íslands.
Berjast hatrammlega gegn allskonar veiðibanni, sérstaklega þar sem fæðuskortur er meinið og alls ekki að minnka veiði á ref og mink.
Breyting á fyrirkomulagi rjúpnaveiða þannig að fólk sem vinnur um helgar hafi líka möguleika á að halda til veiða. T.d. er hægt að koma upp einhverskonar tölvukerfi þar sem skotveiðimenn geta bókað inn þá daga sem þeir ætla að halda til veiða áður en tímabilið hefst og geta þá valið sér ca. 10-12 daga sem möguleika. Kerfið loki svo fyrir skráningu daginn áður en tímabil hefst. Til að vera löglegur á veiðislóð þarftu svo að vera með útprent af bókun þinni + skotveiðiskírteini + veiðikort til að vera löglegur og eftirlitsaðilar geta þá flett upp bókuninni til að kanna hvort hún stemmi við kerfið. Með þessu er hægt aðstýra því hversu marga veiðidaga hver og einn skotveiðimaður fær og jafna þannig út veiðidaga meðal veiðimanna í stað þess að sumir eru fastir í vinnu 24 helgar á tímabilinu á meðan aðrir ganga til veiða alla daga sem veiðar eru leyfðar.
Skotæfingasvæði (6/90)
Meiri samvinnu við nágrannaskotíþróttafélög, s.s. SR. Það vinnst ekkert með ríg og þrasi. 
Hlúa vel að skotsvæði félagsmanna á Álfsnesinu.
Stækkun á skotvellinum á Álfsnesi svo fleiri geti æft sig þar.
Koma upp aðstöðu og eða leigu á mismunandi byssutegendum í þar til gerðu húsi.
1000m skotbraut.
Virkja samstarf eða halda keppni á milli skotfélaga á landinu.
SKOTVÍS á réttri leið (25/90)
Vinna gott starf sem halda þarf við til framtíðar.
Félagið verði áfram leiðandi í fræðslu og upplýsingamiðstöð fyrir skotveiðimenn.
Berjast fyrir réttindum veiðimanna sem þið og hafið gert.
Hafa eins ódýrt og mögulegt er að stunda allar skotæfingar eins og hefur verið kemur öllum vel og halda áfram að tala okkar máli útávið. Þið standið ykkur vel.
Er mjög ánægður með það sem SKOTVÍS er að gera fyrir veiðimenn. Þarf að halda áfram að berjast í því að styrkja félagið með því að fá fleiri meðlimi. SKOTVÍS mætti vera aðeins háværari rödd en það kemur með fjölgun meðlima.
Ég er mjög ánægður með SKOTVÍS af öðru leiti.
Ég er ánægður með félagið og finnst það sinna verkefninu ágætlega.
Finnst félagið vera á réttri leið og hefur staðið sig vel.
Frábært að hvetja til skotæfinga áður en veiðitímabilið hefst með öllum tiltækum ráðum. Vinna í því faglega og málefnalega að veiði á rjúpu verði sögð í lagi (geri mér grein fyrir stofnstærð) fagleg umræða getur ekki skaðað. Virðing fyrir bráð og náttúru einkunnarorð félagsins :-)
Vera vökulir gagnvart stjórnvöldum, sem þið reyndar eru.
Vera áfram með öflugan miðil í tölvu formi eða blaði.
Tímaritið er frábært, áfram með það. Mætti svo vera öflug fréttaveita á netinu í tengslum við veiðimál. Æfingasvæðið (SKOTREYN) er gott, sé ekki ástæðu til að breyta því...
Það sem af er eruð þið á góðu róli, það er ekki hægt að framkvæma allt í einu, gangi ykkur sem best.
Standið ykkur ágætlega. Það ætti að sameina veiðikorta batteríið og SKOTVÍS.
Ný stjórn kom inná sviðið með nokkrum látum - Miklar og góðar hugmyndir frá mjög svo frambærilegu fólki. Mér finnst sýnileiki og athugasemdir SKOTVÍS kannski aðeins hafa dalað. Þó gerði SKOTVÍS vel í því þegar svartfuglatímabilið var stytt en það vat stytt engu að síður - Sýnir kannski meira gerræðislegastjórnun umhverfismála á Íslandi frekar en ódugnað SKOTVÍS.
Mér finnst SKOTVÍS vera á góðri leið og hafa unnið mjög gott starf. SKOTVÍS mætti halda úti virkari heimasíðu og reyna jafnvel að vera meira áberandi á viðburðum og koma sér að í fjölmiðlum, ef hægt er. Annars er ég bara mjög þakklátur fyrir óeigingjarnt starf þeirra sem sitja í og vinna fyrir stjórn SKOTVÍS.
Mótstaða gegn fanatískri náttúruvernd, auka þekkingu almennings á veiðum í nútíð og framtíð. Annars er ég sáttur við störf félagsins hingað til.
Halda áfram á þeirri góðu braut sem upplýsingaveita SKOTVÍS hefur þróast í.
Halda áfram góðu starfi.
Halda áfram góðu starfi.
Halda áfram góðu verki.
Halda áfram því góða starfi sem er verið að vinna að.
Halda áfram því góða starfi sem rekið er af klúbbnum, einnig fyndist mér sniðugt ef SKOTVÍS tæki sig til og héldi byrjendanámskeið í hreinsun og meðferð skotvopna fyrir þá sem eru að útskrifast af vopnaleyfisnámskeiði, tilvalið til að fá nýja meðlimi líka:-)
Haldið ykkar striki. Þið eruð að gera góða hluti. Áfram SKOTVÍS!
Hafa bara staðið sig nokkuð vel.
Tags: veiða, mér, hefur, veiðimanna, hafa, skotvís, gegn, koma, verði, vera, áfram, þið, halda
You are here: Home