Samantekt ráðstefnu - Traust og Samstarf

skotvis radstefna 2013Skotveiðifélag Íslands - SKOTVÍS stóð nýlega fyrir ráðstefnu um rannsóknir og stjórnun villtra dýrastofna (e. Wildlife Management) í samstarfi við Umhverfisstofnun þann 21. mars s.l. [sjá dagskrá hér]. Á ráðstefnunni kynntu SKOTVÍS, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun framtíðarsýn sína í rannsóknum og stjórnun villtra dýrastofna, auk þess sem fjöldi innlendra og erlendra fyrirlesara héldu athyglisverð erindi um mál er snerta stjórnun villtra dýrastofna.

Meginniðurstaða ráðstefnunnar er að traust milli veiðimanna, yfirvalda og annarra hagsmunaaðila
sé nauðsynleg forsenda fyrir árangri í rannsóknum og stjórnun villtra dýrastofna.

Upptökur af erindum má finna [hér]: ATHUGIÐ, upptökur af ávarpi ráðherra og inngangserindum Elvars Árna Lund, Jón Geirs Péturssonar og Kristínar Lindu Árnadóttur eyðilögðust og því ekki hægt að birta þær hér, en erindi Jón Geirs og Kristínar Lindu er hægt að skoða á glærum viðkomandi fyrirlesara.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra setti ráðstefnuna með þeim orðum að til stæði að marka málaflokknum stefnu og minntist ráðherra á að von væri á skýrslu innan fárra vikna frá nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra sem fælu í sér tillögur um framtíðarskipan þessa málaflokks.

Formaður SKOTVÍS, Elvar Árni Lund, kallaði eftir stefnumótun í málefnum veiða og stjórnun villtra dýrastofna og fór yfir hugmyndir félagsins um skipulag veiðistjórnunar, sem byggja að verulegu leyti á svæðisbundnum samstarfsvettvangi (svæðisráða) með aðkomu veiðimanna, landeigenda og náttúrustofa auk Náttúrufræðistofnunnar Íslands og Umhverfisstofnunar. Leggja þarf áherslu á að fjallað sé sérstaklega um stjórnun villtra dýrategunda við undirbúning friðlýsinga og þjóðgarða. 

Jón Geir Pétursson [glærur], skrifstofustjóri skrifstofu landgæða hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fjallaði um sjálfbærniviðmið, stjórnkerfi nýtingar og aðkomu frjálsra félagasamataka á borð við SKOTVÍS til að ferlarnir yrðu sem skilvirkastir.

Kristin Linda Árnadóttir [glærur], forstjóri Umhverfisstofnunar greindi frá niðurstöðum greiningarfunda sem UST stóð fyrir veturinn 2010-2011, þar sem farið var yfir málin með hagsmunaaðilum sem tengjast veiðum. Í máli Kristínar kom skýrt fram að viðhorf skotveiðimanna eru almennt í þá veru að borin sé virðing fyrir náttúrunni og að stundaðar séu sjálfærar veiðar og að óskað væri eftir meira samstarfi.  Kristín taldi upp mörg samstarfsverkefni SKOTVÍS  og UST í gegnum tíðina og nefndi í því sambandi Dúfnaveisluna, Láttu ekki þitt eftir liggja, áróður um hóflegar veiðar, skotpróf o.fl..

Kristinn Haukur Skarphéðinsson [glærur][upptaka], sviðsstjóri dýrafræðisviðs Náttúrufræðistofnunar Íslands fór yfir breytingar sem hafa átt sér stað á síðustu öld m.t.t. nytja og núverandi áherslur á sjálfbærar veiðar til eigin nota. Leggja þarf miklu meiri áherslu á að fylgjast með þróun búsvæða en gert er í dag til að tryggja viðgang stofna, sérstaklega þar sem Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum þar að lútandi.

Gabor von Bethlenfalvy [glærur][óheimilt að birta upptöku], nature policy manager hjá FACE (samtök evrópskra skotveiðifélaga) fór yfir hlutverk samtakanna og hvernig evrópulöggjöf hefur haft áhrif á stjórnun villtra dýrastofna, t.d. fuglatilskipunina og búsvæðatilskipunina og hvernig hún mun móta framtíð skotveiða. Í aðildarviðræðum við ESB er mikilvægt að tilgreina hvaða sérstöðu Ísland hefur sem eyríki samanborið við meginland Evrópu og fór Gabor yfir nokkur dæmi hvaða áhrif aðild myndi hafa á veiðar hér á landi.

Tomas Willebrand [glærur][upptaka] frá Hedmark University Noregi hefur áður komið til Íslands og veitt ráðgjöf í tengslum við skipulag rannsókna og veiðistjórnunar á rjúpu þegar rjúpnaveiðibann ríkti á árunum 2003 og 2004. Tomas fór yfir skilgreiningar á hugtaking "Stjórnun villtra dýrastofna" (e. Wildlife Management) og hvernig stjórnunaraðferðir eru háðar þekkingarstigi og aðkomu hagsmunaaðila með "heilbrigðri" blöndu af ágreiningi og samkomulagi, þ.e. með aðhaldi og stuðningi.

Hreiðar Valtýsson [glærur][upptaka], frá auðlindasviði Háskólans á Akureyri fór yfir aðferðarfræði við stjórnun fiskistofna og bar saman að hve miklu leyti væri hægt að nýta þær aðferðir við stjórnun villtra dýrastofna. Farið var yfir fjölmargar gerðir af veiðifyrirkomulagi sem gætu nýst við mismunandi aðstæður auk þess sem aðkoma veiðimanna (sjómanna) var reifuð.

Rán Þórarinsdótir [glærur][upptaka], frá náttúrustofu austurlands fjallaði um búsvæði hreindýra á austurlandi og hvernig breytingar á bithögum hefur haft áhrif á útbreiðslu þeirra og þarafleiðandi stjórnun stofnsins með veiðum. Í erindinu var farið vel yfir hvernig veiðistjórnun tekur mið af ástandi bithaga og tekið nýlegt dæmi um flutning dýra frá árinu 2009 milli ákveðinna svæða.

Seinna erindi Tomas Willebrand [glærur][upptaka] fjallaði um hvenær veiðar byrja hafa veruleg áhrif á viðgang stofna og tók dæmi um nokkrar breytur í stofnstærðarlíkani fyrir rjúpu og áhrif þeirra (grouse dynamics) á stofnstærð yfir árið. Í erindinu kom fram að ungaframleiðsla væri almennt ekki þéttleikaháð og að íslenski rjúpnastofninn væri sérstakur að því leyti að ungaframleiðsla væri ekki sveiflukennd ólíkt stofnum annarsstaðar. Breyting hefur orðið á viðhorfi meðal fræðimanna þar sem þeirri tilgátu er hafnað að veikir einstaklingar yrðu annaðhvort afræningjum að bráð eða náttúrunni og því skiptu veiðar ekki máli. Nýtt viðhorf væri að hægt væri að stjórna stofnstærð bráðar með því að stjórna stofnstærð afræninga. og fór m.a. yfir niðurstöður rannsókna með rjúpum sem voru merktir með sendum. Þær rannsóknir sýndu m.a. að veiðar valda viðbótarafföllum á veiðitíma, en afföllin virðast ekki minnka eftir að veiðitíma lýkur þar sem afrán eykst á móti. Jafnvægi virðist vera náð ef veiðar takmarkast við 15% af stofni. Tomas fjallaði einnig um náttúrulegan dauða, nauðsyn nýliðunar, dreifingu og flutning rjúpna milli svæða í þessu ferli, sérstaklega kvenfugla.

Per E. Ljung [óheimilt að birta glærur/upptökur] frá sænska landbúnaðarháskólanum (Department of wildlife, fish and environmental studies) fjallaði um mannlega þáttinn, svið sem hefur ekki verið mikið í umræðunni, en er jafnvel talin vera mesta áskorunin við að ná tökum á stjórnun villtra dýrastofna, þ.e. hvernig fólk hugsar, hvað það gerir og hvað drífur það áfram. Umræða á villigötum getur einnig verið hættuleg villtum dýrastofnum.

Ólafur K. Nielsen [glærur][upptaka],  vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands fór yfir sögu rjúpnaveiða og hefðir í tengslum við veiðarnar allt frá landnámi, hvernig veiðidögum hefur verið breytt með löggjöf í gegnum tíðina, hvenær menn hófu að nýta sér aðferðir vísinda til veiðiráðgjafar, hnignun rjúpnastofnsins og breytt viðhorf í kringum aldamótin. Í máli Ólafs kom fram að affallaþátturinn hefur aukist undanfarin ár og að jákvæð þróun hafi átt sér stað meðan friðununar naut við árin 2003 og 2004. Í kjölfar friðunaráranna breyttist veiðistýringin með innleiðingu sölubanns, sem hafði talsverð áhrif á sóknina og gerði það að verkum að affallaþáttur veiða hélst á bilinu 9-12% í stað allt að 30% fyrir breytingu. Mat Ólafs er að stjórntækin hafa virkað en markmiðum um að ná niður heildarafföllum hafa ekki náðst. Helsta verkefni veiðistjórnunar í náinni framtíð er að fá úr því skorið hvernig hægt er að skýra viðbótarafföll sem nú virðast tengjast veiðum ef marka má áhrif friðunar á árunum 2003 og 2004.

Torstein Storaas [glærur][upptaka] frá Hedmark University Noregi sagði frá athyglisverðu og metnaðarfullu verkefni í Noregi, þar sem menn leituðust við að þróa veiðistjórnunarlíkan fyrir rjúpuna og útskýra helstu breytur í slíku líkani með samstarfi yfirvalda, fræðimanna, veiðimanna og landeigenda. Stór hluti verkefnisins var unnið í sjálfboðavinnu og var samfellt lærdómsferli þar sem stjórnunaraðferðir tóku breytingum á þeim tíma sem verkefnið var unnið. Mikilvægar niðurstöður voru m.a.

  • Vegna ferðalaga rjúpunnar, þurfa stjórnunarsvæði að ná yfir > 500 km2 til að svæðisbundnar aðgerðir hafi áhrif.
  • Þéttleiki rjúpunnar á varptíma hefur ekki áhrif á fjölda unga.
  • Þéttleiki rjúpunnar virðist ekki háður gróðri, heldur hversu vel eldri rjúpum á viðkomandi svæði reiðir af.
  • Afrán úr hreiðrum hefur aukist á síðustu áratugum úr 20% í í 60% fyrir ákveðnar fuglategundir, aðallega vegna rauðrefs. Ástand ekki vitað fyrir rjúpu.

Guro Thane Lange [glærur][upptaka] frá norska skot- og stangveiðfélaginu kynnti starfsemi félagsins NJFF sem hefur verið starfrækt síðan 1871, rakti þróun þess, skipulag og hlutverk við stjórnun villtra dýrastofna. Félagið telur 120.000 félagsmenn og rekur umfangsmikla starfsemi með 40 starfsmönnum og sér um ákveðin verkefni, t.d. menntun veiðimanna.

Að loknum fyrirlestrum fóru fram fróðlegar panelumræður þar sem fyrirlesarar sátu fyrir svörum og svöruðu spurningum úr sal [sjá upptökur].

Arne Sólmundsson, varaformaður SKOTVÍS lauk síðan ráðstefnunni með samantekt erinda og þakkir til þátttakenda [upptaka]. Í máli Arne kom fram að skotveiðimenn hefðu og myndu leggja sitt af mörkum til að stjórnun villtra dýrastofna myndi þróast í rétta átt. Það hefði t.d. tekið 15 ár að innleiða hugmyndir SKOTVÍS um veiðikortagjald (veiðikortasjóður) sem átti að renna til rannsókna, en fyrstu hugmyndir félagsins voru kynntar í mars 1979 [sjá hér, bls. 7-8]. Þessar hugmyndir urðu hinsvegar ekki að veruleika fyrr en með tilkomu villidýralaganna 1994. Tíminn er naumur og innleiðing góðra hugmynda með þátttöku veiðimanna mætti ekki taka svona langan tíma í framtíðinni. Þekking án miðlunar er einskins virði og fræðimenn yrðu að miðla betur af þekkingu sinni og það mætti ekki vera einstreymisloki á þekkingarmiðlun frá fræðimönnum eingöngu, því nauðsynlegt væri að nýta einnig þekkingu veiðimanna. Þróa þyrfti samstarfsvettvang fræðimanna, veiðimanna og náttúruverndarsamtaka til að rannsóknum yrði beint markvissara í þágu stjórnunar á villtum dýrastofnum.

Tags: hefur, þar, íslands, hægt, fjallaði, veiðar, yfir, hvernig, væri, fór, stjórnun, áhrif, villtra
You are here: Home