Veiðidellan hefur fylgt mér frá barnsaldri

 58-61-1.jpg

Hver voru þín fyrstu kynni af SKOTVÍS?
Þau voru á stofnfundi félagsins sem haldinn var í Árnagarði í september 1978. Ég var þá dálítið að hugsa um stöðu landlausra skotveiði­manna því um þetta leyti voru stór­tækar rjúpnaskyttur að taka á leigu og einoka heilu fjöllin fyrir norðan þar sem ég þekkti til. Ég var hræddur um að einstaklingar væru þarna að ráð­skast með almenninga, sem ættu að vera öllum opnir til fuglaveiða sam­kvæmt 5.gr. þágildandi veiðilaga. Hins vegar átti ég engan þátt í undirbúningi að stofnun SKOTVÍS og vissi ekkert um þau mál fyrr en ég heyrði stofn­fundinn auglýstan, mætti þar og var reyndar kosinn í fyrstu stjórn félagsins. Síðan hef ég verið meira og minna viðriðinn félagið og stundum verið í stjórn þess.
Hvað telur ú að séu merkustu áfangarnir í sögu SKOTVÍS?
Þá verður nú fyrst að telja sjálfa stofnun félagsins, sem bar upp á hár­réttum tíma er vaxandi átök voru um rétt manna til skotveiða á afréttum víða um land. Sumir landeigendur lýstu yfir eignarrétti sínum á víð­lend­um fjallasvæðum og sögðu jafnvel að fara ætti með réttinn til fuglaveiða eins og laxveiðiréttinn; landeigendur ættu að selja mönnum aðgang. Reynt var að fylgja þessu eftir og svo dæmi sé tekið þá var lögregla ítrekað send á eftir rjúpnaskyttum á Holtavörðuheiði á fyrstu árum SKOTVÍS. Komið var fram við veiðimenn sem stöðvaðir voru eins og um óumdeilt eignarland væri að ræða. Þessu linnti ekki fyrr en menn úr stjórn félagsins gengu á fund dómsmálaráðherra og bentu á að sönn­unarbyrðin hvíldi á þeim sem þætt­ust eiga landið og nú yrði annað­hvort að láta reyna á málin fyrir dóm­stólum eða að hætta þessari áreitni við skotveiðimenn. Síðan hefur verið litið á Holtavörðuheiðina sem almenning en að því mun koma að Þjóðlendu­nefnd úrskurði um svæðið. Það var mikið lán að sú stefna var tekin í upp­hafi að verja almannarétt til veiða utan eignarlanda en þær raddir heyrðust í fyrstu, þótt fáar væru, að félagið ætti ekki að standa í deilum um land­réttarmál heldur semja við bændur um veiðirétt. Ég man að meira að segja eftir því að vitnað var til Stanga­veiði­félags Reykja­víkur sem góðrar fyrir­myndar í þess­um efnum. Auðvitað munum við í vaxandi mæli þurfa að semja um veiði­rétt, það er ekkert nýtt. Við höfum alltaf þurft að fá leyfi til skot­veiða á eignarlöndum og höfum aldrei mót­mælt því. En félagið hefur varið almanna­réttinn til skotveiða utan eignar­­landa og staðið þar á grunni sem frábærlega framsýnir menn lögðu með veiðilögunum 1954.
Þú hefur verið fulltrúi SKOTVÍS í svo­kallaðri villidýranefnd. Hvað viltu segja um þær breytingar sem orðið hafa?
Villidýranefndin kom til með núgildandi veiðilögum frá 1994. Ég verð nú að játa að mér fannst á sínum tíma ekki mikið til þeirra laga koma vegna þess að ekkert var tekið á ágreiningsmálum um veiðirétt. Það var hinsvegar gert á öðrum vettvangi eins og menn vita. Ég hef verið fulltrúi SKOTVÍS í nefndinni frá upphafi og allt þar til síðustu mánaðarmóta er ég hætti. Það gekk á ýmsu í starfi nefnd­ar­innar fyrstu árin er fulltrúar ólíkra hags­­muna tókust á, t.d. við samningu reglu­­gerða. Ekki voru heldur allir skot­­veiði­menn hrifnir af framgöngu full­trúa síns á þessum vettvangi. Ég var m.a. sakaður um að standa að óþarfri gjald­töku af skotveiðimönnum, styttingu veiðitíma og var jafn­vel kallaður sér­stakt handbendi land­eigenda. Allt jafn­aði þetta sig með tímanum enda nefndarstarfið auðvitað unnið innan þess ramma sem lögin settu því. Hvað svo sem um mína frammi­stöðu má segja þá er enginn vafi á að það að eiga fulltrúa á þessu sviði skiptir miklu fyrir stöðu SKOT­VÍS. Engum óbrjáluðum manni sem bæri hag félagsins fyrir brjósti gæti komið til hugar að segja félagið úr þessu samstarfi við stjórn­völd. Annars stefni ég að því að gera grein fyrir starfinu í nefndinni undan­farin ár í fréttabréfi SKOTVÍS á næstunni.
Hvað vilt þú segja um lögin um þjóðlendur og frelsi manna til skotveiða?
Mér finnst rétt að minnast á Gerðu­bergsfundinn, sem SKOT­­VÍS boðaði til með fulltrúum allra þingflokka árið 1986. Á þeim fundi var sett fram sú hugmynd að höggvið yrði á deilurnar um mörk eignarlanda og almenninga með laga­setningu. Þingmenn voru m.a. spurðir hvort hugsanlegt væri að setja mörkin milli svæða við ákveðnar hæðarlínur. Pólitíkusarnir voru auð­vitað sleipir og veittu engin ákveðin svör en það er enginn vafi á því að þessi fundur var mjög gagnlegur, hann fékk menn til að hugsa um rétt þéttbýlisbúa – næstum allrar þjóðarinnar - til landsins og styrkti stöðu félagsins útávið. Nú er verið að leysa úr þessum málum á grundvelli laganna um þjóðlendur og það er stórkostlegt að hugsa til þess að innan fárra ára verði deiluefninu eytt. Þó verður að muna að “veldur hver á heldur”. Forsætisráðherra á hverjum tíma mun fara með forræði þjóðlendna og almannarétti þarf að halda á lofti á öllum tímum.
Ég tel nokkra galla vera á veiði­lögunum og stærstan það grund­­­­­­vallaratriði að samkvæmt lögun­um er allt friðað en umhverfisráðherra getur aflétt friðun, þ.e.a.s. leyft veiðar innan þröngra ramma. Andi laganna segir því eiginlega að veiðitímar séu undan­tekningarástand. Fyrst menn vildu setja rammalög þá hefðu átt að vera í þeim heimildir til að aflétta friðun á fleiri tegundum en nú er og mögulegir veiði­tímar lengri, þ.e.a.s. rammarnir utan um stjórn­un ráðu­neytis­ins á veið­un­um þyrftu að vera rýmri bæði hvað varða fjölda tegunda og lengd veiðitíma. Svo dæmi sé tekið þá telja sumir að breyta eigi rjúpnaveiði­tímanum þannig að veiðar hefjist fyrr en nú er, t.d. 1. október. Þetta er ekki hægt að gera án þess að breyta lög­unum, rammi lag­anna er eins og menn vita 15/10 – 22/12. Hið jákvæða við lögin var myndun veiðikortasjóðs sem stendur undir rannsóknum á veiði­stofnum og jafnframt veiði­skýrslurnar sem menn skila inn um leið og veiði­kort er endurnýjað. Einnig má nefna ákvæði um veiðtæki og veiði­aðferðir sem eru framför frá eldri lögum. Nú er komin 10 ára reynsla á þessi lög og ég held að tímabært sé að endurskoða þau og gera á þeim nokkrar breyt­ingar. En þessi lög hafa reynst skot­veiði­mönn­um þýðingar­­mikil. Með þeim er lögfest samráð stjórnvalda við samtök okkar um allt er lýtur að stjórnun veiða. Þá er alveg ljóst að þetta fyrir­komulag að skotveiðimenn mynda rann­sóknarsjóð auk þess sem þeir byggja upp gagna­safn um fuglastofna með veiði­skýrsl­unum, gefur okkur ómetanlegt vægi í samfélaginu.

58-61-4.jpg

Margir hafa áhyggjur af því að veiðarnar verði æ tæknivæddari. Hefur þú áhyggjur af stöðu mála í þessum efnum?
Tæknin er stórkostleg en það geng­­ur ekki að beita henni hugs­unarlaust á náttúruna, dæmi um illar afleiðingar þess eru sjálfsagt ótelj­andi. Í veiðilögunum er kveðið skýrt á um hvaða tækjum og veiðiaðferðum má beita við skotveiðar við erum því að mínu mati ekkert að missa tæknina úr böndunum. En tæknin er ekki bara í full­komnum byssum og öðrum veiði­tækjum heldur einnig í farartækjum. Nú aka menn hiklaust til fjarlægra staða á hálendinu m.a. til að sækja þangað rjúpur. Jafn­framt þessari bættu ferða­tækni hefur fjöldi skotveiðimanna aukist. Álagið á náttúruna fer vaxandi og við eigum þar hlut að máli, en ekki síður ferða­þjón­ustur ýmsar sem bruna með við­skipta­vini sína upp um fjöll og firnindi á öllum árs­tímum. Mestu máli skiptir að skot­veiðimenn sjálfir hafi þessi mál til stöð­ugrar athugunar, leggi mat á ástandið, hafi frumkvæði að úr­bótum þegar þeirra er þörf en láti ekki taka sig í bólinu hvað þetta varðar.
Nú eru miklar hugmyndir uppi um stofnun þjóðgarða. Hver er skoðun þín á þessum málum?
Ætli það sé ekki ljótt að vera á móti þjóðgörðum? Þeir eru svo “gott mál”. En þegar ég skoða gamalt kort Náttúruverndarráðs, sem sýnir friðlönd og þjóðgarða á landinu, þá finnst mér ekki bráðvanta fleiri slík svæði. Verði af hugmyndum um þjóð­garða á hálendinu munu væntan­lega skerðast að sama skapi almenningar sem nú eru opnir til skotveiða. Það er alvarlegt mál því allt land í byggð er eignarrétti háð, nema menn hugsi sér að skotveiðar verði heimilar í hálendis­þjóðgarði. Það gæti verið lausn en eftir er að sjá að samkomulag verði um það. Ég hef ekki gleymt því hve fljótt Náttúruverndarráðið sálaða var að láta setja skilti sem bannaði fuglaveiðar við brúna yfir á Geitlandið, eftir að Hæsti­réttur hafði dæmt að svæðið væri al­menn­ingur. Áður hafði ráðið lagt bless­un sína yfir veiðar “landeigenda” í frið­landinu og fallist á að rjúpnaveiðar þeirra brytu ekki gegn því ákvæði frið­lýs­ingarinnar að ekki mætti trufla þar fugla­líf. Ég á ekki von á að viðhorf friðunar­sinna í lykil­stöð­um hafi mikið breyst. Stjórn félagsins á ábyggilega mikið verk fyrir höndum við að gæta hags­muna skotveiðimanna í sambandi við þessar þjóðgarða­hug­myndir.
Hver telur þú að ættu að vera helstu baráttumál SKOTVÍS á næstu árum?
Þau held ég að verði mikið til þau sömu og verið hafa, réttur al­menn­ings til veiða. Félagið mun auð­vitað áfram þurfa að fylgjast með og hafa áhrif á löggjöf. Þar koma m.a. þær hug­myndir um þjóðgarða sem ég nefndi áðan. Sjálfsagt vex þörfin fyrir kynn­ingarstarf með árunum en stjórn félagsins hefur reyndar staðið sig mjög vel í kynningarmálum undanfarin ár.
Segðu okkur hvernig stóð á því að þú gerðist skotveiðimaður og hver þín fyrstu kynni voru af skot­veiðum.
Stjúpi minn, Andrés Magnússon frá Arnþórsholti í Lunda­reykja­dal, skaut endur, rjúpur og fleiri fugla. Sem lítill strákur varð ég óskaplega spenntur fyrir þessum veiðiskap og alveg stað­ráðinn í að eiga sjálfur marg­ar og fallegar byssur þegar ég yrði stór. Ég byrj­aði ungur að fylgja karlinum á fugla­veiðar og við bönuðum líka ansi mörg­um minkum. Ég fór auðvitað snemma að fara sjálfur til veiða með 22 cal riffil. Svo var legið í öllum fáan­legum veiði­bókum og dreymdi mig um veiði­mennsku í óbyggðum Kanada og Alaska. Þótt ég hafi aldrei í raun­veru­leikanum komið til þessara drauma­landa og heldur ekki átt margar byssur, þá hefur veiðidellan fylgt mér frá barns­aldri.
Ef þú sætir í dag í stól um­hverfis­ráð­herra hvaða málum myndi þú þá helst beita þér fyrir?
Nú þykir mér heldur stórt spurt, ég á erfitt með að sjá mig í slík­um stóli enda löngu sannað að ég hef ekki snefil af flokkspólitískum hæfi­leik­um. En ef ég reyni að svara þessu af alvöru þá myndi ég sem um­hverfis­ráðherra beita mér mjög fyrir upp­græðslu landsins bæði með skógi og öðrum plöntum, og leita sátta um það mál - sátta um gróið land en ekki eyðimerkur. Það er auðvitað nú þegar verið að gera mikið á þessu sviði og veitir ekki af, því jarð­vegs­tapið er í heild gríðarlegt. Menn þurfa ekki að fara langt upp á hálendi til að sjá það. Hér ætti auðvitað að vera skógur því landið er í barr­skóga­­beltinu. Mig dreym­ir þó ekki um að landið verði þakið 30 m háum barr­skógi, en við þurfum skóg til að brjóta vind og skapa skjól fyrir annan gróður, dýr, fugla og mann­fólk. Einmitt það að landið er næstum því skóg­laust felur í sér stór­kostlega mögu­leika til að skipu­leggja og rækta réttar tegundir á rétt­um stöðum. Mín skoðun er sú að við eig­um að þora að breyta umhverfinu til hins betra. Þeir sem halda því fram að við getum lifað í landinu og full­nægt þeim kröfum sem vestrænt nútíma­fólk virðist telja eðli­legar án breyt­inga, fara með bull. Óhjá­kvæmi­lega erum við alltaf að breyta um­hverf­inu. Sumar þær breyt­ingar eru neikvæðar og við þurfum að bæta úr því þar sem við getum; valda jákvæðum breyt­ingum. Svo er náttúr­an sjálf auðvitað stöðugt að breyta sér. Þótt menn hafi nú komið sér upp hug­takinu gróðurhúsaáhrif og þykist vita allt um ástæður þess að e.t.v. eru að verða veðurfarsbreytingar á jörð­inni, þá er vitað að stórkostlegar breyt­ingar hafa orðið í hitafari norður­hvels jarðar­ þúsundum ára áður en áhrif mannsins komu til og e.t.v. ættu íslenskir plönturasistar að rifja það upp að á landinu má finna stein­­gerðar leifar plantna sem nú þrífast einungis mun sunnar á hnett­inum.
Ef ég svo hefði kjark til þess að ganga erinda skot­veiðimanna í ráð­herrasætinu, þá myndi ég beita mér fyrir því að komið yrði upp hrein­dýra­hjörðum víðar á landinu en nú er þar sem slíkt þætti hent­ugt . Skógarfuglar gætu svo orðið við­fangs­­efni um­hverfis­ráðherra næstu kynslóðar.
Nú, ef svo vildi til að ég hefði tíma afgangs frá þessum þarfa­verkum þá myndi ég kannski rexa svolítið út af aðstöðu almennings á tjaldstæðum á helstu ferða­­manna­­­stöðum í landinu, sem meira eða minna hafa fælt frá sér innlennt ferðafólk. Þessir staðir eru yfirfullir af erlendum ferðamönnum – veri þeir velkomnir í hæfilegum skömmtum. En þeir virðast flestir vera í uppmælingu við að horfa á landið og þurfa því að fara snemma að sofa á kvöldin svo að þeir séu vel á sig komnir og sprækir á morgnana er þeir halda enn af stað að horfa á landið. Íslenskt fjölskyldufólk, sem ekki skilur nauðsyn þess að rífa sig upp fyrir allar aldir í sumarfríinu, vill hins­vegar hafa það skemmtilegt á kvöld­in, spjalla saman og jafnvel syngja, enda ekkert athugavert við það að njóta íslenskra sumarkvölda út í ystu æsar - langt fram á nótt. Ég myndi vilja að á þessum fjölsóttu stöð­um væri einnig kostur á tjald­stæð­um og skálaplássum fyrir fólk sem ekki er kvöldsvæft.
Ert þú búinn að skipuleggja ein­hverjar veiðiferðir nú í haust?
Já, við þrír félagar eigum jafn­mörg tarfaleyfi á svæði 8. Áætlað er að fara þangað til veiða um mán­aðar­mótin ágúst-september. Nú höf­um við hins vegar fengið bréf frá Hrein­dýraráði þar sem okkur er tjáð að mikil skerðing verði á veiðisvæðinu þar sem 3 stórir landeigendur hafi ákveðið að banna alveg veiðar á þeirra löndum. Það kann jafn­vel að fara svo að okkur verði endur­greidd leyfin og við beðnir um að sitja heima. Við þessu er víst ekki mikið að gera, land­eig­andi ræður sínu landi, en auð­vitað vonar maður að þetta verði leyst með sanngirni. Hreindýrin eru jú þjóðar­eign og ákvörðun um veiðikvóta þarf að taka með lögformlegum hætti.
Stjórn SKOTVÍS vill þakka Hauki fyrir hið mikla starf hans í þágu SKOTVÍS og setuna í villidýranefnd.

Tags: félagsins, hefur, skotveiðifélags, íslands, verið, skotvís, hafi, stjórn, haukur, brynjólfsson, upphafi, gullmerki, halda, einhverju, lið­sinni
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Viðtöl og frásagnir Veiðidellan hefur fylgt mér frá barnsaldri