Skaut kött á flugi

37-40-1.jpg
„Ég og Aðalsteinn bróðir minn fórum snemma að ganga til rjúpna. Ég fékk forláta Win­chester 22 riffil í fermingargjöf og veiddum við oft æði vel af rjúpunni. Þetta var allt nýtt heima, við seldum aldrei fugl. Það var um að gera að nýta skotin nógu vel, kappkefli var hvað við gátum náð mörgum rjúpum úr 50 skota pakka. Mest náði ég 47 rjúpum. Við höfðum þá aðferð að skjóta alltaf efstu rjúpuna fyrst. Það var ótrúlegt hvað við náðum mörgum með þessu móti. Einu sinni skaut ég rjúpu sem var efst í hópnum. Hún rúllaði í gegnum hópinn og á leiðinni rakst hún á aðra rjúpu. Sú rjúpa brást ókvæða við og hjó í hana um leið og hún rúllaði fram hjá, henni þótti þetta víst vera óþarfa átroðn­ingur. Þegar ég flutti að heiman varð þessi riffill eftir á Vaðbrekku. Ein­hvern veginn fór það nú svo að hann týndist en mér lék forvitni á að vita hvað í ósköpunum hefði orðið af honum og var svona af og til að spyrjast fyrir um hann. Fyrir einhverja til­viljun frétti ég af miklum byssu­safn­ara á Ólafsfirði. Einhvern tíma þegar ég var staddur þar fór ég í heimsókn til þess ágæta manns. Hann tók mér ljúfmannlega og leyfði mér að skoða safnið sitt. Þarna voru margir rifflar og nokkrir Win­chester 22. Ég kom þó fljótt auga á gamla riffilinn minn því hann hafði ýmis sérkenni, t.d. skrúfu á fram­skeft­inu. Ég þorði ekki að biðja byssu­safn­ar­ann um að fá að kaupa riffilinn en eftir að hafa skoðað hann í dágóða stund lagði ég riffilinn frá mér og þakkaði fyrir mig og kvaddi. Þá segir byssu­safnarinn: „Hvað er þetta, ætlar þú ekki að taka riffilinn með þér?“. „Hvað viltu fá fyrir hann“, spurði ég þá. „Taktu hann bara“, sagði safn­arinn, „ég veit hvernig það er að hafa upp á byssu sem maður er búinn að leita lengi að“. Mér hefur verið einstaklega hlýtt til þessa manns æ síðan“.
En ekki hafið þið skotið hreindýr með þessum riffli?
37-40-4.jpg „Skömmu eftir að ég eignaðist riffilinn fórum við að kaupa extra long skot og upp úr því fórum við að skjóta hreindýr. En auðvitað varð færið að vera gott og maður varð að gjöra svo vel að hitta vel. Það særðist aldrei dýr hjá mér þrátt fyrir að ég væri með caliber 22. Það má eiginlega segja að hreindýrin hafi verið við bæjardyrnar hjá okkur. Það tíðk­aðist á vorin eða í júní að skjóta eitt hrein­dýr. Hreindýrakjötið var kær­komið nýmeti eftir veturinn. Móðir mín sauð hreindýrakjötið niður í glerkrukkur og það var svo notað eftir hendinni, enda mikið lostæti. Við strák­arnir töluðum mikið um hreindýr og hreindýraveiðar. Meðal skemmti­legra kvista sem komu í heimsókn að Vað­brekku var Guðmundur Þor­steins­­son frá Lundi. Hann var Vopn­firð­ingur í húð og hár en kenndi sig við Lund í Lundarreykjadal en hann hafði verið ráðsmaður hjá ekkjunni sem þar bjó. Einhverju sinni var Guðmundur í heimsókn hjá okkur og var þá verið að segja veiðisögur. Aalsteinn bróðir var að segja frá því hvernig dýrin hefðu verið skotin á löngu færi og steypst steindauð til jarðar. Guð­mundur hlust­­aði á söguna með athygli en gat svo ekki haldið aftur af sér og greip frammi í fyrir Aðalasteini og sagði: „Ég get sagt þér eitt Aðalsteinn að ég á riffil og hann er bæði hrað­skeyttur, beinskeyttur og lang­skeytt­ur“. Eftir þessa yfirlýsingu setti menn hljóða og við hættum að segja veiði­sögur. Við höfðum hitt algjöran ofjarl okkar“.
Nú er búið að breyta skipulagi hrein­dýraveiðanna, leyfin eru nú seld á frjálsum markaði. Hver er skoðun þín á þessum breytingum?
„Að mér skilst stendur víst til að leggja núverandi Hrein­dýraráð nið­ur þannig að við vitum enn ekki hver verður lokaútkoman. Ég verð þó að segja að skipulags­breyt­ingar­nar á veiðunum voru til mikilla bóta því gamla fyrir­komulagið var alls ekki gott“.
Nú hafa verið töluverðar deilur um arðgreiðslur til bænda vegna tjóns sem hreindýrin valda á gróðri í löndum þeirra?
„Það sem skiptir höfuðmáli í þessum efnum er að regl­urnar séu skýrar og auðvelt sé að fara eftir þeim. Það má segja að það sé eðlilegt að bændur fái greitt fyrir hverja plöntu sem hreindýrin eyði­leggja. Sjaldnast er þetta þó mikið tjón sem betur fer. Ég tel því að það sé ekki mikill skaði þó hreindýrahjörð skemmi kannski 100 trjáplöntur af 100.000. Hvað varðar annað tjón af völdum hreindýra þá eyðileggja dýrin t.d. ekki girðingar, það er snjórinn sem sér um það. Annars er þetta tíma­bundið vandamál á meðan trén eru að vaxa. Þegar þau hafa náð ákveðinni hæð er þetta vandamál úr sögunni“.
Hvernig kanntu nú við þessa veiði­menn sem þú ert að aðstoða við veið­arnar?
„Þetta eru nánast undan­tekn­ingar­laust ljómandi veiði­menn og mikið til sömu mennirnir sem koma til mín. Ég verð að segja það að þessir menn taka veiðarnar mjög alvarlega og koma þeir iðulega vel undirbúnir til leiks. Ég get sagt þér sem dæmi að oft tíðkast að fá sér bjór að loknum veiðidegi. Einu sinni var ég með veiðimenn uppi á heiði og við vorum að búa okkur til heimferðar. Karl­arnir voru búnir að taka tappana af bjórflöskunum og ætluðu að gæða sér á veigunum en þá sáum við allt í einu hrein­dýra­hjörð. Karlarnir gerðu sér lítið fyrir og helltu bjórnum niður og tóku vopn sín og fóru á veiðislóð. Þetta voru menn að mínu skapi“.
Hvaða caliber telur þú Hákon að sé heppi­legast að nota við hrein­dýra­veiðar?
„Minnsta leyfilega caliberið er 243 og er það í sjálfu sér ágætis stærð. Menn verða að vanda sig og skjóta ekki af of löngu færi. Þá eru margir með caliber 308. Mestu máli skiptir þó að nota réttu kúlurnar. Það er mikilvægt að skjóta ekki í gegnum dýrið og skemma kjötið óþarflega mikið. 6,5 x 55 er t.d. mjög gott caliber til hreindýraveiða“.
Kemur andinn ekki iðulega yfir skáldið þegar það er á heiðum uppi og hreindýrahjarðirnar liðast um hagana?
„Jú, því get ég ekki neitað. Þetta ljóð orti ég t.d. að mig minnir árið 2000“.
Hreindýr
Uppi í grónum faðmi fjalla
ferskur blærinn strýkur hjalla.
Endurspegla ótal lindir
öræfanna kynjamyndir.
Stoltur hreinninn stendur vörð
um stóra hjörð.

Við háa kletta, hyldjúp síki
heiðarlandsins konungsríki.
Reikar frjáls um fjallasali
fögur hjörð um eyðidali.
Gengur létt um grænan svörð
og gróna jörð.
37-40-2.jpg
Hákon, þú myndir líklegast vera eini Íslendingurinn sem hefur skotið kött á flugi?
„Já, það er nú aldeilis saga að segja frá því. Þetta hefur lík­lega verið einhvern tíma upp úr 1968 en ég var í lögreglunni á Egils­stöðum á þessum árum. Starfsfólk Flugfélags Íslands hafði kvartað við okkur um grimman og illvígan kött, nánar tiltekið fress, sem hafði hreiðrað um sig í vörugeymslu flugfélagsins. Ég hafði gert nokkrar tilraunir til að ná í þennan kattarstegg en án árangurs. Eitt skiptið komst ég í sæmilegt færi við fressið en hann hafði komið sér fyrir í röri á gafli hússins. Um leið og ég ætlaði að taka í gikkinn tók hann undir sig mikið stökk og fór á mikilli ferð í boga í loftinu. Ég hæfði hann og hann steindrapst en tvö högl fóru hins vegar í brettið á bílnum“.
Nú varst þú Hákon áberandi í bar­áttunni fyrir verndun Eyjabakka. Hvers vegna var þetta mál þér svo hugleikið?
„Það má segja að ég sé fæddur og uppalinn þarna á öræfun­um. Ég gat hreinlega ekki hugsað mér að sjá þetta allt saman eyðilagt. Sú hugs­un var mér hreint út sagt óbærileg því ég hef átt svo margar ógleyman­legar stundir þarna við rætur Snæ­fells“.
Hvað viltu segja um úrskurð Um­hverfis­ráðherra?
„Eins og mál voru komin tel ég að með úrskurði sínum hafi ráðherrann komið mjög á móts við óskir okkar verndunarsinna, þannig að ég get ekki annað en verið ánægður“.
Nú eru hugmyndir uppi um að stofna þjóðgarð norðan Vatna­jök­uls. Hvernig líst þér á þær fyrir­ætlanir?
„Ég er bara nokkuð sáttur við þær hugmyndir. Ég get hins vegar ómögulega séð hvernig hægt er að sameina það að stofna þjóðgarð og hafa risastórar stíflur og raforkuver í honum miðjum. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér er það með öllu óskiljanlegt“.
En ef stofnaður verður þjóðgarður norðan Vatnajökuls þá verða veiðar væntanlega bannaðar á því svæði sem nú er verið að veiða hreindýr á, eða hvað?
„Það er ekkert vandamál, það má bara breyta lögunum, ríkis­stjórnin er vön því. Þeir þurfa hvort sem er að breyta þeim. Ég veit ekki betur en að Kringilsárranninn sé frið­aður. Það þarf því að aflétta þeirri friðun ef þarna á að byggja raforkuver og í leiðinni má þá breyta lögunum um þjóð­garða og leyfa veiðar í fyrir­hug­uð­um þjóðgarði norðan Vatna­jökuls“.
Þegar þetta blað var um það bil að koma út hófust hrein­dýra­veiðar. Við félagar erum á leið austur að hitta Hákon. Við hlökkum óstjórn­lega til því fátt er yndislegra en að stunda hreindýraveiðar á íslenskum öræfum. Einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að maður sé þátt­takandi í náttúrunni – ekki áhorfandi. Þá eru það mikil forréttindi að njóta leiðsagnar Hákons, fræðast um landið, söguna og auðvitað hreindýrin. Það er nefnilega þannig að Hákon Aðal­steinsson er ekki gestur á öræfum Austur­lands – hann er hluti þeirra. Tags: stunda, eins, hefur, margir, veiðar, segja, hákon, hákoni, hákons, sögur, veiði­ferð­um, náttúrunni, skemmti­legu, fólki, áhuga­verðu
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Viðtöl og frásagnir Skaut kött á flugi