Nær útilokað að veiðar skipti höfuðmáli fyrir afkomu rjúpunnar

Picture 11.jpg

Bann við rjúpnaveiðum á síð­asta­ ári hefur vægt sagt verið um­deilt. Rökin fyrir því voru að rjúpnastofn­inn væri í sögulegu lágmarki­ og skotveiðar eini þátt­ur­inn í afráni stofnsins sem menn hefðu beinlínis í hendi sér að stjórna. Umræðan um rjúpnabann­ið einkennd­ist af heitum tilfinningum á báða bóga. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem menn óttuðust um framtíð rjúpna­stofnsins og gripu til friðunar. En þrátt fyrir að rjúp­an­ hafi áður verið talin af hefur stofn­inn ávallt vaxið á ný þótt topp­arnir hafi verið misháir. Hvað veldur sveiflu rjúpunnar er enn mikil ráð­gáta. Dr. Arnþór Garðarsson prófessor hefur varið löngum tíma til rjúpna­rannsókna og hefur um árabil velt fyrir sér sveifl­um í stofnum villtra dýra. Hann telur engin rök hafa verið fyrir því að grípa til rjúpnaveiðibanns á liðnu hausti og mælir með því að bann­inu verði aflétt þegar í haust.
Dr. Arnþór Garðarsson hefur rann­sakað rjúpur og velt fyrir sér hegðun þeirra og háttum í meira en fjóra áratugi. Hann segist hafa verið hálft árið að elta rjúpur á hverju ári frá 1963-69. Hann fór að starfa með dr. Finni Guðmundssyni, þá nýútskrif­aður með B.Sc. gráðu í líffræði, og tók þátt í stóru rannsóknarverk­efni um lifn­aðarhætti og stofnsveiflur rjúp­unnar hér á landi. Arnþór var við rjúpna­rannsóknir í Hrísey, en einn­ig mikið á Holtavörðuheiði og víðar. Rjúpnaverkefnið var styrkt af National Science Foundation og naut hand­leiðslu dr. Finns. Það var unnið í mikilli samvinnu við stóra háskóla bæði í Bandaríkjunum og Skotlandi, eins Bresku náttúrurannsóknastofnun­ina í Aberdeen. Þegar að því kom að fara til framhaldsnáms fór Arnþór í háskóla í Berkeley í Californíu þar sem hann naut handleiðslu vísindamanna sem voru aðallega að rannsaka stofn­sveiflur í villtum dýrum. Raunar ekki stofnsveiflur rjúpna heldur læmingja og fleiri fyrirbæra á köldum túndrum heimsins. Aðalleiðbeinandi Arnþórs var dr. Frank Pitelka, þekktur sér­fræðingur á sínu sviði.
Að loknu doktorsprófi sneri Arnþór aftur heim. Hann segir að sér hafi ekkert litist á að halda áfram frekari rannsóknum á rjúpunni og fæðu hennar, vegna þess hve næstu skref hefðu verið kostnaðarsöm og mannfrek. Hann segir að þrátt fyrir að rjúpnastofninn hafi verið vaktaður reglulega síðan, rjúpur taldar og fylgst með ungahlutfalli, aldurssamsetningu og þéttleika, þá hafi ekki verið gerðar neinar verulegar rannsóknir á rjúpum hér frá því í stóru rannsókninni á 7. áratug 20. aldar.

 

Fæðan er undirstaðan

Arnþór segir að rannsóknir hans á rjúpunni á sínum tíma hafi snúist mikið um hvað hún étur á mis­munandi árstímum. Vísindamenn leiti gjarnan svara við svipuðum spurning­um þegar hinir ýmsu dýrastofnar eru rannsakaðir. Hvað fæðuna varðar er spurt um á hverju dýrin nærist, hvert fæðuframboðið er á hverjum árstíma og hvaða áhrif beit dýranna hefur á umhverfið. Undanfarna áratugi hefur Arnþór mikið rannsakað endur og mýflugur á Mývatni og samspil þessara stofna.
„Menn reikna með að fæðan sé mjög þýðingarmikil auðlind og beinlínis stjórni stofnunum. Dýrin verða jú að hafa nóg að éta allt árið. Mikið af orkunni hjá mönnum sem eru þessa sinnis fer í að reyna að staðsetja hvað veldur hinni eða þess­ari breytingunni á stofnunum. Sumt af stofnbreytingum er mjög auðvelt að tengja við fæðuna. Þannig er til dæmis með endurnar á Mývatni og mýflug­urnar, sem eru mjög sveiflóttar. En sumt, sem menn hafa mikinn áhuga á að rannsaka, eins og rjúpan, er erfitt í framkvæmd og dýrt.“
Líkt og auðlind, eða næringarupp­spretta, getur stjórnað stofn­stærð, þá getur dýrastofn haft mikil áhrif á auðlindina sem hann nærist á. „Þá skiptir oftast nær ekki miklu máli hvernig dýrin deyja. Það er mikið af sjúkdómum í heiminum, rándýrum, byssukörlum og öllu mögulegu. Allt drepur þetta einstaklinga úr stofnin­um. Þeir sem lifa af lifa kannski fyrst og fremst af vegna þess að skilyrðin í náttúrunni eru að öðru leyti þolanleg.“
Arnþór segir að þegar áhrif um­hverf­is á dýrastofn eru skoðuð þá verði að taka tillit til nokk­urra þátta. Þeirra á meðal eru veðurfar, fæða, búsvæði eða hvar dýrin geta verið og hverjir drepa þau. „Menn eru yfirleitt að fást við þessa fjóru stóru umhverfisþætti. Svo er hægt að blanda þessu, láta veðrið hafa áhrif á fæðuna.­ Eða skoða afránið og spyrja hvort maðurinn hafi þar áhrif? Hvað varðar rjúpuna þá spurði ég spurninga eins og hvað væri mikil beit? Hvar líklegt væri að rjúpnabeitin hefði áhrif á landið? Það er eitthvað sem veldur því að það fjölgar í sveiflóttum stofni. Hann nær ákveðnu hámarki og síðan fer hann niður. Þá er spurning hvað líklegast er til að valda þessum sveiflum? Mér fannst beitin vera líkleg, það er beit á tegundum sem mundu svara beitinni illa.“
Arnþór segir að ein helsta niður­staðan úr þessum rann­sókn­um hafi verið að beit rjúpna sé mikil. „Beit í hámarksári rjúpnastofnsins getur verið mjög mikil. Það er beit á ýmiss konar kvistlendi, víði- og birkitegund­um, að vetrinum. Sú beit getur skipt tugum prósenta af brumum þar sem rjúpan heldur sig. Það er oft talað um 30 til 50 prósenta beit. Svoleiðis beit er líkleg í fyrsta lagi til að hafa skortáhrif í för með sér á rjúpur. Annars staðar hafa menn verið að fást við annað atriði tengt beit, en hún getur haft áhrif á framleiðslu meltingartruflandi eiturefna í plönt­unum. Þessi varnar­viðbrögð plantna geta orðið til þess að birki í ár verði ekki eins ætt og það var í fyrra eða hitteð­fyrra – ef þá var hámark í rjúpunni. Þetta getur leitt til þess sem kallað er tafin svör­un, það er þéttleikaháð svör­un með tímahniki. Svona gagnkvæm svörun þýðir yfirleitt sveiflur.“

 

Mikil ungaframleiðsla og ör afföll

Arnþór segir að sé fæða rjúp­unn­ar skoðuð allt árið sé líkleg­ast að vetrarbeitin sé takmarkandi þátt­ur og valdi fyrr eða síðar hruni í stofn­inum. Hann telur sennilegt að svörunin sé tafin í tíma um eitt, tvö ár eða meira. Arnþór segir það merkilegt við ís­lensku rjúpuna að hún virðist allt­af hafa nóg að éta á sumrin.
„Ungarnir virðast að minnsta kosti hafa það betra hér en hjá flestum öðrum rjúpnastofnum sem skoðaðir hafa verið allt í kringum hnöttinn. Rjúpan hér er sérkennileg að því leyti að hún framleiðir í kringum átta unga á hvern kvenfugl að meðaltali á ári. Það er tvisvar til þrisvar sinn­um meira en gerist á meginlöndun­um.“ Ástæðan fyrir þessu er nokkuð augljós, að mati Arnþórs. Ungarnir hafa það mjög gott og hafa meira en nóg að éta. Ef þessir ungar lifðu allir yrði stofninn fjórfalt stærri að hausti en vori. En það gerist ekki, því ungarn­ir týna hratt tölunni.
„Þegar stofninn er í miklum vexti drepast upp í 80% af ungunum strax á fyrsta ári. Þeir eru að drepast eftir að þeir ná fullri stærð. Það er óvenjulegt og t.d. ólíkt því sem gerist í Noregi.“ Arnþór segir að öllum líkindum sé það fæðuskortur sem verður ungunum að aldurtila þegar fer að hausta. En skortur á fæðu þarf ekki endilega þýða að einstaklingurinn deyi úr hungri, heldur veldur það því að hann verði vanhæfari til að komast af í lífsbaráttunni.
„Ef ungi er seinastur í hópnum, sem stafar af því að hann er slappur, er líklegra að hann verði fyrir þeim sem skýtur, flýgur uppi eða slær rjúpur niður. Atgervið hefur áhrif á hvaða einstaklingar drepast. Í raun og veru má segja að ef eitt drepur ekki einstaklinginn, þá sé það eitt­hvað annað! Ef einstaklingur sem hefur það svona gott í uppeldinu, eins og þess­ir átta rjúpuungar meðalrjúpunn­ar, ætlar að lifa áfram þá þarf hann að yfirstíga ýmsar hindranir. Það er ekki betra fyrir þennan tiltekna einstakling að hinir ungarnir lifi af. Þeir skerða lífsmöguleika hans svo lengi sem þeir lifa.“
Arnþór segir mjög líklegt að vetrar­beitin ráði einnig mestu um stærð varpstofns rjúp­unnar að vori. Líklega hafi þó fleiri þættir þar áhrif, en Arnþór segist ekki hafa séð þá skýrða almennilega hvað rjúpur varðar. Bestu tilgáturnar, sem hann hefur séð um þessa þætti, snúa að þrúguhéran­um í Norður-Ameríku. Dýrategund sem einnig hefur tíu ára stofnstærðar­sveiflu.­ „Þetta gengur út á einhvers konar streitu í stofninum sem getur stafað af ýmsum ástæðu. Þetta eru eins konar seinkuð áhrif eftir hátoppa. Lífslíkur einstaklinganna verða minni eftir því sem líður á sveifl­una. Þetta sést mjög óbeint í íslensku rjúpunni. Ólafur Nielsen fuglafræðing­ur og aðrir sem telja rjúpur og taka aldurshlutföll hafa sýnt fram á að hlutföll ársgamalla ungfugla lækka eftir því sem líður á sveifluna og þau halda áfram að vera mjög lág í lágmarkinu. Það táknar ein­faldlega að þrátt fyrir góða afkomu eru lífslíkur kynslóða sem koma í heiminn í hámarki stofnsveifl­unnar miklu minni en þegar stofninn er að vaxa. Það veld­ur þessari áframhaldandi niðursveiflu. En menn eiga ekki svar við því hvað veldur minnkandi lífslíkum og þessari streitu.“

 

Áhrif veiða snemma að hausti eru lítil eða engin

Arnþór segir að menn hafi á árum áður vissulega velt fyrir sér áhrif­um veiða á rjúpnastofninn og spurt hvort líklegt væri að þær hefðu áhrif á stofnstærð? Þeir leituðu einnig svara við því hvenær ársins rjúpurnar týndu helst lífi, en svörin voru ekki einföld.
„Það er ekkert sem bendir til þess að veiðar snemma að hausti hafi mikil áhrif á rjúpnastofn­inn,“ segir Arnþór. „En þetta er ekki létt mál. Menn hafa ekki komist að tærri lausn þar sem hægt er að fullyrða eitthvað, en þeir hafa eiginlega allir talið útilokað að veiðarnar skipti neinu höfuðmáli.“
Arnþór segir að sér hafi þótt einna óþægilegast þegar ákveðið var að grípa til friðunar á rjúpum, að eiginlega ekkert var á bakvið þá ákvörðun. „Menn hafa verið að benda á einstök tilfelli varðandi merkingar rjúpna. Radíómerktar rjúpur í Úlfarsfelli dóu ef þær voru skotnar. En þær sem ekki voru skotnar dóu samt! Dánarorsökin sem slík er er ekkert óskaplega fróðleg í þessu sambandi. Það er lengri saga en dánarstundin hjá hverjum einstaklingi sem virðist skipta miklu meira máli fyrir heildina.“
Afrán rándýra á hugsanlega sinn þátt í streitunni sem veld­ur hruni eftir toppinn. Arnþór segir afránið ef til vill skyldast veiðunum. Maðurinn sé þá eitt af rándýrunum sem herja á rjúpuna. „Kannski hægt að ímynda sér það, án þess að nein góð gögn séu til um það, að fækkunin staf­aði af slíkum áhrifum. Þá mætti búast við því að eftir fækkun í rjúpu yrði hart í ári hjá fálkum og refum. Einstöku sinnum hefur verið tilhneiging til þess, en þetta hefur ekki sést núna síðustu árin. Þar er komið að vandamáli sem mér finnst menn ekki hafa rannsakað.“

Picture 12.jpg

Miklar breytingar á gróðurlendi

Arnþór bendir á að nú séu afskap­lega miklar breytingar að verða í gróðri landsins. Þessar breytingar á gróðurfari stafi ekki af rjúpnabeit held­ur minni sauðfjárbeit.En eru þess­ar breytingar á gróðri hagstæðar rjúp­unni?­
„Ég hefði ætlað það fyrirfram. Það sem gerist er að gróðurfeldurinn er að aukast mjög mikið. Það er fleira sem étur þennan kvistgróður en rjúpur og sauðkindur. Það eru líka fiðrilda­lifrur, tólffótung­ar, og þeir eru mjög afkastamiklir, en þetta er órannsakað mál. Það er miklu meira í þessu en bara að telja rúpur.“
En hvað um framkvæmdir manna á hálendi landsins og til dæmis skógrækt á kjörlendi rjúpna. Getur þetta haft neikvæð áhrif fyrir lífsskil­yrði rjúpnanna?
„Skógrækt er gróðurfarsbreyting, en hún er á mjög takmörkuðu svæði enn sem komið er. Jurtaætur spila allar upp á að grípa framvinduna um leið og hún verður. Það er ekki gefið mál að það sé vont eða gott að hafa skógrækt eða sauðfé á landi fyrir rjúpu. Það er heilmikið mál að skera úr um það. Með því að loka fyrir sauðfjárbeit þá eykur þú vöxt á víði. Með því er væntanlega verið að gera landið betra fyrir rjúpu. Hins vegar veldur langvarandi kjarr- og sinumyndun alls konar umferðartálma. Það er ekki endilega til bóta. Minni sauðfjárbeit mun væntanlega auka gróður á landinu næstu áratug­ina, þar með gróður á lítt grónu landi. Rjúpan ætti að taka því mjög vel. En ef veður hlýnar mjög, þá vitum við ekki nema það hafi andstæð áhrif því þetta er heimskautafugl. En þetta eru stórar spurningar og erfitt að svara þeim þegar þekkingin er takmörkuð.“

 

Rjúpnaveiðibanni ætti að aflétta

Arnþór kveðst vera þeirr­ar skoð­unar að um­hverfisráðherra eigi að aflétta banni við rjúpnaveiðum fyrir veiðitímabilið á komandi hausti.­ Umhverfisnefnd Alþingis leitaði um­sagn­ar hans um tillögu til þings­ályktunar um aflétt­ingu veiðibanns­ins og lá hann ekki á þess­ari skoðun sinni þar. Hann telur að ekki hafi verið ástæða til að grípa til veiðibanns, meðal annars vegna þess að ekkert í fyrir­liggjandi rannsókna­niðurstöðum gefi til kynna að skotveiðar hafi neikvæð áhrif á stærð rjúpnastofnsins. Eins telur hann að ákvörðun um bann­ið hafi verið tekin á hæpnum forsend­um.
„Tíu ára sveifla þýðir tíu atburðir á öld. Þú getur gert tilraunir og þær byggja á því að hafa gögn sem hefur verið safnað á tiltölu­lega löngum tíma. Menn geta flýtt fyrir með því að gera hreinar tilraunir. Það hafa menn verið að gera með hérana í Kanada og eytt í það mikilli orku. Þeir segjast ekki hafa leyst gátuna,­ en vera komnir áleiðis. Það sem við eigum ekki að gera er að hlaupa­ upp til handa og fóta eins og gert var við þetta rjúpnaveiðibann. Hvað forsend­ur þess varðar má segja að túlkun gagnanna hafi verið takmörkuð. Þeir hafa hald­ið því fram, með því að taka tvær síðustu sveiflur í rjúp­unni, að það sé fækkun í stofninum. Þá er verið að bera saman frekar hátt hámark 1980-82 og svo lágt hámark eftir 1990. Síðan draga menn línu þarna í gegn og segja: Fækkunin er of mikil, næst fer rjúpan ekkert upp! Þetta eru bara svo stuttar seríur. Gallinn er sá að með 10 ára sveiflu færðu 10 athuganir á öld. Venjuleg starfsævi vísindamanns er þrjár athuganir. Á undan sveiflunni á 7. áratug síðustu aldar var mjög lítið um mælingar.“
Arnþór segir þá aðferð að banna rjúpna­veiðar nálgast það að vera einskonar þjóðtrú. Það sé búið að reyna þetta áður, og það nokkuð oft. Áhrifin af þeim veiðibönnum hafi aldrei verið staðfest. Veiðibannið nú hafi verið rökstutt með því að fyrri friðanir hafi skilað árangri sem sést hafi í auknum útflutningi rjúpna. Þannig hafi fjögur mestu góðæri í útflutningi rjúpna fylgt veiðibanninu 1920-23. Hins vegar hafi því ekki verið haldið á lofti að eftir friðunina 1930-32 fylgdu fremur slök útflutningsár. „Menn hafa sinnt vökt­un ágætlega í langan tíma. Þeir eru eflaust undir þrýstingi að koma með ein­hverjar niðurstöður. Þá halla þeir sér að því að það sé of mikið veitt! Þetta er svo órökrétt að maður gapir yfir því. Jafnvel þó að veiðar geti hugs­anlega haft staðbundin og skammæ­ áhrif, þá er útilokað að þær geti haft áhrif á þessa miklu stofn­sveiflu.“
Arnþór segir að hver toppur í stofnstærðinni hafi sín sérkenni og að margt geti gerst í toppum. Hann telur til dæmis að maðkaplága á þingeyskum heiðum hafi getað haft áhrif á sveifluna í kringum 1975. Á heiðun­um hafi ekki verið neinar rjúpur, því þær komust ekki að æti fyrir maðki. Árið 1966 drap stórviðri mikið af rjúpna­ungum, en þrátt fyrir það sáust þess ekki merki í stofnstærðinni vorið eftir. Arnþór segir að áföll og afbrigði­legar aðstæður geti mögulega flýtt fyrir niðursveiflunni og haft áhrif á hæðir toppanna, en þetta séu ekki orsakir sveiflanna.

 

Ný uppsveifla væntanlega byrjuð

Í sumar bárust fréttir af fjölgun rjúpna víða um land. Arnþór telur ekki að það sé ekki endilega til merkis um að rjúpnabannið í fyrra sé að skila árangri.
„Uppsveiflan er væntanlega byrjuð og það er erfitt að túlka niðurstöðurnar öðru vísi en að þetta sé uppsveifla. Síðan kemur að því að rjúpan fer í toppinn, hvort sem við friðum hana eða ekki. Næst þegar hún nær hámarki má spyrja hvort maður hafi verið einhverju bætt­ari með friðun? Hrunið kemur hvort sem rjúpan er friðuð eða ekki. Það er alveg pottþétt. Það eru hvorki rándýr né veiðar sem valda hruni í rjúpna­stofni í hámarki. Menn hafa leitt að því líkum að það sé eitthvað annað en þessi streita­ sem slær hana niður eftir hámarkið. Það er erfitt að meta það. Síðan koma þessar lengri lægðir. Það er útilokað að aðgerð eins og að friða rjúpuna í nokkur ár hafi varanleg áhrif á þessar sveiflur eða þéttleikann. Það er bara rugl og styðst ekki við nein rök!“
Aðspurður segist Arnþór telja að rjúpnastofninn sé mjög vel vakt­aður. Hann segist þó gera ráð fyrir að auka mætti hagkvæmni vöktunarinnar eitthvað og velja betur svæði til vöktun­ar.
„Það er í sjálfu merkilegt að ekki skuli vera vöktunar­svæði á Vestfjörðum. Það er einkenni á langtíma vöktun að hún verður alltaf að halda áfram til að hún sé einhvers virði. Það hafa verið notaðar mjög góðar aðferðir við talningarnar. Það er nauðsynlegt að hafa aldurshlutföll­in í lagi. Það er mjög fróðlegt að sjá að aldurshlutföll á fyrsta árs fuglum að vori koma alveg ágætlega út. Það sýnir okkur að það er mismunur á af­kom­unni hjá árgöngunum, sem skipt­ir höfuðmáli í þessu. Það væri hægt að gera aðeins betur með því að reyna að meta afföllin fyrrihluta og seinnihluta vetrar. Það eru vísbendingar um að þau geti verið mismunandi eftir því hvernig stendur á stofnsveifl­unni. Hvort fleiri rjúpur deyja fyrri eða síðari hluta vetrar. Aldurshlutföllin á veiði­tímanum gefa hugmynd um hvað mikið hefur dáið fram að veiðitíman­um. Ef þú hefur ungahlutfallið að haustinu og tekur aftur hlutfallið í október þá er hægt að meta þetta. Það er hægt að bæta við einum punkti í greininguna.
Það sem þarf að taka miklu meira tillit til við rannsóknirnar eru gróðurskilyrðin og beitin, en til þess þarf mikið af sérfræðingum. Einn sérfræðingur getur annað sínu sviði, en ef á að rannsaka svona orsakasamhengi þá kemstu ekki framhjá því að gera margskonar rannsóknir og það kostar mikla peninga.“

 

Færa ætti rjúpnaveiðitímabilið

Picture 13.jpgArnþór hefur lengi verið þeirrar skoðunar að það yrði til bóta að breyta veiðitíma á rjúpu. Það er að segja vilji menn hámarka veiðina og draga jafnframt úr mögulegum áhrif­um veiða á varpstofninn „Við höfum verið að veiða úr stofni sem er á hraðri niðurleið á hverju hausti. Upphaf veiðitímans 15. október mun hafa verið ákveðið á útflutningsárunum þegar best verð fékkst fyrir alhvítar og óblóðugar rjúpur. Rjúpan verður yfirleitt ekki alhvít fyrr en um miðjan október. Ég mælti með því á sínum tíma að hefja veiðarnar um miðjan sept­ember og sé enga ástæðu til að teygja veiðina jafn langt fram eftir vetri og gert hefur verið, eða til 22. desember. Mín reynsla er sú að veiðin sé nokk­urn veginn búin viku af nóvember, nema hjá þeim sem hafa stutt að sækja og geta skotið í kjarri. Það mætti hætta veiðunum í lok október.“
Stundum hefur borið á góma að leyfa veiðar á fleiri fuglategund­um. Hvað finnst Arnþóri um slíkar hugmyndir?
„Ég held að þær haldi áfram að falla í grýttan jarðveg. Það eru ekki svo margar tegundir sem hægt er að veiða hér með góðu móti. Rjúpan er ein af veiðanlegustu fuglateg­undunum hér á landi, að því leyti að hún framleiðir mjög mikið og það er mikil velta í stofninum. Það má segja að veiðar hafi minnstu áhrifin á slíkar tegundir. Eins er með andfugla, það er tiltölulega auðvelt að stjórna haustveiðum á þeim. Með vorveiðum er verið að setja þessa stofna í ákveðna­ hættu. Menn eru að stinga upp á vaðfuglaveiðum, sem eru að leggjast af alls staðar. Vaðfuglar standa ekki undir neinni veiði, þeir framleiða svo lítið. Andfuglar og hænsnfuglar framleiða aftur á móti mikið af ungum.“

 

Gæsin er erfið

Hvernig stendur á því að það virðist vera svo erfitt að telja gæsir með einhverri vissu og að fá traustar upplýsingar um stofnstærð þeirra?
„Ég hef talið talsvert af gæsum um ævina. Grágæsin er erfið í talningu og ef ekki fást góð úrtök er hætt við að hlutföllin verði skökk. Ég hef alltaf sagt mönnum að vinna frekar með álft en gæs, af því hún sést svo vel! Álftin, sem sést, er mjög misdreifð. Geldfuglar á einum stað og varpfuglar á öðrum. Þegar ég hef verið að telja álftir og gæsir á borð við blesgæs, margæs og helsingja þá sjást hóparnir. Þeir eru á vissum stöðum. Hvor sem talið er úr landi eða lofti, þá bregst ekki að maður tínir upp allar álftirnar, margæsirnar og helsingjana sem eiga að vera á staðnum, en það sést ekki nema pínulítið af grágæsum. Það er mikil athugunarskekkja í grágæsatalningu, einfaldlega vegna þess að það er erfitt að telja hana. Hún er mjög dreifð, í litl­um hópum upp um allt og út um allt.“

 

En skyldi Arnþór sjálfur stunda fuglaveiðar?

„Ekki lengur. Ég er búinn að skjóta yfir mig! Það eru margir sem hætta um fertugt, fara þá að hugsa um dauðann,“ segir Arnþór og hlær. „Þetta er ungs manns gaman. Þegar maður er atvinnumaður í að fanga og skoða fugla þá á maður ekkert að stunda­ þetta sem sport.“

Tags: lauk, náttúrufræðifélags, raunvísinda­deildar, 1974, hins, hefur, þar, verið, 1987-1989, garðarsson, íslenska, formaður, arnþór, dýrafræði
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Viðtöl og frásagnir Nær útilokað að veiðar skipti höfuðmáli fyrir afkomu rjúpunnar