Mörður

Picture 21.jpg

Hvað kom til að þú lagðir fram frumvarp um að takmarkaðar rjúpnaveiðar hæfust að nýju?

Málið stóð þannig – og stendur enn - að umhverfisráðherra ræður þessu. Siv kvartaði yfir því á sínum tíma að þingið hefði ekki viljað gefa sér þær heimildir sem þurfti, sölubann á þeim tíma, og reyndi með því að koma ábyrgðinni af sér yfir á þingmenn. Svo komu Gunnar Birgisson og félagar með þingsályktunartillöguna í fyrrahaust, en það þóttu mér og fleir­um aðallega mannalæti vegna þess að enn vantaði heimildir frá Alþingi í lagaformi til að banna sölu og setja kvóta, ef það þætti æskilegt. Þessvegna flutti ég þetta frumvarp með þremur ágæt­um félögum, Jóhönnu, Guðmundi Árna og Einari Má. Þar er gert ráð fyrir takmörkuðum veiðum það sem eftir er af þessu þriggja­ ára tímabili og miðað við hámarks­tölu, 30 þúsund fugla, sem komin er frá Náttúrufræðistofnun sjálfri.­ Þessi tillaga kemur fram aftur á þinginu 1. október í haust ef ekkert hefur gerst í málinu þá.
Málið snýst fyrir mér fyrst og fremst um náttúruna, um rjúpuna – og fálkann! – en líka um það hvernig við eigum að haga okkur í umhverfismálum. Ég lít ekki svo á að skotveiðimenn séu trylltur óþjóðalýður. Langflestir veiðimenn eru náttúruunnendur, og margir í þeirra hópi þekkja lifnaðarhætti og heimaslóðir „síns“ veiðidýrs betur en jafnvel fræðimennirnir. Þess vegna þarf að mynda bandalag með veiðimönnum um vandamál eins og rjúpuna og leysa málin í sameiningu, í staðinn fyrir að leysa málin á þeirra kostnað. Mín sýn er sú að náttúruvinir standi saman hver sem aðferð þeirra er til að njóta náttúrunnar, og ég tel að við eigum að vera mikilvægustu samstarfsmenn um­hverfis­yfirvaldanna en ekki sérstak­ir óvinir þeirra.

 

Ert þú sjálfur veiðimaður?

Nei, því get ég ómögulega hald­ið fram. Vinir mínir eru enn að hlæja að öndinni sem ég skaut í Skagafirði um árið, en sú önd er ennþá gervallur skotafli Marðar Árnasonar. Þeir halda því fram að þetta hafi verið hérumbil ófleygur ungi. En hrósa mér reyndar um leið fyrir óvenjulega kurteisi við veiðarnar. Sumir skjóta nefni­lega fyrst og spyrja svo, en þegar öndin flaug upp úr skurðinum leit ég á leiðtoga minn í þessari för, Svein Allan Morthens, og spurði fyrst: Á ég að skjóta núna? – og skaut svo.
Örlögin hafa ekki leitt mig út í veiðiskap – ennþá. Ég held ég skilji samt „kikkið“ – að minnsta kosti það að kunna á dýrið og að taka mark á aðstæðum og vísbendingum í náttúr­unni.

 

Telur þú að þingmenn séu fylgjandi því að rjúpna­veiðar hefjist aftur nú í haust?

Já, það held ég. Fyrst er auð­vitað að sjá hvað nýr umhverfis­ráðherra gerir í málunum. Sigríður Anna Þórðardóttir hefur verið afar þögul um þetta allan veturinn og það sem af er sumri. En ég endurtek: Þetta verður aldrei eins og það var. Menn verða að sætta sig við ákveðnar reglur, um tímabil, svæði, kvóta, sölubann eða -takmörkun, nýjar aðferðir. Og veiðarnar eiga aldrei aftur að verða atvinnuvegur bænda eða stórveiðimanna, heldur tómstundaiðja og náttúruupplifun.

 

Nú hefur veiðikortasjóður orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna rjúpnaveiðibannsins, eins og kom raunar fram í máli umhverfisráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn þinni um þetta mál. Skotveiðifélagið hefur bent á að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi nánast gengið í sjóðina að vild. SKOTVÍS vill að stofnanir og vísindamenn sækji um í sjóðinn á formlegan hátt. Hver er þín skoðun á því?

Náttúrufræðistofnun ann ég alls hins besta þótt hún hafi senni­lega misstigið sig í þessum rjúpna­málum. Þar eru færir vísindamenn sem stunda sjálfstæðar rannsóknir – öfugt við sumar aðrar rannsóknarstofnanir á þessu sviði. En veiðikortasjóðurinn á ekki að vera einkamál ráðamanna eða einstakra stofnana.

 

Svo við víkjum að öðru, hver eru annars þín helstu áhugamál og hvernig slakar þú á eftir erilsama daga í þinginu?

Jamm ... Einusinni var ég íslensku­maður sem vann aðalstarf sitt við blaðamennsku eða bækur en hafði pólitík sem helsta áhugamál – núna hefur þetta svo snúist við. Þar fyrir utan eru allskonar ferðalög og útivist sem ég kemst aldrei of mikið í, og svo að ganga og sprikla á skíðum þá sjaldan það snjóar á veturna. Á sumrin er það svo aðallega spurningin um gengi KR!

 

Þú stóðst þig ótrúlega vel í skotkeppni þingmanna. Gætir þú hugsað þér að stunda skotveiðar eða kannski til að byrja með leirdúfuskotfimi?

Það var auðvitað alveg sérstök skemmtun að slá við háttvirtum þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni í skotfimi. Takk fyrir. – Tja, ég var alltaf brjálaður í skotbakkana í tívólí í gamla daga, ég ætti kannski að leggja þetta fyrir mig? Ég veit þá alla vega hvar á að finna lærimeistarana.

Tags: hefur, verið, skotveiðimanna, okkur, veiðar, stundaði, fræðast, mörður, þingmaður, manninn, þekktur, mörð, hingað, röðum, kunnugt
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Viðtöl og frásagnir Mörður