Carlsen minkabani - Carl Anton Carlsen

Picture 8.jpg

Picture 9.jpgÞessi mynd af veiðimanni í paradís er mér fersk í minni þótt liðnir séu áratugir (reyndar hálf öld) og veiðimaðurinn sjálfur fyrir löngu horfinn sjónum okkar. Aðra eins veiðigleði hef ég ekki oftar séð. Þó átti ég seinna marga veiðidaga við þess á og sá tilsýndar er landskunnir veiðigarpar tóku dagskvótann á sínar dularfullu flugur.
Veiðimaðurinn hamingjusami var Carlsen minkabani. Í fylgd með honum var undirritaður, 17 ára gamall og þungt haldinn af veiðidellu en þetta sumar var ég í þjálfun hjá meistaranum að læra til minkabana. Einhverjum árum seinna minnti ég Carlsen á þessa ævintýralegu urriðaveiði en þá hafði hann uppgötvað enn stórkostlegri veiðiskap að hann taldi, sem sé að veiða silung á þurrflugu. Þá aðferð yrði ég að temja mér, sagði hann, vildi ég upplifa raunverulega sport­veiði.

 

Atvinnuveiðimaður

Picture 10.jpgCarlsen var atvinnu­veiði­maður sem stund­aði hér minka­veið­ar árum saman á vegum Land­búnaðar­ráðu­neyt­isins og seinna veiði­­stjóra­embætt­isins. Erindi hans í Mývatns­sveit sumarið 1956 var að leita minka og leggja á það mat hvort minkur hefði víða tekið sér bólfestu á þeim slóðum. Okkur til halds og trausts í sveitinni var Finnbogi Stefánsson sem þá var bóndi á Geira­stöðum. Niður­staðan var sú að enn væri lítið um mink í Mývatnssveit þó hann væri augljóslega að nema þar land. Við veiddum einungis eitt hlaupa­dýr í þessum leiðangri, en Mý­vetningar keyptu minkahund í framhaldi af þessari athugun og hafa síðan sjálfir varið þennan andagarð heims­ins nokkuð vasklega fyrir aðvífandi minkum.
Carlsen minkabani hét fullu nafni Carl Anton Carlsen. Hann var danskur, fæddur í Lyngesókn í Danmörku þann tuttugasta janúar árið 1908. Carlsen mun upphaflega hafa komið hingað sem stýrimaður á flutn­ingaskipi í kringum 1930. Hann giftist íslenskri konu og bjuggu þau hjón bæði hér á landi og í Danmörku, þau áttu saman fimm börn en skildu. Carlsen settist endanlega að hér á landi í lok seinna stríðs og átti hér heima til dauða­dags. Hann lést í Reykjavík þann tuttug­asta og fyrsta desember árið 1973.

 

Merkileg lífsreynsla

Picture 11.jpgPicture 12.jpgCarlsen tók reyndar þátt í styrjöldinni og sigldi m.a. sem stýrimaður á amerísku skipi í skipalest til Murmansk. Um þá lífsreynslu var hann ekki margorður, sagði aðeins að taugaspennan hefði oft verið gífurleg. Enda ekki undarlegt þó mönnum yrði ekki svefnsamt í slíkri för þegar búast mátti við tundurskeyti í skipið á hverri stundu. Þjóðverjar lögðu gríðarlega áherslu á að stöðva þessa flutninga eins og kunnugt er og sumum skipalestunum var nánast gjöreytt.
Þess má geta að skipstjórinn Henrik Kurt Carlsen, sem frægur varð nokkrum árum seinna er hann barðist fyrir björgun skips síns, Flying Enterprise, einn um borð í marga sólarhringa, var föðurbróðir Calsens minkabana.

 

Frumkvöðull að minkaveiðum

Picture 13.jpgSeint á fimmta áratug síðustu aldar fór Carlsen að láta til sin taka við veiðar á villtum mink hér á landi. Minkurinn var þá sem óðast að dreifast um landið er lokið var fyrsta þætti loðdýra­ævin­týris Landans og búrin stóðu tóm eftir en minkurinn bætist í Fánu landsins.
Carlsen gerðist þá frumkvöðull um minkaveiðar; hann fór víða um land til veiða og banaði t.d. 408 minkum árið 1950. Í Búnaðarritinu árið 1951 birtist merk grein eftir Carlsen þar sem hann gaf góð ráð og leiðbeindi um aðferðir við að finna mink og veiða. Í greininni útskýrir hann með teikningum hvernig smíða skuli gildrur og koma þeim fyrir. Þar er líka sýnt dæmi um bogalagnir. Í greininni er einnig fjallað um veiðar með hundum og gefin ráð varðandi útbúnað og aðferðir.
Það er eng­inn vafi á að þessi grein hafði mikil og gagn­­leg áhrif á marga sem voru að velta fyrir sér minka­­veið­um. Það var e.t.v. ekki síst í því fólgið að menn gerðu sér grein fyrir hve þetta dýr er gjörólíkt refn­um og því var þörf á öðrum veiði­að­ferð­um en þeim sem beitt hafði verið við veiðar á ref um langan aldur.
Jafnframt því sem Carlsen leið­beindi og stundaði veiðar flutti hann inn hunda sem heppilegir voru til minkaveiða. Þetta voru smávaxnir hundar og snarir í snúningum svo sem Taxar, Fox terier og fleiri tegundir. Þessi innfluttningur varð upphaf þess að hér urðu til minkahundar sem smám saman dreyfðust um landið eftir því sem veiðimenn fengu sér hunda og lærðu að nota þá. Fyrstu árin var Carlsen sjálfur með 6-10 hunda en fljótlega var hann kominn með stærðar hundabú.
Sennilega hefur Carlsen öðlast reynslu af veiðum með hundum í Danmörku, ég hugsaði aldrei út í að spyrja hann um það. Hann átti frábærar veiðibækur og var m.a. fróður um loðdýraveiðar í N-Ameríku.
Svo mikið er víst að hann kunni vel til verka við minkaveiðar. Hann var mjög klókur og útsjónasamur veiðimaður og hafði til að bera það innsæi sem best dugar við veiðar

 

Handverksmaður

Picture 14.jpgCarlsen var hagur maður og listrænn. Um það vitna ýmsir smíðisgripir sem eftir hann liggja m.a. nokkrir sem hann gaf undirrituðum. Hann fékkst einkum við að hamra hluti úr kopar. Þar mun hann hafa stuðst við reynslu frá æskuárum en í blaðaviðtali sagði hann einmitt frá því er hann sem lítill drengur fylgdist lotningarfullur með störfum koparsmiða í nágrenni sínu. Þá kunni hann allskyns hnúta og fléttuverk sem hann mun hafa lært er hann var á skútu á unglingsárunum.
Ekki er ósennilegt að Carlsen hafi hugsað sér að hafa tekjur af þessu handverki er veiðiferðum tók að fækka. Það má þó telja fullvíst að fleiri gripi hafi hann gefið en selt. Hann var örlyndur maður og hlutir voru honum ekki fastir í hendi ef honum datt í hug að gleðja einhvern með gjöf.

 

Skemmtilegur veiðifélagi

Picture 15.jpgCarlsen var gamansamur í besta lagi og gat leiftrað af kímni þegar honum datt eitthvað sniðugt í hug, sem oft bar við. En hann gat líka verið mein stríðinn og stundum fannst lærisveininum sem gamansemin væri full mikið á sinn kostnað, einkum ef kvenfólk heyrði til. Þá var helst til ráða að hanka hann á íslenskunni til að jafna sakirnar.
„Ó Jesús Christ, sjáið þið helvítis maðurinn“, var upphrópun sem varð að máltæki meðal fárra vina, en tilefnið var að með okkur fór til gæsaveiða ágætur maður en alveg óvanur veiðiskap. Carlsen lagði honum lífsreglurnar og lagði sérstaka áherslu á að hann bældi sig niður og bærði ekki á sér fyrr en hann yrði þess var að við lyftum byssunum. En þegar fyrsta flugið kom var viðvaningurinn orðinn svo altekinn af veiðihug að hann gleymdi öllum leiðbeiningunum en spratt upp úr skurðinum þegar gæsirnar voru enn langt utan færis. Þá var það sem þessi frægu ummæli féllu. Ekki lét Carlsen hjá líða að kenna bakstur veiðimannapönnuköku. Þetta voru hnausþykkar kökur og oft blandað í þær smáttsöxuðu steiktu beik­oni. Kökunum bar að snúa þannig að þeyta þeim í loft upp og grípa þær aftur með pönnunni. Fullbakaðri var svo kökunni skellt á diskinn, hellt yfir hana vænum skammti af sýrópi og hún borðuð með heitu kakói. Slíkur orku­skammtur dugði lengi dags.
Carlsen var stórskemmtilegur maður að vera samvistum við, snöggur upp á lagið og fljótur að átta sig. Seint mun gleym­ast spaugilegt atvik er varð eitt sinn er við vorum á leið vestur yfir Hvítárbrú við Hvítárvelli. Við vorum alveg að verða komnir yfir þegar stórum fólksbíl var ekið inn á brúna á móti okkur og flaut­að freklega. Við þekktum reyndar að þar fór bifreið eins af helstu stjórn­mála­foringjum landsins á þeim tíma. Carlsen lét sér þó hvergi bregða við þennan höfðingsskap og ábyggilega hvarfl­aði ekki eitt augnablik að honum að bakka. Hann drap einfaldlega á Land­­­rovern­um, seildist í tímarit, hag­­ræddi sér í sætinu og fór að lesa. Þá virtist ökumaður ráðherra­bílsins verða undra­fljótur að finna bakk­gírinn, hann þjösnaði bílnum til baka út á brúar­sporð­inn en Carlsen lagði frá sér blaðið, setti í gang og við héld­um för okkar áfram.

 

Erfið ár

Picture 16.jpgÞótt Carlsen yrði ekki aldraður maður hafa seinustu árin efa­laust verið honum erfið. Heilsunni fór nokkuð snemma að hraka. Hann varð giktveikur sem leiddi til þess að hann þoldi illa vosbúð og veiðislark. Veiði­ferðum fór því fækkandi með árunum en aðalstarfið varð að sjá um hundabúið sem hann rak þá á vegum veiðistjóraembættisins. Þar var fjöldi hunda sem ýmist voru seldir veiði­mönnum eða lánaðir til styttri veiðiferða. Er hér var komið hafði sú breyting orðið á högum hans að hann var fluttur frá Rauðavatni. Þar hafði hann lengi átt heima í útjaðri byggðar­innar en nú var hundabúinu valinn staður í einangrun uppi í Leirdal. Þar var hvorki rafmagn né rennandi vatn og daufleg hefur vistin verið og einmanaleg í þeirri leiðinda kvos langt frá öðru fólki. Enda varð þess vart seinustu árin að Carlsen var ekki með öllu líkur því sem áður hafði verið, það var ekki jafn létt yfir honum. Þeirri sögu hafði verið komið á kreik þegar hvað mest bar á Carlsen við minkaveiðarnar - og virtist fara með ljóshraða um landið - að hann veiddi lax með dýnamíti. Sagan sagði að menn hefðu fundið umbúðir utan af dýnamíti merkatar Carlsen og séð ummerki eftir sprengingar í Brynjudalsá. Hvaða menn það voru sem áttu að hafa séð þennann vettvang veiðiglæps kom þá aldrei í ljós og fékkst ekki upplýst þrátt fyrir mikla eftirgrennslan. Þarna var sem sagt um dæmigerðan rógburð að ræða, lygasögu sem einhverjir ómerk­ingar komu á flot. Það sorglega var að Carlsen svekkti sig mjög á þessu máli ekki síst seinustu árin. Það varð þrá­hyggja hans að finna upptök rógsins. Hann gerði þau mistök að reyna að góma sendiboða Leitis-Gróu.

 

Sess í sögunni

Það er vert að minnast merkilegs framlags Carlsens til minkaveiða hér á landi. Um þetta efni má finna ýmsar heimildir því oft birtust viðtöl við Carlsen í dagblöðunum er hann var sem virkastur, auk þess skrifaði hann sjálfur nokkra pistla sem flestir fjalla um veiðar og hunda. Hann hóf þessar veiðar að eigin frumkvæði, leiðbeindi öðrum veiðimönnum og flutti inn bæði veiðihunda og gildrur til minkaveiða. Þannig lagði hann grunn að þeim veiðum sem síðan hafa verið stundaðar kerfisbundið til þess að verjast tjóni af völdum minks og draga úr áhrifum hans á aðra þætti lífríkisins.
Sem unglingur var ég eitt sumar með Carlsen á veiðum. Það var ógleym­anlegt; lærdómsríkt og stór­skemmti­­legt. Ég naut síðan ráða hans og að­stoðar meðan ég stundaði minkaveiðar á eigin spítur og taldi til vináttu við hann alla tíð þótt samfundum fækkaði eftir að ég flutti norður í land. Ég minnist Carlsens minka­bana með þakklæti og virðingu.
Helstu heimildir sem stuðst er við í þessari samantekt, auk eigin minnis­punkta, er að finna í Al­þýðu­blaðinu, Búnaðar­ritinu og Morgun­blaðinu. Auk þess fékk ég upplýsingar hjá börnum Carlsens, þeim Helga Ottó Carlsen og Sonju Marie Carlsen sem einnig lánaði myndir.

Tags: þar, niður, carlsen, stöngin, flóann, hvinurinn, strikaði, spenntur, hörð;, síli, þóttist, vera, þó, varð, bogi
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Viðtöl og frásagnir Carlsen minkabani - Carl Anton Carlsen