Frá Dalvík til Minnesota - Fasanaveiðar

47-48-1.jpgEitt af því sem boðið var upp á í þessari frábæru ferð var fasana­veiði. Var verðinu stillt mjög í hóf, og eigum við það trúlega okkar kraft­mikla formanni að þakka. Samt sem áður voru það ekki nema 9 veiðimenn sem skráðu sig á veiðar, af um 40 sem voru í ferðinni. Einhverjum hafði bor­ist til eyrna að það væri nú ekki mikið varið í þennan veiðiskap en við blés­um á þess konar fortölur og skellt­um okkur. Og við urðum aldeilis ekki fyrir vonbrigðum.
Við vorum sóttir á hótelið um kl. 9:30 um morguninn af Chad leið­sögu­manni og ekið sem leið lá í að­stöðu­hús „Minnesota horse and hunt club“, en þangað er um hálftíma akst­ur. Húsið þeirra er sérlega glæsilegt bjálkahús, búið hinum ýmsu þæg­ind­um. Þar tók við málsverður, sem kallast „brunch“, sem við töldum að yrði léttur málsverður fyrir gönguna, en reyndist vera hlaðborð sem sving­aði undan kræsingunum. Þannig að þið sem farið á fasanaveiðar í vetur, slepp­ið morgunmatnum! Eftir þetta tók við skoðunarferð um skotsvæðið. Það er vægast sagt stórbrotið. Þar er hægt að „æfa“ sporting við allar mögu­legar og ómögulegar aðstæður. Ég sé fyrir mér að í næstu ferð myndi ég vilja eyða hálfum degi á þessu svæði. Að þessu loknu var ekið á veiðisvæðið.
47-48-2.jpg Það var nánast rétt handan við hornið. Þar voru maísakrar, kjarr­lendi, mýrar og skógur. Það var um 15 cm jafnfallinn snjór og hlýtt í veðri. Fasönunum, ásamt annarri bráð sem þeir kalla „chucker partridge“ (eins­konar „stór dúfa“), er sleppt á svæðið um 1 klst. áður en veiði hefst. Fjöldi fugla er ákvarðaður af fjölda veiði­manna á svæðinu, en í okkar tilfelli var sleppt um 60 fuglum. Já, ég segi sleppt. Það eitt sannfærði mig enn frekar um það þvílík forréttindi það eru hér heima að geta veitt villta bráð í íslenskri náttúru. Okkur var skipt í tvo hópa, hvor með sinn leiðsögu­mann og veiðihund. Gengið var í einfaldri röð og augun höfð á hundinum. Þegar hann „tók stand“ felldi sá bráðina sem í besta færinu var. Að fenginni reynslu teldi ég hæfilegt að 3-4 veiðimenn væru um hvern hund við þessar veið­ar. Eitt þótti mér einkennilegt að þegar ég felldi fyrstu bráðina og beygði mig niður eftir tómu skot­hylk­inu, af göml­um vana, sagði leið­sögumaðurinn mér að láta það liggja, en ég þvertók fyrir það. Kannski eru íslenskir veiðimenn talsvert á undan kollegum okkar í vestr­inu varðandi tómu skothylkin (vonandi). Veiðin gekk aldeilis frábær­lega og áður en yfir lauk lágu 47 fugl­ar í valnum.
47-48-3.jpg Að henni lokinni var ekið að veiði­húsið aftur og þar fengum við að smakka reyktan fasana ásamt Bud mjöði.
Við vorum sælir og ánægðir veiði­menn­irnir sem renndum í hlað á Thunderbird Hotel þennan seinnipart og þökkuðum okkar frábæra leið­sögu­manni Chad O. Freeman fyrir daginn. Þeir sem eru á annað borð að hugsa um að fara í næstu ferð ættu ekkert að hugsa mikið lengur heldur tryggja sér sæti hjá Hjördísi „okkar“ og skilyrðis­laust að festa sér fasanaveiði líka.
Daniel Hilmarsson
P.s. Strákar, þið vinnið ykkur inn fullt af punktum ef þið bjóðið konunum með! Tags: eins, síðar, minnesota, varð, ára, bíó, strákar, 30.000, makindum, leið, fetunum, skömmu, fyrsta, okkar
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Veiðar erlendis Frá Dalvík til Minnesota - Fasanaveiðar