Á krónhjartarveiðum í Skotlandi

picture8.jpg

Fyrir u.þ.b 100 árum voru um 25.000 veiðiverðir í fullu starfi á Englandi. Nutu góðir veiðiverðir mikillar virðingar og urðu sumir þeirra frægir menn. Nú eru aðeins um 5.000 veiði­verðir starfandi á Englandi. Veiði­verðir nútímans eru menntaðir menn sem hafa hlotið sérhæfða menntun til þessara starfa. Í þessari starfsgrein eru til fjöl­margar hefðir og siðir sem þróast hafa í aldaraðir. Það er skemmmtilegt að kynnast þessum köppum, - ekki síst í Skotlandi. Þeir mæta til veiða í þykk­um vaðmálsbuxum, í tweed-jakka og í skyrtu og bindi, - og með six­pens­ara; sama hvernig viðrar.
Það sem líklegast gerir krón­hjartar­veið­arnar svo sérstakar og á margan hátt einstakar er að stunda þær í skosku hálöndunum. Náttúran er í einu orði sagt stórkostleg. Það er ógleym­anleg lífsreynsla að sjá þessi tígu­legu dýr sem krónhjartartarfarnir eru í þessu fagra umhverfi. Fjöllin eru brött en gróðurinn vex upp í efstu eggj­ar. Dalirnir eru þröngir og um þá streyma vinalegar ár. Á kvöldin leita krón­hjarta­hjarð­irnar niður að ár­bökk­unum þar sem grasið er grænt og safa­ríkt. Þar dveljast hjarðirnar yfir nóttina en um leið og fer að birta að morgni halda þær upp í hlíðar fjallanna til beitar og til að forðast ímyndaða óvini; sem í dag er aðeins maðurinn. Úlfum og björnum hefur fyrir löngu síðan verið út­rýmt á Bret­landseyjum.

 

Leiðinlegt haust

Haustið 2004 var vægast sagt leiðin­legt fyrir okkur, skot­veiði­menn. Engin rjúpnaveiði. Við vorum því margir hálf eiðarlausir. Það þótti því góð hugmynd að fara til veiða á er­lendri grund. Ákveðið var að fara í góða helgarferð; eða frá fimmtudegi til sunnu­dags. Ýmislegt var var í boði; fasana­veiðar og fleira skemmtilegt. Þær ferðir sem stóðuð okkur til boða voru þó flestar 4 – 6 dagar. Gegn um ýmsar krókaleiðir gafst okkur tækifæri til að fara á krónhjartarveiðar í hjarta skosku hálandanna. Krónhjartarveiðarnar eru ekki ósvipaðar hreindýraveiðum hér á landi. Ýmsir þættir eru þó öðruvísi. Meiri hefðir og siðvenjur eru viðhafðar við veiðarnar, þjónustan við veiðimenn er frábær, landslagið talsvert öðruvísi en á slóðum íslenskra hreindýra og svo er veðrið betra.

 

Konungur hálandanna

picture7.jpgÁ Bretlandseyjum eru 6 tegundir hjart­ar­­dýra. Allar tegundirnar hafa verið fluttar inn nema Krón­hjört­ur­inn. Það vru aðalsmenn og önnur stór­­menni sem fluttu þessi dýr inn til þess að láta þau ganga laus um á landar­eign­um sínum, sér til yndisauka. Dýr­unum fjölgaði ört svo fljótlega var farið að veiða þau. Þessi dýr eru fallow deer, roe deer, muntjac, sika deer og chinese water deer.
Þess má geta að hjartardýr eru fjöl­­­breytt ættkvísl með mikla að­­lög­unar­hæfileika. Stofnarnir eru 17 talsins og skiptast í 40 tegundir og 200 undir­tegundir. Krónhjörturinn er stærsta villta spendýr Bretlandseyja. Meðal­­þungi tarfanna er 110 til 140 kg. og kýrnar 65 – 75 kg. Krón­hjört­urinn heldur að mestu til í skosku há­­lönd­unum. Annars staðar á Bret­lands­­­eyjum hefur kjörlendi hans verið eytt, aðallega með skógrækt. Krón­­hirtinum hefur fjölgað talsvert á undan­­förnum árum. 1974 var talið að um 200.000 krónhirtir héldu til í skosku há­löndunum. Í dag telur stofn­inn 400.000 dýr. Þó svo að sauðfé hafi fækkað í há­löndunum er talið að krón­hjartar­­stofn­inn sé orðinn of stór og að land­ið beri ekki fleiri dýr. Helstu ástæð­ur fyrir fjölgun dýranna er talinn vera mild­ari vetur, meiri gróður og of fáar kýr veiddar.
Veiðitíminn er frá 1. júlí til 15. októ­ber og frá 15. október til 15. febrúar má aðeins veiða kýr. Undan­farin ár eru veidd u.þ.b. 65.000 krón­hirtir í Skotlandi. Nú er farið að ræða um að leyfa veiðar á törfum allt árið og að leyft verði að veiða talsvert fleiri kýr en nú. Þrátt fyrir að kjötið sé frábært til átu, holl og bragðgóð villibráð, fæst fremur lágt verð fyrir það. Ástæð­an er sú að nú eru Ný-Sjálenskir sauðfjár­bændur farnir í auknum mæli að rækta hirti á svipaðan hátt og í staðinn fyrir sauð­fé. Þetta innflutta kjöt fra Nýja-Sjá­landi er yfirleitt af yngri dýrum og talsvert ódýrara.
Tarfar og kýr lifa aðskilin mest­an hluta ársins. Hjarðirnar sam­einast svo á haustin eða um fengi­tím­ann. Sterkustu tarfarnir tryggja sér nokkrar kýr sem þeir verja af hörku. 20% tarfanna særast illa á fengi­tím­anum í bardögum við aðra tarfa. Þetta er erfiður tími fyrir þá. Þeir horast; tapa um 20% af líkamsþyngd sinni., enda er mikið um að vera hjá vinsælum törf­um; 20% tarfanna eiga 80% allra kálfa. Meðganga kúnna er 33 vikur og eru kálfarnir um 6 kg. að þyngd við burð. Tarfarnir yfirgefa kýrnar og láta þeim eftir bestu bithagana. Hver kýr tryggir sér svæði sem er um 1 – 2 km² að stærð. Kýrin snýr svo aftur til hjarð­ar­innar þegar kálfurinn er þriggja vikna gamall. Kálfurinn vex hratt yfir sum­arið og að hausti er hann orðinn 25 – 30 kg. Meðalaldur tarfa er 6 – 7 ár og kúa 4 – 5 ár.

 

Veiðarnar

Veiðarnar ganga fyrir sig á svip­aðan hátt og hrein­dýra­veið­arnar hér á landi. Munurinn er þó helst sá að veiðiverðirnir leita að dýr­unum deg­inum áður, þá eru dýrin ekki skot­in á náttstað eða á láglendi, heldur aðeins yfir daginn og þá í fjöllunum. Við vorum við veiðar í hálöndunum í september en þá má, eins og áður hefur komið fram, aðeins veiða tarfa. Á þessum tíma, seinni hluta sumars og um haustið, eru dýrin ekki í hjörðum yfir daginn. Oft eru þrír til sex tarfar sam­an en stundum eru hóparnir bland­aðir törfum og kúm. Mestan hluta dagsins eru dýrin á beit, en eins og hrein­dýrin leggjast þau niður um miðj­an daginn. Ef veður eru slæm, rok og rigning, fara þau í skjól. Hér er ekki um kjöt­veiðar að ræða. Margir veiði­mann­anna, einkum erlendir veiði­menn, eru að leita að fallegum haus eða hornum til að hafa uppi á vegg. Veiði­verðirnir virðast hlífa yngri törfunum.
picture9.jpgKrónhirtir hafa ekki skarpa sjón en þeir hafa afar næmt lyktar­skyn, því verður að nálgst dýrin á móti vindi. Það getur stundum verið snúið, því það er langt frá því að það sé eins vinda­samt í skosku hálöndunum og ís­lensk­um öræfum. Tiltölulega auð­velt er að læðast að dýrunum þar sem hálöndin eru mun meira gróin en öræfin hér á Íslandi. Meira dýralíf, og þá einkum fuglar, er í hálöndum Skot­lands en í íslensku fjalllendi. Krónhirtir lesa í náttúruna og taka gjarnan á rás ef fuglar eru fældir upp þegar læðst er að dýr­unum.
Ég notaði 6.5 x 55 Sako þegar ég var við veiðarnar og dugði það ágæt­­­lega. Veiði­vörðurinn er við hlið veiði­­­mannsins þegar dýrið er skotið og ber „ábyrgð“ á veiðunum. Velur hann dýrið sem skjóta á í sam­vinnu við veiði­manninn. Veiði­­­vörður­­inn gerir að dýrinu. Eftir að búið er að velta innan úr dýrinu er sett reipi í gegn um neðri skoltinn eða um neðri kjálkann. Menn hjálp­ast svo að við að draga dýrið niður á næsta veg. Ef um langa leið er að ræða eða um tor­­farið land, er dýrið reitt niður á næsta veg með hesti. Bannað er að nota vél­­knú­in farartæki. Þétt vegakerfi er um há­löndin og því yfirleitt stutt niður á næsta veg.

 

Alladale

Eins og áður hefur komið fram, voru krónhjartaveiðar lengi vel aðeins stundaðar af aðlinum og óðals­herrum. Þessi hefð einkennir veiðarnar nokkuð enn í dag. Veiðimennirnir taka gjarnan maka sína með sér og á kvöldin nýtur fólk lífsins í mat og drykk. Í hálöndunum er talsvert af göml­um og virðulegum óðalssetrum sem nú eru nýtt sem hótel eða gistihús fyrir veiðimenn.
Við vorum að veiða nánast í hjarta hálandanna, skammt frá borg­inni Inverness á austur­strönd Skot­lands. Dvalist var á Alladale­setr­­inu. Húsið, sem er gríðarlega fall­egt, var byggt 1877 sem setur fyrir em­­bættis­­menn Hennar Hátignar af Ind­landi. Þarna dvöldust embættis­menn­irnir frá vori fram á haust og stund­uðu lax- og skot­veiðar sér til hress­ingar og skemmt­unar. Húsið er fagur­lega skreytt lista­verk­um, þar sem mynd­efnið er veiðar af ýmsu tagi og gömlum stöngum, vopn­um og uppstoppuðum dýrum. Jörðin sjálf er um 100 km² og er landið að mestu nokkuð há fjöll og dalir. Nánast engar byggingar eða önn­ur mann­virki eru á svæðinu. Öll þjón­usta við veiðimenn er eins góð og best verður á kosið.
Hægt er að stunda þarna lax- og silungsveiðar, veiðar á lyng­rjúpu, gæs og önd. Leirdúfuvöllur er í nágrenninu, einnig golfvöllur. Um svæðið eru göngustígar og eins og áður hefur komið fram, er náttúran stór­brotin og ægifögur. Alladalesetrið er nú í eigu Paul Lister, eldhuga sem leggur ríka áherslu á náttúruvernd og veiðar, þ.e.a.s. skynsamlega nýtingu náttúr­unnar.

 

Hér og þar

Veiðar í Skotlandi eru góður kostur fyrir íslenska veiðimenn. Það kostar svipað að fara til Glasgow og til Egilsstaða. Áhugaverðast er fyrir okkur að fara á krónhjartaveiðar. Fugla­veiðanar eru mjög svipaðar og hér. Rjúpnaveiðar eru nánast alfarið stund­aðar með hundum. Miðað við kostnað hér á landi eru fuglaveiðar frekar dýrar. Krón­hjartar­veiðarnar eru hins vegar tals­vert ódýrari en hreindýraveiðarnar hér á Íslandi. Tarfaveiðarnar eru mjög skipu­lagðar, en það er ógleymanleg reynsla að stunda þessar veiðar í há­­lönd­­unum. Skemmtilegar siðvenjur fylgja veiðunum, sem gaman er að kynn­ast. Félagslífið er eins og best verð­ur á kosið. Að veiðidegi loknum fá menn sér Whiskeylögg fyrir framan arin­inn og svo er sest að veisluborðum og sagðar veiðisögur.
Veiðar á kúm eru ekki síður skemmti­legar en þær eru þó tals­vert öðruvísi. Þær eru að mestu stund­aðar að vetri til, í janúar og febrúar. Veður eru þá orðin válynd, þó veður hamli afar sjaldan veiðum.
Dalirnir eru þröngir og ef veður eru slæm leita dýrin í skjól; gjarnan í skóglendi. Kvíguveiðarnar eru ekki eins skipulagðar og tarfa­veið­arnar. Veiðimennirnir hafa meira frelsi. Eins og staðan er nú, mega menn veiða nánast eins mikið og þeir geta. Ef hægt er að fá vottorð hjá dýra­lækni á að vera hægt að taka eitthvað af kjötinu með heim. Kjötið er mjög gott; fínlegra en hreindýrakjötið, en langt frá því eins bragðmikið. Krón­hjarta­veiðar í Skotlandi eru afar áhuga­verðar fyrir íslenska veiðimenn, ekki síst fyrir þá sem ekki fá úthlutað leyfi til hrein­dýra­­veiða eða vilja veiða meira en bara eitt dýr. Vetrarveiðar á kúm eru ekki síður góður kostur, því að í febrúar er fátt um fína drætti fyrir íslenska skot­veiði­menn. Þá er tilvalið að skreppa í helgarferð til Skotlands til að veiða og frá­bært að hitta vini okkar og frændur, skota.

Tags: voru, margar, einnig, veiðar, þeirra, þó, þessum, sáu, sköpuðu, veið­arnar, dirfsku, fjölmörg, dreif­býlinu, óðali, einn
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Veiðar erlendis Á krónhjartarveiðum í Skotlandi