Skotvís og landréttarmál
- Details
- Published on 21 February 2012
- Hits: 4143
Skotvís var upphaflega stofnað í kringum landréttarmál, þegar bændur í Sveinartungu og Fornahvammi tóku gjald af veiðimönnum fyrir að ganga til rjúpna á Holtavörðuheiði. Allir vita nú að þar má veiða, enda svæðið utan landareigna lögbýla. Landréttarmálin skipuðu veglegan sess í starfi félagsins framanaf og gengu félagsmenn fram fyrir skjöldu með því að sæta kærum sig til að fá úr því skorið hver réttarstaða almennings væri. Fyrrum stjórnarmaður Skotvís, Ólafur Sigurgeirsson lögmaður varði nokkra skotveiðimenn með þeim árangri að þau gáfu fordæmisgildi. Með lögum 58/1988 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta urðu ákveðin kaflaskil í þessum málum, því nú tók óbyggðanefnd við hlutverki Skotvís til að fá úr því skorið hvar eignarlönd enduðu og almenningur og afréttir byrjuðu. Lögin útrýmdu reyndar hugtökunum almenningur og afréttur og er nú kallað einu nafni Þjóðlendur.
Þar sem störfum Óbyggðanefndar er ekki enn lokið, þá stendur Skotvís enn í baráttu við aðila sem gera tilkall til landssvæða sem enn er ekki búið að skera úr um og ber þar hæst að nefna landssvæði í Húnaþing vestra. Líklegt er að fleirri mál skjóti upp kollinum meðan Óbyggðanefnd hefur ekki lokið störfum sínum og mun Skotvís hafa vakandi auga með slíkum málum.
Þó svo að þau landssvæði sem áður töldust til almenninga og afrétta séu nú skilgreindar sem þjóðlendur, þá steðjar að nýr vandi og það eru áhyggjurnar af því hvernig stjórnvöld munu ákveða nýtingu og takmarkanir á ferðafrelsi almennings á þessum svæðum. Vatnajökulsþjóðgarður er skýrasta dæmið um þróun þessarra mála, þar sem stjórnvöld kjósa að sneiða framhjá samráði við hagsmunaaðila og frjáls félagasamtök sem þykja óþægur ljár í þúfu og þar eiga skotveiðimenn undir högg að sækja.
Skoðið því einnig tímalínuna Skotvís, þjóðgarðar, friðlönd og veiðar.