Skotvís og fagleg veiðistjórnunFagleg veiðistjórnun byggir á marvíslegri þekkingu, ekki einungis líffræðiþekkingu einstakra dýrategunda, heldur einnig öllu því sem snýr að náttúru landsins, samspili dýrategunda, fæðuframboði, samkeppni um fæðu, veðurfari og fleirri þátta.  Veiðistjórnun er því samsafn af margvíslegri þekkingu og ekki síst þekkingu veiðimanna sjálfra um það hvernig beri að haga veiðum.  Veiðistjórnun snýst ekki einungis um að friða ákveðnar dýrategundir, heldur koma einnig upp aðstæður þar sem beinlínis þarf að auka við veiðarnar.  Gott dæmi um þetta er "gott ástand" heiðagæsastofnsins, en sá stofn telur nú um 400.000 fugla og hefur stofninn tífaldast á s.l. 30 árum.  Þetta magn af fugli jafngildir beitarálagi 100.000 fjár og endurspeglast m.a. í því að heiðagæsin er farin að verpa á láglendi norðanlands.

Stýring veiða rándýra, þ.e. minks og refs er einnig mikilvægur í ljósi þess að fæða þessarra tegunda byggist mikið til á fuglum og eggjum.  Áhrif þessarra rándýra á lífríkið hefur verið mikið í umræðunni, ekki bara í tengslum við ástand rjúpnastofnsins, heldur einnig annarra fuglategunda og því skal ekki vanmeta þeirra þátt þegar talið berst að "jafnvægi náttúrunnar".

Ástand svartfuglastofna hefur hrakað á undanförnum árum og hafa tillögur meirihluta vinnuhóps um verndun og endurreisn þessarra stofna vakið eftirtekt og hlotið mikla gagnrýni, ekki síst frá fræðimönnum sjálfum, sem aðhyllast aðrar kenningar um hegðun lífríkisins við aðstæður þar sem fæðuskortur ríkir.  Þær kenningar ganga beinlínis útá að við slíkar aðstæður væri skynsamlegast að auka veiðarnar.  Hér er mikilvægt að vísindasamfélagið leiði saman hesta sína og ræði málin á réttum vettvangi, þar sem borin er virðing fyrir skoðunum allra fræðimanna.  Það ætti að vera hlutverk veiðistjórnunarsviðs umhverfisstofnunar að leiða slíkan vettvang þegar kemur að Faglegri Veiðistjórnun.  Veiðistjórnunarsviðið á að hafa vald til þess að kalla fyrir hvern þann sem býr yfir þekkingu og fara yfir málin með faglegum hætti áður en tillögur eru gerðar um fyrirkomulag veiða

Forsenda Faglegrar Veiðistjórnunar er vöktun og rannsóknir.  Vöktun lífríkis er lögbundið hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands og því þarf sú starfsemi að vera á fjárlögum ríkisins, en ekki niðurgreidd úr Veiðikortasjóði.  Fjármögnun rannsókna er hinsvegar ekki háð slíkum skilyrðum og þar þjónar Veiðikortasjóður veigamiklu hlutverki.  Fjármunir Veiðikortasjóðs eiga að renna til umsýslu þar sem ríkir aðhald í rekstri og afgangurinn skal nýttur til rannsókna.  Forgangsröðun rannsóknarverkefna sem styrkt eru þarf að vera í beinu samhengi við mat veiðistjórnunarsviðs á því hvar skortir þekkingu til að uppfylla kröfuna um Faglega Veiðistjórnun.

Skoðið einnig tímalinuna Skotvís og rjúpnaveiðar.

Tags: hefur, þar, einnig, vera, veiðistjórnun, þekkingu, aðstæður, þarf, þessarra, beinlínis, málin, yfir, síst, vöktun, gott
You are here: Home Félagið Söguyfirlit Fagleg veiðistjórnun