Náttúruverndalög 2013 - staðan

Skotvís hefur á undanförnum vikum verið virkur þátttakandi í umræðunni um nýju náttúruverndarlögin. Félagið hefur tekið virkan þátt í starfi Samút, samtaka útivistarfélaga þar sem Einar Haraldsson situr sem fulltrúi Skotvís, sem og stutt fjárhagslega og faglega við starf ferðafrelsishópsins (www.ferdafrelsi.is). Skotvís hefur á öllu stigum málsins gert athugasemdir við ferli endurskoðunarinnar og lagði m.a. fram skriflegar athugasemdir jafnt við Hvítbókina, drög að náttúruverndarlögum sem og núna síðast við fyrirliggjandi náttúruverndarlög sem núna liggja hjá alþingi. Núna síðast í morgun voru fulltrúar Skotvís á fundi umhverfis- og samgöngunefndar þar sem félagið kynnti sínar áherslur og athugasemdir við frumvarpið. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort að frumvarpið verður keyrt óbreytt í gegnum vorþing 2013 en ekki virðist vera mikill hljómgrunnur hjá ríkisstjórnarflokkunum að t.t.t. þeirrra athugasemda sem félagið hefur sent frá sér.

Athugsemdir Skotvís við frumvarpið má lesa hér að neðan:

 

Nefndasvið Alþingis

Umhverfis- og samgöngunefnd

Skrifstofur Alþingis

150 Reykjavík

Reykjavík, 8. febrúar 2013

Athugasemdir SKOTVÍS við frumvarp til laga um náttúruvernd, þingskjal 537  —  429. mál. (Lagt fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013.)

 

 

SKOTVÍS tekur undir og styður umsagnir frá SAMÚT, Ferðaklúbbsins 4x4 og Ferðafélaginu Útivist. SKOTVÍS telur að útivistarhópum sé mismunað eftir ferðamáta, slík mismunun stenst hvorki stjórnarskrá Íslands né er hún í takt við viðhorf Íslendinga til almannaréttar og umgengi um landið.

SKOTVÍS telur að heimild landeiganda til að tamkarka umferð, sbr. 19. gr., sé of víðtæk og gangi gegn almannarétti. Óljóst er undir hvaða kringumstæðum landeiganda er heimilt að takmarka umferð en undanfarin ár hefur borið á því að landeigendur takmarki aðgengi almennings án þess að tilefni sé til.

SKOTVÍS telur rétt að í frumvarpinu sé tiltekið með skýrari hætti undir hvaða kringumstæðum heimilt sé að takmarka ferðafrelsi með þessum hætti.

SKOTVÍS telur að ákvæði 29. gr., úrlausn um ólögmætar hindranir, þurfi að taka breytingum. Í þeim tilfellum þar sem almenningi er hindruð för með ólögmætum hætti eru hagsmunir almennings að leyst sé úr ágreiningnum án ástæðulausar tafar með aðstoð lögreglu en ekki ávallt með úrlausn Umhverfisstofnunar, sem kæranlegir eru til ráðherra. Þá er óljóst hvort kæra úrlausnar Umhverfisstofnunarinnar frestar réttaráhrifum úrlausnar Umhverfisstofnunnar eða ekki.

Að mati SKOTVÍS mun kortagrunnur skv. 32. grein hafa þau áhrif að aukin umferð mun færast inn á viðkvæma slóða sem í dag eru á fárra vitorði. Ljóst er að margir slóðar eru nú þegar utan allra kortagrunna, en eru engu að síður í góðu ástandi til að taka við hóflegri umferð. Almenningi verður ekki heimilt að fara um slóða sem ekki rata inn á grunninn, t.d. á leið í berjatínslu, nýtingu fjallagrasa, vegna skotveiða, stangveiða eða annarrar útvistar. Aðeins þeim sem heimilt er að aka utan vega skv. undanþágum í 31. grein verður áfram heimilt að aka þær slóðir sem ekki rata inn í gagnagrunn. Það felur í sér misskiptingu á gæðum landsins og mun verða til þess að almenningur mun leita leiða fram hjá íþyngjandi reglum, sem ekki eiga að gilda um alla.

SKOTVÍS telur að ráðherra og Umhverfisstofnun sé falið óhóflegt vald til banna og boða eftir eigin geðþótta. SKOTVÍS telur að skilgreiningar í frumvarpinu á hugtökum eru óljósar og aðrar vantar. Þá telur SKOTVÍS að ýmis ákvæði séu óframkvæmanleg, þannig að frá byrjun verður ómögulegt að framfylgja lögunum.

Alvarlegasta athugasemdin sem SKOTVÍS gerir er sú að í frumvarpinu kveður við nýjan tón, þar sem allt skal bannað nema það sé leyft samkvæmt upptalningu í lögunum. Almenningur verður þannig sviptur réttinum til að axla ábyrgð og sýna skynsemi í umgengni við landið sitt. Slíkt er dæmi um mikla afturför og á ekki heima í nútíma lagasetningu.

Fram hefur komið á fundum með stjórnmálamönnum, sem samtökin Ferðafrelsi stóðu fyrir nýlega, að ein af ástæðum aukinna takmarkanna í frumvarpinu sé ótti stjórnvalda við skemmdir af völdum mikils fjölda ferðamanna, sér í lagi erlendra ferðamanna sem fjölgar með ári hverju. SKOTVÍS telur að leita þurfi lausna á vaxandi fjölda ferðamanna og er tilbúið til að benda á ýmsar lausnir til að leysa utanvegaakstur og vandamál tengd mikilli umferð á viðkvæmum hálendisvegum.

Í ljósi ofangreinds hvetur SKOTVÍS Alþingi til að hafna frumvarpinu í núverandi mynd og taka málið upp í nánu samráði við hagsmunaðila og frjáls félagasamtök.

f.h. SKOTVÍS

Elvar Árni Lund, formaður

 

Tags: hefur, þar, skotvís, verður, heimilt, undir, telur, hjá, athugasemdir, umferð
You are here: Home