Gjaldataka í skotprófum vegna Hreindýraveiða – félögin hafa valið

Ágætu veiðimenn!

Nú er hreindýralóttóinu lokið og viljum við óska þeim veiðimönnum sem fengu úthlutað hreindýri til hamingju með vinninginn. Í fyrra var fyrsta ár skotprófsins sem var mikið framfara skref en SKOTVÍS ályktaði fyrst um mikilvægi þess að veiðimenn tækju skotpróf í kringum aldamótin og fylgdi því máli eftir á ýmsum stöðum í stjórnsýslunni. Lítur félagið svo á að skotprófið sem fyrsta skrefið í þeirri viðleitni félagsins að reyndir veiðimenn fái að halda til veiða án þess að þurfa að hafa með sér leiðsögumann.
 
Ferlið í dag er hinsvegar ekki gallalaust og hefur Skotvís sett fram ákveðnar athugasemdir við núverandi útfærslu á skotprófinu og til að fylgja sínum athugasemdum eftir hefur félagið fundað þó nokkrum sinnum með veiðistjórnunarsviði UST til að koma sínum athugasemdum á framfæri, síðast í desember.
 
Þau atriði sem félagið hefur sérstaklega rætt og rétt er að upplýsa veiðimenn um voru:

Skotpróf skilyrði fyrir gildri umsókn. Með því að skilyrða umsókn um hreindýr við það að umsækjendur skuli vera búnir að standast skotpróf mun það draga úr sýndarumsóknum um veiðileyfi. Það hlýtur einnig að teljast eðlilegra ferli að þeir veiðimenn sem vilja halda til hreindýraveiða byrji á því að taka próf til að sýna fram á hæfni sína til að halda til slíkra veiða en að þreyta prófa eftir að hafa fengið úthlutað veiðileyfi. Á fyrsta ári skotprófsins var mikill fjöldi endurúthlutana og ekki náðist að veiða kvótann. Með því að færa skotprófið framar í ferlið má gera ráð fyrir að þeir sem sæki um séu líklegri til að halda til veiða sem aftur dregur úr endurúthlutunum seinna á tímanum og tryggir að endurúthlutun sé í lágmarki og að veiðikvóti náist.  

Niðurstöður samtala við UST:

„Þessi breyting á umsóknarferlinu kallar á breytingu á reglugerð og jafnvel lögum um hreindýraveiðar. UST og SKOTVÍS voru sammála um að ræða þetta mál áfram og mun SKOTVÍS hafa frumkvæði að því að þessi umræða við veiðistjórnunarsvið haldi áfram og síðan tryggja að sú umræða nái eyrum ráðherra því hér er um mikilvægt mál fyrir veiðimenn að ræða.“

Verklagsreglur skotprófsins. Skotpróf er í sjálfu sér einfalt í útfærslu þar sem er verið að kanna hæfni manna til að hitta ákveðið skotmark af ákveðnu færi. Núverandi verklagsreglur eru óþarflega flóknar og hvað varðar próf í almennum öryggisþáttum þá var slíkt ekki rætt í aðdraganda og undirbúningi bæði laga og reglugerðar að skotprófinu. Það kemur á daginn að kröfurnar sem gerðar eru í skotprófinu varðandi öryggismál ganga lengra  það sem tíðkast  á skotvöllum og jafnvel í sumum tilvikum er farið  gegn almennum umgengisreglum skotvalla. Upplýsingar SKOTVÍS um framkvæmd prófanna í sumar benda einnig til þess að enginn hafi fallið á öryggisþætti prófsins og  gefur það til kynna að lítil áhersla sé lögð á þann hluta prófsins.  Að mati SKOTVÍS er betra að láta almennar öryggsreglur vallanna ná yfir þennan þátt.

Niðurstöður samtala við UST:

„SKOTVÍS hefur ítrekað bent á að framkvæmd prófsins sé full flókin og hægt sé að einfalda prófið til muna og tryggja jafnframt sömu gæði. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar frá félaginu, sem hefur fengið fjölmargar kvartanir frá félagsmönnum, hefur UST ekki viljað bregðast við þeim heldur viljað einbeita sér að breytingum sem skipta minna máli s.s. frekari skráningum á prófskífuna o.þ.h.“

Gjaldtakan. SKOTVÍS lítur á gjaldskrá UST sem hámarksgjaldskrá og að skotfélögunum sé í sjálfsvald sett hvað þau innheimta af þessu gjaldi svo lengi sem þau standa skil á hluta UST, þ.e. umsýslukostnaðinum. Tilkoma skotprófanna myndi aldrei ganga án aðkomu skotfélaganna vítt og breitt um landið. Hins vegar er það álit SKOTVÍS að skotfélögin eigi að nýta þau tækifæri sem skotprófið býður uppá og efla eigið félagstarf, fjölga félagsmönnum og láta þá félagsmenn sem þreyta prófið á heimavelli njóta þess t.d. með þeim hætti að láta hluta gjaldsins ganga upp í félagsaðild eða innheimta einungis umsýsluþóknun UST.   

Niðurstöður samtala við UST:
„UST staðfesti þann skilning SKOTVÍS að skotfélögunum sé heimilt að ráðstafa sínum hlut af prófgjaldinu sem er 4.000 kr. svo framarlega að þau skili 500 kr. umsýslugjaldi til UST fyrir hvert skotpróf. Skotfélögin geta endurgreitt sinn hluta gjaldsins, látið hann ganga upp í skotkort á völlum félaganna eða félagsgjöld. “

Stjórn Skotvís

 

Tags: félagið, þess, veiða, hefur, hafa, skotvís, þau, hluta, skotpróf, eftir, ganga, veiðimenn, halda
You are here: Home