22 kalibera skothylki


Skothylkið sem hér er átt við er 222 Remington en það kom fram á sjónarsviðið árið 1950. Maður að nafni Mike Walker á heiðurinn af þessu vinsæla afkvæmi Remington verk­smiðjanna. Hann vann bæði sjálf­stætt og sem byssusmiður og hönn­uð­ur fyrir Reming­ton og var heilinn á bak við marga framleiðsluna hjá Rem­ing­ton. 222 Remington kom á mjög heppilegum tíma. Um þetta leyti átti bekkjar­skotfimi auknum vin­sældum að fagna og voru skot­íþróttamenn sífellt á höttunum eftir einhverju nýju hylki sem slegið gæti gömul met. Þar að auki var mein­dýraveiðimenn (var­mint­ers) vestan hafs farið að lengja eftir fjölda­­­fram­leiddu skothylki sem fullnægði kröfum þeirra um nákvæmni og virkni.
Slíkt skothylki skyldi brúa hið ballistíska bil milli 22 Hornet og 220 Swift. Báðir fyrrnefndir hópar skotmanna tóku hinu nýja skothylki opnum örmum. 222 Remington sló strax í gegn og varð allsráðandi bæði meðal íþróttaskotmanna og mein­dýra­veiði­manna enda nákvæmt með af­brigð­­um. Skothylkið sem trónað hafði á toppi íþrótta­skot­fiminnar, 219 Donald­son Wasp, mátti fljótlega víkja úr sessi fyrir þessu frábæra skothylki. Sæti sínu hélt svo 222 Remington allt fram á miðjan 8. áratuginn þegar hin nákvæmu PPC hylki komu fram á sjónarsviðið.
Hinn evrópski skotvopna- og skotfæramarkaður hóf fljótlega að framleiða 222 Remington hylki og riffla fyrir það. Talið er að Sako verksmiðjurnar í Finnlandi hafi verið hinar fyrstu í Evrópu til að hefja framleiðslu á rifflum fyrir 222 Remington. Árið 1949 hóf Sako framleiðslu á Sako L-46 lásnum en hann þótti óvenju nettur og smávaxinn enda ætlaður fyrir skothylki eins og 22 Hornet og 218 Bee. Þegar 222 Remington komst í umferð tóku Sako menn sig til og breyttu L-46 lásnum þannig að hann passaði fyrir hið nýja skothylki. Strax 1951 fékkst Sako L-46 Vixen riffillinn í kal. 222 Remington og naut gífurlegra vinsælda. Voru margir slíkir rifflar fluttir inn hér á landi. Einnig var flutt hér inn mikið magn af 222 Remington skotfærum frá Sako þannig að um tíma gekk þetta skothylki einfaldlega undir nafninu Sako hérlendis eins og Egill Stardal minnist á í bók sinni “Byssur og skotfimi“. Hér á landi átti 222 Rem­­ington strax upp á pallborð íslenskra skot­veiðimanna og er enn mikið notað þeirra á meðal. Með tilkomu PPC skot­hylkjanna hafa vinsældir 222 Rem­ing­ton dvínað umtalsvert og sumir spámenn þykjast sjá fyrir að vin­sældir þess verði á endanum ekki mikið meiri en 222 Remington Magn­um sem hefur alla tíð átt mjög undir högg að sækja.
Einnig hefur 222 Remington átt í harðri vinsældakeppni við yngra systkini sitt, 223 Remington, sem fjallað verður um hér á eftir. En 222 Rem­ington er síður en svo horfið af sjónar­sviðinu og þess er sjálfsagt langt að bíða að svo verði. Sem fyrr sagði er nákvæmni 222 Remington við brugðið en besti árangurinn fæst með kúlum sem eru 50-55 grain að þyngd. Kjörfæri þessa skot­hylkis er um 250 metrar en teygja má færið út í 300 metra með réttri kúlu og við rétt skilyrði. Þegar færið er orðið lengra er rétt að snúa sér að stærri skot­hylkjum eins og 220 Swift eða 22-250 Rem­ing­ton. Hraði 55 grains kúlu við hlaup­kjaft er á bilinu 2900-3100 fet/sek. en með léttari kúlu, t.d. 50 grain má komast upp í 3300 fet/sek. með handhlöðnum skotfærum. Til saman­burðar má geta þess að með 22-250 Remington má knýja 55 grains kúlu allt að 3700-3800 f/sek. Flestir hinir þekktari riffla­fram­leiðendur hafa á boðstólum riffla fyrir 222 Reming­ton.

 

222 Remington Magnum

222 Remington Magnum er af­sprengi 222 Remington skot­hylkisins. Upphaflegur tilgangur með hönnun þess var sá að skapa smávaxið skothylki fyrir NATO og Banda­ríkja­her en þar á bæ voru menn að sækj­ast eftir nettara skothylki fyrir hina sjálf­virku herriffla sína en notuð höfðu verið til þessa. Þetta skothylki átti að hafa svipaða eiginleika og hin stærri skot­hylki hersins, 30-06 Spring­field og 7.62 x 51 mm. NATO (betur þekkt meðal almennra borgara sem 308 Winchester). Kröfurnar sem herinn gerði til skothylkisins voru að það væri nákvæmt og gæfi af sér mikinn kúluhraða, flatan kúluferil og slagkraft sem teldist fullnægjandi á orrustuvellinum. Þetta var árið 1957 og skyldi skothylkið henta fyrir Armalite AR - 15 automatic herriffil Bandaríkjahers. Áður en til fjölda­fram­leiðslu kom varð ljóst að einhverra hluta vegna hlyti 222 Remington Magnum hylkið ekki náð fyrir augum hersins þannig að ákveðið var að bjóða það til almennra nota í staðinn. Þeir hjá Remington einbeittu sér þess í stað að því næstu árin að hanna og þróa annað skothylki fyrir herinn, 223 Remington. 222 Remington Magnum byrjaði síðan að rúlla úr vélum Rem­ing­ton verk­smiðjanna árið 1958 en átti strax erfitt uppdráttar og féll fljótlega í skuggann af hinu mun vinsælla 222 Remington. Hið átta ára forskot sem 222 Reming­ton hafði á 222 Rem­ing­ton Magnum dugði fylli­lega til að afla hinu fyrrnefnda slíkra vinsælda að hið síðar­­nefnda átti aldrei möguleika á að veita því almennilega keppni. Þrátt fyrir það eru flestir sammála um að 222 Remington Magnum sé mjög ná­kvæmt skothylki og standi 222 og 223 ekki að baki. Flestir eru einnig sam­mála um það að hefði herinn valið 222 Magnum væri það statt þar sem 223 er nú og þá væri 223 Remington að öllum líkindum ekki til. Það hefur aldrei verið umtalsvert úrval riffla á markaðn­um fyrir 222 Remington Magn­um. Remington M-700 og Sako Vixen koma upp í hugann en eitthvað fleiri hafa þeir nú samt verið. Nú munu nýir rifflar fyrir þetta skothylki vera álíka sjaldséðir og hvítir hrafnar. Ballistískt séð fellur 222 Magnum einhvers staðar á milli hins hefð­bundna 222 Remington og skothylkja eins og 219 Wasp og 219 Zipper. Þar sem hylki 222 Magnum er eilítið stærra en 222 Remington hylkið, og tekur því stærri púður­hleðslu, má ná fram svolítið meiri kúluhraða en fæst með hinu síðar­nefnda en munurinn er hverfandi, u.þ.b. 100 f/sek og tekur því varla að eltast við hann. Hraði 55 grains kúlu við hlaup er á bilinu 3200-3300 f/sek. að minnsta kosti 300-450 f/sek. eða jafnvel meira vantar upp á þann kúluhraða sem næst með hinum stærri 22ja kal. centerfire skothylkjum eins og 22-250 Rem. eða 220 Swift. 222 Remington.
Magnum er ekki talið alveg eins nákvæmt og 222 Remington en munurinn er þó ekki stór. Það eina sem Magnum hylkið telst hafa fram yfir hið minna hylki er að það ræður betur við hinar þyngri kúlur, t.d. 60-70 grains. Þetta skothylki hefur aldrei náð verulegri útbreiðslu hér á landi svo ég viti til þó eitthvað hafi að sjálfsögðu verið hér í gangi af rifflum fyrir það.

 

223 Remington

Eins og fram kom hér á undan var upphaflega ætlunin að 222 Remington Magnum yrði nýtt skothylki til hernaðarnota. En til þess kom aldrei af ástæðum sem mér eru ókunnar. Hið nýja skothylki hersins átti að vera 22ja kal. centerfire hylki (.224“) og voru það þrjú skothylki af þessu kaliberi sem kepptu um hlutverkið. Þessi hylki voru 224 Winchester, 224 Springfield og 222 Special. Hið síðast talda var hannað af manni að nafni Gene Stoner en hann vann hjá Armalite fyrir­tækinu (sama fram­leið­anda og framleiddi her­riffilinn sem skothylkið var ætlað fyrir). Öll voru þessi skothylki teygðar og togaðar útgáfur af 222 Remington hylkinu. Hernaðaryfirvöld ákváðu síðan að taka 222 Special fram yfir hin hylkin og eftir að þeir hjá Reming­ton höfðu farið höndum um það tók herinn þetta nýja skothylki í þjónustu sína undir nafninu 5.56 x 45mm NATO. Þetta var árið 1964. Á boðstólum fyrir hinn almenna borgara hlaut það nafnið 223 Remington.
Þegar herinn tekur eitthvað upp á sína arma er það gjarnan ávísun á trygga framtíð þess og þannig hefur það einnig verið með 223 Rem­ington. Margir halda því fram að 223 Remington megi þakka vinsældir sínar og útbreiðslu því að hernaðar­notkun þess tryggði nægar birgðir skotfæra og notaðra skot­hylkja sem hægt var að fá hjá hern­um. Áreiðanlega er nokkuð til í því en um það verður vart deilt að 223 er mjög gott skothylki og á vinsældir sínar fyllilega skilið hvað sem þætti hernaðarnotkunar líður. 223 Remington og 222 Remington Magnum eru ballistískir tvíburar ef svo má að orði komast. Munurinn á virkni og eiginleikum þessara tveggja hylkja er svo lítill að ekki tekur því að gera hann að umtalsefni. Þeir eru til sem fullyrða að 223 Remington sé ekki alveg eins gott skothylki og 222 Magnum og svo eru aðrir sem halda fram hinu gagnstæða. En flestir munu sammála um að ekki sé merkjanlegur munur á gæðum þessara tveggja hylkja. Íþróttaskotmenn eru yfirleitt á því að þegar kemur að nákvæmninni séu þau jafningjar og að 222 Remington sé nákvæmara en bæði þessi skothylki. Skotveiðimenn merkja þó tæplega mun hvað þetta varðar og hafa því flestir snúið sér að 223 Remington þar sem það er ívið öflugra en hið smávaxnara 222 Remington. Það sem að framan hefur verið sagt um ballistíska eiginleika 222 Remington Magnum dugar til að lýsa eiginleikum 223 Remington og er þar í raun engu við að bæta. Í dag er 223 Remington vinsælast þeirra þriggja skothylkja sem hér hefur verið fjallað um. Í Bandaríkjunum er einungis 30-06 Springfield vinsælla riffilskothylki og hér á landi hefur 223 átt sívaxandi vinsældum að fagna. Um 223 Remington gildir það sama og um 222 Remington að allir helstu rifflafram­leiðendur hafa á boðstólum riffla fyrir það.

 

22-250 Remington

Lengi vel var það svo hérlendis að hreindýraveiði stóð einungis örfáum útvöldum skotveiðimönnum til boða. Það voru aðallega þessir útvöldu sem höfðu þörf fyrir hin stærri skothylki til veiða. Önnur veiðidýr á Íslandi eru ekki stórvaxnari en svo að hin minni “centerfire“ skothylki duga fyllilega til veiðiskaparins, t.d. 22ja og 24ra (6 mm) kalibera hylki. Í seinni tíð hefur aðgangur að hrein­dýra­veiðum verið rýmkaður og fleiri fundið þörf fyrir hin stærri skothylki enda kúla af 6 mm gildleika lágmark til hrein­dýra­veiða samkvæmt reglu­gerð. En hin smærri hylki fullnægja þörf flestra skot­veiðimanna og því hafa þau verið mun algengari hér en þau stærri, ekki síst 22ja kalibera hylki. 22-250 Reming­ton er eitt þeirra skothylkja sem hafa átt miklum vinsældum að fagna hér á landi frá því að það kom á markaðinn. 22-250 Remington var upphaflega þróað út frá 250-3000 Savage skothylkinu, fyrst og fremst með því að þrengja hálsinn á patrón­unni þannig að 22ja kalibera kúla passaði í hann. Einnig var axlahorni hylkisins breytt lítillega. Þaðan er svo nafnið komið, fyrri liðurinn vísar til þvermáls kúlunnar og seinni liðurinn, 250, vísar til hylkisins sem var fyrirmyndin. Þetta er ágætis dæmi um hvernig nöfn skothylkja geta verið til komin, þau geta dregið nafn sitt af öðrum skothylkjum, kaliberi, kúlu­hraða, fyrirtækinu sem fyrst markaðssetur það og jafnvel þeim manni sem á aðalheiðurinn af hönnun þess. Þetta skothylki gekk í gegnum langan þróunar­feril og bar ýmis nöfn áður en það hlaut þessa endanlegu nafngift og hafin var verk­smiðju­framleiðsla á því. †msar útgáfur af 22-250 voru í notkun í sérsmíðuðum rifflum allt frá því snemma á öldinni. Þá leit t.d. dagsins ljós aflmikið 22ja kalibera skothylki sem upprunalega bar nafnið 220 Swift (ekki má rugla því saman við hylkið sem nú ber þetta nafn) en var síðan kennt við hönn­uð­inn og kallað Wotkyns Original Swift og skammstafað WOS. Þetta skot­hylki var 250-3000 Savage með 22ja kal. hálsi. Árið 1937 komst skothylkið í því sem næst endanlega mynd í höndum manna eins og J. Gebby og J. Bushnell Smith en þeir notuðu einnig áður nefnt 250-3000 Savage hylki sem fyrirmynd. Gebby fékk einkaleyfi á nafninu “Varminter“ (varmint er enska og þýðir meindýr – dregið af orðinu vermin) og vildi það nafn loða við 22-250 hylkið löngu eftir að Rem­ington hóf fjöldaframleiðslu á því. Nafnið Varminter vísaði til megin notagildis hylkisins, nefnilega veiða á smærri dýrum sem flokkast undir meindýr vestan hafs. Margir hafa furðað sig á því hvers vegna svo gott skothylki sem 22-250 Remington komst ekki í fjöldaframleiðslu fyrr en svo seint sem raun ber vitni og hafa verið á lofti ýmsar skýringar sem ekki verða tíundaðar hér. En það var ekki fyrr en árið 1963 sem fyrst fékkst fjöldaframleiddur riffill fyrir þetta vinsæla skothylki og var hann frá Browning. Þá var ekki enn farið að verksmiðjuframleiða 22-250 skotfæri. Þeir hjá Remington tóku sig loks til árið 1965 og hófu framleiðslu á þessu hylki og hlaut það nafnið 22-250 Remington. Jafnframt fékkst Rem­ington Model 700 riffillinn fyrir skot­hylkið sama ár. Síðan þá hefur 22-250 átt miklum vinsældum að fagna af ástæðum sem nú skal greina. Þegar 22-250 ber á góma er einkum þrennt sem kemur upp í hugann: mikill kúlu­hraði, flatur kúluferill og góð nákvæmni. Það eru þessir þrír þættir sem fyrst og fremst hafa skapað vinsældir þessa skemmti­lega skot­hylkis. Þar að auki er gott framboð af rifflum fyrir það en sá riffla­fram­leiðandi fyrir­­finnst varla sem ekki býður upp á riffil fyrir 22-250 Remington.
Hinn mikli kúluhraði sem næst með 22-250 er einn helsti kostur þessa skothylkis en flatur ferill kúlunnar er í beinu sambandi við kúluhraðann. Hraði upp á 3600–3900 fet/sek. er ekki óalgengur með meðalþungum kúlum (50-55 grain) og 3300-3600 fet/sek. með þyngstu kúlunum (60 - 70 grain) þegar menn hlaða skotfæri sín sjálfir. Verksmiðju­framleidd skothylki skila eitthvað minni kúluhraða en nægum samt. Með léttustu kúlunum (40-45 grain) verður hraði kúlunnar að sjálfsögðu enn meiri eða allt að 4000-4100 fet/sek. Þess ber þó að geta að þeir sem handhlaða skotfæri verða að gæta þess að sumar léttustu kúlurnar, t.d. 45 gr. kúlan frá Hornady, eru ætlaðar fyrir þann hraða sem fæst með 22 Hornet skothylkinu. Þær kúlur eru það veikbyggðar að þær tætast oft í sundur á fluginu ef kúluhraðinn fer upp fyrir 3500-3600 fet/sek. Sama er að segja um 50 gr. SX (Super Explosive) kúlur. Menn verða því að gæta þess að hlaða skothylkin þannig að kúluhraðinn fari ekki yfir þessi mörk ef þessar veikbyggðu kúlur eru notaðar. 40-45 gr. kúlur frá Sierra, Speer og Nosler, svo dæmi séu tekin, eru sterkbyggðari og þola meiri kúluhraða. En almennt er talið að besta nákvæmnin náist þegar notaðar eru hinar þyngri kúlur, 50-60 gr. 22-250 Remington hefur getið sér gott orð fyrir nákvæmni og hefur það aflað þessu skothylki mikilla vinsælda. Þó hefur það ekki notið þeirra vinsælda í íþróttaskotfimi sem hylki eins og 222 Remington og 22 PPC eru orðlögð fyrir enda almennt ekki talið eins nákvæmt og þau. 22-250 er því vinsælla til veiða á smærri dýrum enda mjög nákvæmt á þann mælikvarða sem tíðkast á þeim vettvangi. Sérstaklega nýtur 22-250 Remington sín vel ef notaðir eru rifflar með þungu hlaupi (Varmint rifflar). Færi allt að 400 metrum er ekki ofvaxið þessu skothylki ef riffillinn er góður, skotfærin rétt og skytt­an kann sitt fag. Þetta langa færi er ein ástæðan fyrir vinsældum hylkisins en vegna hins mikla kúlu­hraða verður ferill­inn flatur og kúlan lítt fallin fyrr en komið er út fyrir 250-300 metra. Sem fyrr sagði framleiða flestir riffla­fram­leiðendur riffla fyrir 22-250 Remington. Hér á landi mun þetta skemmtilega skot­hylki vera jafnvinsælt og endranær enda fást alltaf rifflar fyrir það í sport­vöru­verslunum landsins, bæði nýir og notaðir. Rétt er að minna á það aftur að samkvæmt reglugerð er óleyfi­legt hér á landi að nota skotfæri af minna kaliberi til hreindýraveiða en 6mm (.243“) og við þær veiðar eru því 22ja kal. “centerfire“ skothylki, þ.m.t. 22-250 Remington úr leik. En nóg er hægt að skjóta með 22-250 fyrir því.

 

Hugleiðingar um hlaupvídd og kaliber

Þegar talað er um hvaða skotfæri einhver tiltekinn riffill sé gerður fyrir er orðið kaliber oftast notað til að lýsa því. Þannig er talað um 22ja kalibera riffil eða að riffill sé kaliber .243“ o.s.frv. Orðið kaliber vísar til hlaupvíddar ákveðins riffils (eða annars skotvopns) og þvermáls byssukúlu í tommumáli og er tiltekið í hundruðustu eða þúsundustu pörtum úr tommu. Þegar sagt er að riffill sé 30-06 kaliber er um að ræða rangt mál, strangt til tekið, því 30-06 er nafn á ákveðnu skothylki og einungis fyrri hluti þess (30) vísar til hlaupvíddarinnar. Þannig að skothylkin 300 Winchester Magnum, 308 Winchester, 30-30 Winchester og 30-06 eru öll af sama kaliberi, þvermál kúlunnar er hið sama í öllum tilfellum en skothylkin sjálf eru mismunandi. Fyrrnefndur riffill er hins­vegar gerður fyrir skothylkið 30-06 eða 30-06 Springfield eins og það heitir fullu nafni. Fyrir löngu komst á sú hefð að tala um tiltekin skotfæri sem hin eða þessi kaliber og að riffill sé svo og svo margra kalibera, t.d. 22ja kalibera. Hefur þessi málnotkun fest í sessi og ekki er ástæða til að hreyfa við henni. Orðið kaliber er einnig notað yfir skotfæri og hlaupvíddir sem tiltekin eru í metrakerfinu, þ.e. millimetramáli. Þannig tala Svíar um kaliber 6,5x55mm Swedish Mauser. Í daglegu máli skotvopna– og skotfæra­fræðinnar hefur orðið kaliber því nokkuð fjölbreytilega merkingu, en það skorðast samt sem áður við umfjöllun um annað hvort hlaupvíddir skotvopna eða stærðir og nöfn skotfæranna fyrir þau. (Og þó - nú er oft talað um manneskju af hinu eða þessu kaliberi þegar verið er að vísa til mann­gerðar eða persónuleika en það er önnur saga).
Oft þegar fjallað er um kaliber á prenti má sjá að komma hefur verið sett fyrir framan töluna sem vísar til viðkomandi skotfæra eða hlaupvíddar, t.d. .28 kaliber. Þetta er annað atriði sem einhvern tíma varð að hefð sem orðin er föst í skotfæra– og skotvopnamálinu. Í rauninni er ekki rétt að setja kommu þarna þar sem eitt kaliber er 1/100 eða 1/1000 hluti úr tommu, eftir því hversu stærðin er nákvæmlega tiltekin. Skoðum þetta aðeins nánar. Segjum að við höfum 284 kalibera kúlu. Þvermál hennar er 284/1000 hlutar úr tommu. Þannig er rétt skrifað að hún sé .284“. Oft er skrifað um kúlur með þetta þvermál að þær séu .28 kaliber, sem er komm­unnar vegna rangt þar sem það segir að þær séu 28/100 hlutar úr einu kaliberi. Þar sem kúlan er 284 stykki kaliber getur það ekki staðist. Ef menn hins vegar setja komu fyrir framan, .28 eða .284, er það í lagi svo fremi að þeir láti tommu­táknið („) eða nafnið fylgja í kjölfarið; .28“ eða .284 tomma sem sam­svarar þá 28/100 eða 284/1000 úr tommu. Þegar breyta á kaliberum í milli­metramál eða öfugt þykir nógu nákvæmt að deila eða margfalda með 4. Tökum dæmi: 7mm kúla jafngildir 28 kaliberum þar sem 4x7=28. Ef hið evrópska kúlumál 7.62 mm er marg­faldað með 4 fæst talan 30.48 sem lækkuð niður verður 30 kaliber. Evrópska heitið yfir 30-06 Springfield er 7.62x63mm og 308 Winchester heitir á hernaðarmáli 7.62x51mm NATO, þannig að þetta gengur upp. Um bæði þessi skothylki er talað sem 30 kaliber enda þótt 4x7.62 sé ríflega 30. En hvernig stendur á því að þegar talað er um 7mm kúlu er ekki um að ræða kúlu sem er nákvæmlega 28/100 eða 28 kaliber heldur rúmlega það eða 284/1000 úr tommu (7.1mm)? Eins og sagt var hér að framan vísar orðið kaliber upphaflega til hlaupvíddar, þ.e.a.s. þvermáls hlaupsins og þver­máls kúlunnar sem skjóta á úr því. Þvermál hlaupsins er örlítið minna en þvermál byssukúlunnar. Það er vegna þess að hún verður að taka stýringu hinna spírallöguðu grópa sem skornar eru innan í hlaupið og ætlaðar eru til þess að gefa kúlunni snúning (spinn) um sjálfa sig, en það gerir hana stöð­uga á fluginu. Tökum sem dæmi riffilhlaup sem ætlað er fyrir 7mm (28 kalibera) kúlu. Hlaupið er að sjálf­sögðu rifflað að innan (þaðan kemur nafnið riffill) og skiptast á grópir (grooves) og bakkar (lands). Rifflurnar eru skornar innan í hlaupið enda á milli, eins og gleiður gormur eða spírall. Þvermálið frá botni einnar grópar til botns annarrar, beint á móti, er þá 7.1mm eða 284 kaliber, sama þvermál og byssukúlan. Sam­svarandi þvermál bakka á milli er einungis 7mm eða 28 kaliber sem skoðast sem hlaupvíddin. Þvermál kúl­unnar er því aðeins meira en hlaup­víddin, eða sem nemur 0.004“ (0.1mm) í þessu tilfelli. Byssukúlan þarf því að þrengja sér í gegn um hlaupið og snýst um sjálfa sig vegna rifflanna í því. Hún er svo sjálf orðin mörkuð af rifflunum er hún kemur út um byssukjaftinn og nær stöðugleika á flugi sínu vegna snúningsins.
Þetta ætti að auka skilning á því hvað um er að ræða þegar talað er um hlaupvídd og kaliber. Mér finnst samt sem áður góð og gild íslenska að segja hlaupvídd eða kaliber 30-06 þegar talað er um hlaupvídd skot­vopna og stærð skotfæra.

Tags: þess, hefur, hafa, verið, þannig, skothylki, gamla, remington, nýja, hið, hálsinn, þykir, 22-250, dæmi, gott
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Tæknigreinar 22 kalibera skothylki