Ungatalningar hjá rjúpum - Veiðimenn takið þátt!

Ungatalningar hjá rjúpum fara fram síðsumars og tilgangurinn með talningunum er að meta viðkomuna, það er hvernig gekk varpið. Þessi gögn má einnig nota ásamt með aldurshlutföllum frá veiðitíma og vori til að rannsaka afföll ungfugla, en 10 ára stofnsveifla rjúpunnar ræðst af kerfisbundnum breytingum á afkomu þessa aldurshóps. Viðkoman skiptir jafnframt miklu máli um hversu stór veiðistofninn er haust hvert og niðurstöður ungatalninganna veita því mikilvæg gögn fyrir veiðiráðgjöf. Af þeim sökum er mikilvægt að fá upplýsingar um viðkomuna sem víðast að af landinu og ætlunin er að reyna að fá veiðimenn og aðra áhugamenn til starfa á þessu sviði og þá strax í sumar (2010). Hingað til hafa ungatalningar nær eingöngu verið í höndum starfsmanna Náttúrufræðistofnunar og farið fram á aðeins einu landsvæði nefnilega Norðausturlandi. Félagar í Veiðihundadeild Hundaræktarfélags Íslands hafa þó talið um nokkurt skeið á Suðvesturlandi.

Við ungatalningar er ekki reynt að meta fjölda fugla á flatareiningu líkt og í karratalningum á vorin heldur að fá hlutföll unga á móti fullorðnum fuglum. Talningatíminn eru síðustu 10 dagarnir í júlí og fyrstu 10 dagarnir í ágúst. Talningin fer þannig fram að talningamaðurinn vopnaður sjónauka gengur um búsvæði rjúpunnar og skráir hjá sér alla þá fugla sem hann sér bæði unga og fullorðna og eins skráir hann hjá sér kyn fullorðnu fuglanna. Auðvelt er að kyngreina fullorðnu fuglana á hljóðum, karrinn flýgur upp með rophljóði en kvenfuglinn er með allt annars konar hljóð og mun skrækari, “vænk, vænk, vænk, vænk …”. Í útliti er karrinn áberandi dekkri í sumarbúningi en kvenfuglinn. Á þessum tíma er ungahópurinn í forsjá móðurinnar og fjölskyldan flýgur saman í hnapp þegar fuglarnir verða fyrir styggð og þá er hægt að kasta tölu á ungahópinn. Einnig er nauðsynlegt að geta þeirra fjölskylda sem sjást en þar sem ekki næst að kasta tölu á ungahópinn og eins ef kvenfuglar eru með litla unga sem eru tregir að fljúga og því ekki hægt að telja almennilega. Stundum eru fleiri en einn kvenfugl saman um ungahóp og þá ber að geta þess. Nauðsynlegt er að nota sjónauka, bæði kemur hann að góðum notum við að finna fugla og eins er sjónauki nauðsynlegur til að kasta tölu á ungana.

Niðurstöður talninganna ber að senda á Náttúrufræðistofnun Íslands og stíla á Ólaf K. Nielsen. Heimilisfang stofnunarinnar er Pósthólf 5320, 127 Reykjavík. Einnig má senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Menn eru hvattir til að fara út á mörkina og telja oftar en einu sinni, en þó ekki að þræða nákvæmlega sömu móana aftur. Niðurstöðum fyrir hverja talningu ber að halda aðskildum ásamt með upplýsinum um stað og stund og hver taldi og hvort hundar voru notaðir eða ekki.

Ólafur K. Nielsen

Elvar Árni Lund

Davíð Ingason

Tags: hafa, hjá, strax, þessu, aðra, ungatalningar, gögn, rjúpum, áhugamenn, sumar, viðkomuna, sökum, veiðimenn, sviði, starfa
You are here: Home