Umhverfisstofnun í slæmum málum – enn og aftur

Fyrir rúmu ári skrifaði ég grein í Mbl. undir fyrirsögninni Umhverfisstofnun í slæmum málum – aftur. Tilefnið var að árið 2006 voru 50 ár frá stofnun embættis Veiðistjóra. Árið 2003 var embættið lagt niður og sameinað Umhverfisstofnun. Embætti Veiðistjóra varð sérstök deild innan Umhverfisstofnunar og nefndist Veiðistjórnunarsvið.

Þetta fyrirkomulag reyndist vel. Veiðistjórnunarsvið sá um útgáfu veiðikorta og rekstur Veiðikortasjóðs, stjórnun hreindýraveiða, refaveiða og eyðingu minks. Þá sá Veiðistjórnunarsvið um veiðinámskeiðahald og síðar skotvopnanámskeiðin og ýmsa fræðslu ætlaða skotveiðimönnum. Í fyrrahaust greip forstjóri Umhverfisstofnunaar til þeirrar vanhugsuðu ákvörðunar, og án samstarfs við hagsmunasamtök, að leggja Veiðistjórnunarsviðið niður. Stofnað var nýtt svið, svokallað Náttúruauðlindasvið, sem er ætlað að annast eins ólíka málaflokka og eyðingu minks, erfðabreyttar lífverur, veiðistjórnun og rekstur friðlýstra svæða. Þessi skipulagsbreyting hefur haft það í för með sér að þjónusta stofnunarinnar við íslenska skotveiðimenn hefur versnað svo að ekki verður við það unað.

 

Betri heildarsýn?

Þann 25. nóvember 2007 sendi stjórn Skotveiðifélags Íslands (Skotvís) umhverfisráðherra bréf þar sem við lýstum áhyggjum okkar á því að Veiðistjórnunarsviðið yrði lagt niður. Svar barst frá ráðuneytinu 8. janúar 2008, undirritað af umhverfisráðherra og ráðuneytisstjóra. Ráðuneytið tók ekki undir varnaðarorð Skotvís, því miður, eins og nú hefur komið á daginn. Í bréfi ráðuneytisins segir m.a.: ,,Að mati Umhverfisráðuneytisins eru verkefni f.v. Veiðistjórnunarsviðs þ.e. umsjón með verndun, friðun og veiðum villtra dýra í samræmi við samnefnd lög nr. 64/1994 vistuð með eðlilegum hætti hjá Umhverfisstofnun og telur ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla að umræddar breytingar á starfsskipulagi Umhverfisstofnunar verði til að veikja á nokkurn hátt stjórnsýslu Veiðistjórnunar. Vænta má að betri heildarsýn náist yfir málaflokkinn með þessu fyrirkomulagi.” (Feitletrun er höfundar).

 

Áhuga- og þekkingarleysi

Með þeirri ákvörðun að leggja niður Veiðistjórnunarsvið hefur umsýsla málefna skotveiða og veiðistjórnun ekki sama vægi og áður innan Umhverfisstofnunar. Verið er að blanda saman ólíkum málaflokkum sem eiga litla samleið. Þessi skipulagsbreyting er þó aðeins einn þáttur vandans. Helstu ástæðurnar fyrir þeim ógöngum sem málefni skotveiðimanna eru komin í innan Umhverfisstofnunar eru aðallega vegna áhugaleysis yfirstjórnar Umhverfisstofnunar á þessum málaflokki, þekkingarleysis og metnaðarleysis. Staðreyndin er nefnilega sú að þau lög og reglur sem Umhverfisstofnun sér um að semja eða á að hafa umsögn um eru illa unnin vegna þekkingarleysis og skorts á samvinnu við hagsmunasamtök.

 

Nýting og náttúruvernd

Helstu verkefni náttúruauðlindasviðs eru á sviði náttúruverndar. Hér er átt við verkefni eins og mat á umhverfisáhrifum, undirbúning friðlýsinga, rekstur friðlýstra svæða og náttúruverndaráætlun. Málefni friðunar og náttúruverndar hafa því meira vægi innan sviðsins en nýting náttúrunnar. Þegar hagsmunir friðunar og nýtingar rekast á er afgreiðsla Umhverfisstofnunar nánast ávallt sú að friðun er tekin fram yfir nýtingu. Dæmi um slíka ákvörðun er friðun svokallaðs Guðlaugstungusvæðis norðan Hofsjökuls. Meðal friðunaraðgerða var að banna skotveiðar á svæðinu þó svo að íslenski heiðagæsastofninn sé hvað sterkastur stofn veiðidýra hér á landi. Ekki var leitað álits Skotveiðifélags Íslands um þessa makalausu ákvörðun.

 

Klúður

Veiðistjórnun á hreindýrum hefur gengið vel undanfarin ár. Hreindýrastofninn hefur verið í vexti og mikil ásókn í veiðileyfin. Nú eru horfur á að Umhverfisstofnun sé að klúðra þessum málum og er ástæðan sú sama og jafnan áður; metnaðarleysi, áhugaleysi og skortur á samvinnu við hagsmunaaðila. Hreindýraveiðar eru dýrt tómstundagaman, líklegast hafa veiðimenn þurft að borga u.þ.b. 5.000 kr. fyrir kílóið af kjöti af felldu dýri. Árið 2007 var kvótinn 1.300 dýr og seldist hann allur og fengu færri leyfi en sóttu um. Hins vegar eru hreindýraleiðsögumennirnir aðeins 80 talsins. Það er nefnilega svo að ekki hefur verið haldið námskeið fyrir nýja leiðsögumenn síðan árið 2001. Lög um störf, nám og hæfnikröfur fyrir hreindýraleiðsögumenn hafa verið afar ófullkomin og Umhverfisstofnun dregið fram úr hófi að halda nýtt námskeið. Flestir hreindýraleiðsögumenn hafa einnig önnur störf og nokkrir orðnir aldraðir. Það er því mikil þörf á að fjölga leiðsögumönnum. Tvö s.l. ár hafa veiðimenn orðið fyrir talsverðum kostnaði vegna þess að þeir hafa þurft að bíða eftir að fá leiðsögumann o.fl. vegna þess að ekki nefur náðst að veiða dýrið eða dýrin á þeim tíma sem leiðsögumaðurinn hafði. Vegna skorts á leiðsögumönnum hefur verið gríðarlegt vinnuálag á þeim mönnum sem sinnt hafa þessu starfi. Það er fyrst og fremst vegna dugnaðar og hæfni starfandi leiðsögumanna að tekist hefur að veiða allan kvótann. Þegar fyrsta námskeiðið var haldið fyrir hreindýraleiðsögumenn árið 1998 var ströng krafa um að leiðsögumennirnir hefðu góða þekkingu á því svæði sem þeir störfuðu á. Þessi krafa var svo enn í heiðri höfð á námskeiðinu 2001. Leiðsögumaðurinn fékk semsagt leyfi á ákveðið svæði t.d. svæði 2 eða svæði 9 og tók hann próf í landafræði þessa ákveðna svæðis. Vegna meinbugs í lögunum kom í ljós að ekki var hægt að gera þessa kröfu. Staðan er því sú í dag að nú geta leiðsögumennirnir fylgt veiðimönnum á hvaða svæði sem er. Leiðsögumaður sem ávallt hefur starfað á svæði 2 má fylgja veiðimönnum á svæði 9 þótt hann hafi aldrei komið þangað áður.

 

Ekki benda á mig

Í tæpt ár, eða frá 2007 – 2008 var ekki hægt að halda skotvopnanámskeið. Í ljós kom að vafi lék á því hvort mætti innheimta námskeiðsgjald af þátttakendum. Vissulega má segja að hér sé ekki við Umhverfisstofnun að sakast heldur mun fremur við dómsmálaráðuneytið. Það ber hins vegar að hafa það í huga að stofnunin tók að sér að halda þessi námskeið og fær ágætlega greitt fyrir það. Þess vegna átti Umhverfisstofnun að beita sér af krafti fyrir því að þetta klúður yrði lagfært svo ekki þyrftu að líða fleiri mánuðir svo að ekki væri hægt að halda skotvopnanámskeið. Þetta er dæmigert fyrir áhugaleysi Umhverfisstofnunar á málefnum skotveiðimanna. Gott dæmi um andvaraleysi Umhverfisstofnunar í þessum efnum er götuskráning fjórhjóla. Árið 2002 voru samþykkt lög þess efnis að bannað væri að ferðast með vopn á vélsleða, fjór- eða sexhjóli. Þetta var aðallega gert til að vernda rjúpuna, gera veiðimönnum skylt að ganga til rjúpna; hafa fyrir veiðunum. Á undanförnum árum hefur fjór- og sexhjólum fjölgað gríðarlega hér á landi. Þegar heimilað var að götuskrá fjórhjól kom í ljós að götuskráð fjórhjól hefur í raun sömu stöðu í lögunum og bifreið. Það er semsagt leyfilegt að ferðast með vopn á vegum og slóðum á götuskráðu fjórhjóli. Þetta mun gjörbreyta öllum skotveiðum hér á landi. Nú geta veiðimenn ekið langt inn á heiðar með vopn sín til gæsa-, hreindýra- eða rjúpnaveiða. Þarna brást Umhverfisstofnun eftirlitshlutverki sínu. Þetta andvaraleysi hefur kostað og mun kosta gríðarleg vandamál sem ekki er enn séð fyrir endann á.

 

Kr. 12.200.000 til hvers?

Nú um áramót hækkaði gjald fyrir veiðikort úr 2.280 í 3.500. Fljótt á litið virðist þessi hækkun eðlileg þar sem gjöld fyrir veiðikortin hafa ekki hækkað í nokkur ár. Þar sem þjónusta Umhverfisstofnunar við íslenska veiðimenn er eins slæm og raun ber vitni á þessi hækkun engan rétt á sér. Þetta er nefnilega talsvert fé, eða rúmar 12 milljónir. Á ársfundi Umhverfisstofnunar þ. 4. apríl 2007 sagði forstjóri stofnunarinnar, Kristín Lind Árnadóttir, í ræðu sinni að ,,mikið stefnumótunarstarf hefði verið unnið þetta árið. Þrjátíu félagasamtökum hefði verið boðið að koma að þessari vinnu.” Skotveiðifélagi Íslands var hins vegar ekki boðið að taka þátt í þessu stefnumótunarstarfi. Það er varla nein tilviljun eða hvað? Þess má geta að tekjur stofnunarinnar frá skotveiðimönnum verða líklegast um 160 milljónir nú í ár. Að lokum skal það tekið fram að Skotvís hefur átt ágætt samstarf við starfsfólk stofnunarinnar á Akureyri og á Egilsstöðum. Við þetta ágæta fólk er ekki að sakast. Starfsskilyrði þess eru hins vegar ekki öfundsverð, en það er önnur saga.

F.h. stjórnar Skotveiðifélags Íslands,

Sigmar B. Hauksson

Tags: 2003, veiðistjóra, niður, málum, umhverfisstofnunar, umhverfisstofnun, árið, slæmum, sameinað, embættið, embættis, lagt
You are here: Home