Skotvís 30 ára
- Details
- Published on 13 October 2008
- Hits: 2269
Þeir félagsmenn sem hafa áhuga á að eignast afmælishúfu, sendið okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með nafni og heimilisfangi og við sendum húfu um hæl.
Í tilefni 30 ára afmælis félagsins ákvað stjórnin að afmælisins skyldi minnst á einhvern þann hátt sem gagnaðist íslenskum skotveiðimönnum og ætti þátt í að gera þá að enn hæfari og betri veiðimönnum. Nú er í vinnslu mynd um verkun og meðhöndlun villibráðar. Sýnt er hvernig á að gera að villibráðinni og hvernig best er að nýta hana. Gríðarleg þörf er á fræðslu því margir ungir veiðimenn kunna ekki almennilega að gera að bráðinni. Það er heilög skylda hvers veiðimanns að nýta þá bráð er hann fellir eins vel og unnt er. Mynd þessi verður sett á DVD og send öllum félagsmönnum Skotvís er þess óska í lok ágúst 2009. Við væntum þess að mynd þessi verði einnig notuð sem kennsluefni á veiðinámskeiðum Umhverfisstofnunar.
Þá er hafin gerð annarrar myndar sem er öllu stærra verkefni, en hún
fjallar um veiðidýr á Íslandi og veiðar á þeim. Einnig verður fjallað
um veiðar í íslenskri náttúru og um öryggismál. Við væntum þess að sú
mynd verði tilbúin um mitt næsta ár. Hér er um að ræða fræðsluefni
fyrir byrjendur, óreynda veiðimenn. Raunar eiga allir veiðimenn að hafa
eitthvert gagn af þessari mynd.
Í tilefni 30 ára afmælisins var, nú í haust, gerð fræðslumynd um
gildruveiðar á minki. Áður hafði félagið gefið út bækling um sama efni.
Þetta framtak köllum við náttúruvernd í verki. Tilgangur verkefnisins
er að hvetja skotveiðimenn og annað útivistarfólk til að stórauka
gildruveiðar á minki en fullyrða má að það sé árangursríkasta leiðin
til þess að halda minkastofninum í skefjum. Eftir áramót gefst þeim
félagsmönnum Skotvís sem þess óska að fá DVD disk sendan sér að
kostnaðarlausu.
Fimmtudaginn 30. október n.k. kl. 20:00 verður fræðslufundur haldinn í
Gerðubergi þar sem Ólafur K. Nielsen, fuglafræðingur, fjallar um ástand
íslenska rjúpnastofnsins sem, vægast sagt, er mjög sérstakt um þessar
mundir en stofninn er í mikilli uppsveiflu á NA-landi en stendur í stað
á Vestur- og Suðurlandi. Á þessum fundi verður myndin Gildruveiðar á
minki frumsýnd.
Ágætu félagsmenn. Margt hefur verið gert á afmælisárinu, sem ekki
verður tíundað hér. Á tvennt skal þó bent, sem skiptir verulegu máli
fyrir íslenska skotveiðimenn. Það er, í fyrstalagi, nýtt
skotvopnavegabréf sem Skotvís hefur barist fyrir undanfarin 4 ár, en nú
er það mál semsagt í höfn. Vegabréfið auðveldar mjög íslenskum
veiðimönnum að stunda veiðar erlendis. Þá er nýlokið veigamikilli
endurskoðun skotvopnalöggjafarinnar. Segja má að ný skotvopnalöggjöf sé
til gríðarlegra hagsbóta fyrir skotíþróttamenn og veiðimenn.
Stjórnarmenn í Skotvís hafa lagt gríðarlega vinnu í þetta verkefni og
vil ég nota tækifærið til að þakka þeim Einari Haraldssyni og Ívari
Erlendssyni fyrir mikla vinnu í þessu sambandi.
Á 30 ára afmæli félagsins er vert að hafa eftirfarandi í huga:
Án kröftugs starfs Skotvís væru aðstæður íslenskra skotveiðimanna talsvert verri en þær eru í dag.
Sjáumst fimmtudaginn 30. október í Gerðubergi.
Skotvísfélagar, til hamingju með afmælið.
f.h. stjórnar,
Sigmar B. Hauksson
Formaður Skotveiðifélags Íslands