Skjöldur Þorgrímsson - Hinsta kveðja

skjoldur thorgrimssonFallinn er í valinn mikill áhugamaður um skotveiðar og veiðar almennt í íslensku umhverfi Skjöldur Þorgrímsson, en hann lést 20. desember s.l. Hann var einn af mörgum hvatamönnum er SKOTVÍS var stofnað árið 1978 og vann ötullega að flestu því er skotveiðar varðaði og mikill áhugamaður í þeim efnum. Skjöldur lá ekki á skoðunum sínum og var oft heitt í hamsi á þeim fjölmörgu fundum félagsins sem haldnir voru í aðsetri SKOTVÍS á Skemmuveginum forðum, enda fróður mjög um hverskonar veiðar. Alltaf var Skjöldur mættur fyrstur manna á Holtavörðuheiðinni þann 15. október þegar rjúpnaveiðar hófust og fór mikinn enda vanur ýmsu í þeim efnum að norðan. Við skotveiðimenn leituðum oft í smiðju Skjaldar og gaf hann okkur oft góð ráð sem lutu að rétti veiðimanna til landsins og gæða þess og var hann ávallt fróður heim að sækja.
 
Þeim fækkar þessum harðjöxlum íslenskum sem fóru víða um hálendi okkar fagra lands og létu hvorki erfiði né fortölur hafa áhrif á ætlanir sínar er veiðar varðaði, heldur nutu ferðanna í góðum félagsskap og umhverfi.
 
Við sendum eiginkonu Skjaldar Þórhildi Hólm Gunnarsdóttur og nánum ættingjum þeirra okkar bestu samúðarkveðjur við fráfall góðs drengs og megi minning hans lengi lifa.
 
Sólmundur Tr. Einarsson
Tags: skotvís, veiðar, skotveiðar, fóru, skjöldur, skjaldar, fróður, mikill, áhugamaður, hálendi, hvorki, fagra, víða, okkar
You are here: Home