Sigmar B. Hauksson, fyrrverandi formaður SKOTVÍS látinn

Sigmar-7Sigmar B. Hauksson, fyrrverandi formaður SKOTVÍS, lést aðfararnótt 24. desember á Landspítalanum eftir stutt veikindi. Hann var 62 ára.

Sigmar fæddist 3. október árið 1950. Hann var landsþekktur fyrir störf sín á fjölmiðlum. Hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu til margra ára, bæði hjá fréttastofu útvarpsins og einnig við þáttagerð. Hann gerði bæði matreiðsluþætti og ferðaþætti sem nutu mikilla vinsælda hjá landsmönnum. Þá skrifaði hann reglulega pistla í Morgunblaðið. Síðustu misserin vann hann hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Sigmar lagði margt til skotveiða á Íslandi sem formaður Skotveiðifélags Íslands á árunum 1995-2011. Hann var þar fremstur í flokki með að bæta ímynd skotveiðimanna, þar sem hann hvatti skotveiðimenn til þess að virða náttúruna í hvívetna, en náttúran var hans helsta hugðarefni og átti hún mjög stóran þátt í lífi hans.  Með ástríðu sinni á málefnum skotveiðimanna, efldi Sigmar alla umræðu um skotveiðar í íslenskri náttúru og eftir hann liggja mörg fróðleg erindi, bæði í fjölmiðlum og ekki síst í tímaritinu SKOTVÍS, sem hann hann ritstýrði frá stofnun (1995).

Meira verður greint frá störfum Sigmars á vettvangi SKOTVÍS síðar.

Stjórn SKOTVÍS vill fyrir hönd félagsmanna votta fjölskyldu Sigmars sína dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum, og vill um leið þakka fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt framlag hans í gegnum árin.

Elvar Árni Lund, f.h. stjórnar SKOTVÍS 

Tags: hans, þar, skotvís, skotveiðimanna, fyrrverandi, sigmars, hauksson, hjá, íslenskri, eftir, bæði, formaður, vill, sigmar
You are here: Home