Samráðsfundur um rjúpnaveiðar

Ágætu félagar
Miðvikudaginn 31. ágúst var haldinn samráðsfundur um rjúpnaveiðar í húsakynnum NÍ. Samráðsfundir sem þessir hafa verið haldnir undanfarin ár með góðum árangri, á þessum vettvangi hittast sérfræðingar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt stjórnarmönnum SKOTVÍS.

Á fundinum kom fram að minna var veitt af rjúpu árið 2010 en NÍ ráðlagði. Hinsvegar kom fram í máli Ólafs K. Nielsen að rjúpnatalningar hefðu komið illa út í vor og sömuleiðis hefði ungatalningin í ágúst valdið vonbrigðum. Á fundinum var rætt ýmislegt sem snýr að rjúpnaveiðum og hvernig staðið skuli að veiðum í vetur og næstu ár.

Það er mat SKOTVÍS að veiðar eru ekki ástæða þess að minna virðist vera af rjúpu í ár en búist var við. Veiðimenn hafa langflestir veitt hóflega og virt sölubann og tilmæli sem beint hefur verið að þeim um að draga markvisst úr veiðum. Enn má þó finna innanum aðila sem veiða umfram það sem ráðlagt er, en slíkt virðist heyra til undantekninga og með tímanum mun þetta leggjast af.

Ástæðan fyrir fækkuninni virðist helst tengjast veðurfari enda var ekkert venjulegt árferði í vor og sumar, með ríkjandi norðanátt, kulda og úrkomu. Þá er ljóst að áhrif refastofnins á rjúpnastofninn eru vísindamönnum óþekkt stærð en það er mat SKOTVÍS að þessi áhrif geta verið mjög mikil á ákveðnum svæðum og breytileg á milli ára. Það álit er byggt á reynslu íslenskra veiðimanna sem þekkja landið og náttúruna eftir áratuga veiðar.
 
Málið er þannig vaxið núna að NÍ mun væntanlega koma með tillögur um veiðiþol rjúpnastofnsins fyrir 2011 og UST mun svo skila tillögum um veiðistjórnun í framhaldinu. Þessar tillögur enda inni á borði umhverfisráðherra sem síðan mun taka ákvörðun um fyrirkomulag veiðanna. Síðastliðin ár hefur verið óskað eftir umsögn SKOTVÍS um málið og áður en ákvörðun hefur verið tekin hefur ráðherra fundað með SKOTVÍS. Þetta hefur gefist vel og vonandi verður framhald á þessu fyrirkomulagi. Fyrir þremur árum var ákveðið að veiðitímabilið skyldi vera 18 dagar sem dreifast á 6 helgar frá í lok október fram í desember. Þá var ákveðið að þessi háttur skyldi hafður á ef ekkert óvænt kæmi upp á til þriggja ára, þ.e. 2009, 2010 og 2011.
Ráðherra mun væntanleg taka ákvörðun á næstu vikum. Við munum að sjálfsögðu koma fréttum áleiðis til félagsmanna þegar þær berast.
 
Elvar Árni Lund

Tags: íslands, skotvís, vettvangi, góðum, þessum, umhverfisstofnunar, rjúpnaveiðar, samráðsfundur, árangri, hittast, stjórnarmönnum, sérfræðingar, ásamt, náttúrufræðistofnunar
You are here: Home