Rjúpnaveiðarnar haustið 2007

Þá er rjúpnaveiðinni haustið 2007 lokið. Þetta hefur verið sérstakur tími. Veiðitíminn var mjög stuttur eða aðeins 18. dagar. Lítið var um rjúpu og gríðarlega umhleypingasamt. Í fyrra er talið að veiddar hafi verið um 55.000 rjúpur en þá voru veiðidagar 26. Líkur eru á að veiðin verði talsvert minni í ár þar sem veiðitíminn er 8 dögum styttri og veðurfar óhagstætt til rjúpnaveiða. Líkur eru því á að veiðin í haust verði frá 30.000 ? 38.000 rjúpur. Líklegt má þó telja að veiðin sé nær 30.000 fuglum en 38.000. Í þessu sambandi er athyglisvert að skv. skoðanakönnun um veiðar félagsmanna Skotvís árið 2006 hefði veiðin í fyrra átt að vera 30.000 ? 37.000 fuglar. Veiðin var hins vegar um 55.000 fuglar ef á heildina er litið. Ekki verður því annað séð en að félagsmenn í Skotvís stilli veiðum sínum í hóf fremur en aðrir veiðimenn.

 

Það er því ánægjulegt að siðbótarboðskapur Skotvís hefur borið árangur. Félagsmenn í Skotvís hafa dregið verulega úr veiðum sínum og vonandi fylgja aðrir veiðimenn á eftir. Það er semsagt staðreynd að nú er komin virk veiðistjórnun í rjúpnaveiðunum. Veiðin er nú orðið það lítil að hún ætti ekki að hafa áhrif á vöxt og viðgang stofnsins. Hins vegar ber að hafa í huga að íslenski rjúpnastofninn er enn lítill og veikburða. Beita þarf því takmörkunum við veiðar næstu árin og í því sambandi hefur Skotvís lagt til að fyrirkomulag veiðanna, í það minnsta næstu tvö árin, verði eins og það var nú í haust þ.e.a.s. veiðar aðeins leyfðar í nóvember fjóra daga í viku.
Ef grannt er skoðað þá hafa rjúpnaveiðar í einhverjum mæli aðeins verið stundaðar á Íslandi í um hundrað ár. Það má segja að magnveiðar á rjúpu hafi ekki hafist hér á landi fyrr en í byrjun tuttugustu aldar, eða um og eftir fyrri heimsstyrjöld. Gríðarlega mikið var veitt af rjúpu á þessum tíma. Iðulega voru fluttar út um 200.000 rjúpur og það er ekki nema örfá ár síðan við vorum að skjóta um 160.000 rjúpur á hausti. Getur verið að þessi rányrkja undanfarin hundrað ár sé orsök þess að fækkað hefur í stofninum? Vísindaleg rök benda ekki til þess en ef málið er grannt skoðað, getur þó svo verið og rannsóknir frá Bandaríkjunum um veiðar á villikalkúni sýna að mikið veiðiálag í langan tíma geti allt í einu haft neikvæð áhrif á stofninn.
Í dag er staðan sú að við erum komin með virka veiðistjórnun á rjúpu og skotveiðar eiga ekki, eins og áður sagði, að hafa áhrif á rjúpnastofninn. Afar brýnt er að sölubanni verði haldið áfram og því fylgt vel eftir. Ýmsar vísbendingar eru um að sáralítið sé selt af rjúpum. Þá er brýnt að halda úti öflugum rjúpnarannsóknum en nú er að koma afar vel skipulögð rannsóknaráætlun um rjúpnarannsóknir komandi ára. Merkilegur gagnagrunnur er til um rjúpuna þannig að við höfum allar forsendur til að geta stundað sjálfbærar veiðar úr stofninum.
Brýnt er að veiðimenn aðstoði við rjúpnarannsóknir. Ég vil því hvetja rjúpnaveiðimenn til að senda inn rjúpnavængi til Ólafs K. Nielsen hjá náttúrufræðistofnun. Frekari upplýsingar er hægt að fá á ni.is. rjúpnavængir eru mjög mikilvæg rannsóknargögn. Úr vængjunum má lesa hlutfall unga í aflanum. Þessar upplýsingar gefa vísbendingu um hvernig varpið hafa gengið og ungunum reitt af nú í sumar og haust. Því áreiðanlegri og betri upplýsingar sem við höfum um stöðu rjúpnastofnsins, því betur getum við stundað sjálfbærar veiðar úr honum og byggt hann upp.

Veiðimenn. Drífið ykkur nú og sendið Ólafi rjúpnavængi frá veiðinni í haust. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Sigmar B. Hauksson
Formaður Skotveiðifélags Íslands

Tags: verið, skotvís, veiðin, veiðitíminn, líkur, 2007, 55.000, félagsmanna, verði, veiðar, sambandi, haustið, árið, 30.000, fyrra
You are here: Home