Rjúpnaveiðar 2012

Henrik Thorburn Lagopus muta Iceland Snaefellsnes April 2012Rjúpnaveiðitímabilið sem hefst föstudaginn 26. október hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og flestir þeirra 5000 veiðimanna sem stunda rjúpnaveiðar eru væntanlega farnir að huga að undirbúningi.  Á þessum tímamótum er ekki úr vegi að minnast á nokkur atriði sem tengjast þeim lífsgæðum sem felast í því að geta stundað rjúpnaveiðar hér á landi og má ekki taka sem sjálfsögðum hlut.

LANDRÉTTARMÁL
SKOTVÍS var upphaflega stofnað m.a. með það að markmiði að verja rétt almennings til að nýta veiðilendur í almenningi og afréttum, sem nú kallast einu nafni þjóðlendur.  Í siðareglum SKOTVÍS er skýrt tekið fram að skotveiðimenn eigi að virða rétt landeigenda og jafnframt standa vörð umeigin rétt.  Þetta er vandrataður vegur, en í þessu felst að menn leiti sér upplýsinga áður en haldið er til veiða, ræði við landeigendur og aðra til að ganga úr skugga um að þessi hluti siðareglnanna sé í heiðri hafður.

Þó svo veiðimenn hafa rekið sjálfir nokkur mál sem snúa að veiðirétti í gegnum tíðina (t.d. Hundadalsmálið), þá hefur tilkoma óbyggðanefndar tekið við þessu kefli og úrskurðað í landréttarmálum fyrir stóran hluta af landinu.  Enn er þó eftir að úrskurða á Austurlandi, Norðurlandi vestra, Vesturlandi og Vestfjörðum, en ríkið hefur nú gert kröfu í umdeilt svæði á norðurlandi vestra, nánar tiltekið í Húnaþingi vestra, mál sem SKOTVÍS hefur unnið að undanfarin ár - SKOTVÍS hvetur veiðimenn til að kynna sér niðurstöður óbyggðanefndar og nýta sér aðra kortagrunna sem eru listaðir á vef SKOTVÍS, til að skipuleggja veiðiferðina þ.a. að hún verði ánægjuleg upplifun en einkennist ekki af deilum.

STAÐA RJÚPNASTOFNSINS OG RANNSÓKNIR Á RJÚPNASTOFNINUM
Rjúpnastofninn er á niðurleið, ekki bara í hefðbundinni niðursveiflu, heldur einnig til lengri tíma.  Karratalning í vor sýndi fram á 25% fækkun milli ára, en góður varpárangur í sumar gaf nægilega nýliðun til að heimila veiðar.  Þrátt fyrir að meirihluti fjárframlaga úr Veiðikortasjóði renni til vöktunar og rannsókna á rjúpnastofninum, er margt enn á huldu um samspil veiða og afkomu stofnsins.  SKOTVÍS hefur lengi gagnrýnt áhugaleysi stjórnvalda til að horfa á aðstæður rjúpnastofnsins í víðara samhengi, þ.e. að tekið sé meira tillit til annarra þátta en veiða.  Ný rannsóknaráætlun er í vinnslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem tekur gildi 2013 og hefur SKOTVÍS óskað eftir aðkomu að gerð þessarrar áætlunar, til að tryggja að áherslur skotveiðimanna endurspeglist í framtíðaráætlunum.

VEIÐISTJÓRNUN
Veiðistjórnun er ein leið til að halda vistkerfi rjúpunnar í jafnvægi og þá þarf að taka tillit til margra þátta, en í dag er stórkostleg fjölgun í refastofninum lítill gaumur gefinn sem og annarra þátta sem áhrif hafa á vistkerfi rjúpunnar.  Virk veiðistjórnun er nauðsynleg til að takast megi að viðhalda ákjósanlegum aðstæðum, þ.a. hægt sé að stunda hér rjúpnaveiðar um ókomna framtíð.  Slík er aðeins mögulegt með því að beina fjármunum með markvissum hætti í þær rannsóknir sem munu auka við þá þekkingu sem nauðsynleg er hverju sinni og forgangsraða rétt.  Fjöldi veiðidaga er eitt af þeim atriðum sem hefur verið gagnrýnt af veiðimönnum, en fækkun veiðidaga niður fyrir ákveðin mörk geta snúist upp í andhverfu sína, þegar veiðiálag á svæði eykst umtalsvert þegar fjöldi daga er af skornum skammti.  SKOTVÍS hefur bent á að í Noregi er verið að vinna að verkefni sem mun styrkja veiðistjórnun sem mun taka inn í myndina fjölstofnarannsóknir ásamt áhrifum ákvörðunar um álagsstýringu, en SKOTVÍS vill að horft verði til slíkra fyrirmynda við uppbyggingu veiðstjórnunar hér á landi.

VEIÐAR OG VEIÐISIÐFERÐI
Veiðimönnum hefur ekki fjölgað frá árinu 1995, þegar markviss skráning veiðitalna var lögleidd hér á landi.  En með niðursveiflu rjúpnastofnsins, þrengingu veiðiheimilda, lokun landssvæða og fækkun veiðidaga hefur verulega þrengt að valkostum veiðimanna sem hefur leitt til kapphlaups.  SKOTVÍS beinir þeim tilmælum til veiðimanna að missa ekki sjónar af siðareglum félagsins og sýna öðrum veiðimönnum og samborgurum háttvísi og tillitssemi á veiðislóð ásamt því að stunda hóflegar veiðar.  SKOTVÍS vill minna veiðimenn á átakið "Láttu ekki þitt eftir liggja" og hirða upp tóm skothylki, sín og annarra.  Með því að koma þeim á næstu OLÍS stöð, þá komast menn í happdrættispott sem gefur möguleika á að vinna 150.000 króna úttekt hjá OLÍS. 

Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.

Bestu óskir um ánægjulegt rjúpnaveiðitímabil.

Stjórn SKOTVÍS

Tags: hefur, skotvís, rétt, þó, tekið, mál, nokkur, norðurlandi, nýta, óbyggðanefndar, rjúpnaveiðar, þessu, aðra, vestra, veiðimenn
You are here: Home