Pistill formanns við áramót

Þá er veiðiárið 2007 senn liðið. Hreindýraveiðarnar gengu sérlega vel þó svo að of margir veiðimenn hafi farið of seint af stað og af og til hafi verið skortur á leiðsögumönnum. Ljóst má vera að hefði leiðsögumönnum ekki verið leyft að nota sexhjól til að ná í fellda bráð þá hefði ekki náðst að veiða öll þau hreindýr er mátti fella. Heimild, leiðsögumönnum til handa, er því til mikilla bóta. Líklegast verður haldið námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn nú í vor þannig að ekki ætti að vera skortur á leiðsögumönnum á næsta veiðitímabili.


Gæsaveiðin fór seint af stað og var lítið veitt af gæs fyrstu vikurnar. Flökkusögur voru í gangi um mikla blesgæsaveiði. Talið var að þrjú þúsund fugla vantaði í stofninn og töldu einhverjir að ástæðan væri mikil blesgæsaveiði hér á landi þrátt fyrir að blesgæsin sé friðuð. Kannanir okkar sýna að þessi orðrómur átti ekki við rök að styðjast. Satt best að segja var blesgæsaveiðin óveruleg, einhverjir fuglar voru skotnir af misgáningi. Nokkuð var um að veiðimenn seldu gæsabringur til veitingahúsa en þó gátu þeir hvergi nærri annað eftirspurn. Svo virðist sem að færri veiðimenn veiði gæsir og selji eða þá að gæsaveiðin hafi verið minni s.l. haust en árin á undan. Athyglisvert er að íslenskar gæsir voru varla sjáanlegar í verslunum. Hins vegar hefur úrval af innfluttri villibráð aukist talsvert og má nú m.a. kaupa danskar stokkendur og gæsir í verslunum hér. Það virðist því sífellt draga úr vægi íslenskrar villibráðar sem markaðsvöru og er það vel.

Rjúpnaveiðitíminn hefur aldrei verið styttri en nú í haust, eða aðeins átján dagar. Vísindamenn og hagsmunaaðilar voru sammála um að nauðsynlegt væri að takmarka veiðarnar eins og unnt væri. Rjúpnastofninn er lítill og er niðursveifla hafin og varpið virðist að einhverjuleyti hafa misfarist vorið 2006. Veðurfar var hliðhollt rjúpunni ef svo má segja. Gríðarlegir umhleypingar voru, stundum allar áttirnar á einum og sama sólarhringnum. Frekar var hlýtt í veðri og lítill snjór og oft mjög hvasst. Rjúpan var því mjög dreifð. Eftirtektarvert var að minna var um veiðimenn á veiðislóð en t.d. í fyrra. Mikil vinna er í landinu og, eins og áður sagði, veður óhagstætt til veiða. Margir veiðimenn fóru því ekki til veiða. Þá er það staðreynd að flestir veiðimenn einsettu sér að veiða í hófi; aðeins fyrir sig og sína. Margir veiðimenn náðu því ekki að veiða í jólamatinn, það voru helst vanir og reyndir veiðimenn sem geta vel við unað eftir haustið. Minna var um að fólk væri að reyna að fá rjúpur keyptar, alla vega miðað við í fyrra. Sárafáir veiðimenn selja rjúpur og því má fullyrða að aldrei hafi færri rjúpur verið seldar hér á Íslandi en nú í haust. Ekki verður annað séð en að sölubannið virki allvel og að loksins sé komin ásættanleg veiðistjórnun á rjúpu. Eins og áður sagði, þá er rjúpnastofninn veikur og verður því enn, alla vega næstu tvö árin, að takmarka veiðar talsvert eða svipað og nú í haust.

Síðastliðið haust lagði Skotvís til við umhverfisráðherra að næstu árin, 2008 og 2009, verði sama fyrirkomulag, þ.e.a.s. að aðeins verði leyfðar veiðar fjóra daga í viku í nóvembermánuði.

Að lokum óskar Skotveiðifélag Íslands félagsmönnum sínum gleðilegs nýs árs og góðra stunda við veiðar í íslenskri náttúru á komandi ári.

 

Sigmar B. Hauksson

Formaður Skotveiðifélags Íslands

Tags: hreindýr, verið, þau, mátti, leiðsögumönnum, hefði, fella, heimild, handa, fellda, bráð, öll, vera, skortur, hafi
You are here: Home