Landréttarnefnd Skotvís

Í kjölfar umræðu um veiðitakmarkanir og skerðingu á almennum veiðirétti, sbr. fyrirliggjandi takmarkanir á veiðum innan  Vatnajökulsþjóðgarðs, auk fjölda fyrirspurna frá veiðimönnum um heimilar rjúpnaveiðar, telur Skotvís nauðsynlegt að stórefla vinnu við þennan málaflokk með þátttöku félagsmanna.

Í þessum tilgangi hefur Skotvís sett á laggirnar landréttarnefnd, sem mun á næstu vikum leggja fram áætlun fyrir stjórn Skotvís hvernig skuli bregðast við þessu ástandi.  Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir virkri þátttöku félagsmanna, hvort sem það snýr að upplýsingaöflun, kynningarstarfi, fjáröflun eða bara að tilkynna um ágreining varðandi eignarétt og ráðstöfun veiðiheimilda.

Þessu málefni til stuðnings er á heimasíðu Skotvís að finna vefsvæði landréttarnefndar sem er ætlað að miðla upplýsingum um landréttarmál og starf landréttarnefndar sem við hvetjum skotveiðimenn að kynna sér áður en haldið er til veiða.  Þar er að finna ýmsan fróðleik um störf óbyggðanefndar auk áhugaverðra kortagrunna sem mörg hver innihalda landamerki.  Rétt er að taka fram að landamerkin geta í einhverjum tilfellum verið umdeild og óútkljáð fyrir dómstólum.

Fyrir rjúpnavertíðina hefur borið á auglýsingum frá “Landeigendum” um að veiði sé ýmist óheimil, heimil með takmörkunum eða gegn gjaldi á ákveðnum svæðum sem jafnvel eru tilgreind með GPS hnitum.  Sjálfsagt hafa þessir aðilar einhverjar forsendur til að gera tilkall til landssvæðis, en ef félagsmenn rekast á tilkynningar þar sem þykir leika vafi á eignarhaldi og að menn telji að á skotveiðimönnum sé brotið, þá vill Skotvís nýta hvert slíkt tækifæri til að skapa umræðu og fá úr því skorið hver fer með eignarétt og ráðstöfun veiðiheimilda ef um það er ágreiningur.

Skotvís hefur ávallt lagt áherslu á að veiðimenn fari eftir lögum og eignaréttur sé virtur, en að menn gæti þess jafnframt að standa vörð um eigin rétt.  Með þessu mælist Skotvís til þess að veiðimenn kynni sér landssvæði á kortum, úrskurði óbyggðanefndar og vefsjár áður en haldið er af stað til veiða. Fari svo að ágreiningur verði á veiðislóð, eru skotveiðimenn hvattir til að fara kurteisilega fram á útskýringar á landamerkjum, GPS hnitum eða aðrar vísanir í eignatilkall, skrái þetta niður ásamt upplýsingum um nafn, aðsetur og símanúmer "landeiganda" og tilkynni landréttarnefnd Skotvís ( This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ).

Landréttarnefnd skorar því á alla félagsmenn og aðra skotveiðimenn að standa saman í þessari mikilvægu réttindabaráttu og leggja starfinu lið.

Landréttarnefnd

Tags: skotvís, leggja, næstu, þátttöku, bregðast, vikum, landréttarnefnd, hvernig, áætlun, stjórn, þessu, þeirri, skuli, ástandi
You are here: Home