Fyrirspurn til UST - Kostnaður við leiðsögumannanámskeið

Að undanförnu hefur verið mikil umræða meðal skotveiðimanna vegna nýrrar lagasetningar um hreindýraveiðar, sem fjallað hefur verið um áður á vef SKOTVÍS [hér], og auglýsts námskeiðs fyrir verðandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum sem stefnt er að halda dagana 9.-12. júní á austurlandi.  Mikil áhugi reyndist vera á námskeiðinu og bárust um 170 umsóknir, en aðeins var boðið uppá pláss fyrir 30 umsækjendur á fyrsta námskeiðið.  Rétt er að taka fram að í tilkynningu á hreindyr.is er greint frá því að „...haldið verður annað námskeið ef þátttaka verður umfram 30 manns...“.

SKOTVÍS gerði fyrirvara við verðlagningu slíkra námskeiða í umsögn sinni [hér] um lagafrumvarpið, þar sem þannig aðstæður hafa skapast að þessum kostnaði yrði velt beint yfir á veiðimenn í formi hærra gjalds fyrir leiðsögn.  Í framhaldi af auglýsingunni sendi SKOTVÍS fyrirspurn á veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunnar þar sem farið var fram á sundurliðun kostnaðar vegna námskeiðahalds og hér að neðan er að finna svör Umhverfisstofnunar:

Námskeiðsgjaldið er í samræmi við þann kostnað sem fellur til vegna námskeiðshaldsins. Að kennslu og námskeiðshaldi koma um 18 manns.

Helstu kostnaðarliðir vegna námskeiðsins

Aðbúnaður (salur, búnaður og veitingar) 310.000
Ferðakostnaður v/kennslu (gisting, fæði og flug) 1.770.180
Launakostnaður (v/kennslu) 542.500
Námsefni (bók, svæðalýsingar, GPS/rötun) 504.000
Annar kostnaður (2 leiðsöguferðir og óvæntur kostnaður) 1.500.000
     Samtals gjöld 4.626.680
     Samtals tekjur af námskeiðagjöldum 4.800.000
     Mismunur af tekjum og gjöldum 173.320

Líkt og kom fram á heimasíðu Umhverfisstofnunar og á hreindyr.is var fyrirkomulagið þannig að þeir 30 fyrstu sem skrá sig eru fyrstir inn á námskeiðið. Notast er við tíma sem skráningar berast og eru þær upp á sekúndu.

 

Stjórn SKOTVÍS vill nota þetta tækifæri til að ítreka þá kröfu félagsins að reyndum veiðimönnum sem uppfylla ákveðnar kröfur verði gefinn kostur á að stunda hreindýraveiðar án leiðsögumanns, að úthlutun veiðileyfa verði byggð á „réttlátum“ grunni, að „sanngirnisjónarmið“ ráði þar för og að hafin verði vinna yfirvalda sem stuðli að meiri þekkingu á áhrifum þess að flytja hreindýrastofna til annarra landshluta.

Til þess að skipulögð og virk umræða fáist um þetta stóra mál, er þörf á að endurskoða fyrirkomulag hreindýraveiða frá grunni og marka skýra stefnu af hálfu stjórnvalda, þar sem sjónarmið hinna ýmsu hagsmunaaðila eru vegin og metin.  SKOTVÍS mun fyrir sitt leyti hefja sína undirbúningsvinnu nú í haust með sínum félagsmönnum og kynna yfirvöldum.

Tags: aðeins, hefur, verið, verður, vera, fyrsta, mikil, boðið, pláss, umsækjendur, bárust, reyndist, áhugi, námskeiðinu
You are here: Home