Frétt frá Náttúrufræðistofnun - Svartfugladauði

Ágætu félagar:

Veturinn 2001-2002 drápust tugir þúsunda svartfugla úr hungri við strendur Íslands, þetta voru mest langvíur og stuttnefjur. Við Ólafur Einarsson líffræðingur skrifuðum grein um þetta í Náttúrufræðingnum 2004. Það hefur eitthvað borið á slíkum felli flesta vetur síðan.

Síðustu tvær vikur hafa margir haft samband hingað á Náttúrufræðistofnun og tilkynnt um haftyrðla dauða á fjörum og inn til landsins. Í dag hafði samband við mig maður að nafni Kristinn Traustason en hann býr á Ólafsfirði. Kristinn tjáir mér að í gær haf byrjað að reka svartfugl. Hann fór í morgun og taldi á um 1 km kafla 120 nýdauða fugla, þetta voru 40-50 haftyrðlar, 20-30 álkur, 2 lundar, og hitt voru stuttnefjur og langvíur. Ég vildi biðja þau ykkar sem nærri sjó búa að ganga reka, hafi þið tök á, og láta heyra hvort eitthvað þessu líkt sé að gerast á ykkar slóðum.

Með kveðju,

Ólafur Nielsen

Tags: voru, ykkar, kristinn, nýdauða, haftyrðlar, lundar, álkur, 20-30, þetta, ólafur, náttúrufræðistofnun, samband, eitthvað, fugla
You are here: Home