Flokkun landssvæðis, heimildir til veiða (skýringar)

Almannaréttur til veiða á landi, vötnum eða hafi snýst algerlega um það hvort tiltekið svæði er háð beinum eða óbeinum eignarrétti. Ef svæðið telst til beinna eignarréttinda er veiði óheimil nema með leyfi eiganda. Eigandi þessi getur verið einkaaðili, ríki, sveitarfélög o.s.frv. Ef svæðið er háð óbeinum eignarrétti, þ.e. að tiltekin aðili á ákveðinn rétt til afnota landssvæðis s.s. beitirétt að þá er veiði almennt heimil án leyfis.

Beinn eignarréttur = Veiði bönnuð nema með leyfi landeiganda eða ábúanda.

 • Eignarlönd
 • Ríkisjarðir 1 2
 • Kirkjujarðir
 • Jarðir í eigu sveitarfélaga
 • Afréttir sem bein eignarlönd
 • Þjóðgarðar (veiði heimil eða bönnuð, á öllu svæði eða afmörkuðu - fer eftir ákvæðum laga og reglugerða um þjóðgarðinn)

Óbeinn eignarréttur = Veiði villtra fugla heimil án leyfis

 • Almenningar
 • Þjóðlendur
 • Afréttur sem afréttareign (sérsjónarmið hreindýraveiði, rétthafi hreindýraveiða er sá sem á afréttareign, þ.e. afnotarétt, s.s. beitirétt og rétt til lax og silungsveiði)

Sérsjónarmið náttúruverndar = Veiði heimil eða bönnuð fer eftir fyrirmælum í ákvæðum friðlýsingar sjá vef umhverfisstofnunar og stjórnartíðindi.

 • Friðlönd = Fer eftir ákvæðum friðlýsingar hvort veiði heimil eða ekki. 38 svæði á landinu öllu
 • Náttúruvætti = Veiði oftast heimil. 34 svæði á landinu öllu
 • Fólkvangar = Veiði og meðferð skotvopna bönnuð. 14 svæði á landinu öllu

Eldri flokkun lands skiptist í eignarlönd, afrétti og almenninga en núverandi skipting skv. lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta ("Þjóðlendulögum") sem óbyggðanefnd vinnur efir.  Óbyggðanefnd stefnir á að ljúka skiptingu lands í eignarlönd og þjóðlendur árið 2017.

Eignarlönd eru háð beinum eignarrétti og veiði því þar óheimil, jafnt í eldri sem yngri skiptingu. Eignarlönd geta verið í eigu einkaaðila, ríkisjarðir, þ.mt. kirkjujarðir eða jarðir í eigu sveitarfélaga. Sjá nánar skýringu á beinum eignarrétti og eignarlöndum hér að neðan.

Almenningar (teljast nú algerlega til þjóðlendna) eru svæði þar sem öllum er heimil landnýting innan ramma laganna þ.m.t. veiði.

Afréttir (teljast nú að hluta til eignarlanda og að hluta til þjóðlendna) geta talist bein eignarlönd eða að aðili hafi þar óbein eignarréttindi. Hlutverk óbyggðanefndar er að skera úr um það hvaða afréttir (hvort sem þeir eru í eigu sveitarfélaga eða einkaaðila) teljist bein eignarlönd og hvaða afréttir séu landssvæði þar sem aðili, einn eða fleiri, eigi tiltekin afnotaréttindi s.s. lax- og silungsveiðirétt eða beitirétt. Þeir síðarnefndu afréttir teljast þá til þjóðlendna en vissir aðilar eiga réttindi þar. Athugið að réttur til fuglaveiði er heimill án leyfis öllum innan afréttarlanda sem einungis eru óbein eignarréttindi (afnotaréttindi). Afréttarlönd sem eru bein eignarlönd (bein eignarréttindi) eru háð leyfisveitingu landeiganda. Sá sem heldur fram tilkalli til beins eignarréttar yfir tilteknu svæði þarf að sýna fram á rétt sinn til þess með heimildarskjölum.  

Sérsjónarmið hreindýraveiði  Sá sem á óbein eignarréttindi á landi þ.e. afrétt sem telst þjóðlenda sá hinn sami á einnig rétt til hreindýraveiði. Getur það verið einkaaðili eða sveitarfélag. Réttur til hreindýraveiði felst í því að fá greidd felligjöld og sá réttur til að banna veiði innan þess svæðis sem hann hefur óbeinan eignarrétt yfir.

Þjóðlendur eru svæði þar sem öllum er almennt heimil fuglaveiði  Allir almenningar teljast þjóðlendur og hluti afrétta einnig (þeir sem ekki eru háðir beinum eignarrétti sem eru velflestir afréttir skv. fyrri skiptingu lands). Ríkið á formlegan eignarrétt yfir þjóðlendum en það er ekki beinn eignarréttur heldur réttur sérstaks eðlis sem felur í sér forræði til verndunar og varðveislu.

Friðlýsingar náttúruvætta og friðlanda  Stjórnvöld geta friðlýst landssvæði bæði þau sem eru háð beinum og óbeinum eignarrétti. Því er unnt að friðlýsa svæði sem teljast til eignarlanda gegn greiðslu bóta sem og svæði sem teljast til afréttareignar eins eða fleiri aðila. Þjóðlendur er unnt að friðlýsa frekar, jafnvel öll þjóðlendusvæði en bætur yrðu þá aðeins greiddar út til landeigenda sem hefðu óbein eignarréttindi.

Þjóðgarðar  Beinn eignarréttur er hjá ríkinu og það hefur algert forræði á því hvaða landnýting er heimil eða óheimil innan þeirra. Ríkið getur með lögum eða reglugerðum afmarkað landssvæði til veiða og takmarkað hana fremur frjálst eða bannað með öllu án þess að sæta nokkurs konar bótaábyrgð enda er almannaréttur á Íslandi ekki tryggður með réttarvernd.

Tags: þar, svæði, veiði, heimil, afréttir, beinum, öllu, háð, teljast, innan, eignarréttur, rétt, eignarlönd, þjóðlendur
You are here: Home