Félagsfréttir Skotvís febrúar 2011

FYLGIST MEÐ

Nú er verið að vinna frumvarp til laga um endurskoðun náttúruverndarlaga og laga um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá liggja á borði ráðherra tillögur að lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Öll þessi lög skipta verulegu máli fyrir okkur veiðimenn. Nú þegar eru vísbendingar um að lagt verði til að veiðitími verði styttur i einhverjum mæli og að hefta ferðafrelsi á miðhálendinu.

Við viljum vekja athygli á grein sem umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skrifaði í Fréttablaðið, laugardaginn 15. janúar síðastliðinn þar sem hún fjallar meðal annars um endurskoðun náttúruverndarlaganna. "Til að tryggja að sem flest sjónarmið komi fram við tillögurnar var ákveðið að birta drög að frumvarpinu á heimasíðu umhverfisráðuneytisins og kalla eftir athugasemdum".

Við gerum ráð fyrir að sömu vinnubrögð verði viðhöfð hvað varðar tillögur um breytingar á svokölluðum "villidýralögum". Síðar í grein sinni segir ráðherra. "Markmiðið með þessari aðferð er að kalla eftir víðtækum sjónarmiðum allra þeirra sem láta sig náttúruvernd varða svo að endanlegt frumvarp endurspegli eftir fremsta megni þau fjölmörgu sjónarmið sem uppi eru". Afar brýnt er að félagsmenn SKOTVÍS fylgist vel með og geri athugasemdir telji þeir þörf á því.

Þessum breyttu vinnubrögðum ráðuneytisins ber að fagna. Því miður var vinnubrögðum af þessu tagi ekki beitt við gerð verndaráætlunar um Vatnajökulsþjóðgarð. Þess vegna væri rétt að umhverfisráðherra sendi verndaráætlun þá sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs lét gera aftur til stjórnarinnar og hún láti vinna nýja áætlun, en nú í náinni samvinnu við hagsmunaaðila.

 

ÞJÓÐGARÐAR, notkun og nýting

SKOTVÍS boðar til almenns fundar laugardaginn 5. febrúar kl. 14 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Dr Fredrik Widemo fjallar um notkun og nýtingu þjóðgarða. Widemo mun meðal annars fjalla um veiðar í þjóðgörðum og aðgang almennings að þeim. Við skorum á félagsmenn að mæta og taka með sér gesti. Fyrirlesturinn er á ensku.

 

FÆRRI hreindýr og dýrari veiðileyfi

Nú er ljóst að færri hreindýr verða felld í ár en í fyrra. Kvótinn hefur verið minnkaður, í fyrra var leyft að veiða 1.272 dýr en í ár er kvótinn 1001 dýr eða 271 dýrum færra en í fyrra. Þá hafa hreindýraveiðileyfin verið hækkuð, í ár kostar leyfi fyrir tarfi á svæði 1 og 2 kr.135.000 en kostaði í fyrra kr 125.000. Leyfi fyrir kú á svæði 1 og 2 kostar nú kr 80.000 en kostaði kr.70.000 í fyrra. Þetta er talsvert mikil hækkun, einkum ef það er haft í huga að verð á eldsneyti hefur hækkað gríðarlega mikið á seinustu mánuðum, ferðakostnaður hreindýraveiðimanna mun því hækka talsvert.

 

AÐALFUNDUR SKOTVÍS

Aðalfundur Skotveiðifélags Íslands verður haldinn þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20 í Gerðubergi:

Dagskrá, venjuleg aðalfundarstörf.

 

VEIÐIKORTASJÓÐUR

Sem kunnugt er hefur stjórn SKOTVÍS lengi verið óánægð með starfsemi Veiðikortasjóðs. Embættismenn ráðuneytisins hafa úthlutað úr sjóðnum án neins samstarfs við veiðimenn, þeirra sem greiða í sjóðinn. Þá hefur félagið ekki verið sátt við ýmsar úthlutanir úr sjóðnum einkum til lengri vöktunarverkefna. Stjórn SKOTVÍS átti í vor sem leið vinnufund með umhverfisráðherra og starfsfólki veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar. Nú hefur Veiðikortasjóður fengið nýjar verklagsreglur sem eru til mikilla bóta. SKOTVÍS lagði ríka áherslu að sett yrði á laggirnar fagnefnd sem í væri fulltrúi SKOTVÍS, nefndin færi yfir allar umsóknir og legði á þær mat. Ráðuneytið fór eftir þessum tilmælum SKOTVÍS og hefur nefndin þegar hafið störf. Fulltrúi SKOTVÍS í ráðgjafanefndinni er veiðikonan Margrét Pétursdóttir fyrrum stjórnarmaður í SKOTVÍS. Margrét og Sigurður maður hennar eru áhugafólk um veiðihunda og vert er að geta þess að Margrét er varaþingmaður Vinstri grænna.

Tags: þar, viljum, verði, miðhálendinu, síðastliðinn, fréttablaðið, grein, ferðafrelsi, janúar, villtum, laga, endurskoðun, umhverfisráðherra, laugardaginn
You are here: Home