Evrópusambandið og veiðar

Senn fara viðræður sendinefnda stjórnvalda við Evrópusambandið (ESB) að hefjast um umhverfismál (27. kafli), en það er sá málaflokkur sem snertir veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.  Viðræður við ESB hófust í síðasta mánuði þar sem hin ýmsu málefni verða tekin fyrir í ákveðinni röð.  Reikna má með að viðræður um þennan málaflokk hefjist á haustmánuðum, en SKOTVÍS er þessa dagana að fara yfir hvernig verður tekið tillit til fyrirkomulags veiða hér á landi og hvaða aðlaganir sé þörf á að innleiða hér á landi m.v. núverandi regluverk ESB og síðast en ekki síst, hvernig hyggjast stjórnvöld beita sér í þessum málum.

samningahópur sem sér um umhverfismál hefur starfað síðan síðla árs 2009 og má sjá fundargerðir samningahópsins síðan fyrsti fundurinn var haldinn 1. desember 2009.  Þess skal þó getið að samningahópurinn fjallar um mörg önnur mál og einskorðast ekki við umhverfismál.  Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna greinagerð samningahópsins um 27. kafla samningaviðræðna við ESB (Umhverfismál) sem byggir á rýnifundi sem lauk í Brussel 19. janúar 2011.  Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahóps um EES II málefni en 27. kafli er hluti af EES-samningnum.

Kaflinn um umhverfismál fellur undir EES-samninginn og hefur stór hluti regluverks Evrópusambandsins á sviðinu þegar verið innleiddur á grundvelli EES-samningsins. Þó stendur náttúruvernd alveg utan EES samningsins, sem er veigamikill þáttur umhverfislöggjafar ESB . Á meðal þeirra atriða sem rædd voru, má nefna vatnsvernd, hreinsun skólps, vöktun skóga, veiðar á villtum fuglum, náttúruverndarsvæði, refa- sel- og hvalveiðar, verndun villtra dýra og plantna og losunarheimildir.

Við munum flytja frekari fréttir af þessu mikilvæga máli, en þeir sem hafa frekari áhuga á þessu máli er bent á vef Utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræðurnar [hér], en við bendum sérstaklega á kaflann um umhverfismál (27. kafli) [hér].

Tags: hefur, veiðar, villtum, þó, hvernig, frekari, þessu, landi, umhverfismál, viðræður, utanríkisráðuneytisins, samningahópsins
You are here: Home