Þjóðlendur


Hver gætir hagsmuna 225.000 Íslendinga?

Stofnuð hafa verið Samtök landeigenda. Meðal baráttumála samtakanna er að lögum um þjóðlendur verði breytt þannig að ríkisvaldið geri ekki kröfur í jarðir með athugasemdalausum þinglýstum landamerkjabréfum.

Skiljanlegt er að landeigendur vilji standa vörð um jarðir sínar og verja þær fyrir meintri áslælni ríkisvaldsins. Nokkrir þingmenn hafa tekið undir kröfur landeigenda um nauðsyn þess að lögum um þjóðlendur verði breytt til hagsbóta fyrir landeigendur. Það er hins vegar talsvert áhyggjuefni fyrir landlausa Íslendinga og útivistarfólk að ekkert heyrist í þingmönnum þéttbýlisins. Kröfur landeigenda eru nefnilega á margan hátt ósanngjarnar, þó ekki sé meira sagt. Nú er búið að dæma í þjóðlendumálum hér á Suðurlandi. Ef breyta á þjóðlendulögunum núna, verður að byrja upp á nýtt; endurtaka ferilinn hér á Suðurlandi.


Norðlendingar og aðrir er búa þar sem ekki er búið að ljúka þjóðlendumálum verða einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir Íslendingar, í þessu tilviki Sunnlendingar. Þinglýsing tryggir ekki eingarrétt. ,,Þinglýsing samnings, sem stafar frá aðila sem ekki átti þau réttindi sem ráðstafað er með samningnum leiðir ekki til stofnunar eignarréttar yfir viðkomandi eign.? Margir hæstaréttardómar hafa fallið þannig að þinglýst landamerki duga ekki sem fullgild sönnun á eignarhaldi.

Þegar Danakonungur fyrirskipaði landskiptagerð 1882 var það gert á eftirfarandi hátt: Landeigendur koma sér saman um sameiginleg landamerki jarða sinna. Mörg dæmi eru hins vegar til um það að jarðeigendur sem áttu land í jaðri óbyggða tóku sér land inn á óbyggð svæði án þess að bera það undir kóng né prest. Þjóðlendur geta því leynst víðar en á hálendi Íslands.

Talið er að í það minnsta 75% Íslendinga séu ekki landeigendur. Það eru rúmlega 225.000 manns. Um 32.000 Íslendingar eru félagar í útivistarfélögum. 92.8% Íslendinga búa í þéttbýli; semsagt, langstærstur hluti þjóðarinnar.

Hverjir gæta hagsmuna þessa fólks?

Sigmar B. Hauksson,
Formaður Skotvís

Tags: hafa, verði, þjóðlendur, kröfur, landeigenda, suðurlandi, lögum, breytt, íslendinga, jarðir, nefnilega, margan, þéttbýlisins, þingmönnum, útivistarfólk
You are here: Home