Í sigtinu - Hreindýr


Árið 1784 var 35 hreindýrum sleppt á Vaðlaheiði við Eyjafjörð. þau dreifðust um hálendið upp af Fnjóska­dal og fjölgaði fljótt. Upp úr alda­mótunum 1800 fóru að berast kvart­anir um að hreindýrin eyðileggðu bithaga og eyddu fjallagrösum. Hrein­dýr­in voru bundin við Fnjóskadalsafrétt fram að 1822 en þá leituðu þau austur á bóginn. Upp úr þriðja tug 19. aldar voru hreindýr einkum norðan og norð­aust­an Mývatns en komu oft á vetrum nið­ur í Mývatnssveit og Kelduhverfi. Þessi dýr hafa líklega orðið flest um 1850 en þá var giskað á að allt að 1000 dýr væru á Reykjaheiði. Líklegt er að dýr­in hafi lagt undir sig Melrakkasléttu, heiðar upp af þistilfirði og Langanes­heið­ar á árunum 1830-1840. Fjöldi dýra var á Búrfells- og Sléttuheiði fram til 1860. Eftir miðja 19. öldina fækkaði dýr­unum stöðugt og síðast var aðeins vit­að um smáhóp sem hélt sig norð­vest­an Kröflu en hann sást ekki eftir 1936.
Árið 1787 var 35 hreindýrum sleppt á land í Vopnafirði. Virð­ast þau fljótlega hafa fundið ákjósalega sumar­haga við norðausturjaðar Vatna­jökuls en á vetrum leitað út á heiðarnar. Þegar hreindýrunum fjölgaði dreifðust þau um afrétti Jökuldals- og Fljóts­dals­hrepps og um hálendið upp af Suður­fjörð­um allt að Jökulsá í Lóni. Talið er lík­legt að þau hafi verið flest um miðja 19. öldina. Eftir það virðist fjöldi dýr­anna hafa sveiflast allmikið enda voru vet­ur oft harðir. Hreindýraskyttan Elías Jónsson bóndi á Aðalbóli í Hrafn­kels­dal taldi að hreindýrin hefðu verið flest á Vesturöræfum um 1886 og þá 700-1000 dýr en um aldamótin tórðu aðeins um 150 dýr.
Helgi Valtýsson fór haustið 1939 á hrein­dýraslóðir til að kanna fjölda hreindýra. Taldi hann að aðeins væru eftir um 100 dýr. Að fengnum til­lög­um Helga var ráðinn eftirlitsmaður með dýrunum og var Friðrik Stefáns­son bóndi á Hóli í Fljótsdal valinn. Helgi taldi að tarfarnir í hjörðinni væru of margir og stæði það eðlilegri fjölgun fyrir þrifum. Friðrik var því fenginn til að fækka þeim. Næstu áratugina fjölg­aði dýrunum og samhliða því dreifðust þau um Austurland.
Hreindýrunum fjölgaði hratt eftir landnám þeirra á Austurlandi og dreifðust víða. Samhliða fjölgun dýr­anna bárust kvartanir til yfirvalda um að þau spilltu högum og ætu upp fjalla­grös og leiddi það til þess að takmörkuð veiði var heimiluð árið 1790. Síðan var dreg­ið smátt og smátt úr friðun þar til henni var hætt árið 1849. Árið 1901 voru þau síðan alfriðuð aftur en veiðar und­ir eftirliti leyfðar 1939 og hefur svo ver­ið síðan.
Friðunarsaga hreindýranna bendir til þess að í fyrstu hafi þeim fjölg­að hratt og náð hámarki um miðja 19. öld­ina en eftir það fækkði þeim og voru í mesta lagi örfá hundruð (fundust að­eins 100) eftir við norðaustanverðan Vatnajökul um 1940. Upp úr því fer þeim síðan fjölgandi og dreifast þá víða um Austurland. Árin 1991-1994 voru dýr­in talin vera 3000-4000 í sumar­hög­um og þar af rúmur þriðjungur í ná­grenni Snæfells. Útbreiðslusvæði þeirra af­markast nú af Jökulsá á Fjöllum, Vatna­jökli og Suðursveit. Þau hafa þó alltaf verið sjaldséð norðan Vopna­fjarðar­heiða.

 

Vistfræði hreindýra

Hreindýrin tilheyra hjartarættinni og bera vísindaheitið Rangifer tarandus. Þau eru víða á norðurslóð og eru stærstu villtu hjarðirnar í Alaska, Kanada og Sovétríkjunum. Hrein­dýra­bú­skapur er einkum stundaður í Skand­ina­víu og Sovétríkjunum.
Hreindýrið er eina hjartardýrið þar sem bæði kynin eru hyrnd og fella hornin árlega. Hornin eru klædd flos­kenndri húð sem fellur af þegar þau eru fullvaxin. Fullorðnir tarfar fella horn­­in fljótlega eftir fengitímann, geld­ar kýr og ungir tarfar í janúar-mars, vetur­gömul dýr á vorin en kelfdar kýr ekki fyrr en eftir burð. Hornin eru stöðu­tákn hjá dýr­unum og eru því kelfd­ar kýr hæst settar seinni part vetrar þegar helst þrengir að þeim. Þannig tryggir nátt­úr­an kelfdum kúm mestar lífslíkur allra ein­staklinga í stofninum á erfiðasta tím­anum.

 

Burður

Meðgöngu­tími hreindýra er um 7 og 1/2 mánuður. Burð­ur­inn stend­ur í þrjár vikur en 75% kúnna ber vikuna í kringum 20. maí. Þau nota hefðbundin burðarsvæði ár eft­ir ár. Kálfarnir eru að meðaltali tæp 6 kg þegar þeir fæðast. Á burðar­svæð­un­um eru nær eingöngu kelfdar kýr en tarf­ar, geldar kýr og ung dýr leita í sumar­haga í maílok og júníbyrjun. Aðal­burðar­svæði hreindýranna er á Vestur­öræfum vestan Snæfells. Auk þess bera kýr víða um allt Austurland.

 

Sumar

Í sumarhögunum á Snæfellsöræfum safnast dýrin saman í stórar hjarðir (100-1000 í hóp) en í ágúst og byrjun september leita dýrin út á heiðarnar. Þá koma til móts við þau tarfar sem héldu sig utan aðalhópsins. Að hausti hafa dýrin safnað fituforða fyrir vetur­inn og getur bakfita á fullorðnum törf­um verið 5-10 sm.

 

Fengitími

Fengitíminn stendur frá sept­em­ber­­lokum og fram í miðjan október. Tíðahringurinn er 10-12 dag­ar og verður egglos 2-3 sinnum. Háls tarf­anna gildnar mikið og á þá vex sítt „háls­skegg“. Þeir hafa lítinn tíma til að bíta, eru á sífelldum þönum eftir kún­um og öðrum törfum og horast því all­mikið á þessum tíma. Raunveruleg sam­­­setning stofnsins sést aðeins um fengi­tímann því þá eru kynin og mis­gömul dýr jafndreifð um stofninn. Talið er að arðsemi stofnsins (kjöt­fram­leiðsla) sé mest þegar 15% eru 4 ára og eldri tarfar, 15% eru 1-3 ára tarfar, 50% eins árs og eldri kýr og 20% kálf­ar.

 

Vetur

Eftir fengitímann dreifast hrein­dýrin víða en leita oft til byggða seinni part vetrar einkum ef snjóalög eru óhagstæð. Þau hafa aðlagast vel óblíðu umhverfi, þola kulda mjög vel og finna lykt af fæðu í gegn um allt að 60 sm þykkan snjó. Það sem dýrin hafa helst að óttast hér á landi eru jarðbönn seinni part vetrar. Þau eiga sér engan náttúrulegan óvin eins og víðast hvar annars staðar.

 

Fæða

Samkvæmt fæðuathugunum Krist­bjarnar Egilssonar o.fl. árin 1980-1982 var um helmingur sumarfæðu hrein­dýranna grös og starir einkum stinnastör, en rúmur þriðjungur voru grávíðir og grasvíðir. Vetrarbeitin fer mikið eftir því hversu mikið er af fléttum. Á Fljótsdalsheiði þar sem hrein­dýrin hafa gengið mjög nærri fléttum voru vallarsveifgras, stinnastör, túnvingull, sauðamergur, krækilyng og holtasóley um 80% af fæðunni en fléttur aðeins 3%. Á Jökuldalsheiði var gnægð fléttna og þar voru þær um helmingur af vetrar­fæðu hreindýranna (þ.a. fjallagrös 38%) en vallarsveifgras, túnvingull og stinna­stör tæpur þriðjungur. Á síðustu árum hefur verið tínt mjög mikið af fjallagrösum til manneldis á Jökul­dalsheiði og búast má við að minna sé til skiptanna fyrir hreindýrin.

 

Fallþungi

Athuganir á fallþunga hreindýra á Fljótsdals- og Jökuldalsheiði árin 1979-1980 sýndu að á haustin eru kálf­ar að meðaltali 23.7 kg, þriggja ára og eldri kýr 40.8 kg og fjögurra ára og eldri tarfar 85.4 kg. Að vori var fall­þungi fullorðinna kúa 31.2 kg svo kýrnar léttast um fjórðung yfir vetur­inn. Fallþungi fullorðinna tarfa er mjög breytilegur en einstaka tarfar fara yfir 100 kg og geta orðið allt að 130 kg.

 

Stjórnun hreindýrastofnsins

Í Lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spen­dýrum segir eftirfarandi um hreindýrin:
„Umhverfisráðherra getur heim­il­að veið­ar úr hreindýrastofninum enda telji veiði­stjóraembættið að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum. Ráð­herra ákveður ár­lega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiði­svæð­um, í sam­­ráði við tillögur hreindýraráðs og veiði­stjóraembættisins og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingarblaði. Eign­ar­­réttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þess­um og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða til hrein­­dýra­ráðs sérstakt leyfisgjald sem ráð­herra ákveður árlega og skal gjaldinu varið til reksturs ráðsins, framkvæmda á þess vegum og rannsókna á hrein­dýr­um. Hrein­dýraráði er heimilt að selja veiði­heimild­ir sem hlutaðeigandi sveitar­félög­um hefur verið úthlutað.
Umhverfisráðherra skipar fimm menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Ráð­herra skipar formann nefndar­innar án til­nefn­ingar en aðrir nefndar­menn skulu skip­aðir með eftir­farandi hætti: Búnaðar­sam­band Austur­lands tilnefnir tvo menn, Búnaðar­sam­band Austur-Skaftafellssýslu einn og Samband sveitarfélaga í Austur­lands­­kjör­dæmi einn. Varamenn skulu til­nefnd­­ir með sama hætti. Veiðistjóri situr fundi hreindýraráðs og hefur mál­frelsi og til­lögurétt.
Að fengnum tillögum hrein­dýra­ráðs og veiði­stjóra setur ráðherra reglugerð um nán­ari framkvæmd á hein­dýraveiðum, m.a. um skiptingu veiði­­heimilda á milli við­komandi sveitar­félaga, um veiði­eftir­lits­menn, hlut­verk og starfssvið heindýraráðs, svo og skiptingu arðs af leyfisgjaldi og veiði­heimildum sem framseldar eru ráðinu.”

 

Nýting hreindýrastofnsins

Íslenski hreindýrastofninn er um 2500 dýr að sumarlagi og er nú­ver­andi stefna stjórnvalda að viðhalda þeirri stofnstærð. Með Reglum um stjórn hreindýraveiða, nr. 76/1992 var í fyrsta sinn stefnt að því að móta kynja­hlutfallið í stofninum með veiðum. Þá benti ýmislegt til þess að tarfar væru víða orðnir hættulega fáir. Smíðað var reikningslíkan fyrir stofninn og því fylgt við ákvörðun kvótans. Vel tókst til með að fjölga törfum og bendir talning frá því í mars 1998 til þess að þá hafi tarfar verið um 35% stofnsins, kýr 47% og kálfar18%. Þetta þarfnast þó nánari skoðunar en við erum greinilega á réttri leið.
Veiðistjóraembættið og Hrein­dýra­ráð lögðu til að veiðikvóti á hreindýr haustið 1998 yrði sá sami og árið áður eða 297 hreindýr. Í skýrslu til Umhverfisráðuneytisins segir eftir­far­andi um kvótann og veiðina:
„það sem lagt er til grundvallar þess­ari tillögu um skiptingu veiði­kvótans er það sama í stórum dráttum og á síðasta ári þ.e. að hreindýra­stofn­inn sé um 2500 dýr í júlí. Taln­ing í lok vetrar gaf 1728 (1729 í fyrra) hreindýr sem er mjög nálægt því sem gert var ráð fyrir í hermilíkaninu og að við­bættum kálfum fer stofninn í 2500 dýr í sumar. Þessi tillaga fylgir því hermi­lík­an­inu fyrir utan að veturgömlum törfum er bætt við fullorðna tarfa. Kvóti líkansins gef­ur 141 tarf og 156 kýr. Reiknað er með að 46 kálfar veiðist. Heildarkvóti haustið 1998 fyrir utan kálfa er því 297 hreindýr.

 

Skýringar á tillögum um kvóta:

Svæði 1. Algjör friðun. Síðustu árin hafa hreindýr gengið lítið sem ekkert á þessu svæði. Ekki er langt síðan hreindýr komu alltaf í stórum hópum út á Jökul­dals­heiði og tarfahópur hélt sig sumarlangt í Sandfelli. Friðunin nú er til að stuðla að endur­komu þeirra á þessar slóðir og þá um leið dreifingu þeirra í norður. Það gæti m.a. létt af skógræktarsvæðum á Héraði.
Svæði 3. Sami kvóti á þessu svæði og 1997 til að stuðla að fækkun þeirra á Borgar­fjarðarsvæðinu. Vegna fellis dýra á þessu svæði í hörðum árum er tekið undir þá skoð­­un að minnka stofninn á þessu svæði í áföngum niður í 100-150 dýra vetrar­stofn.
Svæði 4. Algjör friðun. Einungis er vitað um 25 dýr sem komu fram í talningu á svæði 5 og eru líklega ættuð frá Reyðar­firði. Hætt er við að hreindýr hyrfu af svæð­inu ef það væri opið til veiða. Fylgjast þyrfti með því hvort kýrnar skiluðu sér ekki yfir á svæði 5 til að bera.
Ennfremur:

  • Veturgamlir tarfar verði alfriðaðir
  • Tryggja eftirlit með veiðum og akstri í sam­­ráði við sýslumenn og lögreglu.
  • Tryggja að lagning Háreksstaðarvegar hafi sem minnst áhrif á hreindýrin og auka eftir­lit í kjölfar hans.
  • Veiði verði ekki heimiluð á Snæfells­svæð­inu fyrir 15. ágúst (þ.e. vestan Jökulsár á Dal, frá Hnitasporði þvert yfir að Tungu­­sporði, í topp á Urgi, þaðan í Laugará og inn Jökulsá í Fljótsdal og með austustu kvísl í jökul).
  • Tarfaveiði leyfð frá 20. júlí með sömu kvöð­um og fyrr”.

 

Kyn- og aldursgreining dýra

Auðvelt er að þekkja tveggja ára og eldri tarfa frá kúm á hornastærð en erfitt getur reynst að greina þá vetur­gömlu frá kúnum. Eitt af því sem ein­kennir hornin á hreindýrunum er að þau eru sjaldan eins (þ.e. spegilmynd hvors annars eins og hjá flestum horn­ber­um). Einnig breytast þau yfirleitt á milli ára. Hægt er að aldursgreina vetur­­gamla og tveggja vetra tarfa á horn­un­um en ekki eldri tarfa. Þó má þekkja úr mjög aldraða tarfa en þeir eru afar fá­séðir. Augn- og ennisgreinar á törfum geta verið lítt greindar spírur eða spað­ar. Stærstu og tilkomumestu tarfarnir eru oft fjögurra-spaða en flestir verða að láta sér einn duga. Rannsóknir er­lend­is benda til þess að algengara sé að vinstri augngreinin myndi spaða en sú hægri.
Aldursákvörðun hreindýra byggir þó fyrst og fremst á tanntöku og -sliti eða árhringjum í framtönnum. Í full­orðnu hreindýri eru 3 framtennur, 1 augntönn , 6 jaxlar í hvorum kjálka og eins í efri góm nema framtennur vantar. Kálf­urinn fæðist með framtennur og augn­tönn en aðeins fremsta jaxlinn en tveir þeir næstu birtast fljótlega. Þetta eru mjólkurtennur og víkja seinna fyrir full­orðinstönnum. Við 16 mánaða ald­ur er dýrið búið að fá fullorðins fram­tenn­ur og augntönn og eru þær lengri og breiðari en mjólkurtennurnar. Á þess­­­um tíma eru fullorðinsendajaxlar einn­ig komnir en framjaxlarnir þrír eru enn mjólkurtennur. Á þriðja hausti (28-30 mánaða) eru síðan 3 fullorðins­fram­jaxl­arnir komnir og lýkur þar með tanntökunni. Út frá tanntöku er hægt að aldursgreina hrein­dýr á 1.,2. og 3. hausti en eftir það er einungis hægt að meta aldurinn gróft út frá sliti tanna. Hægt er að lesa aldur með talningu árhringja í fram­tönnum. Til þess þarf að skera þunn­sneið langs úr framtönn og lita síðan sýnið og skoða í smásjá.

 

Vöktun stofnsins

Ein aðalundirstaða fyrir nýtingu hreindýrastofnsins er að vita hversu mörg þau eru. Hreindýr hafa verið talin að sumarlagi nær árlega frá 1940. Fyrstu árin var um heildartaln­ingu stofnsins að ræða þar sem öll dýrin dvöldu í sumarhögum í nágrenni Snæ­fells. Talningin hefur alla tíð verið bund­in að mestu við það svæði og því ekki náð nema til hluta stofnsins eftir að dýrunum fjölgaði og þau dreifðust vítt og breitt um Austurland.
Frá og með 1991 hefur heildar­taln­ing verið gerð á tímabilinu mars- apríl. Með talningunum fæst ekki ein­ung­is fjöldi hreindýra heldur líka dreif­ing þeirra á milli svæða. Nær árlegar sumar­talningar á Snæfellsöræfum gefa m.a. upplýsingar um nýliðun í stofnin­um. Á því svæði gengur um helmigur stofns­ins í sumarhögum (1261 dýr sumar­ið 1997).
Til að ná hámarksnýtingu úr hrein­dýra­stofninum þarf að þekkja sam­setningu hans. Fengitíminn er rétti tíminn til að sjá aldurs- og kynjahlutfall stofnsins. Síðast var þetta kannað 1992 en þá var 51% kýr, 10% veturgamlir tarf­ar, 9% tveggja ára og eldri tarfar og kálf­ar 30%. Óeðlilega hátt hlutfall kálfa skýrist að einhverju leyti af veiðunum. Mjög brýnt er orðið að endurtaka slíka könnun.

 

Hreindýrastofninum er skipt í níu afmarkaðar hjarðir og sam­svar­andi níu veiðisvæði sem eru eftir­far­andi:

Svæði 1
Fjallahreppur, Skeggjastaðahreppur, Vopnafjarðarhreppur, Hlíðarhreppur og Jökuldalshreppur norðan Jökulsár á Brú.
Svæði 2
Jökuldalshreppur austan Jökulsár á Brú, Fljótsdalshreppur, Fellahreppur, Tunguhreppur, Skriðdalshreppur, vestan Grímsár, Geitdalsár, Hrútár og línu úr Hrútárpollum í Hornbrynju. Vallahreppur vestan Grímsár.
Svæði 3
Hjaltastaðahreppur, Borgarfjarðarhreppur og Eiðahreppur.
Svæði 4
Seyðisfjarðarkaupstaður, Mjóafjarðarhreppur, Egilsstaðabær, Vallahreppur, austan Grímsár og Reyðarfjarðarhreppur.
Svæði 5
Norðfjarðarhreppur og Eskifjarðarbær.
Svæði 6
Skriðdalshreppur, austan Grímsár, Geitdalsár, Hrútár og línu úr Hrútárpollum í Hornbrynju. Búðahreppur, Fáskrúðsfjarðarhreppur, Stöðvarhreppur og Breiðdalshreppur.
Svæði 7
Djúpavogshreppur
Svæði 8
Bæjarhreppur, Nesjahreppur og Höfn í Hornafirði.
Svæði 9
Mýrahreppur og Borgarhafnarhreppur.

Skarphéðinn G. Þórisson
Tags: hreindýr, mjög, voru, slóðum, urðu, hrein­dýrin, síðar, líklega, flutt, hvaleyri, hafnar­­fjörð, þau, land, þeirra, árið
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Hreindýraveiðar Í sigtinu - Hreindýr