„Gormaðurinn“

 

Föstudagurinn rann upp bjartur og fagur

32-34-1.jpg Föstudagurinn rann upp bjartur og fagur og var farið af stað klukk­an 3:40 og keyrt sem leið lá inn Breiðdal yfir Breiðdalsheiði og inn Öxi, sem er fjallvegur á milli Skriðdals og Berufjarðar. Þar var stoppað og farið að kíkja í allar áttir sem og að hleypa úr dekkjum, en þarna eru slóðar ekki fljótfarnir. Engin dýr sáust þarna og var ákveðið að halda áfram inn að skála sem nefnist Bjarnarhýði þar sem fyrirhugað var að gista í um nóttina ef þurfa þætti. Eftir rólega ferð þangað, þó alltaf verið að stoppa og kíkja en án árangurs, var beygt í NA og keyrt meðfram Hornbrynju. Þar sást fyrsta dýrið en það var vetur­gamall tarfur sem lá og sleikti sól­skinið. Ekki var það fengur því ekki má skjóta veturgamla tarfa, svo við héldum áfram og paufuðumst til enda svæðisins þar sem áð var og drukkið kaffi. Með einhverjum ótrúlegum hætti kom Jónas Bjarki auga á eitt hreindýr á löngu færi og sem dæmi sá enginn okkar hinna dýrið með öllum okkar sjón­aukum fyrr en eftir langa mæðu. Þetta dýr skyldi fellt ef færi fengist. Hans og Jónas Bjarki fóru af stað og við hinir horfðum á í sjón­aukum okkar. Var spenningurinn orð­inn mikill að fella fyrsta dýrið. Fylgd­umst við með þeim félögum mjaka sér í færi. En eitthvað var þetta skrýtið dýr því færið var komið niður í ca. 30 metra er Hans skaut og felldi dýrið með hausskoti. Reyndist það vera belja sem við nánari skoðun reyndist ca. 12-15 vetra og var þar komin skýring á hinu stutta færi, „amma gamla“ var bæði sjón- og heyrnarlaus.

 

Eftir dauða „ömmu gömlu“

32-34-2.jpg Á meðan „amma gam­la“ var skot­in birtist í fjarska hópur hrein­dýra sem færðu sig í áttina til okkar. Amma gamla var sett í kælingu og svo var lagt af stað á móts við hópinn sem reyndist stækka eftir því sem á leið og virtist þarna nóg fyrir alla. Spenn­ing­ur­inn magnaðist og maginn fór í hnút við tilhugsunina um fyrsta dýrið. Eftir nokkur hundr­uð metra göngu, hálf­bogn­ir og í hvarfi, gengum við í flasið á 7 törfum sem stóðu á bak við hól. Var það glæsileg sýn þar sem þetta voru fallegir tarfar, en einn bar þó af og var hann mjög tignarlegur. Hans var með tarfaleyfi og fóru hann og Jónas Bjarki því á eftir hópnum, dýrin gengu beint að bílunum en tóku síðan á rás svo ekki varð við neitt ráðið. Skemmst er frá því að segja að þau sáust ekki meir. Þegar Hans og Jónas komu til baka sáust um 150 dýr og nú var bara að velja hóp sem gott var að komast að. Ákveðin var röð á skyttum og var Þórður fyrstur, síðan Hans, þá Einar og loks ég. Gerðust nú hlutirnir hratt en u.þ.b. 2 tímum seinna var búið að skjóta 4 beljur og hlaupa 20 km (smá ýkjur kannski). „Adrenalín­kikkið“ eftir svona hasar er ótrúlegt og tekur maður ekki eftir þó að suði fyrir eyrum, blóðbragð sé í munni og staðið sé á öndinni samfleytt í 2 tíma. Öll voru dýrin hausskotin og féllu í fyrsta skoti. Afrakstur og færi voru eftir­farandi. Þórður 38 kílóa belja, 80 metra færi. Hans 39 kílóa belja, 70 metra færi, Einar 41 kílóa belja, 100 metra færi. Ég hitti ekki en Jónas Bjarki skaut beljuna sem vóg 42 kíló og var færið u.þ.b. 100 metrar. Ástæða þess að ég hitti ekki tel ég vera að eftir öll hlaupin og eftir­vænt­inguna var ég farinn að skjálfa svo af þreyttu og stressi svo ég gaf mér ekki tíma til að vanda mig. Til gamans má geta að 5 dögum seinna var ég á veiðum upp á svæði 2 og skaut þá mitt fyrsta hrein­dýr, en það var tarfur sem var skotin á 200 metra færi í hausinn. Þá hafði ég nógan tíma og gat vandað mig. Var það nokkuð ánægð­ur náungi sem blóðgaði það dýr því eftir hið áðurnefnda mis­heppnaða skot var ég fullur efa­semda um sjálfan mig og mitt vopn!
Eftir að búið er að skjóta dýrin hefst vinnan fyrir alvöru. Það þarf að gera að dýrunum, taka hausinn af, koma öllu í næsta læk og láta fljóta vel yfir til kælingar og geymslu. Í okkar tilfelli var einnig um að ræða þá skyldu veiðimannsins að smakka á lifr­inni úr fyrsta dýrinu sem hann fellir. Hans hafði afgreitt það fyrr um daginn við „ömmu gömlu“. Einar skellti í sig bita en þá var Þórði nóg boðið og velti sinni lifur upp úr gorinu og harð­neit­aði að bíta í eftir það. Þar sem ég skaut ekkert dýr í þetta skiptið varð það að bíða betri tíma, en ég skal viðurkenna að ég sveikst um við fyrsta dýrið mitt.

  32-34-3.jpg

Tjaldað við bílana

Þegar öllu þessu var lokið var komið myrkur og orðið of seint að fara í skálann Bjarnarhýði, því var brugðið á það ráð að tjalda við bílana. Í hávaða roki sem komið var voru reist tjöld í litlu skjóli af bílunum og kveikt var upp í grilli sem gekk nú ekki allt of vel, en hafðist þó. Var snædd­ur lang­þráður kvöldverður um mið­nættið og skálað í koníaks­staupi að af­lokn­um kvöld­verði að veiði­manna(ó)sið. Var að því loknu skriðið í pokana og reynt að sofa en gekk það brösuglega vegna roksins, þó var gormaðurinn það skyn­samur að taka pelann með sér í pok­ann og svaf hann vel þessa nótt. Klukkan 6:00 var farið aftur af stað og átti að athuga með kálfana undan beljun­um. Mér fróðari menn segja að ef belja með kálf er felld fari kálfarnir á mikið víðavangshlaup í leit að móður sinni en leiti svo til baka til þess staðar er þeir sáu hana síðast, finni þá gjarn­an vömbina og eiga þá til að liggja við hana þar til þeir veslast upp og drep­ast. Því er ætlast til að fella kálf­ana með beljunum. Veiðimenn sitja því yfir vömbinni og bíða eftir „lille bö“, en í sumum tilfellum geta menn fellt kálfinn um leið og beljuna. Ekki náð­ust neinir kálfar en einn sást á harða spretti og var það eina lífið þennan morgun. Var þá farið að safna saman skrokkunum sem voru í kæl­ingu. Að því loknu var farið til baka til að leita suðaustan við Hornbrynju. Var stopp­að í Bjarnarhýði og öfundar­augum litið á kojurnar sem hefðu verið betri kostur en tjaldið. Hvað um það, á fjöllum gerast ævintýrin og þessi ferð var á góðri leið með að verða mikið ævintýri. Enn voru eftir tvö leyfi og var því haldið áfram. Veður fór versn­andi, rigndi og stefndi í þoku en við ætluðum að leita meðan færi gæfist. Ekki var heppnin með okkur, við fundum dýr 3 km frá skálanum. Voru það bæði tarfar og beljur, u.þ.b. 15 dýr. Hans átti tarfinn sinn eftir og ég belju. Gerðum við okkur klára og fórum af stað í mígandi rigningu, eitthvað annað en sólin daginn áður. Komumst við í færi, svolítið í lengra lagi en vel innan marka, eða u.þ.b. 150 metrar. Fallegur tarfur blasti við og gerði Hans sig kláran til að skjóta. Ekki vildi hann detta í fyrsta skoti og varð að eyða tveimur kúlum á hann. Það er stórmerkilegt hvað þessi dýr þola því fyrra skotið var í hausinn sem var eins og grautarpottur á eftir, en seinna skotið var í hálsinn og í mæn­una sem var alveg nóg. Var þetta fall­egur tarfur sem vóg 87 kg. Hlupum ég og Jónas Bjarki af stað á eftir hópnum, en greinilega ekki nógu hratt því þau hurfu út í þokuna og sáust ekki meir.

 

Heim á leið

Veðrið hamlaði nú frekari veiðum svo farið var heim á leið. Beið okkar ærin vinna við að flá og vinna dýrin, en alls vorum við með 5 dýr auk „ömmu gömlu“ sem var farið með í Hreindýraráð. Heim á óðalið var komið á réttum tíma í kvöldmat og var farið í fláningu, vigtun og að ganga frá kjötinu strax eftir matinn. Var öllu lokið um klukkan 2:00 um nóttina. Voru þá tæpir tveir sólahringar farnir í þessa ferð. Að lokum vil ég nefna að þáttur Lýðs „gormanns“ fór fyrir ofan garð og neðan þar sem hann slapp alveg við þá vinnu, en hann fær eitt tækifæri enn og ætlar að koma með næst og verður þá væntanlega kominn með leyfi. Til útskýringar skal nefnt að gormaður er sá sem blóðgar og tekur innan úr dýrunum. Að lokum vil ég segja að þetta er hræðilega erfitt, of­boðs­lega mæðandi, agalegar vökur en ógeðslega gaman og í einu orði sagt ÓGLEYMAN­LEGT ÆVINTÝRI.

 

Stefán Höskuldsson
Tags: beljuleyfi, breiðdalsvík, sako, lárusson, hafnarfirði, breyttum, 55.000, einnig, svæði, 5.000, ágúst, fara, eitt, hreindýraveiðar
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Hreindýraveiðar „Gormaðurinn“