Rjúpnarannsóknir

Samstarfs SKOTVÍS og Náttúrufræðistofnunar um rjúpnarannsóknir

skotvis2006f.jpgRjúpan er langvinsælasta veiðibráð íslenskra skotveiðimanna. Á hverju hausti ganga þúsundir veiðimanna til rjúpna og sum ár hefur aflinn verið hátt í 160.000 fuglar. Flestir veiðimenn hafa áhuga að fræðast um rjúpuna og er umhugað um viðgang stofnsins. Ein meginforsendan fyrir skynsamlegri nýtingu rjúpnastofnsins er að árvisst séu til haldgóðar upplýsingar um ástand hans. Hér er átt við þætti líkt og stofnbreytingar, viðkomu og afföll og hvort að stofninum sé að hnigna til lengri tíma litið eða ekki. Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands vinna við vöktun rjúpnastofnsins í samvinnu við bæði veiðimenn og fuglaáhugamenn. Þau vöktunarverkefni sem hafa verið í gangi eru karratalningar sem fara fram á vorin og síðan eru aldurshlutföll metin í stofninum þrisvar sinnum á ári (á vorin, síðsumars og á veiðitíma). Hægt er að fræðast um árangur vöktunar rjúpunnar í skýrslum Náttúru­fræðistofnunar sjá t.d. pdf-skjal á slóðinni http://www.ni.is/efst/Rjupa_fjolrit_loka.pdf. Ekki síður mikilvægur þáttur í vöktun rjúpnastofnsins er skráning Umhverfisstofnunar á veiði og sókn.
Picture 25.jpg

Á Norðurlöndum eru rjúpnaveiðar vinsælar líkt og hér á landi og eru Norðurlöndin góð fyrirmynd við vöktun þessarar auðlindar en þar er hlutur áhugamanna við alla útivinnu mjög stór. Í júní árið 2005 var birt skýrsla um stofnbreytingar rjúpunnar og rjúpnarannsóknir á Íslandi eftir prófessor Tomas Willebrand við háskólann í Umeå í norður Svíþjóð. Skýrslan var unnin samkvæmt beiðni Um­hverfisráðuneytisins. Tomas hvetur þar meðal annars til aukinnar þátttöku skotveiðimanna við rjúpnatalningar, þar sem hlutverk Náttúru­fræði­stofn­unar væri að þjálfa talningamenn, tryggja gæði gagna, varðveita gögnin og vinnar úr þeim. Tomas vísar til reynslunnar í Noregi, Svíþjóð og Finn­landi þar sem veiðimenn sjá að mestu um þennan þátt vöktunar rjúpnastofna.
Fulltrúar Náttúrufræðistofnunar og Skotvís hafa hist nokkrum sinnum til að ræða þessar hugmyndir Tomasar. Samþykkt var það langtímamarkmið að félagar í Skotvís og aðrir áhugamenn sjái um stóran hluta karratalninga og ungatalninga. Um aðra þætti vöktunarinnar er það að segja að aldurshlutföll á veiðitíma byggja þegar alfarið á gögnum frá veiðimönnum, en aldurshlutföll í varpstofni er erfitt að meta og verður ekki gert nema af sérþjálfuðum mönnum. Þessi framtíðarsýn SKOTVÍS og Náttúrufræðistofnunar var kynnt á aðalfundi SKOTVÍS í febrúar 2006 og einnig á heimasíðu félagsins. Fjöllum nánar um þessi þrjú verkefni þar sem veiðimenn geta látið að sér kveða, það er karratalningar, ungatalningar og mælingar á aldurshlutföllum á veiðitíma.

 

Picture 26.jpgKarratalningar

Þessar talningar fara fram á vorin (lok apríl og fyrri hluti maí) og niðurstöður þeirra eru notaðar sem kvarði á stofnstærð og með þeim er hægt að bera saman stofnbreytingar á milli ára. Einnig má nota þessar talningar ásamt öðrum gögnum, svo sem aldurshlutföllum og veiðitölum, til að meta afföll og heildarstofnstærð rjúpu í landinu. Karratalningar fara fram í öllum landshlutum.
Tillögur Tomasar Willebrands gera ráð fyrir því að núverandi talningareitum verði fækkað og talningar á vegsniðum lagðar af. Einnig að bætt verði við fáum en stórum svæðum sem víðast um land þar sem talið verði á sniðum sem verða gengin. Kosturinn við sniðtalningarnar er að þær gefa þéttleika rjúpna og að auki hversu mikil óvissa er í talningunum. Einnig er tiltölulega auðvelt að meta gæði gagnanna. Þessi aðferð gefur líka möguleika á að leiðrétta fyrir sýnileika fuglanna á milli ára. Það er til dæmis miklu auðveldara að koma auga á karra í snjólausu heldur en ef einhver snjór hylur jörð, og eins er auðveldara að koma auga á karra á skóglausu svæði en eftir að kjarr eða skógur tekur að vaxa þar upp. Sniðtalningar leiðrétta fyrir þessum mun á milli ára og tímabila.
Ætlunin er að fylgja ábending­um Tomasar en þó þannig að menn hafi vaðið fyrir neðan sig. Þannig verða karratalningar á hefð­bundn­um svæðum næstu árin samhliða því sem nýjum svæðum verður bætt við.
Nokkur álitleg svæði hafa þegar verið valin til talninga og eru þau á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðvesturlandi, Norðausturlandi og Austfjörðum. Miðað er við að á hverju svæði verði á bilinu 30−40 snið en það eru 7−10 dagsverk. Það tæki því hóp sem samanstæði af 5 talningagengjum (1−2 menn í hverju gengi) um tvo daga að ljúka einu svæði. Hér er gert ráð fyrir að hvert snið sé 3−5 km að lengd og að hvert talningagengi ljúki fjórum sniðum á dag. Tveimur sniðum fyrri hluta dags og tveimur síðdegis, en ekki er talið yfir hádaginn þegar karrar hafa sig lítið í frammi. Nauðsynlegur búnaður talningamanns er sjónauki, fjarlægðarmælir og gps-tæki. Talningamenn fá hnit fyrir upphafs- og endapunkt hvers sniðs.
Ekki tókst að hefja þetta verkefni í vor (2006), talningar í sumar voru með hefðbundnu sniði og engum nýjum svæðum bætt við. Stefnt er að því að hefjast handa á nýjum svæðum næsta vor (2007). Næsta vetur verður leitað að áhugasömum talningamönnum og þeir þjálfaðir til verka. Talningarnar eru í sjálfu sér ekki flóknar en það er grundvallaratriði að gagnanna sé aflað á réttan máta!
Skotvís mun skipa í talningahópa, koma talningamönnunum saman og úthluta þeim talningasvæðum. Í framhaldi af þjálfun er ætlunin að hver hópur telji sitt svæði í apríl eða maí. Gögnunum verður síðan komið í hendur Náttúrufræðistofnunar sem varðveitir þau og vinnur úr þeim. Mikilvægt er að gott samband sé á milli talningamanna og þeirra er annast úrvinnslu og því er stefnt að því að allir talningahópar fái fljótlega í kjölfar talninga skýrslur um árangur á sínu svæði og ábendingar um það sem hugsanlega hefði mátt betur fara. Þessu verði síðan fylgt eftir fyrir þarnæstu talningu og svo koll af kolli.
Vöktun rjúpnastofnsins er langtímaverkefni og hér er horft til áratuga! Í þessu sambandi má minna á að einn talningamaður, Hálfdán Björnsson bóndi á Kvískerjum, hefur talið ár hvert frá 1963 og talningin í vor var hans 44 talning! Ætlunin er að talningahóparnir muni starfa áfram hver á sínu svæði og að eðlileg nýliðun í hópunum muni tryggja framgang verksins þó svo að einstakir talningamenn hætti störfum er fram líða stundir.

 

Ungatalningar

Ungatalningarnar gefa upplýsingar um viðkomu rjúpunnar. Þessi gögn, ásamt aldurshlutföllum í varpstofni, má einnig nota til að rannsaka afföll ungfugla, en 10 ára stofnsveifla rjúpunnar ræðst af kerfisbundnum breytingum á afkomu ungfuglanna. Hingað til hafa ungatalningar nær eingöngu verið í höndum starfsmanna Náttúrufræðistofnunar og farið fram á aðeins einu landsvæði, Norðausturlandi. Félagar í Veiðihundadeild Hundaræktarfélags Íslands hafa þó talið um nokkurt skeið á Suðvesturlandi. Viðkoman skiptir miklu máli um hversu stór veiðistofninn er haust hvert og niðurstöður ungatalninganna veita því mikilvæg gögn fyrir veiðiráðgjöf. Af þeim sökum er mikilvægt að fá upplýsingar um viðkomuna sem víðast að af landinu og ætlunin er að reyna að fá veiðimenn og aðra áhugamenn til starfa á þessu sviði og þá strax í sumar (2006). Nánar um talningaaðferðina.
Við ungatalningar er ekki reynt að finna fjölda fugla á flatareiningu líkt og í karratalningum á vorin heldur að fá hlutföll unga á móti fullorðnum fuglum. Talningatíminn eru síðustu 10 dagarnir í júlí og fyrstu 10 dagarnir í ágúst. Talningin fer þannig fram að talningamaðurinn gengur um búsvæði rjúpunnar og skráir hjá sér alla þá fugla sem hann sér bæði unga og fullorðna og eins skráir hann hjá sér kyn fullorðnu fuglanna. Auðvelt er að kyngreina fullorðnu fuglana á hljóðum, karrinn flýgur upp með rophljóði en kvenfuglinn er með allt annars konar hljóð og mun skrækari, “vænk, vænk, vænk, vænk …”. Í útliti er karrinn áberandi dekkri í sumarbúningi en kvenfuglinn. Á þessum tíma er ungahópurinn í forsjá móðurinnar og fjölskyldan flýgur saman í hnapp þegar fuglarnir verða fyrir styggð og þá er hægt að kasta tölu á ungahópinn. Einnig er nauðsynlegt að geta þeirra fjölskyldna sem sáust en þar sem ekki náðist að kasta tölu á ungahópinn og eins ef kvenfuglar eru með litla unga sem eru tregir að fljúga og því ekki hægt að telja almennilega. Stundum eru fleiri en einn kvenfugl saman um ungahóp og þá ber að geta þess.
Niðurstöður talninganna ber að senda á Náttúrufræðistofnun Íslands og stíla á Ólaf K. Nielsen. Heim­ilis­fang stofnunarinnar er Póst­hólf 5320, 127 Reykjavík. Einnig má senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Menn eru hvattir til að fara út á mörkina og telja oftar en einu sinni, en þó ekki að þræða nákvæmlega sömu móana aftur. Niður­stöðum fyrir hverja talningu ber að halda aðskildum ásamt með upplýsinum um stað og stund og hver taldi.

 

Aldurshlutföll í afla

Aldurshlutföll á veiðitíma gefa aldurs­samsetningu stofnsins í byrjun vetrar. Þessi gögn má m.a. nota til að rannsaka hvernig afföll ungfugla dreifast á annars vegar haust og hins vegar vetur, einnig eru þessar upplýsingar þýðingamiklar í tengslum við útreikning á stofnstærð og við veiðiráðgjöf.
Aldurshlutföllin eru fengin með því að greina vængi sem veiðimenn senda inn til Nátt­úru­fræðistofnunar ásamt með upplýsingum um veiðistað og nafni veiðimanns. Þessi gagnasöfnun hefur gengið ágætlega og haustið 2005 sendu 125 veiðimenn inn vængi af um 4600 rjúpum til aldursgreiningar. Markmiðið er að safna 500-1000 vængjum frá veiðimönnum úr hverjum landshluta. Til að tryggja að slíkt náist í rjúpnaleysisárum þurfa fleiri veiðimenn að senda inn vængi en verið hefur eða 200-250 manns og því þarf að bæta um 100 mönnum við þann hóp sem nú þegar tekur þátt.

 

Lokaorð

Rjúpnaveiðar eru ekki sjálfgefnar, svo sæmileg sátt náist í samfélaginu um þetta tómstundagaman þarf árlega glögga mynd af ástandi stofnsins. Sér­hver veiðimaður getur lagt sitt lóð á vogarskálina. Fyrir það fyrsta að sýna full­an drengskap í skilum á veiðiskýrsl­um til Umhverfisstofnunar. Hins vegar að taka þátt í vöktunarvinnu Nátt­úru­fræðistofnunar og SKOTVÍS. Framlag hvers og eins ræðst af áhuga og getu. Í sinni einföldustu mynd klippa menn vængi af veiddum rjúpum og senda Náttúrufræðistofnun til aldurs­grein­ingar, en þeir sem tilbúnir eru að leggja meira að mörkum taka þátt í vor­taln­ingum og ungatalningum og svo fram­vegis.


Ólafur K. Nielsen
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Náttúrufræðistofnun Íslands

Davíð Ingason
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Stjórnarmaður SKOTVÍS

Tags: hafa, verið, vöktun, rjúpnastofnsins, fræðast, veiðimenn, náttúrufræðistofnunar, stofninum, karratalningar, fara, vorin, metin, sinnum, þrisvar, aldurshlutföll