Í sigtinu - Teista

48-49-2.jpg
Teistan er ekki jafnmikil hópsál og hinar svartfuglategundirnar, sem verpa gjarnan í þéttum og stórum byggðum, en hún verpir mun dreifðar og meira innfjarða en þær. Varp­stöðvar teistunnar eru urðir og klettar við sjó og er hreiðrið hulið inni í sprungum eða ofan í grjóturðinni og oft vandfundið. Þá eru dæmi um að teistur hafi orpið í hlaðna garða og veggi og jafnvel í spýtnahrúgum. Teist­an verpir yfirleitt tveimur eggjum sem einnig skilur hana frá hinum svart­­fugla­tegundunum sem verpa að­eins einu eggi. Varptíminn hefst í lok maí og er álegan um 30 dagar þannig að ungar eru að byrja að skríða úr eggi í lok júní. Ungarnir eru svo í hreiður­holunni þar til í lok júlí, byrjun ágúst er þeir halda til hafs. Ungfuglarnir dreifast víða um höf og jafnvel til Grænlands eftir að þeir yfirgefa hreiðrið en fullorðnir fuglar halda sig oftast á sjó í námunda við varp­stöðvarnar yfir veturinn. Stofn­­stærð teistunnar er talin vera um 30 til 50 þúsund pör og yfir vetrar­tím­ann gætu verið hér 50 til 100 þúsund fuglar og auk þess er talið að eitthvað af norrænum teistum hafi hér vetrarsetu.
Fæða teistunnar eru aðallega smáfiskar eins og sprettfiskur og sandsíli, auk annarra fisktegunda. Þá eru hryggleysingjar ýmisskonar einnig á matseðlinum eins og krabbadýr, burstaormar og skeldýr. Fæðuna sækir teistan með því að kafa eftir henni og líkt og aðrir svartfuglar er hún fær kafari. Í kafi notar hún vængina til að koma sér áfram og fæturna til að stýra og er sem hún fljúgi í vatninu þannig að hún kemst hratt og örugglega áfram. Þessi notkun vængjanna til köfunar kemur aðeins niður á notum þeirra til flugs. Vængir svartfugla eru hlutfallslega litlir miðað við stærð og þyngd fuglanna og þurfa þeir að slá þeim ótt og títt til að haldast á lofti. Má segja að lögun og stærð vængja sé einskonar málamiðlun á milli notk­unar í lofti og í vatni.
Teistan hefur eflaust verið nýtt til matar hér frá upphafi byggð­ar. Lengi hefur verið hefð fyrir ungatekju og er hún heimil enn þann dag í dag þar sem hún telst til hlunn­inda. Þá hafa egg teistu einnig verið tekin í gegnum tíðina. Skotveiðar á teistu eru í dag leyfðar frá 1. septem­ber til 10. maí og samkvæmt veiði­tölum frá Veiði­stjóra­embættinu hefur árleg veiði verið frá um 3.400 til 4.800 fuglar. Ekki er hægt að sjá út frá veiði­tölum hve mikið af veiðinni er skotveiði og hvað er kofnatekja. All­nokkur fjöldi teista ferst í fiskinetum ár hvert og þá aðallega í grá­sleppu­netum. Tilkoma mink­sins er talin hafa haft áhrif á varpútbreiðslu teist­unnar en fram að land­­námi hans voru teistur­nar nokkuð ör­ugg­­ar á varpstöðvum sínum, ef frá er talin hætta sem teistu­hreið­r­un­um getur stafað af rottum þar sem teistan verpir í námunda við mannabyggðir.
Dr. Arnór Þórir Sigfússon

Heimildir:
Ævar Petersen 1998. Íslenskir fuglar. Vatns­lita­myndir eftir Jón Baldur Hlíð­berg. Vaka-Helgafell, Reykja­vík.
Tags: gránar, kviðurinn, líkt, hvítur, eins, verður, sjá, aðra, teistan, kynin, svart­fugla, hnakkann
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Í sigtinu - Teista