Í sigtinu - Grágæs

picture10.jpg

picture11.jpgGrágæsin byrjar að verpa 3 – 4 ára gömul og frá því að hún verður við­skila við foreldra sína veturgömul þá eyðir hún 2 - 3 árum sem unglingur og eru slíkir fugla gjarnan nefndir geld­­fuglar ásamt eldri fuglum sem ein­hverra hluta vegna verpa ekki. Eftir að grá­gæsin parast þá heldur parið tryggð við hvort annað nema eitthvað komi uppá. Við komuna til landsins að vori aðskilja grágæsapörin sig fljótt úr hópum og má sjá stök pörin í túnum og mýrum þar sem kvenfuglinn treður sig út af gróðrinum meðan gassinn stend­ur vörð. Geldfuglar halda hópinn þó lengur. Á þessum tíma er auðvelt að þekkja kynin í sundur því gassinn gefur sér lítinn tíma frá varðstöðunni til að bíta og leggur frekar af meðan kerlan lítur vart upp og fitnar fljótt af próteinríkum og kraftmiklum ný­græð­­ingnum eins og sést á rassi hennar sem síkkar og breikkar hratt á þess­um tíma. Þegar kerlan leggst svo á hreiðr­ið kemur að gassanum að fá sér í gogg­inn en þó fer hann ekki langt frá kerling­unni sem sér alfarið um álegu eggj­­anna og hefur á henni sívökul augu og er fljótur á vettvang ef hætta steðj­ar að. Varpkjörlendi grágæsa er að mestu á láglendi allt í kringum landið. Hún verpir alltaf nærri vatni og gerir sér hreiður í mýrum, lyngmóum og kjarr­­lendi, oft í eyjum og hólmum. Eggin eru oftast 4 – 7. Varpið hefst í byrjun maí og fyrstu ungar fara að sjást um mánuði seinna. Þeir yfirgefa hreiðr­ið á fyrsta sólarhring og vappa þá með foreldrum sínum á beiti­lönd sem einnig eru skammt frá vatni svo þeir geti flúið þangað ef hætta steðja að. Ungarnir verða fleygir um tveim mánuðum seinna, eða um mánaðar­mótin júlí – ágúst og um svipað leyti hafa foreldrarnir lokið fjaðrafelli, en þeir eru í sárum seinni­hluta júlí. Gel­d­fuglar fara einnig í sár í júlí og safnast þá saman í stóra hópa með hundr­­uðum eða þúsundum gæsa á hefð­bundnar fellistöðvar. Á þessum tíma eru gæsirnar mjög styggar og við­kvæmar fyrir truflun. Þær halda sig nærri vatni eða sjó og æðir hópurinn út á vatn við minnstu truflun. Geldfuglar verða almennt fleygir aðeins á undan fjölskyldufuglunum. Eftir því sem líður á haustið hópa gæsirnar sig í auknum mæli og fjölskyldurnar sam­einast í hópana. Þær safnast saman á náttstaði og yfirgefa þá í hópum í morgun­sárið í leit að fæðu Gæsirnar halda sig í hóp yfir veturinn og fá af því aukna vörn gegn afráni og þurfa ekki að eyða eins miklum tíma í að vera á varðbergi. Fjölskyldan heldur sam­an á vetrarstöðvarnar, sem eru aðal­lega á Bret­landseyjum, þar sem ung­arnir fylgja foreldrum sínum fram að næsta vori þegar haldið er á ný til varp­stöðv­anna og viðskilnaður verður. Ef hóp­arnir eru grannt skoðaðir má sjá að fjölskyldurnar eru aðskildar einingar innan hópanna og oft má sjá foreldrana og þá helst gassann setja undir sig haus­inn og æða í gæsir sem þeim þykir koma of nálægt sinni fjölskyldu.
Grágæsin hefur verið nytjuð hér á landi frá aldaöðli, eflaust frá upp­hafi Íslandsbyggðar, og er enn vinsæl veiðibráð. Fyrr á öldum voru gæsir hér á landi helst veiddar á felli­tíma með því að reka þær í réttir eða net og má enn sjá leifar af hlöðnum réttum sem notaðar voru til heiða­gæsa­veiða á hálendinu. Grá­gæsir eru þó mun erfiðari að reka í réttir eða net en heiðagæsir þannig að veiðar á þeim hafa líklega aukist heldur með tilkomu skotvopna. Af þeim gæsum sem veiddar eru hér á landi í dag þá er grágæsin lang­vinsælasta bráðin. Samkvæmt veiði­tölum Veiðistjórnunarsviðs Um­hverf­is­stofn­unar hefur veiðin verið um 32 – 41 þúsund fuglar á ári frá 1995 (http://www.ust.is/Veidistjornun/Al­mennt/Veidi­tolur/) og er það nærri tvöfalt meiri veiði en af hinum gæsa­teg­­und­unum þremur til samans. Auk þeirrar veiði sem hér á sér stað frá 20 ágúst þá er grá­gæsin veidd í Bretlandi frá því að hún birtist þar að hausti til 20 febrúar og hefur verið áætlað að þar séu veiddar 20 – 25 þúsund grá­gæsir árlega (Fred­eriksen 2002). Veiðar eru ekki einu nytj­arnar af grá­gæsum því heimilt er að taka egg grágæsa til átu og einnig hefur gæsadúnn verið nýttur í sængur o.fl. og flugfjaðrir þeirra voru líka nýttar í penna fyrr á öldum. Einnig er gæsaeggjum stund­um ungað út og ungarnir aldir til slátrunar, en til þess þarf sérstakt leyfi. Gæsaeldi er þó aldagömul iðja og aligæsir þær sem við þekkjum best á vesturlöndum eru afkomendur grágæsa þó þær séu hvítar á lit. Sá litur er afleiðing ræktunar og er fljótur að hverfa þegar aligæsir blandast villtum gæsum eins og stundum gerist. Önnur tegund, svangæsin (A. cygnoides) hefur einnig verið ræktuð og er algengari í austurlöndum. Aligæsirnar eru mun stærri og frjósamari en villtar gæsir og auk þess að vera afbragðs matur þóttu þær vera góð vörn því þær eru næmar á hættu og háværar þegar þær verða hennar varar.
picture12.jpgÁrlegar talningar á grágæsum hafa farið fram á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum síðan 1960. Taln­ingarnar eru á vegum The Wildfowl & Wetlands Trust (http://wwt.org.uk/) og fara þannig fram að um miðjan nóvember, þegar álitið er að nær allar grágæsir séu komnar á vetrarstöðvarnar, þá raða sjálfboðaliðar sér á þekkta náttstaði og telja gæsirnar á leið í og úr náttstað. Á þessum tíma, í upphafi hausts, eru náttstaðir gæsanna miklu færri og stærri þar en t.d. hér á landi fyrir far sem auðveldar það þessar talningar. Niðurstöður talning­anna má sjá á 1. mynd og þar sést að sögulega þá er stofninn nokkuð sterk­ur, eða nær þrisvar sinnum stærri en hann var þegar talningar hófust. Þó sést einnig að samkvæmt talningunum var stofninn talsvert stærri á níunda áratug síðustu aldar. Í grein um grá­gæs­ina í SKOTVÍS 2002 sem ég nefndi óleystar gátur (Arnór Sigfússon 2002) fjalla ég um áreiðanleika talning­anna og þar benti ég á að samkvæmt rannsóknum Nátt­úru­­fræðistofnunar Íslands og WWT í lok síðustu aldar (Fred­eriks­sen o.fl. 2004) þá eru líkur á að talningar þessar á Bretlandseyjum van­meti grágæsastofninn umtalsvert og að hann geti hugsanlega verið allt að tvisvar sinnum stærri. Ástæður þess geta verið ýmsar, t.d. að ekki séu allar gæsir komnar á vetrarstöðvar þegar talið er, að WWT sjáist yfir nátt­staði og missi þannig af hluta stofnsins eða hann sé jafnvel í öðrum löndum og svo að hugsanlega sé um kerfisbundna skekkju að ræða þannig að stofninn sé vanmetinn (sjá Arnór Sigfússon 2002). Undanfarin ár hefur verið reynt að bregðast við þessari óvissu. Þannig hefur undirritaður reynt að meta hve margar grágæsir gætu verið hér á landi helgina sem talning­ar fara fram. Síðastliðið ár var að því er virðist metfjöldi grágæsa hér um talningahelgina sem var 13 – 14 nóvember 2004, eða allt að 20 þúsund gæsir. Þetta var fjórum sinnum meira en áætlað var árið áður en þá voru áætlaðar um 5.000 gæsir og sýnir að hvaða helgi er valin getur valdið skekkju. Einnig leiddu merkingar á grágæsum, á vegum NÍ og WWT, til þess að það upp­götv­aðist að íslenskar gæsir eru í einhverju mæli í Noregi yfir veturinn. Þetta eru þó ekki margar gæsir, kannski örfá þúsund og ekki nóg til að skýra vanmatið. Nú í haust stendur til að endur­taka grá­gæsa­taln­ingar í Bretlandi í desember til að bera saman við nóvember talninguna og sjá hvort sá tími henti betur. Einnig væri æskilegt að telja betur hér á landi um talningahelgina og nota þá taln­ingar úr lofti, en slíkt er þó nokkuð kostnaðar­samt. Vonandi tekst þó að leysa þessa gátu fyrr en seinna og fá betra mat á stofninn en nú er.
Eins og fyrr sagði þá eru veiðar á grágæs miklar, eða hugsanlega allt að 50 – 65 þúsund fuglar á ári samkvæmt veiðiskýrslum hér og mati á veiðiþunga á Bretlandseyjum (Frederiksen 2002, http://www.ust.is/Veidistjornun/Almennt/Veiditolur/). Jafnvel þótt stofninn sé tvöfalt stærri en við teljum hann þá er þetta mikill veiðiþungi og talin líkleg ástæða þess að stofninn hefur dalað aftur frá því á níunda áratug síðustu aldar. Merkingar NÍ og WWT (Frederikssen o.fl. 2004) og líkön byggð á þeim sýna að lang­stærstur hluti dauðsfalla hjá grágæs er af völdum veiða, nær öll dauðsföll fullorðinna gæsa á Íslandi og helmingur dauðsfalla unga, en ekki er talið æskilegt að hlutfall veiða af heildar dauðsföllum sé meiri en helmingur. Samt sést af talningunum að stofninn virðist hafa staðið í stað undanfarin ár í kringum 80 þúsund og er það líklega fyrst og fremst vegna góðrar afkomu. Talningar frá haustinu 2004 hafa enn ekki verið gefnar út en samkvæmt athugunum okkar hér á hlutfalli unga í veiði þá var síðasta ár eitt það besta sem við höfum séð síðan þær athuganir hófust (Arnór Sigfússon og Halldór W. Stefánsson persónulegar upplýsingar). Því eru líkur á að stofninn hafi haldið í horfinu það árið. Hætt er þó við að ef nokkur mögur ár kæmu hjá grágæsinni gæti stofninn tekið dýfu. Ekki er því æskilegt að veiðar aukist á grágæsum og helst þarf að draga úr þeim.
Rannsóknum á grágæsum er haldið áfram. Talningum WWT verður haldið áfram og með aðstoð veiðimanna og fuglaáhugamanna hér á landi höfum við Halldór Walter Stefánsson reynt að áætla fjölda gæsa hér á landi um talningahelgina. Ef fjármagn fæst þá verður vonandi farið í talningar úr flugvél. Merkingum með hálshringjum og fótmerkjum er haldið áfram í Skotlandi á vegum WWT og The Highland Ringing Group. Ungahlutfall í veiði hefur verið mælt hér á landi nær óslitið frá 1993 af höfundi, fyrst á vegum Veiðistjóraembættisins til 1994, á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands 1994 til 2000 og frá 2003 á eigin vegum í samvinnu við Halldór W. Stefánsson. Veiðimenn hafa lagt þessum vængjaathugunum lið með því að leggja til vængi af bráð sinni og er þeir hvattir til að gera það áfram. Þá er ungahlutfall gæsa metið í túnum, mýrum og móum síðsumars af okkur Halldóri W Stefánssyni og í upphafi hausts af WWT í Bretlandi. Þessar rannsóknir gefa okkur góðar vísbendingar um ástand stofnsins og eru grundvöllur þess að unnt sé að stunda veiðar úr honum á sjálfbærann hátt og stýra þeim ef þurfa þykir.

Heimildir

Arnór Þórir Sigfússon 2002. Grágæsin – Óleystar gátur. Skotvís 8: bls 29 – 31.
Frederiksen, M. 2002. Indirect estimation of the number of migratory greylag and pink-footed geese shot in Britain. Wildfowl, 53: 27-34
Frederiksen, M., R. D. Hearn, Carl Mitchell, Arnór Sigfússon, Robert L. Swann and Anthony D. Fox 2004. The dynamics of hunted Icelandic goose populations: a reassessment of the evidence“ Journal of Applied Ecology 41(2): 315-334.
Tags: eins, stærri, grágæsin, anser, þyngd, bleiklitan, austræna, litinn, -180, bæði, kynin
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Í sigtinu - Grágæs