Hvað segir Tómas um rjúpuna

tomaswillebrandt.jpg Sænski fuglafræðingurinn Tómas Wille­brand var á haustdögum 2004 kallaður til ráðuneytis við “rjúpna­­nefnd“ umhverfisráðuneytisins. Í maí s.l. hélt Tómas erindi í Öskju um at­hug­anir sínar og tengdi þær reynslu sinni af rann­­sóknum um áratuga skeið. Í fram­haldi af því tók hann saman skýrslu um þetta efni (Tomas Willebrand 2005. Rock ptarmigan population dynamics on Iceland. Rock ptarmigan advisory comm­ittee. Óbirt skýrsla, 27 bls.) og er hún aðgengileg á heima­síðu Skotvís.
Í þessum pistli hefur undirritaður áhuga­­­maður um fugla og fiska leitast við að tína til það sem honum sýnist áhugaverðast í skýrslu Tómasar og helst má ætla að eigi erindi við Ísl­enska skotveiðimenn. Skýrslan sjálf er upp á 23 bls. en þessi pistill aðeins ör­fáar bls. og því augljóst að margt af því sem Tómas vildi sagt hafa hlýtur að liggja óbætt hjá garði. Þeir sem áhuga hafa á frekari fróðleik geta þá leitað í upp­r­unalega heimild. Eftir­farandi texti er nokkuð bein þýðing mín á ensk­um texta Tómasar, en efnið er sett fram í annari röð og með öðrum kafla­heitum en hann gerir í sinni skýrslu. Tekið skal fram að skýrslan er birt í maí s.l., þ.e. áður en niður­­stöð­ur rjúpnatalninga 2005 lágu fyrir. En hvað segir þá Tómas um helstu þætti þessa máls sem tröllriðið hefur um­­ræðum skotveiðimanna undanfarin ár?

 

Um rjúpnasveifluna

Íslenska fjallrjúpan hefur óvana­lega stöðuga og mikla við­komu (ungafjölda) miðað við aðrar rjúpna­tegundir. Þetta ræðst af hárri lifun (“survival“) unga en ekki ungafjölda. Vegna þessa getur stofn­inn margfaldast frá vori til hausts. Hinsvegar vantar gögn um dánartíðni kvenfugla frá því snemma að vori fram á sumar. Aukið afrán á kvenfugli á útungunartíma myndi draga úr vexti stofnsins án þess að hafa áhrif á ungahlutfall að hausti.
Rándýr og veiðimenn eru mikil­vægustu afræningjar að hausti og vetri en takmarkaðar upplýsingar eru um dauðsföll og orsakir þeirra að vor- og sumarlagi. Svo virðist sem gögn um dauðsföll rjúpna vegna sjúk­dóma og vannæringar séu meiri á Íslandi en í öðrum löndum rjúpna. Ég tel slíkar orsakir líklegar skýringar á hruni í kjölfar toppa árið 1966 og fyrr. Ref og mink hefur fjölgað síðustu 30 árin en upplýsingar vantar um hugsan­legar breytingar í fæðuvali þeirra.
Hnignun og hrun í stofnsveiflum hefur komið fram hjá mörgum dýra­tegundum og hefur verið tengt hnatt­lægri stöðu (latitudinal gradient). Almennt er álitið að slík breyting eigi rætur að rekja til þess að sérhæfðum ræningjum, sem elta stofnsveifluna með hnikun (seinkun) í tíma, fækki en fjölhæfari ræningjum fjölgi, en samband þeirra við bráðina sé frekar óhnikað og þéttleikaháð. Vel er mögu­legt að þau hnattlægu mörk þar sem sveiflur minnka eða hverfa breytist í tíma. T.d. náði sveiflan í snjó­héra­stofn­inum eitt sinn til vatnahéraða USA en er ekki lengur til staðar þar. Hnignun í rjúpna­sveiflum hefur einnig komið fram annars staðar.
Fyrirliggjandi gögn benda til þess að veiðidauði sé lágur þegar stofninn er stór og hár þegar stofn­inn er lítill. Slíkt mynstur er þó ekki augljóst í línulegu stofnlíkani rjúp­unnar. Ég sé enga skýringu á þessu en tel að áhugavert væri að rannsaka þetta frekar. Ekki er sjáanlegt að veiðar valdi við­snúningi í hámörkum, enda benda gögn til þess að veiðar fylgi ekki stofn­s­veiflunni. Veiðar eru líklegar til að hafa áhrif á stofninn þegar hann er í lægð og gætu þá stuðlað að því að stofninn festist í lágmarki (“pit“). Þegar stofninn hefur náð sér upp úr lægð eru það aðrir þættir, eins og fæðu­skortur og náttúruleg dauðsföll að við­bættum sjúkdómum, sem valda því að hratt vaxandi stofn fer yfir í bratta niður­sveiflu.
Þegar litið er á þessa fáu gagna­punkta sem marka hámörkin 1955 og 1966 er ástæða til varúðar í að túlka þá sem markverða breytingu í rjúpna­sveiflunni. Ég hallast frekar að því að toppurinn 1966, miðað við taln­ingu á landsvísu, marki viss skil og mestu breytingarnar í stofnsveiflunni hafi gerst eftir þann topp.
Mikil aukning varð í rjúpna­stofn­inum eftir eins árs veiði­bann, en á þessu stigi er erfitt að ákvarða í hversu miklum mæli megi rekja þá aukningu til veiðibannsins annars­vegar eða fyrirséðar uppsveiflu stofns­ins hinsvegar. Talning á þessu vori verður mikilvæg í því að meta upp­sveifl­una magnlægt. (Aukningin vorið 2005 reyndist 78% frá talningu 2004, inn­skot ÓKP).
Dauðsföll á Norðvesturlandi minnk­­­­­uðu marktækt eftir að veiði­­­­bannið tók gildi árið 2003. Óheppi­legt er að veiðar voru ekki leyfðar á nokkr­­um við­mið­unar­svæðum til að unnt væri að greina á milli áhrifa veiði­­banns og fyrirséðrar uppsveiflu sem orðið hefði án veiðibanns. Sam­kvæmt stofn­líkan­inu ætti stofninn að vaxa mjög hratt og að loknum vor­taln­ing­um 2005 liggja fyrir tvær mæl­ingar þar sem hægt er að bera saman raun­veru­legan vöxt stofnsins í veiði­banni og spá skv. stofn­líkan­inu án veiði­banns.
Nauðsynlegt er að endurmeta lang­­­tímamarkmið í vöktun rjúpna­­stofnsins og veita jafnframt meira fé til þess verkefnis. Ég legg til að taln­ingar eftir ákveðnum línum (“line transects“) ættu að vera fyrsta val þegar nýjar taln­ingar eru innleiddar. Ég tel hinsvegar var­hugavert að leggja of mikla áherslu á vega­talningar. Betra væri að telja bæði að vori og hausti á færri en stærri svæðum í stað vor­taln­inga á mörgum minni svæðum eins og gert hefur verið. Þá tel ég að hvetja ætti sjálfboðaliða til að taka þátt í talningum. Loks er nauð­synlegt að fylgjast með stofnþróun bæði á friðuðum svæðum og svæðum þar sem veiðar eru heimilar og setja upp slíkar talningar til langs tíma.

 

Um veiðar og veiðiskýrslur

Picture53.jpg Erfitt er að meta veiðihlutfall rjúpna á landsvísu eða eftir svæð­­um. Aðeins er unnt að meta þétt­leika rjúpna á grundvelli talninga á Norð­austur­landi á því tímabili sem veiði­skýrslur ná til. Mitt mat á veiði­hlutfalli er 9-24% á Norð­austur­landi, 17-32% á landsvísu og 34% í nágrenni Reykja­víkur skv. radío­merk­ingum á rjúpu. Breyt­ingar á veiði­hlutfalli eftir árum sýna að veið­arnar fylgja ekki stofn­sveifl­unni heldur er veiðihlutfallið hærra þegar stofninn er lítill og öfugt þegar stofn­inn stækkar. Þetta er algengt fyrirbæri í sportveiðum. Nauð­synlegt er að samræma veiði­skýrslu­kerfið og vökt­unarkerfið til þess að unnt sé að meta veiðihlutfall fyrir einstök lands­svæði.
Íslenskir veiðimenn veiða mikið af rjúpu að jafnaði miðað við veiði­menn í öðrum löndum og var fengur þeirra 20-30 fuglar á veiðitímabili 1998-2002 en meðalveiðitími var 3 dagar. Lítill hluti veiðimanna tekur stóran hluta veiðinnar. Árið 1996, þegar stofn­inn var nálægt hámarki, veiddu 12% veiðimanna meira en 60 fugla á veiði­tímanum eða rúmlega 55% af heildarfjölda. Árið 2001, þegar stofn­inn var á niðurleið, veiddu 7% veiði­­manna meira en 60 fugla eða 25% af heildar­veiðinni. Rjúpa er söluvara á Íslandi en þó gefa ótrúlega fáir veiði­menn upp að þeir selji bráð sína og aðeins 7 veiðimenn kváðust selja meira en 50 fugla skv. skoðanakönnun meðal veiði­manna. Svo virðist því sem stærri hluti veiðinnar sé gefinn vinum og vanda­mönnum.
Að mínu áliti mun sölubann á rjúpu ekki hafa mikil áhrif á veið­arnar, enda væri fyrst nauðsynlegt að rannsaka hversu mikið er yfirhöfuð selt á markaði. Ekki er ólíklegt að meðal rjúpnaveiðimanna hafi sú siðvenja þróast að deila veiðinni með ættingjum og vinum og að sala í ábataskyni sé ofmetin. Sölubann á veiði er mál sem er utan við markmið þessarar skýrslu, enda er þar um pólitíska ákvörðun að ræða sem einkum byggist á mikil­vægum siðfræðilegum gildum.

 

Um veiðistýringu

Hverjir eru helstu kostir sem koma til greina við stýringu rjúpna­veiða á Íslandi í framtíðinni?
Ég tel að unnt sé að velja milli að­ferða sem spanna allt frá nánast frjálsum veiðum til algers veiði­banns. Ég fæ ekki séð að Íslenska fjall­rjúpan sé í slíkri hættu að hún megi ekki við nokkrum veiðum. Ef svo væri þyrftu að koma til meiriháttar breyt­ingar á vistkerfi landsins sem hefðu afdrifa­ríkar afleiðingar fyrir fleiri dýra­stofna en rjúpuna. Þess vegna tel ég mikilvægast að þróa kerfi sem gerir okkur kleift að greina hvenær veiði­álag hefur náð stigi sem leiðir til óæski­legra áhrifa á stofninn. Þó má vera ljóst að við leysum ekki álitamál veiði­stýringar í eitt skipti fyrir öll!! Veiði­stýring inniheldur ýmsa þætti eins og gildismat, spurningar um jafnræði (“equity“) og stjórnsýslu auk vist­fræði­legr­ar stýringar. Ýmsir halda því fram að þetta sé óleysanlegt vandamál.
Tvö grundvallaratriði tel ég sér­lega mikilvæg. Hið fyrra er að skil­greina kerfi sem er sveigjanlegt. Ég mæli sérstaklega með þeirri leið að vísindamenn geri grein fyrir nokkr­um sæmilega skynsamlegum lausn­um (samkeppni líkana) sem unnt er að meta fræðilega í samvinnu við stjórn­endur og hags­munahópa. Í fram­haldi af því væri unnt að velja stjórn­unar­leið sem er mælan­leg og nýtist ekki aðeins sem stjórn­tæki heldur einnig til að auka skilning á umræddu kerfi. Þessi ferill tekur aldrei enda! Líklegt er að vist­kerfi breytist áður en við erum ánægð með skilning okkar á þeim og burði okkar til að spá um fram­vindu þeirra.
Annað atriði sem ég tel mikilvægt í stjórn lifandi auðlinda er víð­sýni. Margir hagsmunahópar hafa mikinn áhuga á þessum auðlindum. Smá­­dýra­veiðimaðurinn er sjaldnast upp­tekinn af efnahagslegum sjónar­mið­um, heldur er hér miklu fremur um mikil­vægan lífstíl að ræða. Ég tel að svæðis­bundin þátttaka sé jákvæð við þróun stjórnkerfis og stuðli að sátt um kerfið. Með því að kalla veiðimenn, landeigendur og fleiri til samvinnu, t.d. við rjúpnatalningar, fæst ekki aðeins ódýrt vinnuafl heldur einnig tengsl við upplýsta veiðimenn sem búa oft yfir mikilvægri þekkingu.
Varðandi veiðistýringu mundi ég ganga til verks með eftirfarandi hætti sem fyrsta kost:

  1. Íhuga hvernig tryggja megi að veiði­­álagið verði ekki of hátt þegar stofn­inn er í lægð.
  2. Meta nokkur mismunandi stofn­lík­ön til að fá hugmynd um slíkt veiði­álag.
  3. Meta hversu nálægt þessu stigi nýt­ing­in var fram til þessa, en þetta er þó erfitt á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
  4. Þá mundi ég reyna að þróa kerfi stjórn­unareininga innan hvers hinna núverandi sex veiðisvæða veiði­korta­kerfisins, líklega 50 til 100 km2 að stærð hver eining. Helsti tilgangur slíks kerfis væri að safna veiðitölum og vöktunarniðurstöðum á minni svæ›um en verið hefur til þessa. Ég mundi sennilega þróa mis­­mun­andi reglur fyrir hvert veiði­svæði.
  5. Ég mundi athuga möguleika á að gera svæðisstofur ábyrgar fyrir vökt­un á hverju veiðisvæði og skoða mögu­leika á að mynda ráðgjafahóp land­eigenda, veiðimanna, fugla­­fræð­inga o.fl. fyrir hvert svæði. Ráð­gjafahópar myndu skipu­leggja árlega fundi þar sem niður­stöður veiði­skýrslna og vökt­unar væru ræddar. Þegar veiði­stig, sókn eða meðal­fengur yrði of hár á tilteknu veiði­svæði gætu ráðgjafarnir lagt til takmarkandi reglur eins og veiði­­kvóta, sóknar­tak­markanir eða að tilteknar svæðis­einingar yrði friðaðar.

Annar kostur væri að styðjast við miðlægt kerfi og láta nægja að hafa svæðisbunda stýringu suðvestan­lands í nágrenni Reykjavíkur. Ég mundi skilgreina a.m.k. þrjú stór taln­ingar­svæði á hverju veiðisvæði. Og lík­lega taka frá fjögur önnur svæði á landinu, tvö friðuð svæði og tvö svæði þar sem ég gæti stýrt veiðiálaginu með nákvæmari hætti. Ég mundi líklega beita kvótakerfi (“bag limit system“) þegar stofninn væri í lægstu stöðu, en vona jafnframt að veiðimenn myndu bregðast jákvætt við tilmælum þannig að lagafyrirmæli væru óþörf.
Þriðja lausnin væri að beita lág­marks stýringu og þróa kerfi friðaðra eininga á öllum sex veiði­svæð­um. Fjöldi eða stærð friðaðra eininga myndi líklega vaxa þegar stofninn væri í lægð en minnka og teljast jafnvel óþarft með öllu þegar stofninn væri í hámarki. Nokkurn tíma tæki að þróa slíkt kerfi svo gagn væri af og búast mætti við einhverjum núningi milli aðila meðan sú þróun ætti sér stað, eink­um varðandi friðuð svæði. Á hinn bóg­inn útheimti slíkt kerfi lágmarks stjórn­un þegar það væri farið að virka nokk­urn veginn eins og til væri ætlast.
Hér lýkur efnislegri þýðingu á skýrslu Tómasar.

 

Lokaorð

Þau sjónarmið sem Tómas Wille­brand setur fram í skýrslu sinni eru á margan hátt mjög athyglisverð. Hann leitast við að skoða málin í víðu vistfræðilegu samhengi og einskorða sig ekki við áhrif veiða enda þótt það sé kannski eini þátturinn sem unnt er að hafa markverð áhrif á með veiði­stýringu. Tómas virðist ekki sann­færð­ur um að fyrsta ár veiðibanns hafi skipt sköpum varðandi uppsveiflu stofnsins. Fróðlegt væri að heyra skoðun hans á því að loknu tveggja ára veiðibanni. Það er eindregin niðurstaða hans að ekki sé, eða hafi verið, ástæða til að beita algeru veiðibanni til að styrkja rjúpna­stofninn. Þvert á móti telur hann að margir kostir séu tiltækir varðandi stjórn veiðanna sem unnt sé að velja um eftir stöðu stofnsins á hverjum tíma. Engu að síður er ljóst að hann telur að verndaraðgerða hafi vissulega verið þörf. Hann gefur þó lítið fyrir þá leið að banna sölu á villibráð og telur áhrif slíkra aðgerða stórlega ofmetin.
Í hugmyndum hans varðandi stjórn veiðanna felast ýmsar athyglis­verðar nýjungar sem lítið eða ekkert hefur verið fjallað um hér á landi. Þar má nefna breytilegan fjölda eða stærð friðaðra svæða eftir stöðu rjúpna­stofnsins og svæðisbundna ábyrgð í veiðistjórninni. Þá er einnig athyglis­vert hversu mikla áherslu hann leggur á að stjórn veiðanna byggist á sveigjan­leika og víðsýni. Slík sjónarmið hafa því miður ekki verið ofarlega á baugi í um­ræðum hérlendis.
Þegar upp er staðið tel ég að fram­lag Tómasar Willebrand til hinn­ar kvalafullu umræðu um Íslensku rjúp­una sé einkar gagnlegt og til þess fallið að stuðla að skynsamlegum ákvörð­unum í þessum málum á næstu mánuð­um og árum. Reynist það svo hefur hann vissu­lega haft erindi sem erfiði með komu sinni hingað til lands og kynn­um af þessum áhugaverða fugli á norður­hjara.

Tags: efni, 2005, tók, saman, þetta, ptarmigan, rock, iceland, tómas, willebrand, rjúpuna, population, (tomas, skýrslu, dynamics
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Hvað segir Tómas um rjúpuna