Hugleiðingar um gæsaveiðar

Picture 6.jpg

 

Veiðistofnarnir

Blesgæsin er sá veiði­stofn sem helst á undir högg að sækja. Líkt og ég fjall­aði um í grein í Skotvís fyrir ári síðan (Arnór Þ. Sigfússon 2003) hefur stofn grænlenskra blesgæsa minnkað hratt allt frá árinu 1998 þegar hann var í hámarki. Hlutfall unga í veiðinni síðastliðið haust var einung­is rúm 20% og gaf ekki góð fyrir­heit enda reyndist ungahlutfall mælt í hópum á vetrarstöðvum með því lægsta­ sem mælst hefur (Anthony D. Fox, munnlegar upplýsingar). Því virðist þessi neikvæða þróun blesgæsastofnsins halda áfram og er ástæðan sú að í stofninum er viðvarandi viðkomubrest­ur og ungaframleiðsla stofnsins dugar ekki til að vega upp á móti dauðsföll­um. Um 10% stofnsins hefur verið veidd hér á landi árlega frá 1995 samkvæmt veiðitölum Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar (sjá http://www.ust.is/Veidistjornun/Almennt/Veiditolur/) og líklega lengur. Bles­gæsin grænlenska er ekki veidd annars staðar en hér á landi svo nokkru nemi. Veiðin er ekki orsök fækkunarinnar og líklega myndi fækka í stofninum áfram þó veiðum yrði hætt en veiðarnar flýta fyrir fækkun og draga úr getu stofnsins til að rétta við ef ungaframleiðsl­an breyttist til hins betra. Ég vil því eins og áður hvetja skotveiðimenn til að hlífa blesgæsum eins og kostur er. Á aðalfundi SKOTVÍS í vor flutti ég erindi um blesgæsir og í kjölfarið var samþykkt ályktun um verndun blesgæsarinnar. Þar sýndi félagið mikla ábyrgð en eftir er að sjá hvernig þeirri ályktun verður fylgt eftir.
Grágæsin er sú gæs sem mest er veitt af samkvæmt veiðitölum veiðistjórnunarsviðs Umhverfis­stofn­unar eða frá 32 – 41 þúsund fuglar á ári frá 1995 (http://www.ust.is/Veidistjornun/Almennt/Veiditolur/ ). Þannig er grágæsaveiðin um tvisvar sinnum meiri en heiðagæsaveiði á sama tíma og um það bil tíföld blesgæsaveiðin. Auk þessa hefur verið áætlað út frá merkingum og endur­heimtum og veiðiskýrslum héðan að á Bretlandi séu veiddar 20 – 25 þúsund grágæsir árlega (Frederiksen 2002). Á sama tíma hefur stofn grágæsa að hausti á vetrarstöðvum verið áætlaður um 80 þúsund fuglar. Eins og fram kom í umfjöllun um grágæsir hér í SKOTVÍS 2002 (Arnór Þ. Sigfússon 2002) og í Frederiksen o.fl. 2004 er talið að stofn grágæsa sé vanáætl­aður en engu að síður er veiðiþungi á grágæs mikill og alls ekki mælt með að hann aukist. Þannig benda niðurstöður merkinga og líkön byggð á þeim til að langstærstur hluti dauðsfalla grágæsa hér á landi sé af völd­um veiða (Frederiksen o.fl. 2004). Grágæsastofninn virðist hafa verið að minnka undanfarinn rúman áratug þó dregið hafi úr þeirri þróun á síðustu árum, enda vísbendingar um að eitthvað hafi dregið úr grágæsaveiði í seinni tíð, auk þess sem komið hafa ár með góðri ungaframleiðslu (Hearn 2004, http://www.ust.is/Veidistjornun/Almennt/Veiditolur/). Síðasta ár sem við höfum talningar frá er 2002 og samkvæmt þeim var hauststofninn talinn vera um 73 þúsund fugla sem er mjög lágt og um 18,4% minna en 2001. Einnig var heiðagæsastofninn áætlaður minni en 2001 sem nemur um 15,2% (Hearn 2004). Ýmislegt bendir til að þessar áætlanir fyrir báða stofna séu vanmat og að ekki eigi að leggja of mikið upp úr þeim. Þar kemur margt til eins og það að gæsirnar séu að koma seinna á vetrarstöðvar, breytingar séu á dreif­ingu í upphafi haust á vetrarstöðvum og síðast en ekki síst urðu mikilvæg talningarsvæði útundan haustið 2002 og því þurfti að áætla fjölda þar með óbeinum hætti (Hearn 2004). Allt eykur þetta óvissu í talningunni og séu talningar fyrri ára skoðaðar sést að það koma fyrir stór stökk milli ára upp eða niður á við sem vart verða skýrð nema með breytileika í talningum frekar en breytileika í stofninum. Til að eyða þessum breytileika í talningum og slétta­ úr stofnstærðarferlinum er oftast notað hlaupandi meðaltal og í tilfelli gæsanna er meðaltal 5 ára notað. Það þýðir að á bak við hvern punkt á stofnferlinum er meðaltal 5 ára. Séu síðustu 8 ár skoðuð virðist sem stofnferillinn sé að ná jafnvægi í kringum 80 þúsund grágæsir að hausti en eins og áður sagði er talið að það sé vanáætlun.
Hinar tvær gæsategundirnar sem við megum veiða, heiðagæs og helsingi, virðast báðar í góðu ástandi.­ Heiðagæsastofninn virðist hafa verið í jafnvægi undanfarinn rúman áratug eftir mikinn og hraðan vöxt á ní­unda áratug síðustu aldar. Stofn­ferill heiða­­gæsarinnar virðist vera í jafn­vægi um 230 þúsund fuglar og veiði hér á landi verið nokkuð hófleg, um 11 – 15 þúsund fuglar á ári (http://www.ust.is/Veidistjornun/Almennt/Veiditolur/). Á Bretlandi hefur verið áætlað að árlega séu veidd­ar þar um 25 þúsund heiðagæsir (Frederiksen 2002). Öfugt við grá­gæsina þá virðist hlutur veiða í heild­ar dauðs­föll­um vera innan við 50% hér á landi (Frederiksen o.fl. 2004). Hels­ingja­stofn sá sem við veiðum úr er að stærstum hluta fargestur hér. Hels­inginn verpir á austurströnd Græn­lands og á sér vetrarstöðvar í Skotlandi en hefur viðdvöl hér vor og haust. Undanfarna áratugi hefur hels­ingi reynt fyrir sér með varp hér á Vestur- og Suðurlandi og í dag verpa nokkur pör á Suðurlandi. Stofn grænlenskra helsingja hefur verið í miklum vexti og er talinn vera yfir 50 þúsund fuglar um þessar mund­ir (http://www.wetlands.org/pubs&/WPE.htm). Þeir eru ekki veidd­ir að ráði nema hér á landi þar sem veiðin hefur verið frá 1.400 til 2.600 fugl­ar á ári. Grænlenski helsinginn er nú friðaður á vetrarstöðvum sínum í Skot­landi og á Grænlandi er áætlað að um eða innan við 1.000 fuglar séu skotnir árlega eða teknir í felli.

Picture 7.jpg

Veiðarnar

Eins og að ofan segir þá er ástand veiðistofnanna misjafnt sem og veiðiþunginn sem þeir verða fyrir og almennt má segja að ekki sé æskilegt að mikil aukning verði á gæsaveiðum. En eru líkur á að veiðiþunginn eða veiðimynstrið sé að breytast?
Samkvæmt Veiðidagbók Veiði­stjórnunar­sviðs Um­hverfis­stofn­unar 2004 þá hefur fjöldi þeirra sem veiða verið nokkuð stöðugur frá því að útgáfa veiðikorta hófst árið 1995 ef frá eru talin fyrstu 3 árin þegar útgef­in veiðikort voru 10 – 20% fleiri en síðari ár. Frá 1998 til 2002 voru gefin út um 10.600 veiðikort árlega og ef veiði­skýrslur eru skoðaðar þá eru rúm 30% veiði­korthafa að veiða gæsir (upplýsingar frá Veiðistjórnunarsviði UST). Einnig benti skoðanakönnun sem gerð var meðal veiðikorthafa veturinn 2001-2002 til þess að nýliðun veiðimanna sé minnkandi þannig að þó þjóðin stækki þá er ekki víst að veiðimönnum komi til með að fjölga í hlutfalli við það (Arnór Þ. Sigfússon o.fl. 2004). Af þessu gæti maður dregið þá ályktun að ekki sé líklegt að veiðiálag á gæsir aukist og er það vel.
En þó veiðiálag mælt í fjölda veiðikorthafa aukist ekki þá kemur fleira til. Veiðimenn gætu aukið sóknina þó þeim fjölgi ekki og þannig aukið veiðiálag. Veiðiafköst geta breyst þann­ig að veiði á sóknareiningu aukist. Hér gætu komið til breytingar á útbúnaði svo sem öflugri og betri skotvopn og skotfæri, betri feluútbúnaður og betri gervigæsir. Einnig er vel hugsanlegt að sóknargeta veiðimanna sé meiri en sóknin þannig að þeir gætu aukið hana til að mæta t.d. aukinni eftirspurn eftir gæs á matvörumarkaði eða af öðrum ástæðum sem gætu hvatt til aukinn­ar veiði. Samkvæmt upplýsing­um frá veiðistjórnunarsviði UST sést að rúm 10% veiðimanna eru að veiða meira en helming gæsa sem veidd­ar eru og bend­ir það til að talsvert „ónýtt“ sóknargeta sé til staðar hjá hinum 90%. Ekki hefur verið til annar mælikvarði á sókn en fjöldi veiðimanna frá 1995 en á þessu varð breyting árið 2002 þegar farið var að biðja veiðimenn að setja sóknar­daga fyrir hverja tegund á veiðiskýrslur. Slíkar upplýsingar ættu að geta hjálpað okkur til að fylgjast með hvort breytingar verði á sóknarmynstri í framtíðinni.
Á síðustu misserum virðist sem nokkur breyting sé að verða á aðgengi að gæsaveiðilendum, bæði hvað varðar hálendisgæsir eins og heiðagæsina svo og hinar þrjár tegund­irnar sem veiddar eru á láglendi og gæti það haft áhrif á veiðiálagið. Varðandi heiðagæsina þá fer aðgengi að veiðilendum batnandi vegna aukinn­ar vegagerðar inn á hálendið og með aukinni eign landsmanna á öflugum jeppum. Nú er svo komið að fólksbíla­fært er inn á margar veiðilendur heiða­gæsa eins og á Kjalvegi og á nýjar slóðir á Fljótsdals- og Jökuldalsheiði í tengslum við virkjanaframkvæmdir svo dæmi sé tekið. Í tengslum við þess­ar breytingar á aðgegni má búast við að sókn í heiðagæs­ir aukist nema aukningin hafi þegar átt sér stað áður en skráningar á veiði hófust. Svo virðist að breytingar séu einnig að verða á aðgegni að veiðilend­um á láglendi vegna þess að bændur eru í auknum mæli að selja aðgang að gæsaveiði í sínum lendum. Bæði er um það að ræða að bændur leigja tún jarða sinna til veiðimanna sem sitja þá einir að veiðinni og einnig er það að færast í vöxt að gæsaveiði sé seld sem hluti af ferðaþjónustu. Þegar bændur leigja tún jarðarinnar til fárra veiðimanna gæti það þýtt að færri komist að því oft er það eða var svo að bændur leyfðu mörg­um að veiða án endurgjalds og litu jafn­vel á það sem kost fyrir sig að losna þá við gæsirnar úr túnunum. Nú sitja fáir að jörðinni og í stað þess að reyna að fæla gæsina áður er nú reynt að tæla hana til að koma og stundum jafnvel ræktað kornstykki sérstaklega vegna þess. Áhrif þessa gætu verið tvíþætt. Annarsvegar komast hugsanlega færri að þannig að gæsaveiðimönn­um gæti fækkað sem við fyrstu sýn gæti leitt til minna veiðiálags. Hins vegar gæti þetta leitt til aukinn­ar veiði vegna þess að þeir sem leigja jarðirnar auki sóknina og selji gæsir til að hafa upp í kostnað við leiguna. Gæsaveiði sem hluti af ferðaþjónustu ætti aftur á móti að auðvelda mönnum aðgengi að láglendisveiðum á gæs. Þá geta allir veiðimenn keypt sér gistingu­ og gæsaveiði með en þurfa ekki að þekkja­ einhvern bónda til að komast til veiða. Þannig stuðlar þetta að því að fleiri komast til gæsaveiða. Líklegt er þó að þeir sem veiða hjá ferðaþjónustu­bændum veiði minna en þeir sem leigja jarðirnar því sennilegt er að þar verði sett takmörkun á sókn eða afla á veiðimann líkt og t.d. í laxveiði. Eins og sést af ofansögðu þá getur verið erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif breytingar á aðgengi að veiðilendum og möguleik­um á gæsaveiði hefur. Rétt er að taka fram að ekki eru til neinar mælingar á þessum breytingum á aðgegni að veiðilendum heldur eru þetta hugleið­ingar byggðar á því sem ég skynja af samskiptum mínum við veiðimenn og bændur sem og raunverulegum upplýsingum, t.d. um aðgengi að hálendinu. Þessar breytingar og áhrif þeirra mætti samt meta í gegnum veiðikortakerfið og með stuðningi af skoðanakönnun­um meðal veiðimanna og bænda.
Síðastliðið ár var sett veiðibann á rjúpu og hefur núverandi um­hverf­is­ráðherra sagt að það muni vara 3 ár þó samkvæmt reglugerðinni sé það ótímabundið. Rjúpan er vinsælasta veiðibráðin og stundar yfir helm­ingur veiðimanna þær árlega og nærri 90% þeirra hafa einhvern tíma farið á rjúpna­veiðar (Áki Á. Jónsson o.fl. 2003). Því má telja mjög líklegt að það að kippa burtu vinsælustu veiðibráðinni auki veiðiálag á aðrar tegundir og eru gæsirnar þar meðtaldar. Bæði er það vegna þess að veiðimenn sækja í aðrar tegundir til að fá útrás fyrir veiðiáhuga sinn og einnig er ekki ólíklegt að með því að kippa jafnvinsælli villibráð af markaði þá aukist eftirspurn eftir annarri villibráð eins og gæsum.

 

Veiðiskýrslur

Grundvöllur þess að hægt sé að svara sumum af þeim spurn­ing­um sem hér hefur verið velt upp varðandi gæsaveiðar er veiði­korta­kerfið sem hefur verið starf­rækt síðan 1995. Í gegnum það hefur veiðistjórnunar­svið UST safn­að veiðiskýrslum sem flest bendir til að hafi verið áreiðanlegar (Arnór Þ. Sigfússon o.fl. 2003). En í kjölfar þess að rjúpan var al­frið­uð á síðasta ári í andstöðu við Skot­veiði­félag Íslands og að ég tel þorra veiðimanna þá hafa einhverjir veiðimenn ákveðið að sýna andstöðu sína í verki með því að gefa upp rangar veiðitölur. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjórn­unarsviði UST þá eru nokk­ur brögð að því að veiðimenn séu að gefa upp veiði sem vart getur staðist, svo sem tug- eða hundruð þúsunda gæsa á veiðimann og fleira í þeim dúr. Þá er ekki vitað hve mikið af núll skýrslum eru réttar eða rangar þann­ig að í raun er ómögulegt að treysta veiðitölum frá árinu 2003. Einnig gætir áhrifa þessa á 2002 því svo virðist sem útgáfa veiðikorta fyrir 2003 hafi dregist saman um sem nemur nær 20% og margir sem ekki sóttu um veiðikort 2003 hirtu kannski ekki um að skila inn veiðiskýrslu fyrir 2002. Þetta er mikill skaði því veiðikortakerf­ið íslenska er til mikillar fyrirmyndar og til dæmis um það rætt víða erlend­is sem vel heppnað veiðistjórnunarkerfi. Einnig bentu athuganir til að veiðikorta­kerfið og þær upplýsingar sem það veitir séu nokkuð réttar, jafnvel framar vonum margra (Arnór Þ. Sigfússon o.fl. 2003). Það er óskandi að hér sé einungis um tímabundið ástand að ræða og að veiði­menn fari aftur að gefa upp réttar veiðitölur líkt og áður. Ég óttast það einnig að ef veiðikorta­kerfið sem bygg­ist á gagnkvæmu trausti veiðimanna og yfirvalda hrynur þá geti það komið í bakið á veiðimönnum þegar fram í sækir. Þessu trausti verða báðir aðilar­ að reyna að viðhalda og vinna í að koma á aftur. Það er mjög mikilvægt að sem bestar og réttastar upplýsing­ar liggi fyrir þegar verið er að taka ákvarðanir um veiðar og veiðiþol stofna­ og má segja að minni líkur séu á að gripið sé til róttækra aðgerða eins og alfriðunar ef nægar og réttar upplýsingar liggja fyrir. Í raun var rjúpna­veiðibannið aðallega rökstutt með þekkingarskorti því ekki er vitað hver áhrif veiða eru á stofninn og rjúpan því látin njóta vafans. Og vafa er best eytt með sem réttustum og best­um upplýsingum. Ég vil því skora á veiðimenn að halda áfram að skila inn samviskusamlega réttum veiðitölum í framtíðinni, sér og veiðistofnum til hagsbóta.

 

Arnór Þórir Sigfússon 2003. Blesgæsir.
Skotvís 8: bls 16 – 19.
Arnór Þórir Sigfússon, Áki Ármann Jónsson, Bjarni Pálsson og Einar Guðmann 2003. Hve áreiðanlegar eru veiðiskýrslur? Veiðidagbók Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar 2003. 8. árg. 11-18.
Arnór Þórir Sigfússon, Áki Ármann Jónsson, Bjarni Pálsson og Einar Guðmann 2004. Um veiðimenn. Veiðidagbók Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar 2004. 9. árg. bls.10-17.
Áki Ármann Jónsson, Arnór Þórir Sigfússon, Bjarni Pálsson og Einar Guðmann 2003. Skoðana- og viðhorfskönnun meðal skotveiðimanna. Skýrslur og kannanir Umhverfisstofnunar UST 03/15.
Frederiksen, M. 2002. Indirect estimation of the number of migratory greylag and pink-footed geese shot in Britain. Wildfowl, 53: 27-34
Frederiksen, M., R. D. Hearn, Carl Mitchell, Arnór Sigfússon, Robert L. Swann and Anthony D. Fox 2004. „The dynamics of hunted Icelandic goose populations: a reassessment of the evidence“ Journal of Applied Ecology 41(2): 315-334.
Hearn, R.D. 2004. The 2002 Icelandic-breeding Goose Census. Woldfowl & Wetlands Trust Report, Slimbridge.

 

Tags: tíð, niðurstöður, ástæða, ungahlutfall, góð, bjartsýni, hafi, munn­legar, talningar, mælingar, þrátt, komandi
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Hugleiðingar um gæsaveiðar