Gæsir - Verndun og veiðar
18-22-2.jpg


Af þeim fjórum stofnum gæsa sem við veiðum úr hér á landi er einn sem virðist vera ofveiddur og er það grágæsastofninn. Grágæsa­stofn­­­inn var kominn niður í um 76.000 fugla árið 1999 en var stærstur um 115.000 fuglar að hausti árið 1990. Ekki hefur verið talið jafn lítið af grá­gæs síðan 1978 þegar stofninn var þá einnig um 76.000 fuglar. Sökum þessa hefur grágæsin nú verið sett á válista yfir fugla sem gefinn var út af Nátt­úru­­fræðistofnun Íslands árið 2000 og fellur grágæsin þar í flokk fugla í yfirvofandi hættu þar sem henni hefur fækkað um meira en 20% síðastliðin 10 ár. Hinir þrír gæsastofnarnir hafa ekki sýnt merki um ofveiði síðustu ár en í kringum 1980 var þó svo komið að blesgæsastofninn var í sögulegu lámarki, um 15.000 fuglar. Hann hefur síðan rétt úr kútnum og hefur rúmlega tvöfaldast síðan þá, enda veiðum úr honum verið hætt allstaðar nema hér á landi. Heiðagæsastofninn virðist hafa staðið í stað undanfarin ár og náð jafn­vægi í um 230.000 fuglum að hausti eftir langt skeið fjölgunar, og helsingja­stofninn hefur vaxið mjög í seinni tíð og virðist vera komin yfir 50.000 fugla að hausti. Við erum einnig einir um að veiða úr grænlenska helsingja­stofn­in­um. Helsingjar eru farnir að verpa hér í auknu mæli og vitað er um tvo varp­staði í Austur og Vestur Skafta­fells­sýslum, og hefur upphafi veiðitíma hels­ingja á þeim slóðum því verið seink­að til 25. september. Fylgst er með þróun stofnstærðar þeirra gæsa­stofna sem hér verpa eða fara hér um á vetrar­stöðvum þeirra á Bretlands­eyj­um, og er það gert á vegum Wildfowl & Wetlands trust (WWT).

 

Af hverju fækkun?

18-22-3.jpg En af hverju er grágæsastofninn á niðurleið á meðan aðrir gæsa­stofn­ar hér og víðar í Evrópu vaxa eða standa í stað? Veiðálag er þar talin vera megin ástæðan og sést það glögglega í veiðitölum frá Veiðistjóra­embættinu (1. tafla.). Þau ár sem skrán­ing á veiði nær yfir er veiði á grá­gæs um 35 – 40 þúsund fuglar á ári og lætur nærri að það sé um þriðjungur af stofninum sem veiddur er hér árlega. Svo bætist við veiði á Bretlands­eyj­um sem ekki er vitað hvað er mikil þar sem þeir hafa ekki enn tekið upp skrán­ingu á veiði, en hún hefur verið áætluð allt að 15.000 fuglar á ári. Þróun stofna grá- og heiðagæsa sést á 1. og 2. mynd, en þar má sjá talningar á vetrar­stöðvum og 5 ára hlaupandi meðal­tal talning­anna. Svona hlaupandi meðal­tal gefur nokkuð skýra mynd af þróun stofn­anna því að með meðaltalinu er sléttað úr skekkju sem getur verið í talning­um. Glöggt má sjá að grágæsa­stofninn stefnir nokkuð hratt niður á við og gæti stefnt í óefni nema gripið verði inn í þessa þróun á allra næstu árum. Skotveiðimenn ættu sjálfir að fara fram á að gripið verði til einhverra aðgerða til að draga úr veiði­þunga á grágæs því þeir eiga ríkra hagsmuna að gæta. Þeir eiga jafnframt þá sjálfsögðu kröfu á hendur stjórn­völdum að slíkar aðgerðir séu byggðar á rann­sóknum þar sem þeir greiða fyrir veru­legan hluta rannsókna á veiði­dýrum með veiðikorta­gjaldinu. Þá eiga þeir einnig að gera þá kröfu að öllum að­gerðum verði fylgt eftir með rannsóknum til að meta áhrif þeirra, svo ekki verði endurtakin mis­tökin sem gerð voru 1993 af þáverandi um­­hverfisráðherra þegar gripið var til stytt­ingar á veiðtíma rjúpunnar í and­stöðu við skotveiðimenn og án þess að skipulagðar væru rannsóknir jafnframt aðgerðunum svo meta mætti hvort þær bæru árangur.

 

Rannsóknir á gæsum

18-22-4.jpg Rannsóknir á gæsum sem veiði­fuglum hafa verið stundaðar við Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1995 og hafa þær notið styrks úr veiði­korta­sjóði. Undirritaður stýrði þessum rann­sóknum á Náttúrufræðistofnun Íslands þar til í lok ársins 2000 þegar ég hvarf til annarra starfa, en við gæsa­rannsóknunum tók þá Dr. Morten Fredriksen. Þessar rannsóknir hafa beinst að áhrifum veiða á gæsa­stofnana og er markmiðið með þeim að útbúa hermilíkan af stofnunum sem nota má til að líkja eftir hegðun þeirra og þannig spá fyrir um afdrif þeirra að gefn­um vissum fors­endum. Þær rann­sóknir sem stund­aðar hafa verið eru merkingar á gæsum (2. tafla) til að reikna út af­komu og dánartíðni, mælingar á hlut­falli unga í stofni og meðal fjölskyldu­stærð, svo og hlutfall unga í veiðinni til að meta framleiðslu stofnsins. Þá eru gögn sem fást úr veiðiskýrslum veiði­­manna mikilvæg við þessar rann­sókn­ir. Við þessar rannsóknir höfum við notið góðrar samvinnu við veiði­menn sem m.a. hafa útvegað vængi til aldurs­­grein­­­inga á bráðinni auk þess sem veiði­­­menn hafa aðstoðað við merk­­ingar.
Drög að stofnlíkani eru sýndar í mynd 3. Útganspunktur líkans­ins er hauststofn gæsanna á Bretlands­eyjum og er það jafnframt sá hluti líkans­ins sem er mælanlegur til að prófa sannleiksgildi spánna sem úr líkan­inu koma. Línurnar milli mis­munandi þátta líkansins eru ein­kennd­ar með þrennskonar litum: rauður tákn­ar dauðsföll af völdum veiða, blár dauðsföll af öðrum völdum og grænn þýðir framleiðslu stofnsins, þ.e. þá unga sem komast á legg.
Frá því að hauststofninn er talinn þegar hann kemur frá Íslandi og þar til fuglarnir snúa aftur að vori höf­um við upplýsingar um hlutföll unga og fjölskyldustærðir í upphafi vetrar. Upp­lýsingar um veiðar á Bretlands­eyjum liggja ekki fyrir (rauða línan) en hægt er að reikna út afkomu út frá merkingum (bláa + rauða línan). Þegar stofninn kemur til Íslands (og Græn­lands í tilfelli heiðagæsa) þá skiptist stofn­inn upp í varpfugla og geldfugla. Varp­fuglar halda á varpstöðvar en geld­­fuglar halda sig að hluta til á öðrum stöð­um þó eitthvað af geld­fugl­um haldi sig líklega í eða við varp­lendur. Geld­fuglar eru fuglar sem ekki hafa náð varpaldri eða einhverra hluta verpa ekki, t.d. vegna missis maka, ásig­­komu­lags eða af einhverjum öðr­um völdum. Ekki er ólíklegt að dauðs­föll hjá þessum tveim hópum séu mis­mun­andi en það verður ekki mælt með þeim aðferðum sem hér eru notaðar. Ungaframleiðsluna (græna línan) er hægt að mæla með því að taka hlutfall unga í stofni og fjölskyldustærðar og er það mælt á mismunandi tímum, bæði hér á landi og á Bretlandseyjum. Út frá niðurstöðum þessa má fá áætlun á stærð varpstofnsins, þ.e. fjölda unga í stofni og meðal fjölskyldustærð, en sú áætlun gefur þó niðurstöðu sem er að öllum líkindum vanmat vegna þess að sumir varpfuglar hafa tapað öllum ungunum. Dauðsföll frá komu fugl­anna til Íslands og fram að veiðitíma er líklega erfitt að mæla en dauðsföll af völdum veiða hér á landi (rauð lína) eru mæld með niðurstöðum úr veiði­skýrslum og aldurshlutfalli í veiði. Nátt­úr­uleg dauðsföll (blá lína) frá vori og þar til hauststofn er talinn fást út frá merkingum og út frá veiðiskýrslum og aldurshlutfalli.
Í líkaninu verður hægt að breyta þátt­um eins og dauðsföllum af völd­um veiða og ungaframleiðslu og spá síðan um áhrif þessa á framtíð stofn­sins. Þannig mætti með slíku lík­ani spyrja hvaða áhrif það hefði á stofn­inn að draga úr veiðiálagi um helm­ing og einnig hver yrðu afdrif stofn­sins ef ekkert yrði aðhafst. Til þess að nýting stofns teljist sjálfbær mega saman­lögð dauðsföll (sýnd með rauðu og bláu línunum) ekki vera meiri til lengdar en sem nemur fram­leiðslunni (táknuð með grænu línunni).

 

Leiðir til verndunar

18-22-5.jpg Ef ákveðið er að draga úr veiði­álagi á grágæs, eins og allt bendir til að þörf sé á, hvaða leiðir eru þá færar? Ég hef áður fjallað um leiðir sem færar eru til að takmarka veiðiálag hér í Skotvís blaðinu (Arnór Sigfús­son 1998) og komst ég þar að þeirri niður­stöðu að einfaldasta og líklega áhrifa­ríkasta leiðin væri að banna sölu á villt­um gæsum, en það er einmitt sú leið sem Bretar fóru í kringum 1960 og bar góðan árangur þar að talið er. Þessi leið útheimtir minnsta eftirlitið og hefur lítil sem engin áhrif á flesta skot­veiðimenn þó „atvinnuveiðimenn” verði auðvitað af einhverjum tekjum. Það er þó ekki stór hópur ef marka má veiðiskýrslur, einungis rúmlega 10% veiði­manna veiða það mikið að þeir geti selt eitthvað. Þessi hópur er þó að veiða meira en helming grá­gæs­anna. Reikna má með að veitingamenn verði lítt hrifnir af slíku banni. Ef gripið verður til sölubanns verður að láta það ná yfir allar teg­undir gæsa því nær útilokað yrði að þekkja grágæsir frá öðrum villtum gæs­um nema með mjög kostnaðar­sömu eftirliti. Breyting veiðitíma hefur áhrif á mun fleiri veiðimenn og nema til verulegrar styttingar komi er alls óvíst að hún hefði áhrif, því veiði­menn geta oft aukið veiði á þeim tíma sem hún er leyfð og með því bætt sér upp styttinguna þannig að aðgerðin gæti misst marks. Kvótakerfi líkt og notað er í Bandaríkjunum er eflaust áhrifa­ríkt en myndi kalla á verulegt eftirlit.
Undanfarin ár hafa veiðimenn verið hvattir til að líta í eiginn barm og draga úr sókn sinni í grágæsir. Ekki er að sjá að það hafi gerst því lítið virðist draga úr veiði grágæsa ef marka má veiðiskýrslur. Engu að síður vil ég enn hvetja menn til að sýna hóf í grá­gæsa­veiðinni og þrýsta á aðra veiði­menn að gera slíkt hið sama. Bresku skot­veiðisamtökin BASC hafa komið sér upp siðareglum á gæsaveiðum sem við skotveiðimenn á Íslandi gætum tekið okkur til fyrirmyndar að ein­hverju eða öllu leiti (sjá http://www. basc.org.uk/). Þar segir m.a. að fylgja skuli lögum um fjölda skota í byssu og banni við notkun raf­knú­inna hljóð­gjafa í hvívetna. Þá er lagt til að skjóta ekki á gæsir á meira en 30 metra færi til að draga úr líkum á að særa fugla. Mælt er gegn því að skjóta gæsir á nátt­stað vegna truflunar sem það veld­ur og að ekki sé skotið lengur en 2 klukku­tíma eftir sólarupprás. Einnig er lagt til að ekki séu skotnar fleiri en 5 heiða­gæsir eða 3 grágæsir í veiðiferð. Skot­veiðifélag Íslands gæti beitt sér fyrir umræðu um slíkar siðareglur fyrir okkur sem mætti laga að íslenskum aðstæðum.
Varðandi notkun á fjöl­skota hagla­byss­um þá virðist mér sem of algengt sé að þær séu not­aðar ólöglega á gæsa­veið­um. Bæði hafa menn verið staðnir að verki af lögreglu með slíkar byssur og einnig hef ég orðið var við það í samræðum mínum við skotveiðimenn að pinninn sé oft tekinn úr byssunum þegar í skurðinn er komið. Það er því ekki að undra að árangur okkar við gæsaveiðar sé mikill, bæði hvað varðar fallna fugla og særða, því segja má að nær línulegt samband sé á milli fjölda skota í byssu og hve mikið hún getur drepið og sært. Þann­ig getur 5 skota hálfsjálfvirk hagla­byssa drepið og sært tvöfalt meira en tví­hleypa. Skoða mætti hvort ekki sé ástæða til að skylda menn til að gera varanlegri breytingu á fjölskota hagla­byss­um en að setja pinna í skot­hylkja­hólfið, og á ég þar við að krumpa hring í það til að ekki komist þar fyrir fleiri en þau tvö skot­hylki sem lög gera ráð fyrir. Þá vil ég hvetja skot­veiði­menn til að sýna öðr­um aðhald um að farið sé að lögum, en þau eru jú þær leikreglur sem við höfum og þeir sem brjóta þau eru að svindla á félögum sínum.

 

Aðrar hættur

Fleiri og hugsanlega alvarlegri hætt­ur stafa að gæsum hér á landi en veiðar. Eins og flestum er kunn­ugt eru nú uppi hugmyndir um virkj­anir sem gætu haft áhrif á bæði grágæsir og heiðagæsir. Ef af Kára­hnjúka­­virkjun verður munu varp­lend­ur heiðagæsa auk beitilanda fara á kaf og gæti það haft varanleg áhrif á tæp­lega 2% af varpstofninum. Þá eru mikil­­vægar varp- og fellistöðvar grá­gæsa á áhrifa­svæði Kárahnjúkavirkj­unar á Héraði og því gæti virkjunin haft ófyrir­sjáanleg áhrif til langframa á grá­gæsastofninn, en alls ekki var gerð nægjan­leg grein fyrir hugsanlegum áhrifum virkjunarinnar á gæsastofnana í umhverfismati Landsvirkjunar. Þá hef­ur Landsvirkjun lýst áhuga sínum á virkjana­­fram­kvæmd­um á Þjórsárvera­svæð­inu sem gætu haft veruleg áhrif á þetta stærsta heiðagæsavarp í ver­öld­inni. Ólöglegar vorveiðar á gæsum þekkj­ast því miður enn þó eitthvað hafi úr þeim dregið. Þessar veiðar eru lík­legri til að hafa mun meiri áhrif á stofn­ana en haustveiði, en leiða má líkum að því að þeir fuglar sem helst lenda í vorveiðinni séu varpfuglar og því ber skotveiðimönnum að gera allt sem hægt er til að stöðva slíkar veiðar.

 

Lokaorð

Það er óskandi að vel takist til við verndun grágæsarinnar og þegar ákvörðun um aðgerðir verður tekin þá verði það í samvinnu við skot­veiðimenn og þeirra samtök, og sam­hliða aðgerð­um verði skipulagðar rannsóknir svo meta megi árangur aðg­erðanna. Allir þeir gæsastofnar sem við nýtum eru sameiginleg auðlind með öðr­um þjóð­um. Því ber okkur að taka tillit til þess í nýt­ingu okkar á þeim. Einn­ig verða allar aðgerðir sem gripið er til að vera í sam­vinnu við þær þjóðir sem deila með okkur gæsastofnunum. Ágætis samvinna hefur verið með lönd­unum varðandi rann­­sóknir á gæs­um og því engin ástæða til annars en að ætla að sú sam­vinna takist jafn vel við verndun gæsa­stofnanna og hægt verði að nýta þá á sjálfbæran hátt um ókomna tíð.
Dr. Arnór Þórir Sigfússon

Tags: líkt, okkur, veiðar, nýta, hátt, virðingu, umgangast, varúð, sjálfbærann, gerum, takmörkuð, verndun, fuglaveiðar
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Gæsir - Verndun og veiðar