Gæsir - Ástand og horfur


Hjá blesgæsum og helsingjum er ekki um það að ræða að ófleygir ungar séu á ferðinni þegar veiðitíminn hefst 1. september því þessar tegundir eru umferðarfarfuglar. Þó eru nokkur pör af helsingjum sem verpa hér á landi í Austur-Skaftafellssýslu. Því eru á haust­in nokkrir tugir alíslenskra hels­ingja bæði fjölskyldufuglar og geld­fuglar á því svæði í 2 - 3 vikur, áður en helsingjar frá Grænlandi fara að birtast þar seinnipart september. Af þessum sök­um hafa þær raddir heyrst að vernda þurfi þennan vísi að íslenskum varp­stofni því þar sem þetta eru einu hels­ingj­­arnir í upphafi veiðitímans sé hugsan­­legt að honum yrði útrýmt ef hann lenti í öflugum veiðimönnum. Því hefur Fuglaverndarfélag Íslands farið þess á leit við umhverfisráðherra að upphafi veiðitíma á helsingjum í Austur-Skaftafellssýslu verði seinkað þar til um það leyti sem grænlensku helsingjarnir koma.  Ég tel að ástæða sé til að taka undir þessa tillögu Fugla­verndar­­félagsins því varla vilja skot­veið­i­­menn verða til að útrýma varp­stofn­inum og tillagan sem slík ætti ekki að hafa nein áhrif á veiðimöguleika manna á þessu svæði þar sem ekki er lagt til að veiðar verði takmarkaðar á öðrum tegundum, né utan Austur-Skaftafellsýslu.

Ástand gæsastofnanna

Nokkuð vel er fylgst með ástandi gæsastofnanna miðað við flestar aðrar tegundir veiðifugla. Þeir eru tald­ir á vetrarstöðvum sínum á Bret­lands­eyjum í nóvember, eftir að gæs­irn­ar yfir­gefa varpstöðvar sínar á Íslandi og Grænlandi og er sú talning fram­kvæmd af sjálfboðaliðum undir stjórn Wildfowl and Wetlands Trust.  Á 1. mynd má sjá breytingar á fjölda grá- og heiðagæsa frá því að talningar hófust til ársins 1996. Tölur fyrir 1997 eru ekki enn til­búnar þegar þetta er skrifað en vís­bend­ing­ar eru um að stofnarnir hafi verið nær óbreyttir milli áranna 1996 og 1997. Eins og sést á 1. mynd hafa gæsa­stofnarnir báðir vaxið mjög síðan taln­ing­ar hófust og þá sérstaklega heiða­gæsa­stofninn. Helsta skýringin á þessari fjölgun gæsastofnanna er talin vera sú að dánartíðni á vetrarstöðvum hafi minnkað vegna aukins fæðu­fram­boðs að vetri. Þó eru vísbendingar um að jafnvægi sé að nást og að fjölgunin hafi stöðvast undanfarin ár og jafnvel orðið fækkun í grágæsastofninum undan­farin ár. Stofnbreytingar hels­ingja og blesgæsa eru ekki sýndar hér en báðir þeir stofnar telja rúmlega 30.000 fugla hvor og hafa verið í jafn­vægi undanfarin ár. 

Gæsaveiðin

Menn höfðu ekki skýringar á reiðum höndum á því af hverju grágæsastofninn hætti að vaxa upp úr 1980 meðan heiðagæsastofninn óx sem hraðast fyrr en tölur um gæsaveiði fóru að berast frá veiðimönnum með hinu nýja veiðikortakerfi. Þá kom í ljós að veiði­þungi á grágæs er mjög mikill saman­­borið við hinar þrjár tegundirnar.  Í meðfylgjandi töflu má sjá gæsaveiði síðustu 3 ár samkvæmt upplýsingum Veiðistjóraembættisins. 
Ekki eru allar skýrslur frá árinu 1997 komnar inn en reynsla síð­ustu ára sýnir okkur að þessar tölur eru ekki líklegar til að breytast mikið þar sem mikið af þeim skýrslum sem berast seint eru auðar því margir veiðimenn virðast telja að þeir þurfi ekki að skila inn skýrslum ef þeir hafa ekkert veitt.  Eins og sjá má á töflunni er grágæsa- og blesgæsaveiðin þessi 3 ár nokkuð stöð­ug. Hins vegar má greina hægfara aukn­ingu á heiðagæsaveiði og aukningu á helsingjaveiði 1997. Hvort þessar breyt­ingar eru marktækar skal ekki sagt en þessar veiðitölur munu fyrst og fremst nýtast okkur þegar tölur frá fleiri árum eru komnar og hægt er að skoða lang­tíma­breytingar í veiði. Séu veiði­tölurnar bornar saman við stofn­stærð­ir þessara gæsastofna á vetrar­stöðv­um að hausti má lesa út veiði­þunga á hverri tegund. Þar sem taln­ing­arnar fara fram eftir þá veiði sem sýnd er í 1. töflu má leggja veiðina við taln­ingarnar til að fá út stærð veiði­stofns í upphafi veiðitíma hér á landi. Samkvæmt því er veiðiþungi á grágæs um 30%, heiðagæs um 5%, bles­gæs um 10% og helsingja um 5%. Ef þessi veiðiþungi á grágæsum hefur verið svipaður undanfarin ár eða áratug kemur ekki á óvart þó fjölgun grágæsa hafi verið stöðvuð. Veiðiþungi upp á um 30% er líklega á mörkum þess sem stofn­­inn þolir án þess að um fækkun verði að ræða. Athugun á gæsa­vængjum sem veiðimenn senda til Náttúrufræði­stofn­unar sýna að ungar eru um 40% af gágæsaveiðinni (2. mynd) og út frá þessu hlutfalli, auk talninga á vetrar­stöðv­­um má reikna út að tæplega helm­ingur unga sumarsins var skotinn á Íslandi 1995 og 96 og um fjórðungur full­orðinna gæsa. Veiðiálag á Bretlands­eyjum er lítið þekkt því þeir hafa ekki veiðiskýrslukerfi eins og við höfum nú. Því eru veiðitölur þaðan að mestu ágisk­anir og hef ég heyrt tölur á bilinu 7 - 15 þúsund gæsir. 

Er ástæða til aðgerða?

Ef litið er á 1. mynd sést að síðustu ár hefur grágæsinni fækkað sam­kvæmt vetrartalningum, eða allt frá 1993, og ekki er útlit fyrir að henni hafi fjölgað síðasta ár samkvæmt bráða­birgða­tölum. Því má spyrja hvort ástæða sé til aðgerða vegna þessa, þ.e. að takmarka veiði. Því er ekki að neita að margir telja þennan veiðiþunga of mikinn og að æskilegt væri að minnka hann. Ég hef beint því til skot­veiði­manna að hugleiða þetta í sínum hópi og hvatt þá til að draga úr sókn í grágæs og beina augunum meira að heiða­gæsinni sem ætti vel að geta þolað meira veiðiálag. Ég tel ekki ástæðu til annarra aðgerða að sinni því þó merki séu um að stofninn hafi verið að síga niður undanfarin ár er það ekki eins­dæmi. Svipuð hnignun átti sér stað upp úr 1970 og 1980 og stofninn óx aftur í kjölfarið. Stofninn virðist enn vera sterkur og því tími til að athuga vel þau gögn sem við höfum og afla nýrra áður en gripið er til einhverra frekari að­gerða.  Einnig verður að hafa í huga að veruleg óvissa getur verið í þeim gögn­um sem við höfum, svo sem talningum og veiðiskýrslum. Mikilvægt er þó að fylgst sé grannt með ástandi grágæsa­stofnsins og annarra gæsastofna og að gripið verði inn í ef þurfa þykir og þessi hnignun hættir ekki. 
Við Náttúrufræðistofnun Íslands fara fram umfangsmiklar rann­sóknir á gæsum sem m.a. eru kostaðar af veiðikortasjóði. Þar ber helst að nefna merkingar á grá- og heiðagæsum en niðurstöður þeirra merkinga verða notaðar til að reikna út dánartíðni, bæði af völdum veiða og náttúrulega dánar­tíðni, sem hægt er að bera saman við dánar­tíðni sem reikna má út frá taln­ingum og veiðiskýrslum. Merkingar þessar hófust 1996 og verður vonandi haldið áfram til ársins 2000. Árangur af merkingum er verulega undir samvinnu við skotveiðimenn kominn hvað varðar skil á merkjum því ef veiðimenn skila ekki merkjum fljótt og vel þá dregur það verulega úr gildi rannsóknanna. Sama má segja um skil á veiðiskýrslum, en réttar veiðitölur eru ein af grund­vallarupplýsingum þessara rannsókna. Ég hef stundum heyrt það frá veiði­mönnum að þeir hræðist það að veiði­skýrslur verði notaðar gegn þeim og verði eingöngu til þess að tegundir verði friðaðar og jafnvel hafa einstaka veiðimenn hótað að skila inn auðum skýrslum. Hér er þó um lítinn hluta veiði­manna að ræða og mín reynsla er að skotveiðimenn séu upp til hópa sam­starfsfúsir og samviskusamir við útfyll­ingu á veiðiskýrslum. Allur sá saman­burður sem við höfum við veiði­skýrslur bendir til að þær séu nokkuð rétt út­fyllt­ar. Hér á líka við máltækið að sann­leikurinn sé sagna bestur því við sem stundum rannsóknir verðum að treysta því að veiðiskýrslur séu réttar og ef svo færi að stór hluti veiðimanna færi að telja fram of litla veiði t.d. á grágæs og stofninn minnkaði enn þá gæti það orð­ið til að frekar yrði gripið til aðgerða.

Hugsanlegar leiðir

Ef sú staða kemur upp að takmarka verður sókn í grágæsina þá er vert að hugleiða hvaða leiðir koma til greina og hver væri líklegust til árangurs og vil ég nefna hér nokkrar hugmyndir sem skotveiðimenn geta rætt í sínum hópi. 
Breyting á veiðitíma er líklega sú aðgerð sem fyrst kemur upp í hugann.  Sú leið gæti falist í að stytta veiðitímann að framan eða aftan eða banna veiðar t.d. um helgar.  Margir veiðimenn hafa stungið upp á að banna veiði við náttstað, bæði til takmörkunar og einnig af siðferðilegum ástæðum, en sú leið fæli í sér að veiði yrði hætt á einhverjum tímapunkti fyrir sólarlag.  Önnur leið er kvóti svipað og notað er í Bandaríkjunum og takmarkar fjölda fugla sem veiðimaður má veiða, annað hvort fjölda á dag eða á veiðitímabilinu.  Svo er sú leið sem farin var á Bret­lands­eyjum og felst í því að sala á villtum gæsum er bönnuð, en það bann hafði í för með sér að atvinnuveiðar á gæs lögðust af. 
Af ofangreindum leiðum finnst mér að sú síðastnefnda væri bæði líklegust til árangurs og hefði minnst áhrif á veiðimenn.  Breyting á veiðitíma þarf ekki að minnka veiðiálag því veiði­menn geta bætt sér upp styttinguna með því að auka sóknina. Bann um helgar hefði eflaust einhver áhrif á suma en líklegt er að áhrifin yrðu minnst á „atvinnuveiðimenn“.  Áhrif banns við kvöldveiðum eru óþekkt því ekki eru til upplýsingar um hve mikill hluti veiðanna þær eru og mín til­finning af samtölum við skotveiðimenn er að kvöldveiðar á grágæs séu óveru­legur hluti.  Einhverskonar kvótakerfi yrði eflaust árangursríkt ef unnt væri að koma því á en slíkt kerfi myndi kalla á umfangsmikið og dýrt eftirlit og því tel ég það ekki fýsilegan kost. Álit mitt á þeirri leið að banna atvinnuveiðar byggi ég m.a. á reynslu Breta og einnig á skoðun á veiðiskýrslum.  Við athugun á veiðiskýrslum frá 1995 sést að 3.201 veiðimaður hefur veitt grágæsir.  Mikil dreifing er á veiði,  eða allt frá 1 upp í 325 gæsir.  Meðalveiði á veiðimann er 11 gæsir en vegna þess hve skökk dreif­ingin á veiðinni er gefur það ekki góða mynd af veiði á mann heldur er mið­gildið betri mæling og er það um 5 gæsir. Það að skilgreina hvað sé hófleg veiði á mann og hvað geti talist veiði í „atvinnuskyni“ er erfitt að segja en ég gef mér að 20 gæsir væru mörkin þarna á milli. Við athugun á skýrslunum kemur í ljós að einungis 424 veiðimenn veiða meira en 20 gæsir en það er um 13% veiðimanna. Þessi 13% veiddu þó meira en helming grágæsanna 1995 eða rúmlega 19.000 gæsir. Hin 87% veiði­mannanna veiddu um 16.000 gæsir og eins og miðgildið ber með sér veiddi um helmingur veiðimannanna 1 - 5 gæsir. Af þessari skoðun á veiði­skýrsl­um er ljóst að bann við sölu á gæsum hefði lítil áhrif á þorra skotveiðimanna sem eru að veiða sér til ánægju og til að fá gæs í soðið.  Ekki þyrfti að hreyfa við veiðitíma sem er mjög viðkvæmt í augum margra og flestir veiðimenn yrðu ekki varir við bannið.  Einhverjir yrðu þó af tekjum vegna þessa og ég tel ólíklegt að veiðimenn haldi áfram að veiða hundruð gæsa ef þeir geta ekki selt þær þannig að án efa drægi úr sókn þeirra.  Annar kostur við að banna sölu er að eftirlit væri tiltölulega auðvelt því ólíklegt er að veitingastaðir og verslanir yrðu með villigæsir á borðum ef það væri bannað og sektir lægju við, en þó má reikna með að sala til einstaklinga frá veiðimönnum yrði einhver og lítið við því að gera og líklega ástæðulaust. Þessi leið myndi þó þýða það að banna yrði sölu á öllum tegundum villtra gæsa þó aðeins væri tilgangurinn að draga úr veiði á grágæs því erfitt getur reynst að greina á milli tegunda þegar búið er að gera að gæsunum.

Lokaorð

Tilgangur þessarar greinar var að vekja veiðimenn til umhugsunar um ýmislegt er snertir stjórnun veiða.  Vonandi verður þetta til að vekja upp umræðu meðal skotveiðimanna þannig að ef svo skyldi fara að draga þyrfti úr sókn í grágæsina þá séu veiðimenn og samtök þeirra með mótaðar hugmyndir um hvaða leiðir séu vænlegastar til árang­urs og hafi sem minnst áhrif á þá ánægju sem menn hafa af veiðinni. Það er mikilvægt að veiðimenn umgangist bráð sína af ábyrgð og gangi ekki um of á stofna þannig að til verulegra tak­markana eða banns þurfi að koma. Því er þátttaka skotveiðimanna í rann­sókn­um mikilvæg til að hægt sé að byggja ákvarðanir um veiðar úr dýrastofnun á sem bestum gögnum.

Arnór Þórir Sigfússon
Náttúrufræðistofnun Íslands
Tags: þess, heyrast, veiðar, gæsir, hefst, skjóta, ágúst, ófleygir, séu, ungar, líklegt, seint, eitthvað
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Gæsir - Ástand og horfur